Krefjast hjálpar án þess að vera hjálparþurfi

Nú er ríkisstjórnin loksins búin að kynna í fimmta sinn, lokaaðgerðir sínar til að forða þeim heimilum frá gjaldþroti sem bjargað verður, en Jóhanna lét þess þó getið í leiðinni að "ekki verður hægt að bjarga öllum" og þeir koma ríkisstjórn Íslands ekkert við eftirleiðis.

Þau "úrræði" sem kynnt voru í dag eru þau sömu og bankarnir hafa verið að vinna eftir í nokkra mánuði, að viðbættum því framlagi ríkisstjórnarinnar að hætta við að lækka vaxta- og húsaleigubætur og setja á tímabundnar viðbótarvaxtabætur sem eftir er að "útfæra" og ákveða hverjir eigi að borga þær og hvernig.

Þar sem þetta eru lokaaðgerðir fyrir þau heimili sem ekki sjá fram úr skuldunum, rísa nú upp Hagsmunasamtök heimilanna, Hreyfingin og ýmsir fleiri og heimta hjálp fyrir þá sem þurfa enga hjálp, en finnst alveg hörmulegt að horfa á björgun þeirra sem þarf að bjarga, án þess að fá senda einhverja jólagjöf til sín.

Fólk virðist í alvöru halda að hægt sé að eyða kreppunni með einu pennastriki og færa klukkuna einfaldlega aftur til 1. janúar 2008 og byrja upp á nýtt eins og ekkert hefði í skorist.

Er ekki tími til kominn að fólk fari að takast á við þá erfiðleika sem við er að etja og munu ekki hverfa með því að þylja töfraþulur?

Enginn og ekkert mun laga efnahagsástandið í landinu nema atvinna og verðmætasköpun. Ástandið mun ekki lagast á meðan fólk lítur á atvinnuleysisbætur sem valkost, frekar en atvinnu, til að auka ráðstöfunartekjur sínar.


mbl.is Hinir ráðdeildarsömu tapa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Axel þetta kemur því bara ekki nokkurn skapaðan hlut við hvort að heimili sé hjálparþurfi. Þetta er spurning um sanngirni og láta ekki einhverja andsk. bankamenn ræna sig. Þennan skríl sem óð hér uppi með glæpastarfsemi sem Capone hefði verið stoltur af.

Sigurður Sigurðsson, 4.12.2010 kl. 01:18

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Axel, ef ég á bíl og honum er stolið á ég þá að sitja uppi með tjónið af því að ég skuldaði svo lítið í bílnum?  Eða af því að ég hef alveg efni á því að kaupa nýjan bíl?  Mér sýnist þinn málflutningur segja það.

Marinó G. Njálsson, 4.12.2010 kl. 01:22

3 identicon

Þetta er mjög mótsagnakennd færsla hjá þér, þú virðist vera hliðhollur ríkisstjórninni í útspili sínu um lausn á skuldavanda heimilanna en jafnframt viðurkenna hversu vanmáttug stjórnin er og að útspilið er aðeins tvistur, sem allir vita að er mjög lélegt spil, ja nema þú spilir nolo. Hvaða fólk er það sem þér finnst tímabært að taki sig til í andlitinu og drífi sig í að fara borga hrunið? Er það hitt fólkið sem ekki fær leiðréttingu lána sinna á grundvelli þess að það skuldaði ekki nógu mikið? Svo mikið er víst að fólkið sem skuldaði hvað mest fær nú niðurfellingu á því sem ljóst var fyrir að það myndi aldrei greiða. Þetta er nú öll úrlausnin sem ríkisstjórninni tókst að koma með eftir 2ja mánaða æfingu leiksýningunnar og ætti engum að koma á óvart svo sem. Það var aldrei við meiru að búast. 

assa (IP-tala skráð) 4.12.2010 kl. 01:27

4 identicon

Vil taka fram að færslu minni hér að ofan var beint til Axels Jóhanns Axelssonar.

assa (IP-tala skráð) 4.12.2010 kl. 01:29

5 identicon

Tölvunarfræðingurinn Marínó Njálsson sem keypti sér 380 fermetra íbúð ætti nú að gera sér grein fyrir hvaða lánasamning hann skrifaði undir. Ég hef allaveganna ekki áhuga á því að skattpeningar mínir hjálpi þannig liði. Það stal enginn neitt af þér. Þú tókst lán undir ákveðnum skilmálum en nú sérðu eftir því.

Gummi (IP-tala skráð) 4.12.2010 kl. 01:37

6 identicon

Svo fór ég að lesa betur yfir færsluna hjá þér Axel og get varla orða bundist! Þú virðist líta svo á að fólk auki ráðstöfunartekjur sínar með atvinnuleysisbótum! Hvernig er það hægt? Ja nema þú sért fangi sem svindlar á kerfinu og kemst upp með það eða kannski atvinnurekandi með skúffufyrirtæki sem engar hefur tekjurnar! Tel nú að meginþorri landsmanna tilheyri hvorugum hópnum og meginþorri þeirra sem eru á atvinnuleysisbótum lifi á þeim einum saman og sé hreinlega bara ekki í aðstöðu til að nota þær til að DRÝGJA tekjur sínar. Hvaða fólk þekkir þú eiginlega?

assa (IP-tala skráð) 4.12.2010 kl. 01:39

7 identicon

Gummi, þú ert eitthvað að misskilja. Átt þú einhverja eign? Skuldar þú eitthvað í henni? Ef svarið er já þá ertu nú þegar búinn að tapa eins og allir Íslendingar sem skráðir voru fyrir fasteign. Ef svarið er nei þá veistu ekkert hvað þú ert að tala um og ættir að halda þig við það sem þú hefur vit á.

assa (IP-tala skráð) 4.12.2010 kl. 01:44

8 identicon

Assa, þú verður nú að beita einhverru aðeins meira en tilfinningarökum. Mér finnst einstaklega skoplegt að þegar ríkisstjórnin ákveður að gera eitthvað, þá er það samkvæmt ykkur ekki "rétta liðið" sem er að fá bót sinna mála. Hvers vegna ætti annars fólk sem skuldar ekki neitt, þar með talið allt ungviði þjóðarinnar að greiða fyrir ofveðsetningu miðaldra kynslóðarinnar.

Gummi (IP-tala skráð) 4.12.2010 kl. 01:51

9 identicon

Gummi. Ég er miðaldra og á eign. Ég á ungt fólk. Það breytir því ekki að ribbaldaháttur varð til þess að verðgildi eignar minnar snarlækkaði og skuld mín í eigninni snarhækkaði. Unga fólkið sem ekkert á er líka að tapa á þessu arðráni. Mitt unga fólk mun erfa minna af peningum eftir mig en meira af skuldum. Svo er til nokkuð sem heitir réttlætiskennd og hana skyldi maður aldrei troða. Það muntu læra með tíð og tíma. Það er rættmæt krafa fólks í minni stöðu (ég er ekki að segja að ég muni ekki lifa af án þess) en það er réttmæt krafa fólks í minni stöðu að fá leiðréttingu sinna mála. Ekki á kostnað unga fólksins í landinu heldur banka sem þegar hafa fengið  "afslátt" vegna lána sem míns.

assa (IP-tala skráð) 4.12.2010 kl. 02:12

10 identicon

Ég er sammála Axeli. Fyrir það fyrsta þá er verið að hjálpa þeim sem þurfa, þeim sem geta ekki borgað og það fer í taugarnar á fólki sem vilja meira í sinn eigin vasa. Við höfum ekkert lært á kreppuni, græðgi og eiginhagmunasemi er enþá höfð í fyrirrúmi hér á Íslandi.

Geir (IP-tala skráð) 4.12.2010 kl. 02:18

11 identicon

Nei Geir. Það er ekki verið að hjálpa þeim sem þurfa, þetta er aðeins sjónarspil til að þóknast AGS. Ef þú skuldar 110 % af 50 miljón króna eign þá skuldar þú 55 millj. Segjum að þú fáir afskrifaðar 4 milljónir þá skuldar þú enn 51 milljón af eign sem metin er á 50 millj. en enginn vill kaupa og er því í raun minna virði. Hvaða heilvita manneskja heldur áfram að borga af eigninni? Svar: Engin. Þetta veit ríkisstjórnin og bankarnir og því fannst þeim tilvalið að eigna sér "heiðurinn" af niðurfærslu á þessum hluta skulda sem hvort eð er hefðu aldrei innheimst.

assa (IP-tala skráð) 4.12.2010 kl. 02:30

12 Smámynd: Hörður Þórðarson

Það er ekki verið að hjálpa öðrum en fjármálastofnunum. Að hjálpa fólki til að ríghalda í eign sem það á minna en ekkert í og greiðir vexti af láni sem eru 10% eða hærri en verðgildi allrar eignarinnar er engin hjálp við fólk. Það væri miklu meira hjálpræði í því fólgið að leifa fólki að afhenda bankanum einfaldlega eignina og vera síðan laust allra mála. Þannig væri fólk í stakk búið til að geta leigt húsnæði, eða keypt annað sem það myndi aldrei skulda meira an 100% í. Stjórnvöld eru ekki að gera annað en að halda fólki áfram í fjötrum.

Hörður Þórðarson, 4.12.2010 kl. 03:31

13 identicon

Það er alveg merkilegt hvað margir virðast vera gjörsneyddir því sem kallast réttlætiskennd. Hvers vegna skildi það vera? Eru það þeir sem finnst  það sjálfsagt að skuldsetja sig í botn vitandi þess, að ríkið kemur þeim alltaf til hjálpar og því geta menn haldið áfram að spenna bogann alltaf í hæstu hæðir, fá alltaf allt upp í hendurnar án þess að þurfa hafa neitt fyrir því. Því meðan til eru svona asnar eins og ég sem safna fyrir bíl áður en ég kaupi hann, og safnaði fyrir útborgun í húsi áður en ég keypti það, þá finnst því fólki sjálfsagt að hirða úr mínum vasa til að setja í þann næsta sem er ekki þessi auli sem safnar fyrir hlutunum.  Og bankar og aðrar fjármálastofnanir treysta á að svona hagsýnir aular verði áfram til sem alltaf er hægt að láta borga brúsann. En vitið þið, ég mun ekki ráðleggja mínum börnum hagsýni hér eftir, því  þau eiga það ekki skilið að vera lamin í andlitið með blautri tusku af stjórnvöldum æ ofan í æ fyrir það eitt að kunna spara.

Að lokum samgleðst ég því fólki sem kemur til með að fá leiðréttingu á lánum sínum, það á rétt á því svo sannarlega, en það eigum við hin bara líka. 

(IP-tala skráð) 4.12.2010 kl. 09:59

14 identicon

já ég tek undir með Sigurlaugu, það er í raun verið að hvetja fólk til þess að vera ekki hagsýnt, segja okkur sem lögðum fyrir hlutunum hvurslags bjánar við vorum.

Hef ekki getað séð að það sé mjög hagkvæmt fyrir þjóðfélagið að hafa fullt af einstaklingum sem skulda 100% í eignum sínum og fá enga lagfæringu. Er það fólk líklegt til þess að fara í framkvæmdir á næstu árum ?

Hvað hefðu menn gert ef það hefði nú óvart stimplast inn vitlaus vísitala á lánin? Væri þá ekki hægt að leiðrétta það? Það er engin að tala um að fá eitthvað upp í hendurnar heldur að fá leiðréttingu eins og aðrir. Það er ekki sanngjarnt að verðlauna þá sem tóku mikla áhættu og hefðu sennilega ekki getað staði í skilum, með því að fella niður hjá þeim skuldir.

Kveðja Krissa

Krissa (IP-tala skráð) 4.12.2010 kl. 10:38

15 Smámynd: ThoR-E

Ótrúlegt að lesa þessa færslu og sumar athugasemdir hér fyrir ofan.

ThoR-E, 4.12.2010 kl. 12:08

16 identicon

Ég átti dágóðan sparnað og byggði mér hús sem var veðsett innan við 50% þegar byggingu þess lauk fyrir nokkrum árum.  Nú er veðsetningin komin í 100% þegar lækkað fasteignaverð  er lagt til grundvallar, en ég næ enn með herkjum að standa skil á greiðslum. Ég á gamlan skuldlausan bíl og ég lagði fyrir meðan ég gat. Ef ég sel húsið, þ.e.a.s. ef ég gæti selt húsið þá stæði ég uppi á núllpunkti, eignalaus og allur minn sparnaður fokinn út í veður og vind.  Ég fæ enga leiðréttingu þótt forsendubrestur minn sé algjör. Ég er ekki einu sinn i að reyna að bera mín kjör saman við þá sem eiga ekki fyrir mat handa börnunum sínum en mér finnst samt sem áður gleymast að fólk eins og ég sem leyfði sér að eignast hluti  með skynsamlegum hætti, án þess að bruðla eða taka lán fyrir öllum útgjöldum sitji uppi eignalaust með himinháar skuldir og falli alls staðar utan við þá leiðréttingu sem er í boði, sem mér finnst illa ígrunduð og mismuna fólki stórlega. Þeir sem skuldsettu sig mest fá mestu leiðréttinguna en við hin sem lögðum til talsvert eigið fé og skuldsettum okkur hóflega, að við héldum, sitjum í súpunni.  Enginn sá fyrir þetta hrun sem varð!!  Fólk í minni stöðu sem rétt svo nær að halda sér á floti stendur frammi fyrir tveimur valkostum.. að selja eignir okkar á undirverði og tapa öllu eða þrauka og lepja dauðann úr skel næstu árin/áratugina. Hvorugur kosturinn er góður.

