30.6.2010 | 08:24
Milljarðaköttur "bankaræningjanna"
Fjallað er um "viðskiptaveldi" Jóns Ásgeirs í Bónus, Pálma Haraldssonar í Iceland Express og félaga þeirra, í helgarblaði norska viðskiptablaðsins Dagens Næringsliv og farið ófögrum orðum um þá félaga, viðskiptahætti þeirra og það ljúfa líf, sem þeir stunduðu á annarra manna kostnað.
Sérstaklega er fjallað um sölu Sterling flugfélagsins fram og aftur milli þeirra Jóns Ásgeirs og Pálma, en gríðarlegur "hagnaður" myndaðist í þeim viðskiptum og eigið fé þeirra félaga óx og óx við hverja sölu, enda hækkaði flugfélagið um marga milljarða á nokkurra mánaða fresti, þangað til varð gjaldþrota, en það hafði það nú raunar verið allan tímann, sem braskið með það átti sér stað.
Dagens Næringsliv vitnar í ummæli breskra kaupsýslumanna um þessa viðskiptahætti og er það einhver besta lýsing, sem sést hefur, á "íslensku leiðinni" í viðskiptum, sem fundin var upp af Jóni Ásgeiri og ástunduð allt fram að hruni, þó allt væri í raun komið í óefni með "viðskiptaleiðina" a.m.k. tveim árum fyrr, þó svikamyllunni væri haldið gangandi fram í rauðan dauðann.
Breska lýsingin á þessum viðskiptaháttum er svona: Þú átt hund og ég á kött. Við verðleggjum dýrin á milljarð dollara hvort um sig. Ég kaupi hundinn af þér og þú köttinn af mér og nú erum við ekki lengur gæludýraeigendur. Nú erum við fjármálamenn með milljarð dala í eigið fé.
Í raun er ekki hægt að orða þetta betur og engu við þetta að bæta öðru en því, að Jón Ásgeir og Pálmi seldu hundinn og köttinn margoft á milli sín og bjuggu þannig til ennþá meira "eigið fé".
Íslenska gæludýraleiðin var með stærri svikamyllum sem sögur fara af í viðskiptalífi veraldarinnar og nú er verið að gera það dæmi upp hjá Sérstökum saksóknara.
„Bankaræningjarnir“ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Og svo á að taka egnir þeirra úr frystingu!
Sigurður Haraldsson, 30.6.2010 kl. 08:49
Það er vegna þess að þegar lögin um kyrrsetningu eigna voru samþykkt í vor, "gleymdi" ríkisstjórnin að láta þau gilda um skuldir vegna virðisaukaskatts, en málið sem þessi niðurfellda kyrrsetning snerist um, var einmitt vegna gruns um undandrátt á virðisaukaskatti.
Axel Jóhann Axelsson, 30.6.2010 kl. 08:53
...kallað Ponsi scam og er fyrir löngu búið að finna upp hjólið í þessu. Svona svindl og svona rannsókn er hvergi til í heiminum nema á Íslandi. Menn sem brjótast inn 5 sinnum á hálfu ári lenda í síbrotagæslu. Ef þetta eru ekki síbrot, þá er hugtakið merkingalaust. Nota frekar "Fínt-brot" og "Ljótt-brot" í staðin. Bankarán eru "Fínt-brot", þó þau séu endurtekin tuttugu sinnum í mánuði um allan heim....
Óskar Arnórsson, 30.6.2010 kl. 08:53
Mér tókst að finna greinina með því að leita á google að avis.dn.no bankrånerne.
Kannski getur þú gefið lesendum þínum beina slóð á "lesninguna" ?
Agla (IP-tala skráð) 30.6.2010 kl. 08:59
Agla, greinina í heild má sjá hérna
Axel Jóhann Axelsson, 30.6.2010 kl. 09:24
Kærar þakkir, Axel.
Agla (IP-tala skráð) 30.6.2010 kl. 09:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.