12.10.2010 | 09:08
Hver skuldar hverjum hvað?
Í umræðunni um skuldamál heimilanna hefur komið fram að aðeins 37% húsnæðislána séu í skilum, en 63% séu í "frystingu" eða í vanskilum. Þá hefur einnig komið fram að 10% þeirra, sem eru að missa íbúðir sínar á uppboð vita ekki hver uppboðsbeiðandinn er og fæstir hafa nýtt sér þau úrræði, sem þó eru í boði fyrir illa setta skuldara og margir vilja ekki forða íbúð sinni frá gjaldþroti af ókunnum ástæðum.
Eins hefur komið fram að þegar greiða á götu þeirra sem leita í skuldaaðlögun í bankakerfinu, stranda lausnir ekki á bönkunum, eða öðrum íbúðalánveitendum, heldur á ýmsum öðrum kröfuhöfum vegna neyslulána og ekki síst opinberum aðilum, t.d. vegna skattskulda. Allt vekur þetta upp spurningar um hvernig "skuldapakki" þeirra skuldugustu lýtur út, þ.e. hve stór hluti er vegna íbúðakaupa, hvað vegna bílalána, hve mikið vegna hjólhýsa og annars lúxusvarnings og hve mikið eru hrein neyslulán. Skattaskuldir ættu ekki að vera miklar hjá venjulegu launafólki, sem greiðir skatta jafnóðum af tekjum sínum, heldur frekar hjá þeim sem hafa verulegar aðrar tekjur en launatekjur, sem þá eru skattlagðar ári eftir að þeirra er aflað, en ekki jafnóðum eins og launatekjurnar.
Einnig hafa komið í ljós vankantar vegna lánsveða, þ.e. þegar skuldari hefur fengið lánað veð hjá foreldrum eða öðrum fyrir skuldsetningu sinni, en þá hljóta slíkar lántökur að vera til kaupa á einhverju öðru en húsnæði, því bankar og Íbúðalánasjóður lána aðeins út á veð í þeirri fasteign sem verið er að kaupa hverju sinni. Þannig hlýtur verulegur hluti þeirra skulda, sem eru að keyra fólk í þrot að vera aðrar skuldir, en húsnæðisskuldir og þá vaknar spurning um réttmæti almennrar lækkunar húsnæðisskulda, ef það verður ekki til að leysa endanlega úr skuldavanda þeirra, sem mest eru skuldsettir.
Það sem hlýtur að þurfa að gera er að fara að tillögu Sjálfstæðismanna um að fresta helmingi allra greiðslna af húsnæðislánum í a.m.k. þrjú ár, og færa hinn helming afborgananna afturfyrir lánstímann og nota þessi þrjú ár til að kryfja vanda hvers og eins og leysa úr honum einstaklingsbundið, en ekki með almennum aðgerðum, sem nýtast best þeim sem síst þurfa á þeim að halda.
Það hlýtur að þurfa að greina skuldir heimilanna betur niður í skuldaflokka, áður en hægt er að leysa úr vanda þeirra sem eiga í vandræðum vegna íbúðalána sinna.
Flest bendir a.m.k. til þess að skuldavandinn sé ekki mestur vegna íbúðalánanna.
Afskrifa þyrfti 220 milljarða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
þetta er ekki spurning um að borga eða gera heldur að leiðrétta ranga bókfærslu. Það er fáránlegt að tala um að þetta kosti 220 miljarða. Það þarf að snúa þessari hugsun við. Þetta er ranglega bókfært um 220 miljarða sem eign lánadrottna en er það ekki þetta er eign heimilanna. Það þarf að leiðrétta villuna.
Anna Margrét Bjarnadóttir, 12.10.2010 kl. 09:34
Sæll Axel og mikið er ég sammála þér, þetta er eina staðan með viti að gera eins og allt er orðið. Ef að það á ekki að missa fleira fólk úr landi en þegar er farið þá verða að koma svona lausnir tafarlaust sem gera fólki kleift að geta haldið áfram...
Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 12.10.2010 kl. 09:40
Anna Margrét, þetta er bókfært skv. gerðum samningum. Hættu að bulla.
Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 12.10.2010 kl. 09:42
Í tilefni af "svari" Önnu má bæta við þeirri spurningu, hvað stór hluti vandans felist í svokölluðum "minnkandi greiðsluvilja", jafnvel "engum greiðsluvilja", þ.e. að fólk vilji einfaldlega ekki borga skuldir sínar.
Axel Jóhann Axelsson, 12.10.2010 kl. 09:47
Sértækar eða almennar aðgerðir?
Almenn niðurfelling hefur þann kost að virka fljótt, ókosturinn er að hún dugir ekki öllum og hugsanlega orðið of seint að fara þá leið. Ef sú leið hefði verið valin strax eftir hrun hefði verið hægt með sanni að segja að þem sem ekki dugðu slík niðurfærsla væri ekki bjargandi. Þeir hafi í raun verið komnir á hausinn löngu fyrir hrun. Nú duga þau rök ekki lengur.
