Þingið sameinist um Landsdómskærur

Lögin um Landsdóm eru í fullu gildi, hvað sem fólki finnst um þau, og úr því að ákveðið hefur verið að stefna ráðherrum úr síðustu ríkisstjórn fyrir dóminn er afar mikilvægt að það verði ekki gert með pólitískum hrossakaupum og klíkuskap, t.d. með því að sleppa því að stefna ráðherrum, sem vitneskju höfðu um hvað var að gerast í aðdraganda bankahrunsins og áttu þátt í þeim aðgerðum/aðgerðaleysi, sem nú þykja falla undir saknæmt athæfi.

Viðbrögð við tillögum Atlanefndarinnar hafa valdið miklum titringi innan þingflokkanna, sérstaklega þingflokks Samfylkingarinnar, sem hefur brugðist við á þann einkennilega hátt að ætla sér að halda einhvers konar fyrirfram réttarhöld yfir fjórum fyrrverandi ráðherrum í þingflokksherbergi sínu, áður en málum verður vísað til Landsdómsins sjálfs.  Þetta er skrípaleikur, sem enginn getur tekið alvarlega og vandséð til hvers leikurinn er gerður, nema þingflokkurinn ætli sjálfur að kveða upp sektar eða sýknudóma.

Úr því sem komið er, getur þingheimur ekki verið þekktur fyrir annað en að sameinast um að stefna öllum þeim ráðherrum sem hljóta að vera samsekir, eða jafn saklausir, af vanrækslu í tíð fyrri ríkisstjórnar og ekki stefna bara sumum og sumum ekki, eftir einhverjum geðþótta einstakra þingflokka.

Það eina rétta í stöðunni fyrir þingheim er að stefna a.m.k. Geir Haarde, Árna Matt., Þorgerði Katrínu, Ingibjörgu Sólrúnu, Björgvini G., Össuri Skarphéðinssyni og Jóhönnu Sigurðardóttur, þar sem þau áttu öll aðkomu að fundum og upplýsingum um hvað var að gerast í efnahags- og bankamálunum á árunum 2007-2008 og vissu öll af viðvörunum Seðlabankans um hvernig eigendur og stjórnendur bankanna væru búnir að koma bönkunum í þrot með glæpsamlegum rekstri þeirra.

Aldrei verður nokkur friður um þessi mál, nema öllum þessum ráðherrum verði gert jafnt undir höfði varðandi Landsdóminn.


mbl.is Yrðu yfirheyrðir og gætu kallað til vitni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Ég virði Björgvin G. Sigurðsson fyrir það að ætla ekki að mæta á þennan undarlega þingflokksfund. Það á auðvitað að stefna þeim öllum sem Atlanefndin leggur til að verði stefnt, þó menn hafi misjafnar skoðanir á sekt þeirra. Það er talað um að þetta verði þungbært fyrir ákærðu og allt það en er það ekki í öllum málum. Hvenær hefur verið hætt við ákæru vegna hugsanlegs álags á sakborning?

Ef sekt þykir ekki sönnuð fyrir Landsdómi þá verður auðvitað sýknað. Það hefur aldrei verið talið áfall að vera sýknaður og fá æruna aftur. En fari þetta ekki fyrir Landsdóm þá hafa fjórmenningarnir þetta hangandi yfir sér ævilangt.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 16.9.2010 kl. 11:33

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þetta er allt rétt, nafni, en að sleppa hinum við ákærur getur engan veginn talist sanngjarnt, því þau hljóta að vera jafn sek, eða a.m.k. meðsek hinum, sé um vanrækslu eða afglöp að ræða á annað borð.  Annars yrðu þau þá sýknuð, ef engin sekt sannast og eins og Jóhanna Sigurðardóttir orðaði það sjálf, þá gefst þeim tækifæri til að útskýra sín mál fyrir dómstólnum og ættu því að vera dauðfegin að verða stefnt fyrir hann.

Axel Jóhann Axelsson, 16.9.2010 kl. 11:39

3 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Atli Gíslason formaður þingmannanefndarinnar sýndi af sér mikið dómgreindarleysi þegar hann ákvað að hleypa þessu Landsdómsmáli út úr nefndinni, í ágreiningi.  Leyfa þremur mismunandi tillögum að liggja fyrir þinginu, og enga þeirra með þingmeirihluta á bakvið sig.  Atla hefði alveg mátt vera það ljóst, að við slíkar aðstæður, færi af stað svipuð atburðarás og nú er hafin. 

Samkvæmt lögum um Landsdóminn, þá fer Alþingi, eða þeir þingmenn sem þar sitja með ákæruvaldið.  Þingflokkur Samfylkingarinnar er því hluti ákæruvaldsins.  Þessi farsakenndi skrípaleikur, hluta ákæruvaldsins, hlýtur að koma til greina sem galli á málsmeðferð gagnvart sakborningum, þegar Landsdómur kemur saman, verði af því.  Sérmeðferð sú sem Samfylkingin hugðist bjóða, hluta hugsanlegra sakborninga, telst vart til eðlilegrar málsmeðferðar, þó svo að frestun fundarins, hafi gert þeim tóm til fegra klúður sitt með því að bjóða bæði Geir og Árna á fundinn.   Það eru því allt eins líkur á því að þessar æfingar Samfylkingarinnar, verði til þess að Landsdómur muni ekki eiga annarra kosta völ en að vísa málum þeim sem fyrir hann koma, vegna stórfelldra skemmdarverka Samfylkingarinnar á málsmeðferðinni.

 Hvernig ætlar Jóhanna þá að sefa reiði almennings?  

Kristinn Karl Brynjarsson, 16.9.2010 kl. 11:56

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Jóhanna sagði að sakborningar ættu að verða fegnir því, að fá að útskýra sín mál fyrir Landsdómi.  Kannski heldur hún að útskýringar fyrir þingflokki Samfylkingarinnar komi í sama stað niður og slíkur fundur gæti þá "róað almenning" eins og hún sagði að hefði verið tilgangurinn með því að stefna nokkrum útvöldum ráðherrum fyrir Landsdóminn.

Axel Jóhann Axelsson, 16.9.2010 kl. 13:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband