Jákvætt fyrir þá ógæfusömu

Það er gríðarleg ógæfa fyrir einstaklinga að verða gjaldþrota og hjá því reyna allir með snefil af sjálfsvirðingu að komast ef þeir hafa nokkra möguleika því.  Allt heiðvirt fólk reynir allt sem í þess valdi stendur til þess að greiða skuldir sínar og leggur allt í sölurnar til þess, en stundum fara menn óvarlega í lántökum, eða aðstæður breytast vegna ófyrirséðra atvika, þannig að viðkomandi einstaklingur getur ekki með nokkru móti greitt skuldir sínar og eignir hans duga ekki til uppgjörs á þeim lánum, sem tekin hafa verið og þá verður ekki hjá því ömurlega hlutskipti komist að lýsa yfir gjaldþroti.

Fram til þessa hefur sá einstaklingur, sem í slíkri ógæfu hefur lent, getað átt á hættu að skuldheimtumenn elti hann fram í rauðan dauðann vegna þeirra skulda, sem hann gat með engu móti greitt fyrir gjaldþrotið og þannig var hægt að koma í veg fyrir að sá sem einu sinni hafði orðið gjaldþrota eignaðist nokkurn tíma raunverulegt líf á ný, þar sem hann gæti byggt sig upp að nýju með eðlilegri og löglegri vinnu og fasteign, eða aðrar veraldlegar eignir gat hann aldrei látið skrá á sitt nafn framar.

Þetta leiddi til þess að viðkomandi var nánast útlægur úr samfélaginu, a.m.k. frá allri eignamyndun og margar fjölskyldur hafa sundrast í kjölfar gjaldþrotahörmunganna, því ekki er það allra að standast það álag, sem lífi eftir gjaldþrot hefur fylgt.

Sú breyting sem nú er fyrirhuguð á gjaldþrotalögunum í þá veru að ekki sé hægt að viðhalda kröfum nema í tvö ár er því mikil bót fyrir þá sem svo ógæusamir verða, að neyðast til að lýsa sig gjaldþrota.  Enginn lýsir sig gjaldþrota að gamni sínu og ekki trúlegt að það breytist þó auðveldara verði fyrir fólk að koma fótum undir sig að nýju eftir algjöran eignamissi.  Þó má reikna með að sá sem gjaldþrota verður komi til með að eiga í vandræðum með að fá lán að nýju í einhver ár eftir hörmungarnar, því nöfn þeirra verða vandlega skráð í tölvukerfi allra lánastofnana og rautt ljós mun kvikna á skjánum, þegar kennitölunum verður flett upp.

Eftir sem áður er þetta bót fyrir þá sem verst brenna sig á fjármálavafstri sínu og eitt af því fáa jákvæða sem frá ríkisstjórninni hefur komið.


mbl.is Frumvarpið mannréttindabót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Já, Ögmundur mun ganga óskiptur að verki en má sín að vísu ekki sem skyldi eftir ógnaratburði þá sem Geir og Davíð leiddu yfir þjóðina. Og sem hin ógæfulega stjórnviska Jóhönnu og Steingríms hefur lítið bætt úr. 

Árni Gunnarsson, 20.10.2010 kl. 07:44

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Árni, alltaf ertu jafn rökfastur, en Davíðsheilkennið hefur greinilega ekki lagast.  Hefur þú ekki fengið neitt við þessu ennþá?

Axel Jóhann Axelsson, 20.10.2010 kl. 09:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband