30.8.2010 | 10:44
Laun hafa hækkað meira en verðtrygging lána
Lögfræðingar voru algerlega sammála um að gengistrygging lána væri fullkomlega lögleg, a.m.k. varð ekkert vart við efasemdir af þeirra hálfu um það, fyrr en eftir að Hæstiréttur kvað upp úrskurð sinn, eftir að þessi lán höfðu viðgengist athugasemdalaust í átta ár.
Nú deila lögfræðingar hins vegar um það hvort samningsvextir, sem grundvallaðir voru á hinni ólöglegu verðtryggignu sem gengistryggingin var, skuli gilda á lánunum, eða hvort vextir Seðlabanka Íslands af óverðtryggðum lánum, eins og þeir voru á hverjum tíma, skuli verða reiknaðir á þessi lán, eins og önnur óverðtryggð lán, en það dæmdust þau í raun vera eftir niðurstöðu Hæstaréttar.
Ekki skal neinn dómur lagður á þetta deiluefni hér, enda í verkahring Hæstaréttar að gera það, en hins vegar verður að gera athugasemd við þá fullyrðingu Sigurðar G. Guðjónssonar, hæstaréttarlögmanns, þegar hann segir: "Með því að velja gengistryggð lán fjármálafyrirtækja töldu lántakendur sig lausa bæði undan íslenskum okurvöxtum og oki íslensku verðtryggingarinnar; verðtryggingar sem á umliðnum árum hefur fært fjármagnseigendum ómælt fé á kostnað þeirra sem kosið hafa að koma sér upp húsnæði fyrir sig og sína."
Er lögmaðurinn virkilega að halda því fram, að fólk hafi ekki reiknað með því að gengistryggðu lánin myndu hækka með hækkandi verðbólgu og lækkun íslensku krónunnar? Allir vissu að krónan væri allt of hátt skráð á þeim tíma, sem þessi gengistryggðu lán voru í hávegum höfð.
Einnig er það hreint ekki rétt fullyrðing hjá lögmanninum, að verðtryggingin hafi fært fjármagnseigendum ómælt fé á kostnað húsnæðislánaskuldara, því launavísitala hefur hækkað miklu meira á síðustu tuttugu árum, en vísitala neysluverðs til verðtryggingar hefur gert. Þá þróun má sjá á neðangreindri töflu:
Mánuður/ | Vísitala n.v. | Hækkun í % | Launa- | Hækkun í % | Hækkun launa í % |
Ár | til verðtryggingar | frá Jan. 1989 | vísitala | frá Jan. 1989 | umfram verðtryggingu |
Janúar 1989 | 112,60 | 100,00 | |||
Ágúst 2008 | 307,10 | 172,74 | 350,40 | 250,40 | 44,96 |
Janúar 2009 | 327,90 | 191,21 | 355,70 | 255,70 | 33,73 |
Janúar 2010 | 356,20 | 216,34 | 366,90 | 266,90 | 23,37 |
Mai 2010 | 362,90 | 222,29 | 370,10 | 270,10 | 21,51 |
Júlí 2010 | 365,30 | 224,42 | 379,50 | 279,50 | 24,54 |
Þrátt fyrir kreppu og hrun, hefur launavísitalan vinninginn fram yfir verðtrygginguna, þannig að afborganir verðtryggðs láns, sem tekið var 1989 eru mun léttari núna en þær voru í upphafi, miðað við þróun launa.
Auðvitað er ekki hægt að alhæfa um að þetta eigi við um alla skuldara, þar sem aðstæður hvers og eins geta hafa breyst, t.d. vegna atvinnuleysis eða annarra ófyrirséðra atvika, en almennt er þetta þó niðurstaðan og þau meðaltöl, sem miða verður við.
Telja væntanlega 21% vexti sanngjarna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er rétt hjá honum að verðtryggingin hefur fært sparifjáreigendum ómælt fé á kostnað húsnæðislánaskuldara. Það að launavísitalan hefur hugsanlega hækkað meira en ránskjaravísitalan breytir þeirri staðreynd ekki. Hitt er svo annað mál að
laun hér eru ekki í neinum takti við verðmætasköpun í þjóðfélaginu. Hér er framleiðni næst lægst í Evrópu en allur kostnaður við hana miklu meiri. Því er borin von að heimili og atvinnulíf beri hærri vexti en Evrópulönd. Þýskaland ( sem er óumdeilanlega MIKLU MIKLU duglegra þjóðfélag en Ísland nokkurn tímann ) ber ekki nema 2% vexti óverðtryggt. Hvers vegna skyldi Íslandsfúskið bera 5 sinnum hærri vexti ?
Einar Guðjónsson, 30.8.2010 kl. 12:06
Af hverju berðu þetta saman frá jan. 1989? Ef við skoðum hækkunina frá ágúst 2008, þá er launavísitalan búin að dragast mikið aftur úr. Ég sjálf keypti mér íbúð árið 2007 (eins litla og ódýra og ég gat fundið fyrir mig og dóttur mína) og frá 2007 hafa launin mín hækkað sama og ekkert en afborgunin af íbúðinni er búin að snarhækka þannig að ég næ ekki lengur endum saman :( Mér finnst ekki spennandi að eyða restinni af lífinu í að borga okurafborganir af pínulítilli íbúð...og sé ekkert sanngjarnt við það á meðan "fjármagnseigendur" fá sínar skuldir niðurfelldar í hrönnum og við aumingjarnir þurfum að borga lánin af risastóru sumarhúsunum þeirra en fáum engan afnotarétt.
Helga (IP-tala skráð) 30.8.2010 kl. 12:16
Ástæður þess að þetta er borið saman frá 1989, er í fyrsta lagi að þá var launavísitalan sett á 100 og því hægt að nota launavísitöluna frá þeim tímamörkum til samanburðar við vísitölu neysluverðs, sem notuð er til verðtryggingar. Í öðru lagi er ekki raunhæft að bera vísitölurnar saman yfir mjög stutt tímabil, þar sem sífelldar sveiflur eru í verðbólgunni og launahækkununum, þannig að óraunhæft er að miða við mjög fá ár.
Húsnæðislán eru tekin til áratuga, 25-40 ára og því segja einstaka árssveiflur ekkert um það, hvernig þróunin verður til langs tíma. Það hafa komið niðursveiflur í efnahagslífið nánast reglulega með 7-10 ára millibili og þá hafa vísitölurnar skarast um tíma, en þegar lengra líður hækka launin alltaf meira en verðbólgan, enda yrði aldrei nein kaupmáttaraukning í landinu ef þróunin væri ekki í þá áttina.
Vissulega hefur verðbólgan hækkað meira en launin undanfarin ár vegna kreppunnar og hrunsins, en þegar efnahagslífið fer að jafna sig aftur, þá munu launin hækka meira en verðbólgan, þannig að kaupmáttur vex á ný og afborganir lánanna verða þá léttbærari en þær eru núna. Hafir þú t.d. tekið lán til fjörutíu ára á árinu 2007 byrjar höfuðstóllinn ekki að lækka að ráði fyrr en um árið 2030 og fer síðan hratt lækkandi þangað til lánið verður uppgreitt árið 2047. Fram til ársins 2030 fer mest af afborgununum til að greiða vexti og mjög lítill hluti afborgana fer til greiðslu á höfuðstól. Þess vegna hækka lánin í takt við verðbólguna, þrátt fyrir mánaðarlegar afborganir, því eins og áður sagði fara þær aðallega í vextina.
Axel Jóhann Axelsson, 30.8.2010 kl. 13:12
Þannig að þér finnst semsagt að þetta sé barátta um hve mikinn hluta af kaupi fólks lánveitandinn nær ?
Einar Guðjónsson, 30.8.2010 kl. 13:35
Lánveitandinn fær minnkandi hluta af kaupi fólks, svo lengi sem launin hækka meira en verðbólgan á lánstímanum. Það finnst mér hið besta mál.
Axel Jóhann Axelsson, 30.8.2010 kl. 13:39
Og að hér sé borin von að miða sig við Evrópu þar sem menn halda kaupmáttaraukningunni en afborganir og vextir halda sér
m.v. upphaflegar forsendur ? Að skuldabréfaeigandinn fái þriðjung æviteknanna ?
Einar Guðjónsson, 30.8.2010 kl. 13:41
Verðbólga hefur verið lægri í Evrópu en á Íslandi og efnahagslífið stöðurgra. Það á að vera baráttumálið að ná niður verðbólgunni, varanlega, og þá verður verðtryggingin ekki vandamál lengur. Hins vegar eru ekki samræmdir vextir í Evrópulöndum og afar ólíklegt að við fáum þýska vexti, jafnvel þó við gengjum í ESB. Ætli vextir hér yrðu ekki líkari því sem er í Grikklandi, Búlgaríu og öðrum þeim löndum ESB, þar sem vextir eru hvað hæstir?
Ef húsnæðiskaupandi kaupir sér íbúð eða hús, sem kostar hann þriðjung æviteknanna, þá mun skuldabréfaeigandinn væntanlega fá þann hluta laun viðkomandi til sín til baka, enda væntanlega lánað þá upphæð til húsnæðiskaupanna, að frádregnum þeim vöxtum sem hann fær í sinn hlut á lánstímanum og þá gildir það sama um hvort hann er útlendur eða innlendur.
Axel Jóhann Axelsson, 30.8.2010 kl. 13:51
Hvaðan færð þú þessar tölur eiginlega ,þetta stendst engan veginn miðað við hvað maður fær í budduna og hefur fengið .
Guðmundur Eyjólfur Jóelsson, 30.8.2010 kl. 14:12
Þetta eru vísitölur reiknaðar út af Hagstofu Íslands.
Axel Jóhann Axelsson, 30.8.2010 kl. 14:18
Einar vill bara að sparifjáreigendur greiði fyrir hann af húsnæðisláninu.
Þannig gæti hann fengið lánað fyrir einbýlishúsi en ekki þurft að borga sjálfur til baka nema sem svarar blokkaríbúð. Restina eiga sparifjáreigendur að greiða fyrir hann með því að fá til baka verðminni krónur en þeir lánuðu honum.
Hann er greinilega einn af þeim fjólmörgu Íslendingum sem vill að aðrir spari svo hann geti eytt.
Landfari, 30.8.2010 kl. 14:24
Nú er svo komið að orðið "sparifjáreigandi" er orðið að skammaryrði í Íslensku, en hinsvegar er orðið fyrir okkur hina, þ.e. "skuldari" eins og hver önnur heiðursnafnbót, rétt eins og "Sir" í ensku.
Axel Jóhann Axelsson, 30.8.2010 kl. 14:30
Þú virðist eitthvað misskilja mig, eitthvað eða einhverjir þurfa að skapa verðmæti með t.d. vinnu til að greiða svona mikla leigu fyrir peninga. Þýskt efnahagslíf sem er í miklu lagi í samanburði við Ísland skapar ekki þau verðmæti að það geti greitt '' íslenska '' vexti. Það er því borin von að slugsaefnahagslíf eins og er hér geti greitt íslenska vexti. Orð Landfara eru óskiljanleg en hvað um það en til upplýsinga má nefna að Sparifjáreigendur hér eru sárafáir og sparnaður hér sá minnsti í Evrópu þannig að ekki hefur verðtryggingin haft nein áhrif þar. Sparifjáreigendur eru hvergi að fá neina ávöxtun nema hér. Þess vegna flykktust þeir hingað og keyptu krónubréf og á tímabili fengu þeir mikla vexti '' reikningslega'' en þeir greiddust þó aldrei því efnhagslífið hér stóð ekki undir þeim og fór lóðrétt á hausinn. Þeir fengu því íslenska hávexti en þeir borguðust þó aldrei.
Einar Guðjónsson, 30.8.2010 kl. 14:50
Það er alveg rétt Einar, að hvorki fyrirtæki eða einstklingar ráða við þessa "íslensku" vexti til langs tíma og gjörsamlega óskiljanlegt að t.d. stýrivextir Seðlabankans skuli ekki fyrir löngu hafa verið settir í 0 - 0,5%, eins og í öllum öðrum löndum, þar sem menn kunna að stjórna efnahagsmálum.
Þegar verðbólgan og þenslan í þjóðfélaginu var á hraðri ferð upp á við, voru stýrivextir hækkaðir upp úr öllu valdi til að reyna að slá á eftirspurnina, en nú þegar eftirspurn er nánast engin og verðbólga á niðurleið, að því viðbættu að þensla er auðvitað engin, þá er vöxtunum haldið í hæstu hæðum og lækkaðir í hænufetum, enda gerir þessi einkennilega peningastefna ekkert annað en lengja og dýpka kreppuna.
Það er reyndar alveg í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar, sem gerir allt sem í hennar valdi stendur til að seinka og helst koma algerlega í veg fyrir alla atvinnuuppbyggingu í landinu og þar með herða sultaról landsmanna miklum mun meira, en þurfa hefði við eðlilega efnahagsstjórn. Seðlabankinn styður dyggilega við bakið á stjórninni með vaxtastefnu sinni.
Axel Jóhann Axelsson, 30.8.2010 kl. 15:06
Einar:
....."Sparifjáreigendur hér eru sárafáir og sparnaður hér sá minnsti í Evrópu þannig að ekki hefur verðtryggingin haft nein áhrif þar..." Þeir sem borga í Lýfeyrissjóði eru líka að spara, svo að sparifjáreigendur eru mjög margir. Ég tel að verðtryggingin sé hin versta böl þó ég sé ekki háskólamenntaður. Fólk mér nákomið fór um daginn og hugðist greiða upp Lífeyrislán þar sem eftirstöðvar voru rúmar 400.000 kr og 4 ár eftir af lánstímanum. Eftir útreikning hjá lífeyrissjóðinum var heildargreiðslan sem átti að reiða af hendi rúmar 800.000 þar sem höfuðstóllinn 400.000 var framreiknaður um þau 4 ár sem fólkið ætlaði að stytta lánstímann. Er ekki eitthvað að. Þegar tekin er meðaltal launa, nú spyr ég þar sem ég er ekki háskólamenntaður, eru þá allar þær launahækkanir sem ofurlaunaþegarnir hafa fengið á þessum tíma líka þar inn í. Eru ekki laun bankastjóra lækna,forstjóra og annara hámenntaðara manna og kvenna þar og skekkja þessa stöðu. Heldurðu að þú fengir sömu hækkun launa á tímabilinu ef miðað er við taksta ASÍ félaga eða annara láglauna hópa?
Með þökk fyrir annars oft góð og málefnaleg skrif.
Guðmundur Sigurðsson (IP-tala skráð) 30.8.2010 kl. 15:09
Sæll, Axel, þakka góða samantekt og ég held að þetta standist bara nokkuð vel hjá þér, allavegana séð frá mínum sjónarhól. Ég myndi samt vilja losna við verðtrygginguna úr mínum bókum meðan ég skulda miklu meira en ég á (þegar ég er orðinn eldri, efnaðri og vitrari mun það líklega breytast, ha,ha)
Smá athugasemd við fyrsta kommentið frá Einari: Þú svarar spurninguna um háu íslensku vextina sjálfur, þ.e. með því að benda á lága framleiðni miðað við helstu útflutningslönd Evrópu. Ástæðan er ekki "dugnaður" heldur frekar að útflutningur hér er meiri á hrávörum en unnum vörum í dag. Vextir verða því háir áfram á Íslandi meðan þannig er statt (óháð mynt) til að laða að aukafjármagn.
Gunnar Sigfusson (IP-tala skráð) 30.8.2010 kl. 15:36
Eftir því sem mér skilst á vef Hagstofunnar eru ofurlaunþegar ekki inni í launavísitölunni, heldur er hún unnin eftir kannanir á greiddum launum hjá völdum fyrirtækjum, stórum og smáum, eða eins og segir m.a. á vefnum: " Frá upphafi árs 2005 hefur Hagstofan séð um framkvæmd þeirrar launarannsóknar sem Kjararannsóknarnefnd stóð að áður og aflar nú með samræmdum hætti gagna frá fyrirtækjum á almennum vinnumarkaði og frá sveitarfélögum. Frá Fjársýslu ríkisins er aflað gagna sem byggja á heildarsafni launþega hjá ríkinu."
Hagstofan er sú stofnun sem safnar saman öllum helstu upplýsingum um þjóðarbúið og tölur þeirra og útreikningar eru notaðir víða í samfélaginu og í samanburði við önnur lönd, þannig að þeirra upplýsingum verður að treysta, enda engar aðrar betri fyrir hendi.
Axel Jóhann Axelsson, 30.8.2010 kl. 15:38
Gunnar, ég taldi mig ekki vera að svara neinni spurningu. Tel að það sem skýri háa vexti hér sé t.d. lítil framlegð í bankakerfinu, fákeppni og samantekin ráð um verð. Auk þess hin s.k. peningamálastefna Seðlabankans sem helgast auðvitað af því að við erum í fúskaraþjóðfélagi þar sem engin hefur hugmynd um eitt né neitt sem hann er að fást við. Það skýrist svo af nepotisma og lífslýgi. Þessir vextir sem eru hér og verðmætasköpunin stendur ekki undir hefur auðvitað þær afleiðingar að við erum ekki samkeppnisfært þjóðfélag nema í náttúruarðráni ( einfaldar veiðar og útflutningur á afurðunum hráum því engin framleiðir vöru úr hrávörunni því allir kostnaðarliðir við að fullvinna fiskinn gera hann svo dýrann að enginn vill kaupa hann á '' íslensku'' verði ). Þess vegna er fiskurinn fluttur óunninn út og hann er svo unnin í þjóðfélögum sem standast samkeppni og kostnaðarliðir s.s. vextir eru svo miklu lægri en hér.
Einar Guðjónsson, 30.8.2010 kl. 16:34
Því miður hefur ekki verið efnahagsstjórn af viti í landinu alveg frá lýðveldisstofnun, nema í nokkur ár á meðan Friðrik Zophusson og Geir Haarde voru fjármálaráðherrar. Lengi vel hélt maður að það hefði stafað af því, að ekki væri nóg af menntuðu fólki í landinu til að stýra þessum málum og því væri alltaf endalaus verðbólga og óstjórn.
Sú kenning afsannaðist algjörlega í hruninu, því þá var nóg af menntuðu fólki í landinu og banka- og útrásargengin búin að soga til sín nánast alla, sem einhverja menntun höfðu á viðskiptasviði, hvort sem það voru viðskiptafræðingar, hagfræðingar, viðskiptaverkfræðingar, lögfræðingar, endurskoðendur o.s.frv. Með allt þetta menntafólk innbyrðis tókst að koma hér öllu í bál og brand og valda mesta fjármálalega hruni mannkynssögunnar.
Það er ekki nema von, að það vakni spurningar um hvað sé raunverulega kennt í háskólum veraldarinnar, því hrunið einskorðaðist ekki við Ísland, þó það hafi orðið einna verst hér, a.m.k. hlutfallslega.
Axel Jóhann Axelsson, 30.8.2010 kl. 16:43
Axel þú ert að tala um skólagengið fólk en ekki menntað. Það varð ekki hrun á Íslandi í merkingunni '' hrun'' heldur komst svindlið upp. Annars er brandarinn hjá þér góður um Friðrik og Geir en þeir voru efalaust allra óhæfastir.
Einar Guðjónsson, 30.8.2010 kl. 18:16
Fjármálaráðherratíð Friðriks og Geirs er eina tímabilið í lýðveldissögunni, sem verðbólga var hér tiltölulega lítil og sambærileg við nágrannalönd, enda kvartaði enginn yfir verðtryggingu þau árin.
Axel Jóhann Axelsson, 30.8.2010 kl. 18:25
Frá október 1998 fram í maí 1999 er verðbólga lítil ( Haardeman ) og aftur hálft árið 2003. Af Friðrik fer engum sögum en ef hægt er að þakka eða kenna Fjármálaráðherrum Íslands um verðbólgustig þá stendur Árni Mathiesen sig miklu betur en Friðrik og Geir Haarde en á hans tíma var verðbólgan hlutfallslega lægst.
Hitt er svo annað mál að stóll Fjármálaráðherra hefði alveg getað verið auður öll þessi ár og ekkert hefði farið öðruvísi en það fór. Þeir voru allir sofandi.
Einar Guðjónsson, 30.8.2010 kl. 18:51
Verðtrygging lána er dæmi sem ekki getur gengið upp til lengdar, ég held að það sé alveg ljóst af reynslu síðustu áratuga.
Enn beita menn þeim 'Ad hominem' rökum gegn þeim sem tala fyrir afnámi verðtryggingar að þeir vilji að aðrir greiði fyrir þá lán sín. Þessi röksemd færir þessa umræðu enn og aftur niður á lægra plan en hún á skilið.
Enginn talar fyrir því að sparifjáreigendur eigi að bera einhvern kostnað eða tap. En þeir eiga heldur ekki rétt á neinni sjálfvirkri prentun peninga af hendi skuldara, því það kerfi getur ekki gengið upp. Sparifjáreigendur hafa reyndar verið rændir og ruplaðir í gegnum áratugina, hvort heldur er með eða án verðtryggingar. Hver sá sem á fjármagn til ávöxtunar verður að vera ábyrgur fyrir því hvernig hann kýs að ávaxta sitt fé, hvort hann leggur það inn á innlánsreikninga, kaupir ríkisskuldabréf, hlutabréf, fasteignir eða hvað annað. Viðkomandi hlýtur að þurfa að vega og meta áhættu og væntan ávinning og taka sínar ákvarðanir út frá því. Í eðlilegu umhverfi verður út frá ákvörðunum fjármagnseigenda til nægilegt framboð fjár á lánsfjármarkaði þ.a. lántakendur sjái sér hag í að slá lán til sinna fjárfestinga. Einhvers staðar þarf svo að liggja jafnvægi sem virkar sanngjarnt fyrir báða aðila til lengri tíma litið. Slíkt jafnvægi næst ekki með þeim beltum og axlaböndum sem núgildandi verðtrygging færir fjármagnseigendum í hendur og slíkt jafnvægi næst ekki heldur með þeim föstu t.d. 2% vöxtum sem lífeyrissjóðir okkar (og Ríkið) lánuðu foreldrum og öfum okkar til þeirra fasteignakaupa fyrir daga verðtryggingarinnar með þeim afleiðingum að lífeyrissjóðirnir voru að hruni komnir. Jafnvægið hlýtur að þurfa að vera sveigjanlegt og það hlýtur að liggja þarna einhvers staðar á milli.
Axel, þú talar um hina fáranlega háu stýrivexti sem við höfum búið við og vaxtastig á almennum markaði. Stýrivextir dugðu aldrei sem stjórntæki til þess að draga úr verðbólgu, einfaldlega vegna þess að hækkun stýrivaxta hafði engin augljós og skyndileg áhrif á greiðslubyrði verðtryggðra lána þar sem verðbætur eru ekki staðgreiddar. Ef greiðslubyrði lána ræðst af sveigjanlegum óverðtryggðum og staðgreiddum vöxtum, þá slá hækkaðir stýrivextir nokkurn veginn strax á neyslu neytenda og þeir kaupa sér ekki flatskjá þann mánuðinn. Þannig minnkar eftirspurn og þensla hratt og svigrúm skapast til þess að draga til baka stýrivaxtahækkun. Í kerfinu hér sjá menn að stýrivaxtahækkun er ekki að virka til þess að slá á verðbólgu og gera þá hvað? Jú, hækka stýrivextina meira. Einhvern tímann sagði Davíð Oddson í Kastljósviðtali að ef meðal dygði ekki til þess að slá á einkenni sjúkdóms yrði stundum að auka við lyfjaskammtinn. Þetta sagði hann til þess að rökstyðja ákvörðun um hækkun stýrivaxta. En aukin meðalagjöf getur hæglega leitt af sér ófyrirséðar aukaverkanir og jafnvel ótímabæran dauða sjúklingsins!
Með verðtryggingu við lýði, munum við ekki sjá verðbólgu fara niður fyrir 4%, nema e.t.v. í undantekningartilfellum, e.t.v. einn mánuð með nokkurra ára millibili! Verðbólgumarkmið SÍ eru ekki að fara að nást á næstunni og alla vega ekki til langframa, eða er einhver svo bjartsýnn sem Seðlabankastjórinn að halda það?
Karl Ólafsson, 31.8.2010 kl. 00:51
Karl, ég fæ nú ekki betur séð en af reynslu síðustu áratuga sé alveg ljóst að verðtrygging innlána og þar með útlána sé það eina sem gangi upp til lengri tíma litið. Alla vega meðan við höfum hér stjórn efnahagsmála með þeim hætti að krónan rýrnar stöðugt.
Það hefur nú ekki verið mikið um stórfelld rán sparifjáreigenda síðan verðtryggingin ver tekin upp þó það hafi verið alsiða áður.
Þú segir að hver sá sem á fjármagn til ávöxtunar verður að vera ábyrgur fyrir því hvernig hann kýs að ávaxta fé sitt og það er alveg hárrétt hjá þér. Ef að hann á það á hættu að fá aðeins íbúðaverð til baka ef hann hefur lánað fyirir einbýlishúsi þá myndi nú sennilega hver sæmilega skynsamur fjármagnseigandi frekar kaupa bara einbýlið sjálfur.
Þannig var það hérna á árum áður að menn voru endlaust að fjárfesta í steinsteypu til að tapa ekki sparnaði sínum. Burstéð frá því hvort þeir þurftu að nota þessa steinsteypu eða ekki.
Með tilkomu verðtrygðra reikniga var orði hagkvæmara að geyma sparifé sitt í banka en í steinsteypu. Það gaf aftur bönkunum meiri tækifæri til að lána til arðsamra verkefna og til að koma góðum hugmyndum í framkvæmd.
Vextir hér eru hinsvegar óskaplega hári og stafar það af því að landinn er viljugri til að taka lán en spara. Sú árátta Íslendinga að kaupa núna og borga seinna (sem bankarnir kynntu óspart undir síðustu árin) veldur því eftirspurn eftir lánum en framboð á sparnaði og því eru vextir háir. Ég hef nú stundum sagt að allt fyrir ofan 5% raunvexti séu okurvextir.
Þú seir að í eðlilegu umhverfi verði til nægilegt framboð fjár á lansfjármarkaði. Vandamálið er að á Íslandi vilja flest allir taka lán og fáir spara og meðan það ástand varir er umhverfið ekki eðlilegt. Afleiðngin er eins og ég sagði áðan mjög háir vextir og markaðurinn ræðst af vilja sparifjáreigenda. Þeir sjá að sjálfsögðu enga ástæðu til að fara að auka eitthvað áhættu sína í útlánum. Það væri hreinlega óabyrgt af þeim.
Það er grundvallar atriðiði til að ná þessu jafnvægi sem þú talar um, að ná jafnvægi í eftirspurn og framboði á lánsfé.
Að kenna verðtryggingunni einni um að stýrivextirnir virkuðu ekki er svolítið billegt. Aðalástæaðn fyrir máttleysi stýrivaxtana var mikið framboð á ódýrum erlendum lánum til bankanna sem þeir komu svo áfram til viðskiptavina sinna með ólögmætum samningum eins og þekkt er orðið. Stýrivextir höfðu engin áhrif á þessi lánkjör. Þeir höfðu hinsvegar önnur og verri áhrif og það var aukin eftirspurn eftir jöklabréfum sem hafði svo aftur slæm áhrif á gengi krónunnar.
Landfari, 31.8.2010 kl. 01:38
Landfari,
Það eru þessi dæmi: "Ef að hann á það á hættu að fá aðeins íbúðaverð til baka ef hann hefur lánað fyirir einbýlishúsi þá myndi nú sennilega hver sæmilega skynsamur fjármagnseigandi frekar kaupa bara einbýlið sjálfur", sem eru billeg og til þess fallin að draga umræðuna niður í skotgrafirnar af því að það sé verið að fara svo illa með sparifjáreigendur. Það er einmitt kjarni minna röksemda að vaxtastig á að haldast í hendur við verðbólguna að vissu marki, en að baktryggja slíkt með verðtryggingu gengur ekki upp til lengdar. Fyrir þessu hef ég mörg fleiri rök en þau sem ég rakti í tiltölulega stuttri athugasemd áðan, en ég hef ekki tíma til að tína þau öll til hér. Ef þú skoðar gamlar færslur á bloggi mínu finnur þú nokkrar greinar sem ég hef skrifað um þetta síðustu 2 árin (ekkert endilega óumdeilanlega rétt að sjálfsögðu, heldur mín skoðun á málunum).
Fjármagn getur og mun rýrna, nema það sé ávaxtað með einhverjum hætti. Það að gulltryggja verðgildi fjármagns leiðir af sér ójafnvægi t.d. þegar kemur að kreppu eins og við erum nú að ganga í gegnum. Í kreppu kemur verðbólguskot, verðmæti eigna minnkar, verðgildi gjaldmiðils rýrnar, laun lækka, kaupmáttur lækkar o.s.frv. Í eðlilegu umhverfi lækkar þá líka raunverðgildi skuldar, t.d. húsnæðisskuldar. Með því er lánþeginn sem slíkur ekki að ræna lánveitandann og láta hann greiða fyrir sig lánið sitt, því verðgildi veðandlagsins er jú að rýrna að sama skapi, heldur eru hagstærðir einfaldlega að stillast af og leita nýs jafnvægis. Ef lán hækka til að mæta hruni annarra þátta í hagkerfinu stendur eftir gríðarleg ójafnvægissveifla, sem ekki er hægt fyrir lántaka að standa undir því um leið veldur kreppan því að tækifæri viðkomandi til að framleiða meiri peninga til þess að standa undir auknum skuldbindingum minnka verulega.
Stýrivextir virkuðu ekki heldur fyrir daga erlendra lána. Ég stend við mína fullyrðingu um það.
Þú segir að á Íslandi vilji flestir taka lán og fáir spara. Það er dálítið til í því og það er vissulega hluti vandamálsins. Aftur getum við hér kennt verðtryggingunni um að nokkru leyti. Verðtryggingin lætur lán líta ódýrt út þegar það er tekið, vegna tiltölulegra lágrar greiðslubyrði sem stafar af því að vextir lánsins eru ekki staðgreiddir. Í staðgreiðslukerfi vaxta (þ.e. óverðtryggðu kerfi) hefur fólk einfaldlega ekki efni á að taka eins há lán og sér það strax (og réttilega) áður en út í lánið er farið. Afnám verðtryggingar mun hjálpa okkur til að verða ábyrgari í lántökum. Ef við höfum ekki efni á að staðgreiða vexti láns, þá eigum við ekki að taka lánið. Og já, vextirnir eiga að vera sanngjörn leiga af fjármagninu að teknu tilliti til undirliggjandi verðbólgu. Verðtryggingarinnar er ekki þörf!
Karl Ólafsson, 31.8.2010 kl. 02:16
Vandamálið sem hefur hrjáð okkur hérna eru miklar sveiflur í verðbólgunni. Verðtryggingin lágmarkar áhættu lánveitanda og því getur hann lánað á lægri vöxtum en ella. Til að tryggja sig gegn sveiflunum þarf fjármagnseigandinn talsvert hærri vexti ef hann hefur ekki verðtrygginguna.
Ef húsnæðislánin hefðu verið óvertryggð en þá með breytilegum vöxtum þannig lántakandinn hefði þurft að taka skellinn allann í einu í stað þess að geta dreift honum á það sem eftir er lánstímans ættu fæstir af þeim sem á annað borð voru með íbúðalán íbúirnar sínar núna.
Erlendis er verðbólguþátturinn það lágur og stöðugur að það er mun einfaldara að hafa hann inni í vöxtunum en hér.
Mér finnst bara allt of algengt að menn kenni hér verðtryggingunni um allt sem miður fer. Þetta minnir helst á þegar allir gátu sameinast um að allar ófarir Íslendinga væru Davíð Oddsyni að kenna.
Það er fátt sem sameinar ólíka hópa eins vel og sameiginlegur óvinur. Nú er Dabbi farinn og þá grípa menn til vertryggingarinnar.
Vandmálið hjá okkur er stjórn efnahagsmála. Þegar sá þáttur kemst í lag lagast bæði krónan og verðbólgan. Að skipta út krónunni fyrir evru lagar ekki neitt því ástandið á krónunni er afleiðing en ekki orsök.
Þú færð aldrei neina sanngjarna vexti á frjálsum markaði þegar eftirspurnin eftir lánum er svona miklu meiri en framboðið. Á meðan það ástand ríkir eru það þeir sem lána sem ráða kjörunum á markaðnum. Skuldararnir verða að taka þeim kjörum sem bjóðast.
Landfari, 31.8.2010 kl. 16:35
Landfari, seint verðum við sammála, en það er í góðu lagi því það er um að gera að skiptast á skoðunum á málunum.
Svo við förum í gegnum sumt í síðustu athugasemd þinni, úr því við erum að þessu:
"Vandamálið sem hefur hrjáð okkur hérna eru miklar sveiflur í verðbólgunni. Verðtryggingin lágmarkar áhættu lánveitanda og því getur hann lánað á lægri vöxtum en ella. Til að tryggja sig gegn sveiflunum þarf fjármagnseigandinn talsvert hærri vexti ef hann hefur ekki verðtrygginguna"
Þetta held ég að sé öllum nokkuð ljóst, að vextir eiga að endurspegla undirliggjandi verðbólgu og skapa lánveitanda sanngjarna leigu af fjármagni sínu. Enn og aftur er einn gallinn við verðtrygginguna að hún er í raun vextir sem ekki eru staðgreiddir og það getur skapa lánþega veruleg vandamál þegar líður á lánstímann, sérstaklega í miklum sveiflum. Gleymum því ekki að sveiflurnar hér eru í raun eingöngu upp á við, við höfum ekki séð og við munum ekki sjá verðhjöðnunartímabil til lengri tíma en 1-2 mánaða í senn. Ef verðhjöðnun varir lengur fara menn af stað og tala um samdrátt og prenta peninga til að koma af stað smá þenslu og við erum aftur komin í verðbólgu 'all over again'. Þannig hefur þetta virkað og þannig mun þetta virka. Hversu háir vextirnir eiga hins vegar að vera, er annað mál.
"Ef húsnæðislánin hefðu verið óvertryggð en þá með breytilegum vöxtum þannig lántakandinn hefði þurft að taka skellinn allann í einu í stað þess að geta dreift honum á það sem eftir er lánstímans ættu fæstir af þeim sem á annað borð voru með íbúðalán íbúirnar sínar núna"
Hm, mér sýnast reyndar nokkuð margir vera búnir að glata öllum eignarhluta sínum í íbúðum sínum, eins og staðan er í dag vegna a) verðbólgu/verðtryggingar, b) gengisfalls. Þannig að þessi fullyrðing þín er umdeilanleg, auk þess sem ég reyndi að útskýra sýn mína á það hvernig breytilegir vextir eiga að virka til þess einmitt að slá lánþega utanundir þ.a. þeir fari ekki af stað og taki fleiri neyslulán á þenslutíma og kaupi sér flatskjá. Svo er rétt að ég taki það fram að ég samþykki ekki þá fullyrðingu sumra að vextir óverðtryggðra lána hér á Íslandi þurfi til allrar framtíðar að vera 10-15%, þ.e. að vextir hér muni alltaf þurfa að vera miklu hærri en í löndunum í kringum okkur sem við viljum gjarnan miða okkur við. Eða af hverju eigum við endalaust að sætta okkur við að vextir af íbúðalánum hér þurfi að vera 5-9%, og það ofan á verðtryggingu, þegar þeir eru 4-7% í löndunum í kringum okkur? Jú verðtrygging gerir greiðslubyrði slíkra lána sambærilega til skamms tíma, en er fólk virkilega ekki að sjá að lánþegi sem ekki getur staðgreitt vextina af láni sem hann ætlar að taka, hefur ekki efni á láninu? Hér er þörf á hugarfarsbreytingu heillar þjóðar, fjármagnseigenda jafnt sem lánþega.
Davíð Oddson. Hm. Ég ætlaði ekkert að gera hann að umfjöllunarefni, en rifjaði upp söguna um meðalaskammtinn af því að hún er mér í ljósu minni og ég bloggaði einmitt um þetta daginn sem hann sagði þetta.
Ég kenni Davíð ekki um allt sem miður fór og ég hef ekki gripið til verðtryggingarinnar bara af því að hann er farinn. Ég hef verið á móti verðtryggingunni síðan Sigtúnshópurinn var og hét, en það er önnur saga sem ekki verður rakin hér.
Hvað Davíð varðar þá hef ég lýst þeirri skoðun minni að hann hafi verið besti forsætisráðherra sem við höfum átt, en því miður réð hann hér ríkjum fram yfir síðasta söludag. Því verða eftirmæli hans dapurlegri en ella hefði orðið. En enn eru þeir til sem halda að hann geti átt hér endurkomu og bjargað okkur. Illa er þá fyrir okkur komið, ef hans er þörf.
"Vandmálið hjá okkur er stjórn efnahagsmála. Þegar sá þáttur kemst í lag lagast bæði krónan og verðbólgan. Að skipta út krónunni fyrir evru lagar ekki neitt því ástandið á krónunni er afleiðing en ekki orsök"
Og hversu lengi eigum við að láta á það reyna hvort stjórn efnahagsmála kemst hér í lag og þá verðbólgan? Og værir þú þá til í að afleggja verðtrygginguna endanlega ef slíkur stöðugleiki næðist? Við höfum nú lifað við verðtrygginguna sem plástur í 40 ár, hversu lengi enn? Sorrí, við höfum ekki þann tíma að bíða þessa stöðugleika, því það er nákvæmlega ekkert sem bendir til þess að hann náist hvað sem fagurgala Seðlabankastjóra líður. Við erum t.d. ekki að fara að sjá 2,5% verðbólgumarkmið SÍ nást í byrjun næsta árs, t.d. vegna nýrra fregna um orkuverðshækkanir, þar á eftir koma svo breyttar álögur ríkissjóðs í fjárlagagerð haustsins og svona heldur þetta áfram koll af kolli. Evran leysir ekki öll okkar vandamál á einni nóttu, það er öllum ljóst, en skelfing væri ég til í að kasta krónunni.
Og að lokum. "Þú færð aldrei neina sanngjarna vexti á frjálsum markaði þegar eftirspurnin eftir lánum er svona miklu meiri en framboðið. Á meðan það ástand ríkir eru það þeir sem lána sem ráða kjörunum á markaðnum. Skuldararnir verða að taka þeim kjörum sem bjóðast"
Kann að vera rétt hjá þér, en í þessum orðum þykir mér felast ákveðinn hroki. En ég spyr mig hvernig ástandið sé á markaðnum akkúrat núna? Ekki er fólk að kaupa bíla þessa dagana, ekki er fólk í hrönnum að byggja hús, eða kaupa fasteignir. Er eftirspurnin miklu meiri en framboðið þessa dagana? Maður heyrir sögur af því að bankarnir liggi fullir af reiðufé og láni ekkert út. Eiga fjármagnseigendur enn að ráða alfarið kjörunum? Það sem ég hef verið að tala fyrir er að fólk doki við og taki aldrei framar verðtryggð lán og taki aldrei framar lán sem það sér ekki fram á að ráða við að greiða af staðgreidda óverðtryggða vexti. Komum okkur í þá stöðu og sjáum þá hvort jafnvægi komist ekki smám saman á framboð og eftirspurn, vaxtastig og verðbólgu.
Karl Ólafsson, 31.8.2010 kl. 22:43
Það er einn stór ágalli á flestum þessum töflum, kökuritum og línuritum sem eiga að sýna hitt og þetta hvað launaþróun varðar, að þarna eru tekin heildarlaun allra hópa í þjóðfélaginu og þar af leiðandi eru þetta meðaltalstölur.
Einhver hefur lýst meðaltalsaðferðafræðinni þannig að ef þú stendur með annan fótinn frosinn í ísklumpi en hinn í sjóðandi vatni ertu að meðaltali staddur í stofuhita og hefur undan engu að kvarta.
Ég vildi sjá samsvarandi tölur fyrir láglaunahópa eins og afgreiðslufólk eða umönnunarstéttir. Hvort tveggja miklu mikilvægari stéttir en blóðsugurnar í bönkunum en samt alltaf með lúsarlaun.
Theódór Norðkvist, 31.8.2010 kl. 22:51
Theódór, ef við gefum okkur að balinn með vatninu og ísklumpurinn séu álika stórir þá er nú ansi heitt í stofunni hjá þér.
Karl, ég verð nú að vera ósammál þér um það að við séum ekki sammála því mér sýnist nú á skrifum þínum að við séum í meiginatriðum sammála þó okkur greini kanski á um útfærslu og leiðir.
Eins og þú réttilega bendir á þá er enginn að taka lán núna og peningarnir safnast fyrir í bönkunum. Hvað gerist þá? Íslandsbanki er að bjóða lán á 5,75% vöxtum óverðtryggt. ( http://www.islandsbanki.is/einstaklingar/lan/framkvaemdalan/ )
Maður fékk ekki svona kjör 2007 þó verðbólgan væri minni þá. Þá var eftrispurnin í algleymi.
Ég get að flestu leiti verið sammála þér um að það sé betra að staðgreiða vextina eins og þú kallar það en málið er að þegar þú tekur lán til margra áratuga geturðu ekki séð fyrir verðbólgusveiflur á tímabilinu og ekki heldur greiðslugetu þína.
Það er svo margt sem getur breytt laununum á kanski 40 ára atímabili. Það getur verið samdráttur og þú missir yfirvinnuna, veikindi eða slys. Svo kemur eitt verðbólguskot og vextirnir upp úr öllu valdi. Þá ræður þú ekki við afborganir á einhverju tímabili og verður að selja eða eitthvað þaðan af verra. Þá er mun betra að jafna þessu óvænta skoti á eftirstöðvarnar.
Hitt er svo annað að ef þú ert aflögufær með verðtryggða íbúðalánið þitt þá er mjög hagkvæmt að greiða það hraðar niður en samningurinn kveður á um.
Landfari, 1.9.2010 kl. 13:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.