DJ (IP-tala skráð) 4.12.2010 kl. 12:27

17 identicon

Ég er ein af þeim "ráðdeildarsömu" á túbusjónvarp, hef alltaf sparað og ekki endurnýjað innbúið hjá mér eða annað. Aldrei keypt skó á yfir 15000,- helst ekki einu sinni á 10,000,-. Bý þó í parhúsi, sem var keypt fokhelt og klárað á rúmum 10 árum. Mínar skuldir hækkuðu og eignarhlutinn minn sem var talsverður, lækkaði og það er þrengra í búi núna, næ ekkert að leggja fyrir. EN ég ætla ekki að væla yfir því, þó ég viti að nágranninn sem á jeppa og flatskjá og fínustu fötin, skuldar allt uppí topp, fái niðurfellingu, því það er ekkert hægt að redda öllum og ég verð bara að bíta í það súra!!! Því ég vill bara að ríkið fái tíma og hafi einhvern pening til að halda við sjúkraþjónustu ofl meðan þau koma okkur uppúr þessari kreppu sem Sjálfstæðismenn komu okkur í, hvernig dettur fólki í hug að kalla ástandið KREPPU ef það á allt að geta lagast í dag?? Vitið þið eitthvað hvernig ALVÖRU KREPPA er? Flest af okkur komumst þó í matvöruverslanir, sem eru fullar af mat, og getum keypt það sem okkur líkar! Sumir þurfa bara stöðugt að kvarta, ég er ekki ein af þeim, ég er sátt við mitt gamla drasl og hef góða heilsu, sem og mín fjölskylda :) svo ég hef margt til að þakka fyrir! 

Dagrún (IP-tala skráð) 4.12.2010 kl. 12:29

18 identicon

Það gleymist að þeir sem skuldsettu sig hóflega 50-60% veðhlutfall er sá hópur sem skilar mestu til samfélagsins. Er hann tilbúin að sitja nú með 100% veðsetningu, byrja aftur á byrjunarreit og eiga það á hættu að þetta gerist aftur eftir 10-20 ár?

Ég segi nei.

Snorri (IP-tala skráð) 4.12.2010 kl. 12:42

19 Smámynd: ThoR-E

Eignaupptakan stendur.

Nýja Ísland velferðarstjórnarinnar.

Þvílíkur brandari.

ThoR-E, 4.12.2010 kl. 12:47

20 identicon

Næ ekki alveg upp í færslu Dagrúnar, skil hana þó sem henni finnist allt í lagi með þessar aðgerðir en biðst velvirðingar ef ég túlka það rangt.

En málið snýst bara hvorki um sjálfstæðismenn eða aðra stjórnmálaflokka í þessari umræðu, heldur réttlæti og að ekki sé brotið á einum til að þóknast öðrum.  Samtryggingu í samfélaginu greiðum við með sköttum okkar og ég sé ekki eftir einni krónu sem fer til heilbrigðis, félags, og menntamála, en þegar vaðið er ofan í vasa minn af fjármálastofnunum til þess eins að greiða niður fyrir þá sem þessi sama fjármálastofnun ákvað að lána alltof mikið og án þess að hafa nokkra tryggingu fyrir því að geta fengið það greitt til baka er mér algerlega misboðið,  sú lánastofnun á að bera það tap sjálf, ekki ég fyrir hana.

Hvenær  ætlum við að hætta að refsa öllum almenningi fyrir afbrot örfárra?

Við stundum þetta víðar í samfélaginu. Við getum tekið skólana sem dæmi, inn í bekk er kannski einn nemandi sem er ekki með nokkru móti hægt að tjónka við og er sífellt að trufla kennslu sem bitnar á öllum hinum, kannski 15  nemum, en viðkomandi óþekktarangi er látin vera áfram í bekknum vegna þess að það er víst réttur hans????? En ég spyr, hver er réttur allra hinna nemendanna? Hvers eiga þau að gjalda?  Hvar er lýðræðið í þessu samhengi og hvernig getur réttur einhvers verið réttlæti þegar það bitnar á fjölda annarra?

(IP-tala skráð) 4.12.2010 kl. 14:50

21 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Mér finnst að líf okkar um þessar mundir ætti að snúast einna helst um það hvers við getum verið án. Díógenes var uppi á 4. öld f.Kr. Dag einn þegar Díógenes lá í sólbaði kom Alexander mikli til hans og bauðst til að verða við ósk hans og spurði hvað hann gæti gert fyrir Díógenes. Díógenes bað þá Alexander um að færa sig því hann skyggði á sólina. 

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 4.12.2010 kl. 16:23

22 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Marinó, ef bílnum þínum er stolið þá kærir þú þjófnaðinn til rannsóknarlögreglunnar, sem vonandi hefur upp á þjófinum og kemur honum fyrir dómara, sem hlýtur að dæma hann til að bæta þér tjónið, sem hann olli þér.

Dómarinn myndi aldrei dæma skattgreiðendur til að bæta það og þaðan af síður elli- og örorkulífeyrisþega lífeyrissjóðanna.

Axel Jóhann Axelsson, 4.12.2010 kl. 18:29

23 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Assa, fólk hefur marg komið fram á blogginu, í blöðum og sjónvarpi og sagt að það vildi ekki vinnu sem því byðist, vegna þess að það hefði meiri ráðstöfunartekjur með því að vera áfram á atvinnuleysisstyrk. Það hefur verið útskýrt með ýmsum bótum og hlunnindum sem fylgir því að vera á bótum, en ekki í vinnu.

Þetta er því ekkert sem ég er að finna upp, en kalla nú samt að í einhverjum tilvikum séu atvinnuleysisbæturnar orðnar valkostur á móti vinnu. Hvað myndir þú kalla þetta annað en valkost?

Axel Jóhann Axelsson, 4.12.2010 kl. 18:36

24 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ég er í nákvæmlega sömu stöðu og flestir aðrir með íbúð sem lækkar stöðugt í verði á meðan lánið á henni hækkar og allt eigið fé í henni fokið út í veður og vind. Smáræði hafði verið lagt í peningamarkaðssjóð á sínum tíma og þriðjungur þess tapaðist, sem þó var svo sem ekki stór upphæð, en tap samt.

Ég tók bílalán, en hafði vit á að hafna gengisláni, en valdi gengistryggt í staðinn og ekki hefur mér dottið í hug að væla yfir því, að aðrir hafi fengið niðurfellda hluta þeirra skulda sem þeir komu sér í.

Ég hef tapað á við hvern annan í þessari kreppu, en ég hef líka lært það í lífinu, að kreppur bitna á almenningi og þjóðfélag er ekki samansett af neinu öðru en þeim einstaklingum sem í hverju ríki búa og þess vegna lenda kreppur alltaf á þeim, enda engum öðrum til að dreifa til að bera tjónið.

Við sem tókum lán hljótum að hafa gert okkur grein fyrir því hvað við vorum að gera og hljótum að hafa metið alla áhættuþætti við lántökurnar. Hafi það ekki verið gert, verður hver og einn að bera ábyrgð á sínum eigin gerðum og getur ekki hlaupið til "mömmu og pabba" til að bjarga sér.

Verði fólk fyrir slysum, jafnvel þó það sé því sjálfu að kenna, er því veitt neyðarhjálp, sem þjóðfélagið leggur til, en þeir sem ekki "slasast" fá að sjálfsögðu enga aðstoð, enda færir um að bjarga sér sjálfir.

Þegar eldgosið varð í Eyjafjallajökli fengu bændurnir í kringum eldfjallið bætur, en aðrir ekki þó þeir hafi orðið fyrir umtalsverðu tjóni vegna gossins.

Við neitum að borga raunverulegt tjón, sem innistæðueigendur Icesave urðu fyrir og ekki dettur okkur í hug að borga tjón sem innlendir og erlendir ferðaþjónustuaðilar urðu fyrir vega eldgossins.

Þess vegna segi ég að nú hljóti að fara að verða kominn tími til að við, sem þjóð, förum að gera okkur grein fyrir því að enginn kemur til með að borga tjónið, sem banka- og útrásargengi ollu, fyrir okkur. Það mun taka mörg ár, jafnvel áratugi, en það verður ekki gert nema með aukinni verðmætasköpun og meiri vinnu í landinu og öðru ekki.

Axel Jóhann Axelsson, 4.12.2010 kl. 19:05

25 Smámynd: Hörður Þórðarson

"Þess vegna segi ég að nú hljóti að fara að verða kominn tími til að við, sem þjóð, förum að gera okkur grein fyrir því að enginn kemur til með að borga tjónið, sem banka- og útrásargengi ollu, fyrir okkur. Það mun taka mörg ár, jafnvel áratugi, en það verður ekki gert nema með aukinni verðmætasköpun og meiri vinnu í landinu og öðru ekki."

Þetta er alveg rétt. Þar að auki verða stjónvöld að sjá til þess að haga reglum og umhverfi þannig að fólk njóti góðs af sinni vinnu og að þjófar og ræningjar geti ekki stungið verðmætunum í vasann og flúið landið á einkaþotum... 

Hörður Þórðarson, 4.12.2010 kl. 19:40

26 identicon

Enn blindur á réttlætið greinilega, en mikið skelfing er það aumt að líka þjófnaði við hamfarir frá Eyjafjallajökli, sé ekki alveg fyrir mér hvernig jökullinn kemur út sem "þjófurinn".  Nátturuhamfarir er eitthvað sem engin ræður við, en þjófnaður að hálfu hins opinbera er allt annað,  og enn verra er að ræna suma en ekki aðra. Réttlætið á að vera að þannig að annaðhvort fá allir leiðréttingu eða engin í þessu máli.  Ef enginn fær leiðréttingu þá fara þeir  á hausinn sem svo er komið fyrir og félagsmálakerfið tekur þá við því fólki sem  verst fer út úr því og við hin greiðum glöð skatta til að aðstoða það fólk, en að hið opinbera ræni okkur aftur um hábjartan daginn til að þóknast fjármálastofnunum og illa reknum lífeyrisstjóðum  er hreinlega rangt hvað sem síðuhaldari segir.

(IP-tala skráð) 4.12.2010 kl. 20:13

27 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Sigurlaug, það voru einkabankar og einkafyrirtæki sem hruninu ollu, en hver einstaklingur tók öll sín lán sjálfviljugur og á bak við þau voru engar fyrirskipanir frá ríkisstjórnum, flokkum eða stjórnmálamönnum yfirleitt. Því finnst mér eitt það lélegast og ömurlegasta sem ég sé, þegar fólk er að reyna að kenna einhverjum öðrum en sjálfum sér um lántökur sínar og tegundir þeirra lána sem það tók. Hver og einn verður að bera ábyrgð á gerðum sínum og getur ekki endalaust heimtað að aðrir taki ábyrgð á þeim mistökum sem menn gera sjálfir, einir, óstuddir og ótilneyddir.

Sumir kunna ekki fótum sínum forráð og lenda í slysum fyrir eigin klaufa- eða aulagang, aðrir lenda í slysum vegna gerða annarra og þeim sem slasast er hjálpað, en öðrum ekki. Þar kemur samlíkingin við Eyjafjallajökul, þeir fengu aðstoð sem næstir honum bjuggu og urðu fyrir mesta tjóninu. Öðrum var ekki hjálpað og hefði maður haldið að hver sæmilega skynsamur aðili sæi þessa samsvörun, þó tjónvaldarnir væru hvor af sinni tegundinni.

Axel Jóhann Axelsson, 4.12.2010 kl. 20:29

28 Smámynd: ThoR-E

Taka ábyrgð á mistökum sínum ?

Að kaupa þak yfir höfuðið á fjölskyldu sinni, á það að vera áhættufjárfesting ?

Búum við ekki í þróuðu ríki á vesturlöndum ?

Hér hefur orðið eignaupptaka. Lánastofnanir lánuðu fé og tóku síðan margar stöðu gegn krónunni.

Og það eru okkar mistök ? ertu að segja það ?

ThoR-E, 5.12.2010 kl. 15:42

29 Smámynd: predikari

Að taka lán er ávalt áhættufjárfesting, sérstaklega er það mikið lottó ef ákveðið er að taka lánið í erlendum myntum, en þær eiga það til að breytast í verðlagi. Að taka lán sem þú hefur engan möguleika á að greiða aftur nema að því gefnu að allt í samfélaginu haldist óbreytt og/eða batni stanslaust er klikkun.

Það er verið að neyða saklaust fólk til þess að borga sukkið fyrir millistéttina því það var jú millistéttin sem var hvað mest sólgin í að sýnast vera yfirstétt og drekkti sér því í lánum án allrar ígrundunar til þess að ná því markmiði.

Borgið ykkar eigin sukk, látið mig í friði.

predikari, 5.12.2010 kl. 15:49

30 identicon

Þú skilur ekki enn hvað ég er að fara, ég er alveg tilbúin að hjálpa því fólki sem verst er statt bara ekki svona, þau eins og við hin verða að sýna fyrirhyggju og því verða menn að  læra af reynslunni.

Að fella skuldir þeirra niður sem hæst spiluðu er kolröng leið nema að leiðrétt sé hjá öllum.  Þessu fólki á þá frekar að hjálpa í gegnum félagsmálakerfið og láta bankana súpa seiðið af gjörðum sýnum og lánastefnu. Að ríkið spili svona með núna er bara rán í beinni AFTUR  og nú er þeim  sem hafa alla tíð sýnt fyrirhyggju refsað enn harðar og í því felst ranglætið. Ef ekki er hægt að leiðrétta hjá öllum þá á engin að fá leiðréttingu í gegnum fjármálastofnanir og ég ítreka að þá hjálpum við þeim sem verst fara út úr þessu með félagslegri aðstoð en verðlaunum ekki offjárfestingu með niðurfellingu og verðlaunum fjármálastofnanir svo líka með því að þeir þurfa ekki að taka ábyrgð á lánastefnu sinni.

Að geta ekki skilið ranglætið í þessum gjörðum er mjög sérstakt og ennþá sérstakra finnst mér að finnast það í lagi að verðlauna þá sem ekki kunnu sér hóf því hvort sem okkur likar það betur eða verr eru þeir sem verst eru settir mestmegnis fólk sem fór óvarlega og hreinlega glæfralega með fé, þó að sjálfsögðu séu þar margar undantekningar á eins og veikindi, atvinnumissir, andlát og fleira og fleira.  En  nákvæmlega þessum hlutum gerðum við sem viljum vera ábyrg ráð fyrir og því höldum við haus ennþá, við eyddum ekki meira en við réðum við þó til kæmi tímabundin veikindi og eða atvinnumissir, við settum okkur borð fyrir báru, og þér finnst bara sanngjarnt að okkur sé refsað fyrir það?. Því þetta er jú refsing sem verið er að leiða yfir okkur en ekki samhjálp með samborgurum okkar. KV SG

(IP-tala skráð) 5.12.2010 kl. 15:53

31 identicon

Ég hef greitt mínar skuldir, hvað sem á hefur dunið, þegar ég hef greitt mínar skuldir á ég lítið sem ekkert til að lifa á, nema auðvitað að þið teljið 15.000kr nægilega mikla framfærslu. Þar sem ég stend í skilum, þá fæ ég enga hjálp, ég tók ekki þátt í brjálæðinu, ég fór ekki til útlanda á hverju ári, þó svo að ég hafi verið í fullu starfi, ég eyddi afskaplega litlu. Er það réttlátt að þeir sem hafa barist við að standa í skilum, eru á lágum launum, fái ekki aðstoð. Það gefur augaleið að það verður að skoða þetta mál út frá tekjum og skuldum. Ekki bara hversu mikið þú náðir að skuldsetja þig með fínu húsi, fínum bíl útanlandsferðum o.s.fv. Ef ég væri vinnandi réttara sagt gæti unnið, mundi ég eiga fyrir framfærslu eftir skuldir, en það er bara því miður ekki þannig í dag. Enginn veit hvenær veikindi ná taki og peningarnir verða að engu. Þetta er ömurlegt ef reynist rétt.

Öryrki (IP-tala skráð) 6.12.2010 kl. 08:47

32 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Öryrki, þitt vandamál virðist vera þannig vaxið, að það verði ekki leyst með almennri skuldaniðurfellingu.  Það hlýtur að verða að leysast innan velferðarkerfisins.

Axel Jóhann Axelsson, 6.12.2010 kl. 15:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband