Allt á suðupunkti vegna ráðherraskipta

Hvorki Samfylkingin eða VG gátu náð samkomulagi innan sinna raða um ráðherraskipti í ríkisstjórninni, sem þó er Jóhönnu og Steingrími alger nauðsyn til að lægja öldur og óánægju innan flokkanna með getuleysi ríkisstjórnarinnar til að taka á brýnum hagsmunamálum.

Órólega deildin innan VG með Ögmund Jónasson í broddi fylkingar krefst ráðherrastóls fyrir hann að nýju og Ögmundur sjálfur mun ekki taka annað í mál, þó ekki verði séð að nokkur breyting hafi orðið á afstöðu ríkisstjórnarinnar til Icesave, frá því að Ögmundur rauk úr ríkisstjórn í fyrra í miklu fússi.  Nú segir hann að hvorki Icesave né ESB standi í veginum, enda séu þau mál í "eðlilegum farvegi", en formlegar samningaviðræður um Icesave hófust einmitt á ný í dag.

Í Samfylkingunni vill Kristján Möller alls ekki láta af ráðherraembætti fyrr en hann verður búinn að vígja Héðinsfjarðargöngin og helst koma Vaðlaheiðargöngum af stað, þó engir peningar séu fyrir hendi til að hefja þær framkvæmdir.

Þá heimtar Ólína Þorvarðardóttir ráðherrastól og telur engan hæfari í flokknum en sig til að gegna slíkum embættum og þó hún sé í öðru sæti listans á Vesturlandi, á eftir þeim sem aðrir telja hæfastan innan flokksins til að taka að sér slíkt embætti, þ.e. Guðbjarti Hannessyni, þá kemur Ólínu slíkt ekki við í framapoti sínu.

Vegna þessara deilna innan þingflokksins, neyðist Jóhanna til að kalla saman flokksstjórnína í fyrramálið til að tryggja sínum tillögum um málið framgang, en Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingflokksformaður, sagði fyrr í dag, að ekki þyrfti á því að halda, þar sem Jóhanna hefði fengið umboð flokksstjórnarinnar í fyrra til að gera þær breytingar á ráðherraliðinu á kjörtímabilinu, sem hún teldi vera þörf á.  Það var um svipað leyti og hún bað vegfaranda nokkurn um ákveðin skilaboð til frænda hans um hvert hún vildi að hann stykki, en það var nú aldeilis ekki á sólríkan stað.

Þetta sannar enn og aftur hve veik forysta stjórnarflokkanna er, enda hefur hún ekki einu sinni stuðning lengur innan þingflokka sinna.


mbl.is Ráðherraskipti á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þetta eru ekki tíðindi Axel Jóhann. Leikrit ríkisstjórnarinnar er á hennar eigin forsendum og ég sé ekki ástæðu til að þjóðin standi í biðröð eftir að sjá stykkið.

Það voru miklu meiri tíðindi þegar landnámshænurnar fórust í bruna á Tjörn á Vatnsnesi.

Árni Gunnarsson, 1.9.2010 kl. 18:29

2 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Það bendir alltaf til erfiðleika með að leiða mál til lykta, þegar þingflokkur Samfylkingar heldur þingflokksfundi og segist ætla að ræða eitthvað annað mál en er til umræðu.  Því er svo gjarnan bætt við, svona fyrir kurteisissakir, að aðalmálið, verði eitthvað rætt.

Kristinn Karl Brynjarsson, 1.9.2010 kl. 18:30

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Árni, hann er góður þessi með landnámshænurnar og sennilega alveg rétt að sú frétt hafi verið merkilegri en allar fréttir af ríkisstjórninni til samans.

Axel Jóhann Axelsson, 1.9.2010 kl. 18:54

4 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Mér fannst eiginlega aðalfréttin, af þessum farsa í fréttum RÚV áðan vera, orð Ögmunds. Þar sagði hann að Icesave, væri komið í ásættanlegt ferli að hans mati.  Er þá Ömmi búinn að skipta um skoðun, eða Bretar og Hollendingar búnir að slá svo til allar kröfur sínar út af borðinu?

Það eru meiri líkur á því en að Bretavinnugengið, sé eitthvað farið að huga að íslenskum hagsmunum í deilunni.

Kristinn Karl Brynjarsson, 1.9.2010 kl. 19:52

5 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Eins og það skipti einhverju máli fyrir fólkið í landinu hvort Ólína, Möller eða einhver annar (önnur) fer eða kemur inn í ríkisstjórnina. Það sem skiptir máli er að þessi ríkisstjórn fari að gera eitthvað að viti.

Sigurður I B Guðmundsson, 1.9.2010 kl. 19:58

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Kristinn, það er afar ólíklegt að Bretavinnugengið sé hætt að vinna fyrir sína erlendu húsbændur.

Sigurður, að sama skapi er algerlega ómögulegt, að þessi ríkisstjórn fari að gera eitthvað af viti.  Það hefur hún ekki gert hingað til, heldur þvert á móti unnið þjófélaginu gífurlegt ógagn, sérstaklega í atvinnumálunum.

Axel Jóhann Axelsson, 1.9.2010 kl. 20:05

7 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Það hefur einnig heyrst að þingflokkur Samfylkingar sætti sig ekki við að bæði Jón Bjarnason og Ögmundur sitji í ríkisstjórninni.   Jóhanna hefur kallað þá báða til sín á fund í Stjórnarráðinu. 

 Þetta er einsdæmi í stjórnmálasögunni, að þingflokkur stjórnarflokks, raði saman ráðherralista hins flokksins.

Kristinn Karl Brynjarsson, 1.9.2010 kl. 20:19

8 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þeir verða æ einkennilegri, kaflarnir í sögunni um þessa ótrúlegu ríkisstjórn.  Eins og þú segir er það algert einsdæmi að forystumaður eins stjórnarflokks skipti sér af ráðherravali annarra stjórnarflokka og hvað þá að þeir séu teknir svona á teppið, eins og baldnir skólastrákar.

Axel Jóhann Axelsson, 1.9.2010 kl. 20:33

9 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

Mér segist svo hugur að bæði Ögmundur og Jón verði í stjórninn - niðurlæging Jóhönnu verði algjör.

Að stjórnin fari að gera eitthvað af viti - drengir - þið eru meira en skemmtilegir - hreinlega bráðfyndnir og bjartsýnismenn miklir - gott að hafa kímnigáfu.

Bretavinnugengið (bretavinagengið) mun halda áfram aðþjóna þeim á meðan það situr á ráðherrastólum.

Axel - þetta með ólínu - kanski hefur hún rétt fyrir sér - að hún sé sú hæfasta - EN - hvað segir það þá um aðra þingmenn flokksins?

Ólafur Ingi Hrólfsson, 2.9.2010 kl. 07:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband