Prófsteinn á persónukjör

Fyrirhuguð kosning til stjórnlagaþings verður prófsteinn á það hvernig persónukjör, þar sem landið allt verður eitt kjördæmi, mun reynast, en háværar raddir hafa verið uppi um breytingar á kosningafyrirkomulagi til sveitarstjórna og Alþingis í þá átt að merkt verði við einstaka frambjóðendur en ekki lista og jafnvel frambjóðendur af fleiri en einum lista.

Kosningin til stjórnlagaþingsins verður hins vegar talsvert þung í vöfum fyrir marga, því kynna þarf sér hundrað blaðsíðna bækling um frambjóðendurna og velja sér að hámarki tuttugu og fimm til að kjósa.  Kjörseðillinn verður auður, að öðru leyti en því að á honum verða tuttugu og fimm rammar til að skrifa inni í fyrirfram gefin númer frambjóðendanna og verður að raða þeim í rétta röð, því atkvæði í fyrsta sæti er meira virði fyrir frambjóðendur heldur en atkvæði í aftari sæti.

Þetta fyrirkomulag verður ákaflega erfitt fyrir sjóndapra og aldraða, sem erfitt eiga með að sjá og sérstaklega skrifa allar þessar tölur á kjörseðlana og einnig gæti þetta reynst mörgum öðrum erfitt, sem erfitt hafa átt með að kjósa í venjulegum kosningum, þrátt fyrir að hafa gert það oftar en einu sinni.

En hvað um það, þetta verður prófsteinn á persónukjörin og takist þessi kosning ekki eins vel og til er ætlast, mun varla nokkur maður heimta persónukjör í öðrum kosningum.


mbl.is Bæklingurinn stærri en reiknað var með
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband