Lífeyrissjóðirnir að bjarga Landsbankanum?

Kaup Framtakssjóðs Íslands á eignarhaldsfélaginu Vestia af Landsbankanum kom öllum á óvart, enda söluferlið allt hulið þoku og engar upplýsingar hvernig verðið var fundið út, en það nam um tuttugu milljörðum króna.  Í kaupunum á Vestia fylgdu átta stórfyrirtæki, sem öll höfðu nánast orðið gjaldþrota, en Landsbankinn yfirtekið og sett inn í eignarhaldsfélagið, sem séð hefur um að halda þeim í rekstri í fullri samkeppni við önnur fyrirtæki á markaðinum, sem ennþá hafa náð að halda sér á floti, þrátt fyrir mikla erfiðleika.

Eitt af þessum átta fyrirtækjum er t.d. Húsasmiðjan, sem Bónusgengið var búið að keyra í þrot, þannig að Landsbankinn sá sér ekki annað fært en yfirtaka fyrirtækið, væntanlega fella niður af því einhverjar skuldir og síðan hefur fyrirtækið verið rekið í grimmri samkeppni við Byko og Múrbúðina, sem ekki hafa notið sambærilegrar skuldaniðurfærslu og Húsasmiðjan.  Ekki þarf að fjölyrða um það, að eins og markaðurinn er núna, er enginn rekstrargrundvöllur fyrir Húsasmiðjunni og ekki mun ástandið batna, ef og þegar Bauhaus kemur inn á byggingavörumarkaðinn.

Óskiljanlegt er með öllu, hvers vegna Vestia auglýsti fyrirtækin ekki til sölu í opnu og gagnsæju ferli, þannig að öllum sem bolmagn hefðu til, gætu boðið í þau, jafnt innlendir sem erlendir aðilar.  Fulltrúar lífeyrissjóðanna segja að Vestia verði rekið áfram í óbreyttu formi og þegar tímar líða og fyrirtækin verði söluhæf, verði þau seld á opnum markaði, þannig að hlutverk Vestia sé óbreytt, þrátt fyrir sölu félagsins frá Landsbankanum til lífeyrissjóðanna.

Ekki er hægt að draga aðra ályktun af þessu einkennilega máli en þá, að þessi kaup lífeyrissjóðanna á Vestia hafi verið í þeim eina tilgangi að bjarga Landsbankanum frá nýju hruni, því tuttugumilljarða innspýting í bankann hlýtur að vera mikil vítamínsprauta, eftir dóm Hæstaréttar um gengislánin.

Allt flokkast þetta undir stefnu ríkisstjórnarinnar um opna og gagnsæja stjórnsýslu, þar sem allt er "uppi á borðum".


mbl.is Viðskiptanefnd fundi um kaupin á Vestia
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Menn verða nú að fara að ákveða hvort þeir vilja að lífeyrissjóðirnir fjárfesti á Íslandi eða ekki. Það er alveg ljóst að ef þeir fjárfesta þá verður það í fyrirtækjum sem þeir telja að þeir geti grætt á og það er líka alveg ljóst að ef þeir fjárfesta þá upphæð sem verið er að kalla eftir þá verða þeir stórir á markaðinum. Það þíðir ekki að kvarta þegar þeir kaupa og kvarta líka þegar þeir kaupa ekki.

Guðmundur Ragnar Rúnarsson (IP-tala skráð) 24.8.2010 kl. 16:53

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Skuldir útgerða eru miklar og flestar í Landsbankanum. Bæði Finnbogi Jónsson og Arnar Sigurmundsson eru- eða hafa verið tengdir stórum útgerðarfyrirtækjum.

Árni Gunnarsson, 24.8.2010 kl. 18:20

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það er allt gott og blessað við að Framtakssjóðurinn fjárfesti, en hann er að spila með fjármuni lífeyrisþega og því er lágmark að allar hans fjárfestingar séu yfir gagnrýni hafnar.  Þær þurfa að stuðla að uppbyggngu atvinnulífsins og þá helst framleiðslugreinanna og því vaknar spurningin um það, hvernig á t.d. að láta Húsasmiðjuna ganga í því ástandi sem fyrirséð er að verði ríkjandi á byggingamarkaði á næstu árum.  Hún mun ekki ganga, nema verulega hafi verið afskrifað af skuldum hennar og hafi hún af þeim sökum verið komin í rekstrarhæft horf, átti salan auðvitað að fara fram í opnu ferli, þannig að t.d. keppinautar hennar hefðu getað boðið í hana, en þeir hafa ekki notið neinna skuldaafskrifta.

Þetta er nú helsta ástæðan þess, að spurningamerki er sett við þetta allt saman.  Ef tilgangurinn var að bjarga Landsbankanum, átti bara að segja það, en ekki dulbúa gjörninginn.

Axel Jóhann Axelsson, 24.8.2010 kl. 18:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband