2.9.2010 | 08:38
Útlendingar ráða orkufyrirtækjunum
Svo er nú komið, að erlendir lánadrottnar ráða í raun yfir öllum helstu orkufyrirtækjum landsins, þó formlega séu þau ennþá skráð í eigu Íslendinga, t.d. Landsvirkjun skráð í eigu ríkisins og OR í eigu Reykvíkinga. Fyrirtækin hafa skuldsett sig með gríðarháum skammtímalánum til að fjármagna framkvæmdir, sem ekki skila skjótfengnum tekjum, heldur er verið að fjárfesta til að selja orku til næstu áratuga.
Því verður að telja það með ólíkindum einkennilega fjármálastjórnun þessara fyrirtækja, að ekki skuli vera búið að tryggja lán til langs tíma, áður en ráðist er í framkvæmdirnar í stað þess að fjármagna allt með skammtímaskuldum með það í huga að "endurfjármagna" þær síðar. Hér áður fyrr var þetta einfaldlega kallað "að framlengja víxilinn", en nú er búið að finna upp miklu fínni orð í fjármálaheiminum en áður voru notuð, svo nú heitir framlenging á víxli "endurfjármögnun".
Það sem er furðulegast við rekstur þessara fyrirtækja er, að því meiri menntun sem safnast upp í þjóðfélaginu og þar með, að ætla mætti, þekking og reynsla, því ver hefur gengið að reka fyrirtæki hér á landi, að ekki sé minnst á fjármálastofnanirnar og fyrirtæki tengd þeim og eigendum þeirra, en sá rekstur endaði með því að setja allt þjóðfélagið á hliðina og skildi eftir sig a.m.k. tíuþúsund milljarða króna skuldir við erlenda lánadrottna.
Nú er þjóðfélagið komið undir stjórn AGS vegna skulda þess og nánast öll fyrirtæki landsins eru undir hæl lánastofnana og einna verst er ástandið með orkufyrirtækin, sem hingað til hefur verið litið á sem hænurnar sem verptu gulleggjunum.
Með þeirri einkennilegu fjármálastjórn sem ríkt hefur í þessum fyrirtækjum undanfarin ár, t.d. með lántökum í erlendri mynt, þrátt fyrir að tekjur séu að meirihluta í íslenskum krónum, verður þess sjálfsagt ekki langt að bíða, að orkufyrirtækin verði öll komin í formlega eign erlendra aðila.
Vonandi mun þeim ganga betur að stýra fjármálunum, en Íslendingum hefur tekist.
Auðlindir lánardrottna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
mig hefur lengi grunad ad erlendir lanadrotnar og teir sem kaupa orkuna sjeu sami adilin
Sigurður Helgi Ármannsson, 2.9.2010 kl. 09:04
"Það sem er furðulegast við rekstur þessara fyrirtækja er, að því meiri menntun sem safnast upp í þjóðfélaginu og þar með, að ætla mætti, þekking og reynsla, því ver hefur gengið að reka fyrirtæki hér á landi"
Ein ályktunin af þessu öllu saman er sú að menntakerfið hér á landi starfi ekki fyllilega eins og til er ætlast, þó miklu fé sé kostað til...
Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 2.9.2010 kl. 10:24
Afhverju er ekki gjaldskrá stóriðjunar einfaldlega hækkuð?
Guðmundur Ásgeirsson, 2.9.2010 kl. 10:24
Guðmundur, OR selur ekki svo mikið til stóriðjunnar, svo hún verður að hækka á öðrum neytendum. Reyndar kom fram um daginn að sá hluti orkunnar frá OR, sem seldur væri til stóriðju væri sá arðsamasti hjá fyrirtækinu. Á sama fundi ákvað stjórnin, vegna fyrirskipana Jóns Gnarrs, að hætta að virkja fyrir stóriðju, en fyrst sá hluti sölunnar er arðsamastur, hefði mátt ætla að auka ætti þann hluta viðskiptanna. OR selur langmest af sinni orku í íslenskum krónum, en nánast allar skuldir eru í erlendum gjaldeyri. Það er fjármálastjórnun sem enginn skilur, nema þá væntanlega langskólagengið fólk.
Landsvirkjun selur mest af sinni orku til stóriðju í erlendum gjaldeyri og skuldar mest í erlendum gjaldeyri einnig. Fyrirtækið stendur í sjálfu sér ekki illa, en fjármögnun fyrirtækisins er einkennileg, þ.e. að fjármagna framkvæmdir sínar með skammtímalánum í stað þess að tryggja sér langtímalán í upphafi virkjanaframkvæmda. Þar liggur vandi þess fyrirtækis.
Axel Jóhann Axelsson, 2.9.2010 kl. 10:41
Sammála þessu Axel.
Guðmundur Ásgeirsson, 2.9.2010 kl. 10:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.