Sértækar afgerðir eru mjög seinvirkar, á meðan safnar fólk aukaskuldum til þes eins að halda sér á floti. Við höfum nú í nærri tvö ár reynt þessa leið án nokkurs merkjanlegs árangurs. Hugsanlega gæti þó sú aðferð gengið ef leið sjálfstæðisflokksins væru farnar, þ.e. frestun á helmingi afborgana. Þó er ekki hægt að miða við ákveðinn dag í því sambandi heldur verður að vera um að ræða sértæka frestun, hver og ein fengi frest þar til hans mál væri afgreitt.
Hvor leiðin sem valin er, þá þarf að taka um það ákvörðun fjlótt. Þeir sem enn standa í skilum (37%) eru á hraðleið yfir í hinn hópinn.
Við óbreitt ástand verður ekki unað, það leiðir af sér enn meiri hörmungar, ekki bara fyrir lántakendur heldur allt þjóðfélagið!!
Gunnar Heiðarsson, 12.10.2010 kl. 10:01
Þorgeir: Samningar við "glæpamenn", þ.e. bankaeigendur og starfsmenn þeirra standast ekki landslög, sbr. t.d. dóma hæstaréttar um gengislánin. Sjá einnig rannsóknarskýrslu alþingis. Skoða þarf málin heildstætt en ekki þröngt líkt og þú gerir.
mosi (IP-tala skráð) 12.10.2010 kl. 10:09
Greiðsluvilji er ljótt orð Axel, en þó er ljóst að hann er lítill þegar lán eru komin langt yfir verðmæti veðsins. Enn minni verður greiðsluviljinn þegar fólk horfir á þær lausnir sem því er boðið, en í stuttu máli eru þær eingöngu til þess fallnar að fólk lendir í klafa, ekki nein framtíð sjáanleg. Ástæða þess að svo fáir velja þær leiðir em stjórnvöld bjóða upp á segir meira um kostina sem í boði eru en skuldavandann.
Við skulum ekki gleima því að almenningur rændi ekki bankana og telur því að sér vegið þegar allur reikningurinn á að lenda á þeim!! Vissulega fóru margir óvarlega en jafn vel þó allar skuldir heimilanna séu teknar, þá hefðu þær ekki dugað til að fella bankana. Lang stæðsti hluti þeirra var í skilum fyrir hrun.
Gunnar Heiðarsson, 12.10.2010 kl. 10:12
Það eiginlega liggur í augum uppi að vandinn sem slíkur, hefur ekki verið greindur, nema að litlu leyti. Það segir sig alveg sjálft að þegar búið er að gera fjórar tilraunir til að leysa vandann (sú fimmta á leiðinni), að ekki hefur umfang og alvarleiki vandans legið fyrir.
Kristinn Karl Brynjarsson, 12.10.2010 kl. 11:00
Gunnar, greiðsluvandi og greiðsluvilji er sitthvað og alveg óskyldir hlutir, a.m.k. í flestum tilfellum. Ef menn ráða vel við að greiða skuldir sínar, en vilja það bara ekki af því að þeim finnst vísitöluhækkun lána "óréttlát" vegna þess að verðbólga hafi verið mikil, á að fella niður hluta skuldanna eingöngu af þeirri ástæðu?
Það sem nauðsynlegast er að gera í vanda þjóðfélagsins er að koma atvinnulífinu í fullan gang, eyða atvinnuleysinu og skapa grundvöll fyrir launahækkanir á ný. Það er ekki minna áríðandi en að leysa skuldavandann og er raunar hluti af lausn hans. Fólk sem ekki hefur tekjur, getur ekki borgað skuldir.
Axel Jóhann Axelsson, 12.10.2010 kl. 11:06
Kristinn Karl, það er málið, að vandinn hefur ekki verið greindur og þess vegna hafa þær "aðgerðir" sem gripið hefur verið til, verið tómt kák. Hvernig geta menn leyst vanda, sem þeir vita ekki hver er og þar að auki hefur ráðherrununum ekki dottið í hug ennþá, að ríki og sveitarfélög gætu þurft að koma að skuldaniðurfellingum, eins og aðrir skuldheimtumenn.
Axel Jóhann Axelsson, 12.10.2010 kl. 11:08
Það þarf líka að athuga hvað það kostar lánveitendur að sitja uppi með fjöldann allan af fasteignum sem verða sennilegast seldar á næstu 4 til 5 árum, gangi allt á besta veg.
Kjartan Sigurgeirsson, 12.10.2010 kl. 11:16
Mosi, það leikur enginn vafi á því að megnið af þeim lánum sem veitt hafa verið hér á landi, verðtryggð lán, eru lögleg. Þú ættir kanski að reyna að skoða málin af skynsemi, umfram annað.
Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 13.10.2010 kl. 12:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.