Staðan er svo góð að skattar hækka "bara" um 11 milljarða

Í hvert sinn, sem skattahækkanir eru í farvatninu hjá ríkisstjórninni, eru fréttir látnar leka um að líklega þurfi að hækka skattana alveg gífurlega mikið og skera allt niður við trog í ríkisrekstrinum.  Þegar nær dregur að aðgerðum verði hrundið í framkvæmd, er alltaf sagt að ástandið sé skárra en áður hafi litið út og því verði skattahækkanirnrar og niðurskurðurinn miklu minni, en áður hafði verið áætlað.

Við seinni fréttirnar léttir fólki svo mikið, að það lætur allt yfir sig ganga, enda um miklu vægari skerðingar að ræða, en búast hefði mátt við, enda ástandið ekki eins slæmt og áður leit út fyrir og því megi í raun líta á skattahækkanabrjálæðið eins og skattalækkun, ef miðað væri við fyrri áróður.

Nú stendur enn fyrir dyrum að bæta í skattahækkanabrjálæðið, en guggna á áður fyrirhuguðum niðurskurði og sparnaði í ríkisfjármálunum og þá kemur auðvitað frétt af því, að allt sé nú í betra horfi en áður var talið og því verði aðgerðirnar miklu mildari, en áður var reiknað með.

Eins og venjulega er þetta staðfest af ríkisstjórninni á þennan hátt:  "Þetta er mun betri staða en gert var ráð fyrir í efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar. Þar var reiknað með að stoppa þyrfti í 50 milljarða gat, en betri staða ríkissjóðs gerir það að verkum að það gat verður 43 milljarðar króna."

Þar með geta allir andað rólegir og þakkað ríkisstjórninni hástöfum fyrir hvað allt sé nú í miklu betra horfi, en jafnvel hún sjálf hafði áætlað. 

Svo borga menn bara skattahækkanirnar með glöðu geði.

 


mbl.is Niðurskurðurinn 32 milljarðar króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Já, og svo á bara að frysta laun í 1 ár en ekki 3 ár.  Þetta er gamalt trix, að senda einhvern út með afleitar fréttir, en koma svo með slæmar fréttir sem eru mun betri en þær afleitu.  Vonandi fellur fólk ekki í þá gildru að telja þetta góðar fréttir.  Þetta eru slæmar fréttir.  Ennþá er verið að seilast ofan í vasa almennings sem verður til þess að fólk þarf enn frekar að draga saman neyslu eða ganga á sparnað og verður til þess að fleiri eiga á hættu að missa húsnæðið sitt.

Þú ert nú nógu gamall, Axel Jóhann, til að muna eftir því þegar ÓRG var fjármálaráðherra og þurfti að hækka skatta.  Þá lak stjórnin því í fjölmiðla að hækka ætti skatta um 6%, en svo kom Ólafur og sagði:

"Nei, nei, þetta er algjör misskilningur.  Það á bara að hækka skatta um 3,5%"

Þetta er eitt elsta trix í bókinni og fólk fellur oftast fyrir því.

Marinó G. Njálsson, 11.6.2010 kl. 11:16

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Marinó, maður man vel eftir fjármálaráðherratíð Ólafs Ragnars, enda sú skelfilega tíð algerlega ógleymanleg.  Nafngiftin "skattmann" var fundið upp í hans tíð og ekki að ástæðulausu.  Hann var snillingur í þessu gamla trixi, að leka út illum tíðindum og koma svo skömmu síðar og tilkynna að þetta væru allt gróusögur og fyrirhugaðar "aðgerðir" yrðu miklu mildari en kjaftasögurnar segðu. 

Þannig varð fólkið svo fegið yfir þessum mildari aðgerðum, að allir önduðu léttar og létu "aðgerðirnar" yfir sig ganga.

Núverandi ríkisstjórn hefur notað þessa aðferð við að kynna allar sínar brjálæðislegu skattahækkanir, enda finnst fólki það hafa sloppið vel, miðað við það sem það hafði búist við.

Nú þegar er búið að ganga svo nærri fólki, sem hefur vinnu á annað borð, með öllu þessu skattahækkanabrjálæði, að lengra verður ekki gengið. 

Hitt er annað mál, að líklega fellur fólk fyrir trixinu einu sinni enn.  Það hefur aldrei brugðist hingað til.

Axel Jóhann Axelsson, 11.6.2010 kl. 11:29

3 Smámynd: Jón Óskarsson

Byggingavöruverslun út á landi lenti í því eitt sumarið fyrir þó nokkrum árum að kaupa inn í einhverju ógáti gríðarlegt magn af garðsláttuvélum.  Svo fór að sala hafði aldrei verið dræmari á þessari vöru en einmitt þetta sumar.   Ágætur og ónefndur sölumaður hjá versluninni brá því á það ráð að stilla upp fyrir utan búðina öllum helstu tegundunum og skella á þær útsölumiðum og lækka verðið um 20-40% og viti menn sláttuvélarnar seldust eins og heitar lummur.   En það sem menn vissu ekki var að áður en hann lækkaði verðin, voru öll verð hækkuð um 60-80% svo að í raun þá voru vélarnar seldar á óbreyttu upphaflegu verði eða hærra.  Þessi hagfræði gengur alltaf upp og slær ryki í augu fólks.  Og þessa hagfræði stundar núverandi ríkisstjórn óspart.

Jón Óskarsson, 11.6.2010 kl. 18:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband