25.6.2010 | 08:55
Landsfundur hafni ESB og kveðji aðildarsinna endanlega
Allt útlit er fyrir að hart verði tekist á um ESBmál á landsfundi Sjálfstæðisflokksins nú um helgina, en mikill minnihluti flokksmanna styður aðild að sambandinu. Sá minnihluti hefur verið að gera sig gildandi undanfarið með stórkarlalegum yfirlýsingum um hættu á klofningi flokksins, ef harðorð ályktun verði samþykkt gegn því að Ísland láti innlima sig sem hrepp í væntanlegt stórríki Evrópu.
Einungis Samfylkingin hefur fullveldisframsal til Brussel á stefnuskrá sinni, en Framsóknarflokkurinn samþykkti á sínum tíma, að hann gæti fellt sig við innlimunina, að svo ströngum skilyrðum uppfylltum að það jafngilti höfnun, en VG hefur alfarið ályktað gegn ESB, þó ekki hafi verið farið eftir þeirri stefnumörkun undanfarið.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur talið að hagsmunum Íslands sé best borgið utan ESB, án þess þó að geirnegla þá afstöðu í landsfundarsamþykktir, þannig að aðildarsinnar hafa haft nokkuð frítt spil innan flokksins til að ástunda áróður fyrir hugsjónir Samfylkingarmanna innan félaga og stofnana flokksins.
Nú verður Sjálfstæðisflokkurinn að negla niður kýrskýra afstöðu gegn öllum tilburðum til innlimunar Íslands i stórríkið og þeir, sem fram að þessu hafa talið sig til flokksmanna, en geta ekki fellt sig við þá stefnu, gangi þá til liðs við þann flokk, sem myndi taka fagnandi öllum þeim, sem tilbúnir eru til að framselja hluta af fullveldi landsins til erlendra aðila.
Sjálfstæðisflokkurinn má ekki og getur ekki komist hjá því að láta sverfa til stáls í þessu stóra og afdrifaríka máli og ekki láta hótanir um klofning koma í veg fyrir afdráttarlausa sjálfstæðisyfirlýsingu á landsfundinum. Sá fámenni, en háværi hópur, sem ekki sættir sig við það, fer þá bara sína leið, þangað sem hann á betur heima.
Meirihluti þjóðarinnar er alfarið á móti aðildarumsókninni að ESB og hana ber að draga til baka strax og ekki eyða meiri tíma og peningum í "bjölluatið í Brussel", eins og það hefur verið kallað. Fari einhverjir úr Sjálfstæðisflokknum við afgerandi afstöðu landsfundar gegn ESB, þá munu margfalt fleiri koma til liðs við flokkinn, taki hann skýra og afdráttarlausa forystu gegn fullveldisafsalinu.
Nú er kominn tími til að láta sverfa til stáls ef á þarf að halda. Það væri þá bara liður í að skýra línur í íslenskri pólitík og koma Sjálfstæðisflokknum aftur í það forystuhlutverk um mótun íslenskrar framtíðar, sem hann hafði svo afgerandi áður fyrr.
Þessi helgi veður að vera algert uppgjör á milli stefnu Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar.
Búist við átökum um ESB á landsfundi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mikið er ég sammála þér.
Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 25.6.2010 kl. 09:04
Ég tel stærð þessa ESB-hóps innan Sjálfstæðisflokksins ofmetna. Það sem gerir þennan hóp svona stóran í augum einhverra, er það að, fulltrúar þessa hóps hafa haft greiðan aðgang að "ESB-miðlunum", Eyjunni Fréttablaðinu, DV og Pressunni.
Það reyndar vekur athygli mína, að þessir miðlar, hafa ekki lagt sig eftir því að ímynda sér hugsanlegan ágreining á flokksráðsfundum stjórnarflokkanna, þar sem að með sanni ríkir meiri og grimmari ágreiningur, í það minnsta innan VG, auk þess sem að óænægja er með nokkra ráðherra Vg innan Samfylkingar, eins og t.d. Jón Bjarnason og Álfheiði Ingadóttur.
Ákveðnustu hótun um úrsögn sem að ég hef séð, er á bloggi Guðbjörns Gunnarssonar, operusöngvara og starfsmanns Tollstjóra. Þar segir hann það hreint út, að tapi hans sjónarmið og þeirra sem að vilja sækja um aðild að ESB, þá segi hann og fleiri sig úr flokknum og stofni nýjan hægri flokk. Síðan koma einhverjar "fabúleringar" um það hversu stór hluti flokksins myndi segja sig úr flokknum og hversu stóran hluta af fylgi Sjálfstæðisflokksins, slíkur flokkur myndi ná í kosningum.
Þessar "fabúleringar" skauta alveg framhjá þeirri staðreynd, að fylgismönnum ESB mun ekkert fjölga, við stofnun slíks flokks. Auk þess sem að Guðbjörn tekur ekki með í sinn reikning, "líklegar" ástæður fylgishruns Sjálfstæðisflokksins í síðustu þingkosningum. Í þeim kosningum fór meðal annars fylgi af Sjálfstæðisflokknum yfir til Samfylkingar, vegna ESB. Reikna má með því að þeir "hægri menn" sem kusu Samfylkinguna þá vegna ESB, muni frekar kjósa flokk Guðbjörns og taka þá fylgi af Samfylkingu. Einnig var töluvert um fólk, sem hafði áður kosið Sjálfstæðisflokksins, sem að kaus VG, vegna þess að það vildi "refsa" flokknum fyrir hrunið, en máttu ekki heyra á ESB minnst, þannig að Vg var illskárri kostur en Samfylking.
Brotthvarf þessra ESB-sinna, myndi til lengri og skemmri tíma, gagnast flokknum frekar en hitt. Það gerði flokksstarfið enn árangursríkara og stefnumótunina enn skýrari og gerði flokkinn enn skýrari kost í kosningum.
Kristinn Karl Brynjarsson, 25.6.2010 kl. 09:31
Kristinn, alveg er ég sammála því, að ESBsinnar í Sjálfstæðisflokknum er tiltölulega fámennur hópur, þó hann sé að reyna að gera sig breiðan núna fyrir landsfundinn. Það á ekki að vera að hafa áhyggjur af þeim, þeir fara þá bara úr flokknum og verður lítið saknað.
Nú þarf Sjálfstæðisflokkurinn að skerpa áherslur sínar og setja fram skýra stefnu í helstu málefnum, sem í brennidepli eru um þessar mundir í þjóðfélaginu. Allir flokkar hafa verið í ákveðnu miðjumoði og stefnurnar orðnar svo líkar, að fólk er farið að líta á þá nánast eins og einn flokk og farið að tala sífellt um "fjórflokkinn" og finnst þetta allt vera eins, svo sama sé orðið hvern þeirra það kýs.
Hluti af þeirri endurnýjun, sem þarf að verða í íslenskum stjórnmálum er að skýra stefnumálin, hafa þau ákveðin og afdráttarlaus um menn og málefni og standa svo og falla með stefnuskránni. Almenningur vill skýrar áherslur og miklu betra fyrir Sjálfstæðisflokkinn að vera laus við ESBsinnana og standa harður gegn innlimuninni og fullveldisafsalinu og stuðningur við flokkinn myndi aukast við slíka stefnumótun.
Axel Jóhann Axelsson, 25.6.2010 kl. 11:18
Þeir örfáu Sjallar sem er á móti stofnhugsjón flokksins þurfa ekki nýjan flokk utan um það málefni, þeir geta einfaldlega gengið í hinn hægriflokkinn: Samfylkinguna! ;)
Guðmundur Ásgeirsson, 26.6.2010 kl. 12:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.