Það verður aldrei nein sátt um lánamálin

Eftir að dómur Hæstaréttar féll um ólögmæti gengistryggingar á lán með höfuðstól í íslenskum krónum, eru ýmsir að kalla eftir einhvers konar "þjóðarsátt" um einhverja nýja leið til endurgreiðslu á lánum af hinum ýmsu og margvíslegustu lánaformum.  Hins vegar er ekki nokkurt einasta útlit fyrir því, að nokkur sátt náist um nokkurn hlut í þessum efnum, því sjónarmiðin eru svo ólík og mikill hiti í umræðunni.

Fjármálastofnanir hafa látið út ganga, að ekki sé grundvöllur til að láta 2-3% vexti gilda á "gengislánunum" eftir að þau breytast í óverðtryggð lán og ekki einn einasti skuldari slíkra lána, hefur svo mikið sem gefið í skyn, að hann væri tilbúinn til að taka á sig hærri vexti, en skráð er í upphaflega lánasamninginn, þó allir viti að slík vaxtakjör á óverðtryggð lán eru algjörlega galin.

Einnig hafa heyrst kröfur um að húsnæðislán með erlendum höfuðstól verði meðhöndluð á sama hátt og "gengislánin", en engin lánastofnun hefur tekið slíkt í mál, enda gildi allt önnur lög um þannig lán og enginn vafi sé á, að þau myndu standast fyrir dómstólum.

Þá eru farnar að heyrast kröfur um að þeir sem tóku verðtryggð bílalán, fái verðtrygginguna fellda niður, eins og gengistrygginguna og þeirra lánum verði einnig breytt í óverðtryggð lán á lágum vöxtum.

Allir skuldarar landsins eru þó sammála um eitt og það er að fjandans lánafyrirtækin eigi ekkert betra skilið, en taka á sig stórtap vegna allra þessara lána og grétu það ekki þó þau færu öll lóðbeint á hausinn.

Hvernig eigi að sætta þessi sjónarmið, er a.m.k. ennþá hulin ráðgáta og miklu líklegra er, að allt logi í málaferlum, bótakröfum og kærum næstu mánuði og ár.


mbl.is Skapi þjóðarsátt um lánin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

Tek undir með þér -

það fer allt á hliðina ef lánafyrirtækin eiga að græða á þessu líka - nóg er nú samt.

Ólafur Ingi Hrólfsson, 21.6.2010 kl. 16:44

2 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ef 2-3% óverðtryggðir vextir á lán er galin hugmynd er fjármálaráðherra landsins genginn af göflunum. Hann veitti tveimur gjaldþrota bönkum stór lán á þeim kjörum.

Hinsvegar tel ég ekki galið að sá sem semur af sér beri ábyrgð á því sjálfur. Velti ekki kostnaðinum yfir á mótaðilann.

Ef ég sel bíl á 500 þúsund og kemst að því daginn eftir að markaðsverðið var 2 milljónir get ég engum nema sjálfum mér um kennt. Nýi eigandinn myndi hlæja að mér ef ég segði honum að hann væri skyldugur til að rifta samningnum og láta hann borga markaðsverð.

Theódór Norðkvist, 21.6.2010 kl. 16:54

3 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Stóra spurningin er: "Eru stjórnvöld rétti aðilinn til þess að hafa milligöngu um þessa sátt?"

 Stjórnvöld (ríkið) eiga hagsmuni að gæta, vegna Sp- fjármögnunnar, enda Sp-fjármögnun, dótturfélag ríkisbankans, Landsbankans. 

 Þarf nokkuð að semja um sátt?  Liggja lögin ekki skýr fyrir um endurgreiðslu?  Er það nokkuð "venjan" í réttarríki, að fjárhagsleg afkoma, lögbrjóts eða þess sem veldur skaða, hafi eitthvað rétt þess að gera, sem fyrir skaðanum verður?

 Dæma lög ekki menn til bóta, en ekki einhver sáttanefnd, ef lagabókstafurinn er skýr um bæturnar?

Kristinn Karl Brynjarsson, 21.6.2010 kl. 16:57

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Axel, þú segir;  "Fjármálastofnanir hafa látið út ganga, að ekki sé grundvöllur til að láta 2-3% vexti gilda á "gengislánunum" eftir að þau breytast í óverðtryggð lán og ekki einn einasti skuldari slíkra lána, hefur svo mikið sem gefið í skyn, að hann væri tilbúinn til að taka á sig hærri vexti, en skráð er í upphaflega lánasamninginn, þó allir viti að slík vaxtakjör á óverðtryggð lán eru algjörlega galin."  Útkoman úr slíku reikningsdæmi yrði samt ekki nærri eins galin og það sem greiðendum erlendu lánanna var ætlað að standa frammi fyrir af stjórnmálamönnum og bönkum.

Talsmaður neitenda er að drepa málum á dreif, Það er spurning talsmaður hverra hann er.  Dómur hæstaréttar er um gengistryggingu og skýr.  Það er svo annað mál að verðtryggingin er og hefur verið hluti af glæpastarfsemi og hana þarf að fara með fyrir dóm. 

Magnús Sigurðsson, 21.6.2010 kl. 17:02

5 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Nú fer að verða fjör í þessu þjóðfélagi.

Aðalsteinn Agnarsson, 21.6.2010 kl. 17:19

6 Smámynd: Einar Guðjónsson

Vandamálið er auðvitað líka algjörlega rekstarlega vonlaust bankakerfi. Að á Íslandi skuli leiga á peningum kosta tuggusinnum meira en í Evrópu sýnir það svart á hvítu. Bankakerfið hér er  miklu verr rekið en nokkurn tíma landbúnaðurinn. Því miður.

Einar Guðjónsson, 21.6.2010 kl. 19:55

7 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Ekkert skil ég hversvegna Axel er svona uppsigað við þann veruleika sem við blasir eftir dóma Hæstaréttar, að afbrotafyrirtækin þurfi að sætta sig við aðeins þá vaxtaprósentu sem umsamin er eftir að gengistryggingin hefur verið dæmd sem ólögleg, -afbrot af hálfu lánveitendanna.

Býsna góð samlíking hjá Theodór, þetta með bílaviðskiptin. Ef maður klúðrar samningi , þá situr maður sjálfur uppi með skaðann, þýðir sjaldan að vera með múður eftirá þegar sökin er manns sjálfs.

Hitt er annað mál, að í flestum þessum samningum er endurskoðunarákvæði um vexti/vaxtaálag á 3-4 ára fresti, og þykist ég vita að það verði nýtt til að ná sér niður á lántakendum þegar að því kemur, og ótæpilega smurt á vextina.

Kristján H Theódórsson, 21.6.2010 kl. 20:34

8 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Kristján, eitthvað hefur þú miskilið mín skrif, því ég hef hvergi tekið "málstað" lánafyrirtækjanna, þó ég hafi sagt að allir sjái að 2-3% vextir af óverðtryggðum lánum væru galnir, í þeirri verðbólgu, sem tröllriðið hefur þjóðfélaginu.  Það þarf engan stjarneðlisfræðing til að sjá það.

Að benda á þessa staðreynd er engan veginn það sama og taka afstöðu með lánafyfirtækjunm og eins hef ég sagt að ríkisstjórnin myndi endanlega grafa sér svo djúpa gröf, að hún myndi aldrei komast upp úr henni aftur, ef hún færi að reyna að skipta sér af þessu með einhverri lagasetningu, að ekki væri talað um lög, sem ættu að virka aftur fyrir sig. 

Líklegasta niðurstaðan er sú, að fjármálastofnanirnar finni enga leið til að hækka þessa vexti og þá munu aðrir skuldarar krefjast "leiðréttinar" á sínum lánum, sem jafn líklega verður ekki gert, finnist engin lagastoð til þess.  Þannig mun óánægjan krauma áfram næstu mánuði og ár og allir halda áfram að vera fúlir, nema þeir sem nú skulda óverðtryggð lán, með 2-3% vöxtum.

Ekki veit ég hvort "gengislánin" og erlendu lánin eru með endurskoðunarákvæði vegna vaxtanna, en verðtryggðu húsnæðislánin voru flest með ákvæði um endurskoðun vaxta á fimm ára fresti.  Þannig að ef einhverjir verða látnir borga upp lágu óvertryggðu vextina, þá verða það skuldarar verðtryggðra húsnæðislána.

Ekki yrði nú sáttatónninn hreinni við það.

Axel Jóhann Axelsson, 21.6.2010 kl. 21:27

9 identicon

Ég held að besta leiðin í þessari vitleysu allri væri bara að núllstilla íslenska hagkerfið í heild sinni og byrja upp á nýtt. þetta er orðinn svo mikill hringavitleysa allt saman að það skilur engin upp né niður í þessu lengur.

þórarinn axel jónsson (IP-tala skráð) 21.6.2010 kl. 22:50

10 Smámynd: Friðrik Jónsson

Hvað ætli margir hætti að borga þessi okur verðtryggðu lán í haust þegar frystingin fer af og raunveruleikinn blasir við?

Mig grunar að sú tala sé hærri en banka og stjórnmálamenn halda og hvað þolir hagkerfið okkar mörg prósent,áður en annað hrun verður?

Því það er staðreynd að ef fólk með verðtryggingu verður látið blæða og horfa uppá hluta af þjóðinni fá leiðréttingu,þá gefur það hreinlega skít í kerfið.

Friðrik Jónsson, 21.6.2010 kl. 22:56

11 Smámynd: Óskar Arnórsson

Ég held að það verði að gera vörslusviftingu hjá þessum lánafyrirtækjum. Ég ætla alla vega að leita að bílnum mínum og taka hann...og ég ætla að reikna út lánið sjálfur. Þeim verður aldrei treystandi til að reikna rétt aftur. Ef þa kemur í ljós að það verður eftir skuld á bílnum verður það reiknað sem skaðabætur...

Óskar Arnórsson, 22.6.2010 kl. 04:27

12 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Óskar, það er nokkuð ljóst, að þau verða mörg skaðabótamálin sem munu fylgja í kjölfarið á þessum dómum.  Margir eru í þeim sporum, að hafa verið sviptir bílunum og jafnvel fengið háa bakreikninga fyrir alls kyns "kostnaði" og í einhverjum tilfellum hefur þetta leitt til missis húsnæðis og jafnvel gjaldþrota.

Því er alveg ljóst að þessum málum er hvergi nærri lokið, með dómum Hæstaréttar, heldur þvert á móti er þetta upphaf að löngu uppgjörsferli.  Það gefur fólki hins vegar ekki rétt til að taka lögin í sínar hendur og leita uppi bílana "sína" og taka þá til baka.  Allt verður þetta að fara eftir lagalegu ferli, því varla er það nokkur lausn að svara fyrir brot fjármálafyrirtækjanna á lögum, með öðrum lögbrotum.  Það bætir einungis upplausn og enn meiri ófriði við og er nú ekki á bætandi.

Axel Jóhann Axelsson, 22.6.2010 kl. 09:01

13 Smámynd: Óskar Arnórsson

Ég er ekki farin af stað sjálfur og mun sjálfsagt ekki gera, enn ég þekki fólk sem er að leita að bílunum sínum. Ég myndi ekki vilja vera sá sem reyndi að stoppa þá menn...þetta á eftir að enda með ósköpum.

Óskar Arnórsson, 22.6.2010 kl. 10:18

14 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Óskar, það er mesta hættan núna, að óstjórn og upplausn þjóðfélagsins fylgi í kjölfar kreppunnar, lánamálanna og getuleysis ríkisstjórnarinna í að koma efnahagslífinu á hreyfingu á ný.

Upplausn og ólögum myndi hins vegar fylgja lengri og dýpri kreppa, þannig að enginn myndi græða á því þegar upp væri staðið.

Axel Jóhann Axelsson, 22.6.2010 kl. 10:42

15 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Þetta er seinna hrunið það er komið á fullt og verður ekki stöðvað!

Sigurður Haraldsson, 22.6.2010 kl. 11:52

16 Smámynd: Óskar Arnórsson

Ég held að Ríkistjórnin hafi skapað lífshættulegt ástand með aðgerðaleysi sínu í þessu máli...

Óskar Arnórsson, 22.6.2010 kl. 13:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband