Lélegur brandari um Evu Joly og Háskólann

Einhverjir hafa verið að dreifa þeim brandara um netið, að til standi að koma á fót sérstakri stofnun við Háskóla Íslands, sem hefði að markmiði að vinna að lýðræði, réttlæti og fjölmiðlafrelsi.  Brandarinn væri ágætur ef ekki liti út fyrir að einhverjir taki hann í alvöru og séu farnir að vinna að stofnun slíks kommúnistaseturs sem kennt yrði við þennan norsk/franska starfsmann Sérstaks saksóknara.

Ekki er vitað annað en að Eva Joly hafi skilað vel launuðum störfum sínum fyrir Sérstakan saksóknara ágætlega, eins og aðrir starfsmenn þess ágæta rannsóknarembættis og ef einhvern ætti að heiðra fyrir störfin þar á bæ með stofnun við HÍ væri það auðvitað Ólafur sjálfur, en ekki undirmenn hans eða aðrir samstarfsmenn, hvorki íslenskir eða erlendir.

Hitt er svo annað mál, að lítið er farið að sjást af árangri starfa Sérstaka saksóknarans, starfsmanna hans og samstarfsmanna, hvorki þeirra íslensku né erlendu, svo alls ekki er tímabært að fara að veita viðurkenningar fyrir þau störf og allra síst að búa til heilu stofnanirnar í kringum þá og kenna við lýðræði, réttlæti og fjölmiðlafrelsi, enda vinnur embættið og samstarfsmenn þess alls ekki á nokkurn hátt að slíkum málefnum.

Þegar kemur að því að heiðra Sérstakan saksóknara, starfsmenn hans eða aðra samstarfsaðila, verður skjöldur og heiðursskjal sem hengd yrðu á vegg Lögregluskólans vel við hæfi.

Fregnirnar um stofnun kennda við Evu Joly á hins vegar bara að taka eins og þær hljóta að vera meintar, þ.e. sem brandara.  Að vísu lélegum brandara, en brandara engu að síður. 


mbl.is Brynjar: HÍ misnotaður í pólitískum tilgangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Axel.

Er að velta því fyrir mér hvort þessi skrif þín sé einhvars konar "afhjúpun" eða "út úr skápnum skrif". Hvað er svona sárt? ... og mikið skelfilega er leiðinlegt hvað er stutt í skammaryrðið "kommúnismi" ef eitthvað ekki gengur eftir hinni einu réttu línu sannleikans. Mér þykir vænt um þetta hugtak og þætti vænt um að þú notaðir það rétt... í réttu samhengi. Það er vonandi liðin tíð á Íslandi að ef einhverjum sjálfstæðismanninum finnst eitthvað vera kommúnistískt, þá sé það verra en pestin og afskrifað ÁN frekari útskýringa. Þannig keyrði rasisminn í USA á sínum tíma og ofsóknir Hitlers gegn Gyðingum. Það er afar þreytt umræðuform, sem stundað var í stórum stíl á "útrásarárunum" að setja einfaldan stipil á fólk og málefni og dæma þannig úr umferð sem óumræðuhæft.  Ég botna sem sagt ekkert í þér að útskýra þig með þessum hættí, ÞÓ SVO að þú sért ósammála því að heiðra Evu á einhvern hátt.

Svo er það þessi hnýting þín með að ef búin er til stofnun sem vinnur að lýðræri, réttlæti og fjölmiðlafrelsi að það þurfi endilega að verða að "kommúnistasetri" ?  Hvað er að min ven ?  Geturðu ekki fundið betri rök fyrir því að afstýra stofnun slíks fyrirbæris en að halda því fram að það sé af kommúnistísk að hlúa að lýðræði, rélltæti og frelsi fjölmiðla með formlegum hætti á Íslandi nútímans. Það hefði bara verið af hinu góða ef "þessi þrenning" hefði fúnkerað eftir 2004.

 Hvaða fyrirlitning skín þarna í gegn gangvart Evu ?  Ég er alls ekki talsmaður minnisvarða eða Nóbela á hægri og vinstri, en mér finnst hún eigi bara allt gott skilið. Hættu að tala undir rós og segðu það sem þú meinar ? Þú getur ekki verið að meina að afrakstur af vinnu hennar sé lítill eða enginn?  Hvað er í gangi hjá þér ?  Getur þú ekki skrifað á einhvern hátt undir það að störf sérstaks saksóknara hafi þýðingu fyrir lýðræði og réttlæti á Íslandi? Jú, það hlýtur þú að geta gert, er það ekki? 

Einu get ég alveg verið sammála þér um. Það er allt of snemmt að heiðra Evu og hennar mikla starf hér með stofnun því afraksturinn af vinnu hennar á eftir að verða miklu meiri en sýnilegur er í dag !  Að framkvæma slíkt er samt ekkert sérstaklega kommúnistiskt.

 Góðar jólakveðjur

Þór Jóhannsson (IP-tala skráð) 21.12.2010 kl. 21:28

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Sæll félagi.

Eva Joly hefur ekkert verið feimin við að viðurkenna vinstrihugmyndir sínar í gegnum tíðina og því get ég ekki alveg séð að það sé eitthvað móðgandi fyrir hana eða aðra kommúnista að kalla stofnun sem kennd yrði við hana "kommúnístasetur", enda vinstri menn sem áætla að stofna og væntanlega starfa við þetta Evusetur og stunda þar rannsóknir á "lýðræði, réttlæti og fjölmiðlafrelsi".  Vinstri menn hafa löngum þóst hafa einkaleyfi á "lýðræði og réttlæti" og ætla nú greinilega að bæta "fjölmiðlafrelsinu" við, þó ekkert af þessu hafi verið, eða sé, í hávegum haft þar sem kommúnisminn hefur verið, eða er, við völd.

Við vitum báðir að Sjálfstæðismenn hafa verið verri en pestin í huga íslenskra kommúnista, hvort heldur flokkur þeirra hefur heitið Kommúnistaflokkur, Alþýðubandalag eða Vinstri grænir og margur Sjálfstæðismaðurinn hefur endurgoldið slíkar hugsanir í gegnum tíðina og eins og ég sagði áður, þá skil ég engan veginn hvernig fólk á að taka það sem móðgun að vera kennt við þær stjórnmálaskoðanir sem það aðhyllist og fylgt jafnvel áratugum saman.  Ekki kippi ég mér mikið upp við það hatur sem ég hef fundið fyrir frá mörgum vinstri manninum, eða kveinkað mér undan þeim ónefnum og svíviðrðingum sem ég hef mátt þola af þeirra hálfu vegna skoðana minna og orða.  Stundum hefur það gegnið svo langt að hörðustu kommúnistarnir hafa hótað mér lífláti á alls kyns óþverralegan hátt og allri minni fjölskyldu, en aldrei hefur svo mikið sem hvarflað að mér að óska einum eða neinum ills vegna skoðana hans, en ætlast til að ég hafi frelsi til að vera á móti þeim og eins að fá að halda fram mínum, án hótana um líkamsmeiðingar og þaðan af verra.

Hvað varðar Evu Joly, þá skín engin fyrirlitning á henni í gegn í mínum skrifum, þvert á móti fagnaði ég aðkomu hennar að rannsóknum bankaránanna miklu og hef alltaf verið afar sáttur við hennar störf og þau sambönd sem hún hefur komið embætti Sérstaks saksóknara í út um alla Evrópu og er sannfærður um að hennar störf, sambönd og samstarfsmenn munu hjálpa embætti Sérstaks saksóknara verulega mikið til að ná fram sakfellingu á öllum (vonandi) þeim glæpamönnum sem banka- og efnahagshruninu ollu.  Ég skil ekki hverning hægt er að lesa það út úr mínum skrifum að ég taki ekki undir að störf Sérstaks saksóknara hafi þýðingu fyrir lýðræði og réttlæti á Íslandi.  Stuðningsskrif við störf embættisins og Evu Joly hafa verið ófá frá mér og öll til stuðnings því,  að höndum verði komið yfir glæpalýðinn og hann fái þunga dóma fyir misgjörðir sínar.  Maður er einfaldlega að verða svolítið óþolinmóður að fara að sjá ákærur í einhverjum málum, jafnvel þó ekki væri nema vegna "minni" brotanna, því bráðum verða komin tvö ár frá upphafi rannsóknanna og jafnvel þó allra stærstu brotin verði sjálfsagt mörg ár í rannsókn, hefði maður viljað fara að sjá einhverja af þessum kónum fyrir rétti fljótlega.

Hvað varðar viðurkenningu vegna starfa Evu Joly, þá er auðvitað alls ekki tímabært að fara einu sinni að hugleiða slíkt á meðan ekki eitt einasta mál sem hún hefur komið að, hefur verið til lykta leitt og ef og þegar hún verður heiðruð, hlýtur það að gerast á þeim vettvangi sem hún hefur starfað á hérlendis.

Því er það hreinn brandari að ætla að opna stofnun við Háskóla Íslands, sem hefði að markmiði að vinna að "lýðræði, réttlæti og fjölmiðlafrelsi", en Eva Joly hefur ekkert komið nálægt slíkum málum hérlendis a.m.k.  Það er jafnvel spurning hvort nokkur þörf sé fyrir slíka stofnun við háskólann og það á krepputímum, þegar verið er að skera niður í öðrum deildum skólans.

Ætti þetta ekki alveg eins heima í "Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur", sem þegar er til, eða ef stofna ætti nýja um þetta viðfangsefni að kenna hana frekar við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta, frekar en Evu Joly.

Kærar jólakveðjur í Danaveldi.

Axel Jóhann Axelsson, 22.12.2010 kl. 13:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband