13.12.2010 | 15:51
Ábyrgð endurskoðenda er mikil
Endurskoðunarfyrirtækið PWC hefur sent frá sér athugasemd vegna opinberrar umföllunar um drög að skýrslum rannsóknarfyrirtækjanna Cofisys og Lynx Advokatfirma um að ársreikningar Landsbankans og Glitnis hafi nánast verið falsaðir og bankarnir hafi í raun verið orðnir gjaldþrota á árinu 2007 og verið haldið á floti með blekkingum og svikum eftir það og PWC hafi verið kunnugt um það og jafnvel tekið þátt í fölsunum ársreikninganna.
Ábyrgð endurskoðenda er mikil, því ef þeir "skrifa uppá" ársreikninga fyrirtækja með yfirlýsingu um að uppgjörið gefi rétta mynd af rekstri viðkomandi árs og efnahagsreikningurinn sýni rétta mynd af eigna- og skuldastöðu fyrirtækisins eða bankans, þá er því treyst úti í þjóðfélaginu og hjá viðskiptamönnum að óhætt sé að treysta þeim upplýsingum, sem fram koma í ársskýrslunni.
Ef einbeittur ásetningur er til þess innan einhvers fyrirtækis að blekkja endurskoðendur, er það sjálfsagt hægt, en í eins stórum fyrirtækjum og bankarnir voru, hlýtur að hafa þurft svo gífurlegan fjölda starfsmanna til að sammælast um slíkt, að það hafi nánast verið útilokað að endurskoðendur sæju það ekki í skoðunum sínum á rekstrinum. Annað getur verið uppi á teningnum við mat á eignum og gæðum útlána, en sjálfsagt hefur verið erfiðara fyrir endurskoðendurna að staðreyna þær upplýsingar, sem eigendur og stjórnendur bankanna hafa lagt fram þar að lútandi.
Verði niðurstaða rannsókna Sérstaks saksóknara og annarra rannsóknaraðila sú, að bankarnir hafi verið reknir með fölsunum og svikum árum saman er óhætt að fullyrða að PWC sé í vondum málum og traust á fyrirtækinu verði verulega laskað, svo vægt sé að orði komist.
Svo er eftir að svara því, hvernig hægt var að ræna bankana innanfrá, smátt og smátt, árum saman án þess að endurskoðendurnir yrðu nokkurs varir.
PwC: Ábyrgðin hjá stjórnendum bankanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Já það verður spennandi að sjá hversu mikil ábyrgð liggur hjá PWC, þ.e. hvort þeir hafi verið vísvitandi blekktir af stjórnendum bankana eða hvort stjórnendur bankanna hafi nú einhverja til þess að deila ábyrgðinni með. Ég skal þó ekki segja þar sem ég held að ekki öll gögn málsins eru komin fram á borðið og menn ættu því um sinn að geyma alla sleggjudóma. Staðreynd málsins er þó ennþá sú sama, þjóðin bíður eftir því að sjá hvar ábyrgðin á þessu ljóta bankahruni liggur fyrir víst.
Trausti Þór Karlsson, 13.12.2010 kl. 16:51
Sjálfsagt eru ekki öll gögn komin fram í þessum málum öllum og fróðlegt verður að fylgjast með því hver ábyrgð endurskoðendanna verður talin.
Því verður seint trúað, að þeir hafi verið innviklaðir í eitthvert samsæri um að framlengja líf bankanna með svindli og svínaríi. Því trúir maður hins vegar vel upp á eigendur og stjórnendur bankanna og fleiri fyrirtækja útrásargengjanna.
Axel Jóhann Axelsson, 13.12.2010 kl. 18:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.