24.9.2010 | 13:20
Leysa uppboðin fólkið úr snörunni?
Undanfarna mánuði hefur fjöldi íbúða verið boðnar upp af sýslumönnum vegna skulda sem íbúðareigendurnir hafa ekki ráðið við að standa í skilum með, bæði vegna mikilla hækkana á lánunum vegna verðtryggingar eða gengisbreytinga.
Á suðurnesjum einum saman er útlit fyrir að fimm hundruð fjölskyldur missi íbúir sínar af þessum sökum og til viðbótar öðrum erfiðleikum er mesta atvinnuleysi á landinu einmitt í þeim landshluta og sama hvað hefur verið reynt til að efla atvinnulífið á þeim slóðum, þá hefur það lítið þokast vegna einarðar afstöðu ríkisstjórnarinnar gegn allri atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Minnkun atvinnuleysisins væri hins vegar líklegasta ráðið til að draga úr þessum skelfilegu nauðungarsölum, sem jafnvel verða til að tvístra fjölskyldum og bæta a.m.k. ekki möguleika þeirra til eðlilegs lífs.
Þegar fjölskyldur eru komnar með húsnæðislánin sín í slík vanskil, að leiði til uppboðs, er líklegt að ýmsar aðrar skuldir hafi einning hlaðist upp og ekki hverfa þær við uppboðin. Elti aðrir lánadrottnar fólkið eftir þessi uppboð með skuldir, sem engin leið er að borga, endar sá eltingaleikur væntanlega með persónulegu gjaldþroti viðkomandi einstaklinga, sem aftur verður til þess að sá hinn sami verður nánast efnahagslegur útlagi í eigin landi í a.m.k. tíu ár og jafnvel geta lánadrottnarnir haldið honum í heljargreipum til æviloka, hafi þeir smekk og geð til slíks.
Uppboðin leysa því fólk ekki úr skuldasnörunni, en herðir hana einungis ennþá fastar um háls þeirra , sem lenda í þessu skuldavíti. Norræna velferðarstjórnin hefur að eigin sögn slegið skjaldborg um heimilin í landinu, en almenningur veltir fyrir sér hvaða heimili falli undir þá borg, því flestum finnst þeir hafa algerlega lokast utan hennar.
Fjöldi heimila á uppboð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Víst eru þeir til sem telja einboðið að banna skuli að fólk sé borið út úr íbúðum sínum. Þegar þeir fá þessari sjálfsögðu kröfu sinni fullnægt ætla ég sko að kaupa mér íbúð, á láni, og borga bara fyrstu afborgunina og sitja síðan í íbúð "minni" til dauðadags sæl og glöð yfir því að "helvítis bankar og AGS og kröfuhafar og fjármagnseigendur" - þetta sem í dag telst, í augum fólks á miðaldastigi, til norna - megi ekki bera mig út.
Ó hve samfélagið verður GOTT, hve efnahagslífið verður heilbrigt og langt frá hverskyns hruni þegar þessari mannúðlegu kröfu verður fullnægt: að ekki megi bera fólk út úr íbúðum sem það er einu sinni komið með lyklavöld að og búið að borga eitthvað í ...
Ó hve þessar nornir - helvítis bankarnir og AGS og kröfueigendur og fjármagnseigendur - eru vondar, þær eru sko andskotann ekkert skárri en nornirnar fyrr á öldum; ó nei, hér er sko allt nornunum að kenna, alveg eins og var, hér sem annarstaðar, á miðöldum.
En ... fyrst fólk upp til hópa er enn á miðaldastigi, af hverju má þá ekki brenna nornir núna eins og mátti þá? Ég bara spyr.asdis o. (IP-tala skráð) 24.9.2010 kl. 13:35
Ásdís, í öllu venjulegu árferði væri ég algerlega sammála þér um þessi mál, en nú eru ekkert venjulegar aðstæður í þjóðfélaginu og fjöldi fólks, sem er í skuldavanda vegna atvinnuleysis og svo eru auðvitað margir sem skuldsettu sig upp fyrir haus og hefðu aldrei ráðið við skuldir sínar, þó engin kreppa eða hrun hefði komið til.
Þessi skuldamál verður að skoða og leysa einstaklingsbundið, því einhvers staðar verður fólkið að búa í framtíðinni og verður að sjálfsögðu að greiða leigu fyrir það. Hvort það sé heppileg eða góð lausn að keyra fólkið alveg niður í persónuleg gjaldþrot er aftur stór spurning, því lánadrottnarnir fá í fæstum tilfellum nokkuð upp í kröfur sínar hvort sem er. Vegna þessa óvenjulega ástands vaknar spurningin um, hvort ekki sé réttara að leyfa fólkinu þó að byrja upp á nýtt á núlli, skuldirnar eru tapaðar hvort sem er.
Að öllu jöfnu á fólk auðvitað að vera ábyrgt fyrir skuldum sínum og taka afleiðingum af yfirskuldsetningu og óráðsíu. Það á bara ekki við nema í minnihluta tilfella núna.
Eins og ég sagði fyrr, í venjulegu árferði á þetta ekki við og mér finnst jafn vitlaust og þér, að orðið "fjármagnseigendur" sé orðið að skammaryrði í íslensku, en orðið "skuldari" virðingartitill, sem allir eigi að hneygja sig og beygja fyrir.
Axel Jóhann Axelsson, 24.9.2010 kl. 13:45
Við skulum nú ekki gleyma því að skuldir almennings hafa hækkað um nokkra tugi prósenta frá hruni. Það er ósanngjarnt að tala um óráðsíu almennings við þessar aðstæður þvert á móti væri nær að gera þessi lán sanngjörn og þannig að allir geti borgað af sínum húsnæðislánum. Það versta sem getur gerst, er að gerast einmitt núna þ.e. að almenningur getur ekki borgað af þessum lánum sem hafa hækkað í boði Stjórnvalda úr hófi fram.
Gylfi Björgvinsson, 24.9.2010 kl. 14:08
Ef að ég man rétt, þá er uppboðsfrestunarúrræðið, sem nú er að renna út, frá tíma ríkisstjórnar Geirs Haarde, eða þá eitt af fyrstu verkum minnihlutastjórnar Vg og Samfylkingar, veturinn 2009. Var fresturinn hugsaður, sem tímabundið ástand á meðan ráðin yrði bót á vanda skuldsettra heimila.
Stærstur hluti heimila og reyndar fyrirtækja líka, tóku sín lán í allt öðru árferði en nú er. Flest fyrirtækjana standa undir, þeim skuldbindingum sem gert var ráð fyrir að yrðu á láninu á lanstímanum. Svo kom bankahrun og stjórnvöld og fjármálafyrirtæki hrópa í kór, að þessi fyrirtæki séu illa rekin því þau stóðu ekki af sér bankahrunið. Svipaða sögu má segja af flestum þeirra fjölskyldna sem að farnar eru að telja dagana sem þær eiga eftir að dvelja í því húsnæði sem þær hafa velflestar eytt ævisparnði sínum, blóð, svita og tárum í að eignast.
Á þessu rúmlega einu og hálfu ári sem liðið er síðan, hafa stjórnvöld, nánast staðið stjörf gagnvart vandanum og ekkert aðhafst, nema skellt einhverjum smáplástrum á svöðusárin og stundað aðrar smáskammtalækningar. Jafnframt hefur þjóðinni verið tilkynnt það, við hverja aðgerð stjórnvalda, að í pípunum sé allsherjarlausn og í raun verði henni varpað fram á næstu dögum.
Fréttir og umfjöllun Kastljósins undanfarna daga hafa svo bent klárlega á þá miklu handvömm og gagnleysi þessara aðgerða ríkisstjórnarinnar, gagnvart heimilum í vanda.
Í umfjöllun Kastljóssins um vanda Magnúsar Magnússonar kvikmyndagerðarmann, kom fram að "snilldin" við að bjóða þeim sem missa húsnæði sitt á uppboði að leigja sama húsnæði í allt að eitt ár, var í rauninni ekki hönnuð til að koma til móts við þann sem húsnæðið missir, heldur þann sem húsnæðið kaupir á uppboði. Að miða leiguna við fasteignamat í stað, greiðslugetu þess sem missir húsnæðið, er gersamlega út í hött og stjórnvöldum til háborinnar skammar. Sú aðferð þýðir að við hverjar 10 milljónir, sem eignin er metin samkvæmt fasteignamati skuli greidd leiga að upphæð ca. 45.000 kr. Það skýrir líklega, hvers vegna einungis 47 fjölskyldur af einhverjum hundruðum, hafi séð þann kost vænstan að taka leiguboðinu.
Fréttir af nýgengnum dómi þar sem fjármálafyritæki var heimilt að ganga að eigum ábyrgðarmanns, aðila er hafði gert greiðsluaðlöðunarsamning við fjármálafyrirtækið. Það þýðir í rauninni það, að fjármálafyrirtæki er ekki að ákveða að ganga til samninga við fólk um greiðsluaðlöðun, eða niðurfellingar skulda, heldur eru fjármálafyrirtæki í raun, að flytja greiðslubyrði þess er fékk hana minnkaða, yfir á þann sem gerðist ábyrgðarmaður lánsins. Það skýrir kannski afhverju fjármálafyrirtækin, voru nánast þögul á meðan þessi lagasetning gekk í gegn.
Yfirvofandi lagasetning sem að Árni Páll boðaði í kjölfar dóms Hæstaréttar um daginn í kjölfar gengislánadómsins, verður svo til þess að saga konunnar í Kastljósi gærkvöldsins, verður saga hundruða ef ekki þúsunda fyrirtækja.
Talað er um að hveitbrauðsdagar, borgarstjórnarmeirihluta, Besta flokks og Samfylkingar, hafi verið 100 og þeim lokið um daginn. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, ætlaði sér ekki mikið fleiri hveitibrauðsdaga, en borgarstjórnarmeirihlutinn fékk. Ef mig misminnir ekki þá hóf Norræna velferðarstjórnin störf með því að henda fram 100 daga áætlun, eða svo til lausnar þeim vandamálum sem getið er, hér að ofan.
Kristinn Karl Brynjarsson, 24.9.2010 kl. 14:48
Í Biblíunni er hlutur sem heitir "Náðarár", en sjöunda hvert ár voru allar skuldir látnar niður falla hjá hebreum til fornra. Við ættum að taka þetta upp. Það væri flott, smart, glæsilegt, öðruvísi og viturlegt, og myndi kannski afla okkur óvæntra og öflugra vina... ;)
Gamli Sannleikur (IP-tala skráð) 24.9.2010 kl. 16:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.