Verðtryggingin ekkert vandamál - bara vextirnir

Greiningadeild Arion banka hefur gefið út spá um að verðbólga verði ekki nema 1% á næsta ári og haldist undir 2,5% verðbólgumarkmiði a.m.k. fram á mitt ár 2012.  Það sem helst mun halda verðbólgunni fyrir ofan núllið á næsta ári verða skattahækkanir ríkisins og gjaldskrárhækkanir sveitarfélaganna, þannig að greinilega er reiknað með því í spánni að alger stöðnun og frost muni ríkja á hinum almenna markaði næstu misserin.

Þessi litla verðbólga ætti að geta leitt til þess, að fólk hætti að ergja sig á verðtryggingunni og fari að beina sjónum sínum að raunverulegum vandamálum, þ.e. nauðsyn þess að halda verðbólgunni niðri og ekki síður því vaxtaokri, sem viðgengist hefur í landinu um áratugaskeið.  Undanfarin tvö ár hefur endalaust verið klifað á því hve verðbæturnar væru að fara illa með fólk, en nánast engin umræða verið um vextina, en lánastofnanir hafa verið með allt að 10% vexti á verðtryggðum lánum, þegar eðlilegt mætti telja að vextir af slíkum lánum ættu að hámarki að vera 2,5%

Dómarnir um ólögmæti gengistryggðra lána og að þau skuli uppreiknuð sem lán í íslenskum krónum, með lægstu vöxtum seðlabankans á slíkum lánum, hefur þó orðið til þess að fólk gerir sér betur grein fyrir okrinu, sem viðgengist hefur á lánamarkaði hérlendis, en þó eru þessi nýju kjör fyrrverandi gegnislána hagstæðari en þau, sem gilt hafa um stóran hluta verðtryggðra lána á sama tímabili.

Hagsmunasamtök heimilanna og aðrir sem eytt hafa kröftum sínum undanfarin ár í að ergja sig á verðtryggingunni ættu nú að snúa sér að baráttu gegn verðbólgunni og vaxtaokrinu.


mbl.is Spá 1% verðbólgu á næsta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll; Axel Jóhann, jafnan !

Síðan hvenær; hefir ''Greiningardeild'' Búnaðarbankans (Arion), eða þá, samsvarandi deilda nefnur hinna Bankanna, verið marktækar, ágæti drengur ?

Eyddu frekar; tíma þínum í, að fletta ofan af viðbjóði vinnubragðanna, í þessum svika vefjum, íslenzka fjármála kerfisins, Axel minn.

Og; viðurkennum þá staðreynd, að Ísland er; 5. heims ríki - í víðasta skilningi, þeirra orða, jafnframt, sem dæmin sanna.

Við mættum; eiga fleirri málsvara sannleiks leitarinnar, sem Hagsmunasamtök heimilanna, hafa þó reynt að vera.

Með byltingar kveðjum góðum; sem jafnan /

Óskar Helgi 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 12.11.2010 kl. 17:54

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Sæll Óskar Helgi.  Ekki skal ég fullyrða að nokkuð sé að marka greiningardeildina núna, frekar en þegar þeir spáðu gulluppskeru hvern dag í "gróðærinu", en hins vegar er þetta álit hennar í takti við álit flestra annarra um efnahagsþróunina hérlendis á næstu misserum.

Ekkert hefur vantað upp á að ég hafi gagnrýnt banka- og útrásargengin fyrir að hreinsa bankana innanfrá og um leið komið þjóðinni í þá aðstöðu sem hún er í núna.  Því mun ég örugglega halda áfram, a.m.k. þangað til þessi gegni vera komin á bak við lás og slá.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa ýmislegt sæmilegt gert, en áherslan á verðbæturnar í staðinn fyrir verðbólguna og vaxtaokrið hefur leitt þau á villigötur og þar að auki hafa samtökin ekki verið að berjast fyrir þá sem verst eru staddir í skuldasúpunni, heldur hina sem geta greitt af lánum sínum, en vilja það bara ekki.  Með þessu hafa þau kynnt undir þeirri trú margra, að hægt sé að eyða áhrifum kreppunnar með einu pennastriki og færa klukkuna aftur til 00:00 þann 1. janúar 2008.

Við verður hvorugur vitni að slíkum kraftaverkum á meðan við dveljum hérna megin við grænu torfuna.

Axel Jóhann Axelsson, 12.11.2010 kl. 18:49

3 identicon

ég mátti til, að senda þér þennan link Axel um Idolið þitt :-)

lhttp://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Kristjan_Vigfusson/gnarr-fimm-stjornur

Ps. svo er greinilegt að þú hefur ekki kynnt þér tillögur Hagsmunasamtaka Heimilanna , miðað við sleggjudómana um þá, en það er þinn akkilesarhæll en ekki þeirra, þau hafa sagt að það þurfi að leiðrétta

lán heimilanna almennt, en koma síðan með frekari aðgerðir fyrir þá sem eru í meiri vanda.

Skora á þig að lesa blogg Marinós G Njálssonar hjá HH,áður en þú dæmir.

J.B (IP-tala skráð) 12.11.2010 kl. 20:48

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Axel Jóhann. Ég myndi fara varlega í að taka greiningadeid Arionbanka of alvarlega. Ef mig misminnir ekki er hún að mestu skipuð sama fólki og spáði því að hér yrði ársverðbólgan í sögulegu lágmarki í árslok 2008. Þessa spá gáfu þeir út rétt fyrir hrun!

Það er hins vegar gott að velta fyrir sér verðtryggingunni. Hún var sett á á sínum tíma til að koma hér málum í lag, málum sem voru orðinn stjórnlaus vegna stjórnleysis. Þá var hún sett á lán og laun, auk þess sem verðlag var fryst. Auðvitað gekk þetta ekki upp og verðlag losnaði úr sínum böndum mjög fljótlega og verðtrygging launa skömmu síðar. En verðtrygging lána hélt áfram og stendur enn. Þetta veldur því að lánastofnanir þurfa ekki að hugsa, einungis að lána. Þær eru alltaf varðar hvernig sem fer.

Nú stefnir hins vegar í að hér verði ekki verðbólga heldur verðhjöðnun. Verðbólgan er slæm en verðhjöðnun stór hættuleg og mun erfiðari viðfangs. Hvernig mun verðtryggingin virka þá? Munu lánastofnanir þurfa að lækka lánin? Það er nokkuð víst að þegar sú staða kemur upp munu þær krefjast þess af stjórnvöldum að verðtryggingi verði afnumin og þau munu fara að vilja lánastofnana, eins og þeim er gjarnt.

Gunnar Heiðarsson, 13.11.2010 kl. 12:08

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það má þó ekki gleyma þeiir staðreynd Axel að verðtryggingin, svo slæm sem hún er, á ekki nema lítinn hlut ef nokkurn í falli bankanna. Hún á hins vegar stórann hlut í vandræðum fjölskildna í dag.

Gunnar Heiðarsson, 13.11.2010 kl. 12:13

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Gunnar, laun hafa hækkað meira en neysluverðsvísitalan undanfarna áratugi, þannig að fram að hruni voru afborganir af húsnæðislánum þeirra, sem tóki lán fyrir t.d. tuttugu árum minni hluti launa þeirra, heldur en þær voru þegar lánin voru tekin.  Þess vegna var ekki mikill hávaði út af verðtryggingunni fyrr en eftir hrun, því síðan hefur neysluverðsvísitalan hækkað meira en launin, en slíkt mun jafna sig aftur, en til þess þarf ríkisstjórn sem tekur á alvarlegasta vandamálinu, sem nú plagar þjóðina, og það eru atvinnumálin.  Ef næg atvinna er og eðlileg kaupmáttaraukning, verður verðtryggingin ekki vandamál, frekar en hún var undanfarna áratugi.

Það sem er að sliga fólk núna er ekki verðtryggingin á húsnæðislánunum og ekki eðlileg húsnæðislán heldur.  Það sem er að sliga fólk er lántakan vegna bílanna, húsvagnanna, sumarbústaðanna, innréttinganna og annarra neyslulána og þá ekki síst yfirdráttarlána og krítarkortaskulda.

Hefði enginn skuldsett sig fyrir meiru en eðlilegu húsnæðisláni, væri ekki þessi staða uppi í þjóðfélaginu í dag.  Það breytir hins vegar ekki því, að þeir sem lenda í "slysi" eiga að fá skyndihjálp, en hinir sem ekki "slasast" eiga að bíða og ekki fá hjálp, ef þeir þurfa þess ekki.

Þá sjaldan að neysluverðsvísitala hefur lækkað á milli mánaða, þá hafa lánin að sjálfsögðu lækkað og það mun gilda í verðhjöðnun.  Þeir sem nú berjast gegn verðbótunum munu þá að sjálfsögðu berjast enn harðar fyrir því að verðtryggingin haldist á lánunum.

Axel Jóhann Axelsson, 13.11.2010 kl. 17:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband