Við Íslendingar erum lánaglöð þjóð

Íslendingar hafa lengi verið lánaglöð þjóð og flestir tekið öll þau lán, sem mögulegt hefur verið að komast yfir, með þeirri gömlu góðu röksemd, að þetta "reddist einhvern veginn".  Þessi lánagleði virðist vera orðinn hluti af þjóðarsálinni, eins og Prince Polo og vera arfur frá fyrri hluta síðustu aldar, en þá var það hverjum manni mikið lán, að komast yfir lánsfé, enda brann það fljótt upp í þeirri óðaverðbólgu, sem einnig er orðin hluti af tilverunni eins og pólska súkkulaðikexið.

Það hefur löngum verið sagt, að nágrannaþjóðir okkar kaupi sér allt það, sem þær geta sparað fyrir, en við Íslendingar kaupum allt, sem mögulegt er að fá lánað fyrir, enda íslensk heimili þau skuldugustu í heimi.  Á þeim tiltölulega fáu árum, sem erlendu lánsfé var ausið takmarkalaust inn í landið, var enginn maður með mönnum, sem ekki keypti sér dýran bíl, húsvagn o.fl. "nauðsynjar" með gengistryggðum lánum og var hugsunin sú, að "græða" á lágu vöxtunum, þrátt fyrir að allir vissu að stór gengisfelling væri í farvatninu og hefði ekki þurft neitt "hrun" til þess.

Nú eru þeir allra óvarkárustu í fjármálum með pálmann í höndunum, eftir að Hæstiréttur felldi þann dóm, að ekki einn einasti lögfræðingur landsins skildi lög um fjármálagerninga, en allir lánaskilmálar eru samdir af lögfræðingum og blessaðir af öðrum lögfræðingum hjá sýslumannsembættum og Fjármálaeftirliti.  Eftir dóminn þarf enginn að greiða nema hluta af verðmæti upphaflegs höfuðstóls með mjög lágum vöxtum.  Annan eins happdrættisvinning hafa skuldarar þessa lands ekki fengið, síðan land byggðist og una nú allir glaðir við sitt, aðrir en þeir sem lánuðu peningana og tapa á því gríðarlegum upphæðum.

Í þessu tilviki sannast hið fornkveðna, að það er mikil blessun og mikið lán, að hafa tekið gengistryggt lán.


mbl.is Bruðlurum bjargað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

Því miður - enn og aftur - hefur Pétur rétt fyrir sér.

Ólafur Ingi Hrólfsson, 23.6.2010 kl. 08:56

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Pétur Blöndal er einn allra besti þingmaður þjóðarinnar um þessar mundir.

Axel Jóhann Axelsson, 23.6.2010 kl. 08:58

3 Smámynd: Einhver Ágúst

Mikið er ég sammála þér í þessum málum, við erum lánasukkarar sem eigum erfitt með að umgangast fé......já hann Pétur er sko alls ekki alslæmur og oft hugrakkur í ummælum sínum enda ekki hlotið mikið brautargengi innan síns flokks.

Það borgar sig ekki að vera heiðarlegur í Íslenskum stjórnmálum, en það er nú að breytast...ég lofa...hehehe

KvÁgúst

Einhver Ágúst, 23.6.2010 kl. 10:15

4 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Hvernig í ósköpunum getur þú dæmt alla þá sem tóku gengistryggð lán sem þá alla óvarkárustu? Það er rétt að Íslendignar mættu vera duglegri að leggja fyrir. En þessi lán voru lengst af mun hagstæðari en hinu verðtryggðu lán (sem eru líklega ættuð úr helvíti) og eru svo einstök að Íslendingar eru þeir einu í heiminum fyrir utan Brasilíu sem hafa þann óskapnað. Lántakendur sem tóku þessi lán og þú og Pétur Blöndal talið svo mjög niður til eru flestir venjulegir Íslendingar sem vildu stíga út úr verðtyggingarskrýmslinu, oftast nær að ráði sérfræðinga (bankamanna svo ótrúlega sem það hljómar). Þarna voru samt örugglega fjármálasukkarar eins og gengur. Með gengistryggðu lánunum sá fólk (líka venjulegt fólk Axel) fyrir að geta greitt lánin sín raunverulega niður (verðtryggt 40 ára íbúðalán þýðir greiðslu vaxta og verðbóta í ca 25 ár áður en innborgun inn á höfuðstól hefst) og það er nákvæmlega ekkert, EKKERT er að því að fólk reyni að bjarga sér og greiða lánin sín upp hraðar. Hinn venjulegi Íslendingur gat hins vegar ekki séð fyrir sér að heilt efnahagskerfi hryndi til margra ára. Eftir stendur að gengistryggðu lánin hafa verið dæmd ólögleg. Það er ekki lögfræðingar allra landsmanna sem áttu að hafa eftirlit með því að bankar lánuðu ólöglega heldur FME. Svo einfalt er það.

Guðmundur St Ragnarsson, 23.6.2010 kl. 10:46

5 identicon

Þetta var allt saman rétt hjá Pétri í greininni.

Axel það er rétt, það er þjóðarmein Íslendinga hvað þeir fara illa með fé. Fólk er alltaf að reyna að kaupa hluti sem það hefur einfaldlega ekki efni. Þó maður geti fengið lán í banka vegna slælegra vinnubragða við greiðslumat þá þýðir það ekki að maður geti endilega greitt það til baka. Í tiltölulega frjálsu þjóðfélagi ber fólk ábyrgð á sínum gerðum og getur ekki vísað til þess að allir aðrir hefðu átt að hugsa fyrir það.

Guðmundur St.: Gengistryggðu lánin voru ekki hagkvæmari kostur vegna þess að þeim fylgdi stórkostlega áhætta. Það verður alltaf að taka áhættuna með í reikninginn. Menn geta ekki komið eftirá og sagt að ákvörðun hafi verið góð og rétt af því þeim leið þannig þegar lánið var tekið. Gífurlegt innflæði gjaldeyris 2002-2007 með tilheyrandi styrkingu krónunnar hlaut að leiða til útflæðis og gengisfalls síðar.

Þrátt fyrir ofansagt er ljóst að ef gengistryggð húsnæðislán verða líka dæmd ólögleg þá er sá hluti þjóðfélagsins sem þau fékk búinn að græða svo mikið (Þ.e. ef vaxtaskilmálum verður ekki eitthvað breytt) að ekki er hægt að skilja verðtryggingarfólkið eftir með allt sitt. Hugsast getur að menn verði að skera eitthvað af höfuðstól verðtryggðra lána, en jafnframt að láta verðtrygginguna halda áfram eftir það. Það eru engar skynsamlegar forsendur til þess að afnema hana, því ef við afnemum lánastarfsemi banka og greiðslumiðlun þá afnemum við líka nútíma þjóðfélag og atvinnulíf. Svo einfalt er það hversu illa sem sumir skilja það.

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 23.6.2010 kl. 11:09

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það er ekki verið að tala niður til nokkurs manns þó það sé kallað óvarkárni að taka erlend lán, eða gengistryggð, þegar allir vita að gengisfelling er framundan, búið var að spá 30-40% gengislækkun, enda hafði krónan verið allt of hátt skráð í langan tíma.  Sumir áttu reyndar von á meira falli, þó enginn hafi reiknað með eins miklu gengishruni og raunin varð.  Sú spá, sem þó var höfð uppi um "gengisleiðréttingu" hefði átt að fæla alla frá því að taka a.m.k. stutt erlend lán (til nokkurra ára) t.d. til bílakaupa.  Þó bankamenn hafi mælt með þessum lánum voru margir aðrir, sem vöruðu við þeim, t.d. Seðlabankinn, a.m.k. seðlabankastjórinn brottrekni, Davíð Oddson, og það oftar en einu sinni.

Fólk þarf ekki að taka verðtryggð lán til 40 ára sem jafngreiðslulán, því slík lán buðust líka með jöfnum afborgunum, alveg eins og erlendu lánin og þannig var hægt að lækka höfuðstólinn hraðar þó tekin væru lán í íslenskum krónum.  Það þarf að skoða þessi mál frá öllum hliðum, ekki síst hvernig lán eru í boði og sögu allra gerða af lánategundum, áður en menn binda greiðslubyrði sína til fjörutíu ára.

Lögfræðingar áttu í sjálfu sér ekki að hafa eftirlit með útlánum fjármálafyrirtækjanna, en hefði ekki mátt búast við því að a.m.k. einn lögfræðingur á öllu landinu hefði haft þá þekkingu á gildandi lögum um verðtryggingu lána, að hann hefði a.m.k. véfengt lánaskilmála, sem honum sjálfum voru boðnir og skrifaði undir athugasemdalaust.

Þar fyrir utan er gengistrygging ekkert annað en verðtrygging, þó hún heiti öðru nafni.  Eða hélt virkilega einhver að hún þýddi eitthvað annað?

Axel Jóhann Axelsson, 23.6.2010 kl. 11:12

7 Smámynd: Júlíus Valdimar Finnbogason

Takk fyrir fínan pistil Axel sem ég er að mestu leyti sammála þér um.

 Mig langar að beina ummælum mínum að Guðmundi sem virðist vera í afneitun hvað landan varðar. 

Nú ætla ég að benda á staðreyndir sem ég sjálfur upplifði. 

Fyrst ætla ég að taka fram mína stöðu; Ég og mín kona bjuggum í búseta íbúð og vorum með lán fyrir því, ekki hátt en lán og það var íslenskt lán og enginn erlend mynt.
Við áttum 2 gamla bíla. 2 já því ég vann sjaldan á sama stað enda í verkefnum í Hafnarfirði, Borgarfirði, uppi á heiði o.sfrv. Ég keypti mér gamlan bíl á 10,000 ISK til að snattast á milli. Bíllinn sem frúin átti var ´91 model og virkaði vel.

Við áttum ekki mikið en það dugði okkur. 

Reglulega komu fjölskylda og vinir við hjá okkur og státuð sér af nýja bílnum, nýja fellhýsinu, sumir nýjum húsbíl, aðrir á leið í nýja bústaðinn sinn og sumir nýkomnir úr 3 vikna leyfi frá framandi löndum. 

Auðvitað blundaði viss öfund hjá manni. Ég var alveg til í að eiga þessa fínu hluti og geta leyft mér utanlandsferðir en ég gat það ekki og þar við sat. 

Síðan fór þetta fólk að segja, "hva" þetta reddast maður, alveg eins og Axel benti á, allir að bjóða þessi fínu erlendu lán núna, bara skellir þér á eitt og færð þér jeppa og við skreppum upp á jökul. Verður geggjað. Ég glotti, kinkaði kolli en sagði; nei, veistu ég ræð bara ekki við það. 

Þá gjall í hinum, heyrðu, þú dreifir bara greiðslunni, færð þetta svo í erlendri mynt sem er snilld. Já, segi ég, en ég er bara ekki tilbúin að taka þessa áhættu útaf krónunni. Svona gekk þetta stundum í yfir klukkutíma. 

Á endanum hætti fólk að ræða þetta við mig og sumir, reyndar mjög margir hættu að bjóða okkur að koma með enda við varla þess verð að koma með enda bara á gömlum bíl með 3ja manna kúlutjald. 

Ég fann gríðarlega fyrir þessu, hvernig fólk leit niður á okkur útaf því að við vorum ekki tilbúin að taka þátt í því sem fór fram. Þetta var 2004 nota bene, þá var mikið byrjað. 

Ég sagði við það fólk sem ég þekki; "allt sem fer upp kemur aftur niður", bjóst ég við svona hruni? Nei, það er einfalt en mér fannst það segja sig sjálft að það yrði eitthvað hrun. 

Ég veit um fólk sem tók lán fyrir laxveiði því Jón nágranni fór í lax og Pétur gat ekki verið minni maður(nöfnin eru skáldskapur). Ég veit um einn sem fór 2007 í lax og er ennþá að borga lánið. Nei, þetta er sennilega ekki að slá um sig og eyða efnum fram. 

Þetta er ekki eina dæmið. Ætlar þú Guðmundur að segja mér það að allir þeir sem keyptu húsbíla, fellihýsi, bústaði, veiðiferðir, heimabíó, of stórt húsnæði í fínu hverfi og að ógleymdum öllum utanlandsferðum hafi verið borgunar fólk fyrir þessu? Eigum við að ræða geðveikina að gefa börnum leiki í"skóinn" á 3 degi að verðmæti 10,000? Hvað varð um að sníða sér stakk eftir vexti? Fólk á Íslandi er í bullandi samkeppni og endalaus metingur í gangi að það er sjúkt. Hvers vegna að kaupa Nike Air skó handa barni sem getur ekki gengið og kostar 6000-10000 ISK? Hvers vegna? Einfalt, stöðutákn og ég segi það og skrifa að sá sem segir annað er hræsnari, það er hreint kjaftæði að kaupa 10 þúsund krónu skó handa 2 mánaða gömlu barni, sérstaklega ef þú þarft að velta því á kreditkortið. 

Af hverju varð fólk að eiga 2 glænýja bíla þegar báðir eru á lánum? Helst Jeppa og svo að sjálfsögðu var Lexus gríðarlega vinsæll á vissum tímapunkti. 

Ég fékk nóg, fékk gjörsamlega nóg af hrokanum í fólki og þá á ég ekki við fjölskyldu og vini heldur fólkið. Ég keyrði í Smáralind eða Kringluna og þegar maður steig útúr bílnum þá horfði fólk á mann eins og maður væri einhver aumingji, sumir sögðu; "flottur bíll" og flissuðu. 

Ég fékk ekki bara nóg, mér leið hreinlega illa og ég var í raun reiður yfir framkomu fólks því mér fannst ég ekki eiga þetta skilið. Það var litið niður á mig af þeirri ástæðu einni að ég neitaði að taka þátt í útþennslunni. Hvað segir það um fólk sem hagar sér svona gagnvart öðrum? Svo gagnrýnir fólk mig fyrir að vera hægrimann. Ég hef aldrei hlegið af stöðu fólks í samfélaginu, mér finnst það lágkúrulegt. 

Ég upplifði mjög óskemmtilega reynslu og get alveg sagt það að mér sárnaði þetta og ég varð gríðarlega bitur út í hrokan sem átti sér stað í íslensku samfélagi. 

Við frúin ákváðum að við gætum því ekki búið í íslensku samfélagi og fluttumst brott í ágúst 2005. 

Við höfum haldið áfram að vinna hörðum höndum til að eignast okkar hluti með því að borga þá. Við kaupum ekki sjónvörp, tölvur eða annan búnað á raðgreiðslum og t.d. eignuðumst við okkar fyrsta flatskjá fyrir um hálfu ári síðar, ekki á raðgreiðslum. 

Við erum samt eins og venjulegt fólk, við eigum littla blokkaríbúð og erum með húsnæðislán. Erum með lítið bílalán sem við höfum reynt að leggja xtra inná til að losna við það enda er það að klárast og svo einn gamlan bíl(skuldlausan) sökum þess að við höfum ekki sama vinnutíma og samgöngur eru með verra móti þar sem við búum. Bílarnir okkar eru 1995 og 2002 módel, við erum flott í taujinu.

Ég og mín kona höfum það gott. Við elskum hvort annað og þurfum ekki að taka lán til að veita okkur hamingju(ef það að kaupa sér hamingju er að hafa húnsæðislán og örlítið bílalán þá eru sennilega flestir að kaupa sér hamingju). Við erum nægjusöm en kaupum okkur samt hluti og munað þegar við höfum efni á því. Í dag er staða mín önnur en á íslandi  og ég gæti gert það sama og þetta fólk sem ég ræddi um og keypt mér jeppa, fellihýsi o.sfrv en ég ætla ekki að gera það.
Ég vil samt taka fram að ég er ekki gallalaus, síður en svo. Ég t.d. eyði stundum alltof miklu í mat, kaupi mér kannski skyndibita sem ég ætti að sleppa. Eða kaupi dýrara bensín o.sfrv.
Ég er að vinna í þessum málum og reyni að hætta að eyða í svona rugl og gera mér frekar matpakka heima kvöldið áður. Bara spurning um að skipuleggja sig og hætta að bruðala

Ég þarfnast þess ekki og ætla ekki að botnsetja mig í skuldum fyrir eitthvað tæki.Stundum langar manni auðvitað í allt en þá ræðum við konan yfirleitt málin og komumst að þeirri niðurstöðu að það sé ekki gáfulegt.
Eg mun kannski veita mér húsbíl síðar en þá verður líka safnað miklu upp og svo keyptur notaður bíll á viðráðanlega verði og ekki verður þetta gert nema að einungis húsnæðislán verði til staðar.

Ég býr erlendis í dag og mun halda því áfram enda líður mér vel hérna og ég er ekki dæmdur fyrir að vera ekki í merkjafötum eða keyra um á gömlum bíl. 

Það sorglegasta er að ég sagði að þetta mundi ekki halda svona áfram, þ.e.a.s. hversu æðislegt var að búa á Íslandi (segi það aftur, bjóst samt ekki við svona hruni en bjóst samt við hruni) og nú í dag segja Íslendingar; "já þú varst heppinn að flytja" Bíddu, heppinn, ég tók ekki þátt og ákvað að flytjast brott sökum þess hvernig fólkið var orðið sem og að ég sá ekki neina framtíð á Íslandi og mér fannst útþennslan rugl. 

Þið getið kallað mig hrokafullan ef þið viljið en ég er á þeirri skoðun að ég hafi einfaldlega hugsað fram á við og neitað mér um hluti sem ég hefði hvort sem er ekki átt því þetta hefði allt verið á lánum. 

Bara til að það sé á hreinu Guðmundur að það var fullt af fólki sem veitti sér hina ýmsu hluti og lánin voru það mikil að laun beggja aðila rétt dugðu og ekkert mátti útaf bregða. Ef það kom skyndilega að tannlækni þá varð að nota kreditkort svo knapt lifðu margir. Að þræta fyrir það er fáránlegt og ég upplifi það að fólk sem átti þessa jeppa og alla hina fínu hlutina kenna x-D og bönkunum um eigin heimsku. Margir voru að lifa á lánum og með kannski 500 þúsund í neyslulán og það mátti ekkert útaf bregða til að illa færi. Þetta fólk hugsaði ekki, spilaði sig stórt, hafði ekki efni á því og kennir síðan öðrum um, þetta kallast hræsni og ekkert annað og eftir það sem ég upplifði þegar ég bjó á Íslandi þá hef ég littla sem enga samúð með svona fólki, því miður.
Ég veit um tugi dæma þar sem fólk spilaði sig eins og kónga en er að súpa seiðið af því í dag. Það er staðreynd og þetta fólk þykist ekki hafa eytt efnum fram því laun beggja rétt mörðu lánin, c´mon, er fólk svona ótrúlega vitlaust?

Þú veist þetta Guðmundur, ég neita að trúa öðru!

Ef þessi póstur er kominn út í einhverja þvælu þá biðst ég afsökunar á því en mig langaði bara að koma þessu frá mér og vona að það sé í lagi Axel. 

 Mbk, 

Júlíus Valdimar Finnbogason, 24.6.2010 kl. 07:47

8 Smámynd: Einhver Ágúst

Takk fyrir frásögnina Júlíus, mjög fínt að fá svoan persónulegt sjónarhorn og einlæga frásögn.

Kv frá Íslandi Ágúst Már

Einhver Ágúst, 24.6.2010 kl. 09:22

9 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Sælir félagar,

Af því að Júlíus virðist beina spurningum til mín í sínum pistli skal ég segja þetta: Ég sagði að vissulega eru margir Íslendingar sem fóru fram úr sér og örugglega spiluðu sig eins og kóngar. Svo má kenna litlu fjármálaleysi margra Íslendinga um og agaleysi. En af hverju að dæma alla? Af hverju dettið þið í það far og þá er ég að tala bæði til pistalhöfunar og Júlíusar Liverpool bróður. Skilur fólk ekki að það var líka "venjulegt" "ábyrgt" fólk sem tók þessi lán. Við erum að tala um tugi Íslendingar. Voru þeir allir bara ábyrðarlausir vitleysingar? Nei auðvitað ekki. Þeim var sagt það af bankasérfræðingum þess tíma (sem hljómar sem öfugmæli í dag) að þessi gengistryggðu lán væru hagkvæm. Þau voru líka í raun miklu mun hagkvæmari heldur en verðtryggðu lánin jafnvel þrátt fyrir að krónan veiktist talsvert mikið en auðvitað ekki ef krónan hryndi eins og raunin varð. Ég er ekki sérfræðingur á þessu sviði en þetta hefur margoft komið fram. Það má jafnvel rökstyðja að það sé meiri áhætta að taka verðtryggt íbúðalán á Íslandi (80.000% verðbólga síðan 1980). Ég er sjálfur með gengislán á bílnum mínum en verðtryggð íbúðalán. Miðað við óbreyttar forsendur mun íbúðalánin aldrei verða greitt niður. Það er siður í flestum löndum að lán eru greidd niður. Hin ömulega verðtrygging hér á landi gerir það erfitt og oft ómögulegt. Verðtryggingin er mesta fjármálaböl Íslandssögunnar.

 Annars er pistill þinn Júlíus langt í frá að vera þvæla eða hrokafullur en aftur: ekki dæma alla Íslendinga sem tóku gengistryggð lán fyrir að vera ábyrðarlausir vitleysingar. Það er langt í frá. Ég starfaði sem lögg. fasteignasali og sá um marga kaupsamninga venjulegs fólks sem keypti eignir sínar með gengistryggðum lánum eftir ráðgjöf sérfræðinga og án þess að áhættan væri talin mikil. Átti fólk að vita að efnahagshrun væri yfirvofandi á Íslandi.  Að gefnu tilefni vil ég taka fram að ég á ekki tjaldvagn eða fellihýsi, ég keyri um á Toyota Corolla og á venjulegt túpusjónvarp. 

Guðmundur St Ragnarsson, 24.6.2010 kl. 14:51

10 Smámynd: Júlíus Valdimar Finnbogason

Ég er ekki að dæma alla en marga.

Einfaldlega af því að margir og meirihluti þeirra sem ég þekki, þeir þekkja o.sfrv fóru flest öll sömu leið, stærri húsnæði í fínna hverfi, bílar, fellihýsin svo eitthvað sé nefnt.
Sumir sem ég veit um gengu svo langt að fá foreldra til að leggja inn á reikninga af sínum reikningi til að búa til falskar innistæður svo það fengi hærri húnsæðislán. Finnst fólki það eðlilegt?

Það sem fer í mig er það að fólk geti ekki viðurkennt sín mistök. Er það í alvörunni svona erfitt eða skammast fólk sín svona rosalega?

Við töpuðum hlutabréfum í Glitni. Kennum við bankanum um? Ásgeiri? Björgúlfi? Nei það gerum við ekki því ef maður á hlutabréf þá er eins gott að gera sér grein fyrir því að þau geta tapast á einni nóttu. Þessi bréf voru gjöf til konunnar á sínum tíma og voru metinn hátt. Við litum á þau sem áhættu sparnað og auðvitað var súrt að tapa þessu en við vissum áhættuna og engum öðrum um að kenna nema okkur sjálfum. 

Ég mun aldrei leggjast svo lágt að kenna öðrum um það sem við vissum að væri áhætta. Það var fullt að fólki sem tók lán fyrir hlutabréfum eins og það væri hin öruggasta fjárfesting. Ö, afsakið en ef einhver heldur það þá á sá hinn sami ekki að sýsla með bréf og allra síst tala um fjármál yfir höfuð. 

Þetta á að sjálfsögðu ekki við alla en þetta á við það fólk sem hélt að hlutbréf væru örugg og tók lán fyrir bréfum. 

Ég vil líka bara benda á eitt að ef hlutabréf væru örugg þá væri ekki fátækt í heiminum og allir ækju um á Hummer, ættu 1000fm einbýli, einkaþotur o.sfrv. Bara þetta ætti að segja fólki það að hlutabréf eru ekki örugg fjárfesting. 

Júlíus Valdimar Finnbogason, 24.6.2010 kl. 17:51

11 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Frábær innlegg, Júlíus.  Þú ert að lýsa ýmsu, sem maður upplifði sjálfur í sambandi við umræður fólks um alla fínu og dýru hlutina, sem það var að kaupa á lánunum "hagstæðu".  Ég veit um marga, sem lýsingar þínar eiga algerlega við og steyptu sér í skuldir "upp fyrir haus" til að veita sér allt sem hugurinn girntist á þessum tíma.

Ég veit um dæmi þar sem hjón keyptu einbýlishús, jeppa, fólksbíl og húsvagn, allt á erlendum lánum og enginn botnaði í því, hvernig ætti að vera mögulegt að borga af þessu.  Til að kóróna vitleysuna var svo keypt sumarhús í Danmörku og að sjálfsögðu með erlendu láni.  Nú stendur auðvitað ekki steinn yfir steini í fjármálunum, en það er auðvitað öllum öðrum að kenna, engin sök, eða fyrirhyggjuleysi í eigin ranni.

Þetta er nú svakalegasta dæmið, en hver þekkir ekki dæmin um fólkið, sem greiddi upp gamla Íbúðasjóðslánið með nýju erlendu láni frá bönkunum og bætti um leið við lánið, til að kaupa jeppa og hjólhýsi, eða sumarbústað.  Svo þegar allt er komið í óefni, þá er það helv.... stjórnmálamönnunum að kenna, bönkunum, Davíð Oddssyni, eða nánast hverju sem er, öðru en eigin fjármálarugli.

Auðvitað var fólk innanum og samanvið, sem tók erlendu lánin til húsnæðiskaupa og trúði því, að þetta væri hagstætt, þrátt fyrir allar þær upplýsingar sem lágu fyrir um að krónan væri allt of hátt skráð og "gengisleiðrétting" upp á 30-40% væri framundan.  Samt er hægt að fullyrða, að flestir voru að kaupa sér of dýrar íbúðir, of dýra bíla og of dýrt þetta og hitt, miðað við kaupmátt sinn og situr í súpunni þess vegna.

Þar sem þú býrð erlendis, þekkir þú örugglega þann mun, sem er á hugsunarhætti hér á landi og í öðrum löndum, hér kaupum við allt, sem hægt er að fá lánað fyrir, en þar er sparað fyrir hlutunum.  Það er nánast óþekkt fyrirbæri hérlendis, enda eru allar kröfur í þá átt, að auðveldara eigi að gera fólki að skulda, en engar kröfur eru um að vernda sparnað.  Hér eru þeir sem spara kallaðir fjármagnseigendur, í  niðrandi merkingu og ekki taldir eiga neitt gott skilið.

Allar kröfur eru um að aflétta beri verðtryggingunni, af því að hún sé bara til að vernda eignir fjármagnseigenda, en komi illa við skuldara.  Þá er haldið á lofti ruglinu sem Guðmundur heldur á lofti, hér að ofan, að verðtryggingin geri það að verkum að fólk geti aldrei borgað lánin sín, þrátt fyrir að þeir sem tóku verðtyrggð húsnæðislán, t.d. árið 1980 eru skuldlausir í dag.  Laun hafa hækkað meira en neysluverðsvísitalan undanfarna áratugi, þannig að í raun hafa afborganir lána orðið minna hlutfall af mánaðarlaunum en þær voru, þegar lán var tekið, t.d. fyrir tuttugu árum.  Fram á þetta hefur verið sýnt margsinnis, en þeir sem ekki vilja skilja og ekki trúa, þeir hvorki skilja né trúa.

Þakka aftur fyrir skrifin, Júlíus, það vantar fleiri svona athugasemdir hér á bloggið.

Axel Jóhann Axelsson, 25.6.2010 kl. 07:30

12 Smámynd: Einhver Ágúst

Mjög fín umræða, Axel ég tek af mér ímyndaðann hattinn!  

Eru nú Þorgerður og Ragnheiður Ríkharðs að fara að stofna Evrópusinnaðann hægri flokk eftir helgi? Þær mega víst ekki vera hlynntar aðildarviðræðum í Sjálfstæðisflokki...það er nú skrítið....

Einhver Ágúst, 25.6.2010 kl. 09:45

13 Smámynd: Júlíus Valdimar Finnbogason

Takk fyrir það Axel.

 Jú ég þekki vel það sem þú nefnir um þennan mun á löndunum.

Ég bý í Noregi og vissulega er fólk hérna sem er ekki í neinum tengslum við veruleikan þegar það kemur að peniningum en ég tek ekki eftir því í daglegu lífi. Ég sé það í sjónvarpinu í þætti sem heitir "Luxusfellen" en þar eru fjármálasérfæðingar að hjálpa fólki útúr vitleysunni. Sumt fólk er skelfing en ekki eins slæmt og á Íslandi og samt með allt niður um sig. En það er einmitt svona merkjafatafríkur, stærra húsnæð, fínn bíll o.sfrv sem er að koma þessu fólki í algjört rugl.

Þetta væri snilld á Íslandi, að gera svona sjónvarpsþátt en það er einn hængur á. Ég þekki engan á Íslandi sem mundi leggjast svo "lágt" að láta sjá sig í sjónvarpinu með allt niður um sig þrátt fyrir að það fengi fría fjármálaaðstoð. 

Hérna er samt vissulega metingur sem maður sér og það eru sérstaklega bátar. Ég veit hinsvegar ekki hvernig fólk er að fara útúr þeim viðskiptum en ég veit um marga sem byjar á árabát og smátt og smátt vinna sig upp í stærri bát. 

Á einn góðan kunningja sem keypti bát í niðurníðslu og er bara að gera hann upp í rólegheitum enda þurfti hann ekki að komast á sjó í gær eins og nágranninn. 

Svo er fólki ekki gert eins einfalt fyrir hérna að fá lán eða öllu heldur raðgreiðslur eins og á Íslandi. Þegar við keyptum sjónvarpið okkar og þrátt fyrir að það væri staðgreitt þá fórum við í kredittékk. Ég opnaði bankareikning fyrir fyrirtækið mitt(hobbý) og það var kredittékk.
Ég fæ hins vegar inn um lúguna reglulega tilboð að hækka heimildina mína á kreditkortinu sem ég nota oftast ekki. Ég ólíkt mörgum tek þennan pappír, ríf hann og hendi honum, les ekki einu sinni meira en þú getur fengið hærri heimild því ég hef einfaldlega ekki áhuga.

Það kom par út og það fyrsta sem þau sögðu; Heyrðu förum í IKEA, Elkjöp o.sfrv og kaupum dót. Halló, þið voruð á hausnum á Íslandi og ætlið þið ekkert að læra? Þau ætluðu bara að smella þessu öllu á raðgreiðslur og urðu fyrir miklum vonbrigðum þegar við sögðum þeim að til að geta fengið lán í Noregi þá þarftu að vera búinn að skila inn einu skattaframtali. 

3 mánuðum síðar fluttu þau heim og Noregur var ömurlegt land og allir vondir við þau. 

Þegar við fluttumst hingað áttum við ekkert, ekki bíl, sófa eða eldhúsborð. 

Við fórum á loppemarkað sem er eitthvað sem skólarnir og t.d. íþróttafélögin halda á haustin og vorin og selja notuð húsgögn. Keyptum okkur eldhúsborð á 40kr norskar og þurfti að gera við eina löpp og pödduhreinsa. Stóla á 10 kr norskar pr stk, 2 gamla potta á 5kr stk og notað sjónvarp á 200kr sem og sófa á 300kr ásamt einhverju smádóti. 

Þetta er ekki það besta og fínasta en við áttum ekki meiri peninga og byrjðum þarna og ég get sagt ykkur það að fólk sem kom í heimsókn frá Íslandi því bauð við þessu. Ok, en hei við áttum þetta en ekki bankinn. 

Svo byrjuðum við að versla í IKEA enda ekki of dýrt og höfum smám saman upgradeað okkur í stíl en við höfum efni á því núna. 

Ég er ótrúlega sáttur, þessi tilfinning að eiga hlutina og hafa unnið fyrir þeim er frábær. Á 4 árum höfum við lagt hart að okkur og uppskorið eftir því.

Þetta krefst fórna en þetta er hægt og fólki líður betur eftir á.  

Júlíus Valdimar Finnbogason, 25.6.2010 kl. 10:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband