10.6.2010 | 11:02
Ljótt af Árna Páli að leggjast svona á kvenfólkið
Sjúkraliðafélag Íslands hefur sent frá sér harðorða ályktun vegna ummæla Árna Páls Árnasonar um launafrystingu opinberra starfsmanna til ársins 2014 og telur hann vera að ráðast sérstaklega á kvennastéttir hjá ríkinu og halda því nánast fram, að hann sé sérstakur kvenníðingur.
Samkvæmt fréttum hefur opinberum starfsmönnum fjölgað um allt að 16.000 frá árinu 2008, þannig að ekki hefur verið orð að marka það sem sagt hefur verið um aðhald í mannaráðningum hjá hinu opinbera, en á sama tíma hefur heilsdagsstörfum fækkað um allt að 29.000 á almennum vinnumarkaði.
Jafnframt krefjast sjúkraliðar þess að nú þegar verði samið við stéttina um launahækkanir, enda hafi kjarasamningar verið lausir í fjórtán mánuði og tími sé kominn til að hækka launin verulega. Ekki virðast sjúkraliðarnir hafa frétt neitt af þróun launa á almennum markaði, en þar hafa þeir sem í vinnu eru á annað borð, orðið að taka á sig yfirvinnubann og beinar launalækkanir fyrir dagvinnuna og væru flestir ánægðir með að halda þeim launum, sem þeir höfðu fyrir hrunið.
Opinberir starfsmenn hafna því alfarið, að dregið sé úr launagreiðslum hjá opinberum aðilum, hvort heldur það verði gert með launafrystingu eða fækkun starfsmanna, en finnst hins vegar sjálfsagt að skattar verði hækkaðir á öðrum launamönnum til að standa undir kauphækkunum hinna opinberu.
Það var viðbúið, að öllum umræðum um opinbera starfsmenn yrði snúið upp í það, að um sérstaka kvenfyrirlitningu væri að ræða og þannig reynt að afla samúðar í garð opinberra starfsmanna, enda byrjað að úthrópa Árna Pál sem sérstakan kvenníðing.
Árni Páll er vanur að kasta fram hugmyndum og tillögum, sem hann stendur svo aldrei við.
Líklega gugnar hann eins og venjulega, enda alvarlegt að liggja undir ásökunum um að níðast á kvenfólki.
Saka Árna Pál um aðför gegn kvennastéttum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég vildi ekki standa í sporum Árna Páls sem yfirlýstur kvennapáll. En, eins og þú segir er drengurinn málglaður á fundum, svo að hann missir út úr sér ýmislegt, sem betur væri ósagt.
Margir frægir stjórnmálamenn hafa átt í basli með líffæri sín.Vinur, okkar Clinton fór óvarlega með nef sitt. Vænir vindlar á Kúbu bera nafn hans.
Kv., KPG.
Kristján P. Gudmundsson, 10.6.2010 kl. 11:27
Þetta er lyginni líkast getur það verið rétt að atvinnuleysistölur hafi verið falsaðar um 16.000 frá árinu 2008. Sennilega er æskilegra að fá eitthvað vinnuframlag fyrir atvinnuleysisbæturnar, en betra væri að reyna að fá hjól atvinnulífsins á snúning svo ekki þurfi að setja alla landsmenn á ríkisjötuna, hver ætti þá að borga launin, það minnir um of á eilífðarvél.
Kjartan Sigurgeirsson, 10.6.2010 kl. 12:47
Já, þetta eru sannarlega ótrúlegar tölur um fjölgun opinberra starfsmanna á þessum tveim árum. Þar fyrir utan hafa a.m.k. 6-8 þúsund vinnufærs fólks flutt til útlanda eftir hrun, þannig að atvinnuleysistölur gefa alranga mynd af ástandinu.
Það er nú vandamálið, að ríkisstjórnin virðist engan veginn skilja, að ástandið byrjar ekkert að skána fyrr en framleiðslugreinarnar komast á skrið aftur, því ekki lifum við til lengdar á eintómum þjónustustörfum, ef engin er framleiðslan til að skapa raunveruleg verðmæti.
Axel Jóhann Axelsson, 10.6.2010 kl. 13:07
Ég er viss um að sjúkraliðar hafa frétt af launaþróun á almenna markaðnum og hafa harmað hvað þeir hafa dregist mikið aftur úr miðað við einkamarkaðinn. En ekki sýnist mér þú hafa frétt af launaþróun hjá hinu opinbera. Ég var að vinna hjá hinu opinbera er hrunið varð og get upplýst þig að skrúfað var fyrir alla yfirvinnu hjá mér.
Hinsvegar er merkilegt að opinberum starfsmönnum hafi fjölgað þetta mikið frá hruni, sem sagt dulbúið atvinnuleysi. Svo hafa a.m.k. 10.000 manns flutt úr landi. Hvað ætli atvinnuleysið sé ef við tökum tillit til þessa? Örugglega 20%.
Theódór Norðkvist, 10.6.2010 kl. 14:38
Það var skrúfað fyrir nánast alla yfirvinnu í landinu, ekki síður á einkamarkaði en hjá ríki, auk þess sem 40 tíma vinnuvika var stytt hjá mörgum fyrirtækjum. Hef ekki heyrt af neinu slíku hjá ríkinu.
Kjartan Sigurgeirsson, 10.6.2010 kl. 15:19
Theodór, í desember síðast liðnum birtist frétt, sem hófst á þessum setningum: "Síðustu fimm ársfjórðunga hafa launahækkanir opinberra starfsmanna verið meiri en starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans þar sem fjallað er um þróun launavísitölunnar en þær upplýsingar birti Hagstofan í gær.
Í Hagsjánni segir að á einu ári hefur launavísitalan hækkað um 2,1%. Laun opinberra starfsmanna hafa hækkað umtalsvert meira en laun á almennum vinnumarkaði síðasta árið, eða um 4,9% á móti 0,8%."
Þér sýnist sem sagt ekki rétt, þegar þú telur mig ekki hafa frétt neitt af launaþróun hjá hinu opinbera.
Til viðbótar þessum kjarabótum hafa svo bæst við 16.000 manns á launaskrána.
Ekki að undra að þurfi að skera eitthvað niður.
Axel Jóhann Axelsson, 10.6.2010 kl. 15:52
Gott og vel, þú veist eitthvað um launaþróun hjá ríkinu og hefur lesið súluritin og línuritin sem segja oftast hálfan sannleikann eða hafa þann eina tilgang að ljúga til um stöðuna. En það er helber aumingjaskapur að stinga upp á að fyrsta skrefið til niðurskurðar skuli vera að níðast á einni allra lægst launuðu stéttinni á landinu.
Lengi vel hélt ég að aðeins sjálfstæðismenn myndu standa fyrir slíkri ómennsku og hefði ekki komið á óvart þó svona hugmyndir hefðu komið frá stjórn undir þeirra forystu, en nú kemur þetta frá stjórn sem kennir sig við hinar vinnandi stéttir.
Sjúkraliðar sátu eftir allan tímann í hinu svokallaða góðæri Davíðs Oddssonar og það er alger níðingsskapur að ráðast á þá fyrst, kallast að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Ef þeirra smánarlaun hafa eitthvað hækkað í prósentum væri það aðeins smá leiðrétting á fyrra misræmi sjúkraliðum í hag.
Auðvitað á að byrja á blóðsugunum í fjármálaheiminum og sendiráðunum, en núverandi ríkisstjórn hefur ekki manndóm til þess, frekar en ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins.
Theódór Norðkvist, 10.6.2010 kl. 18:07
Ef þessi ríkisstjórn er stjórn einhverrar stéttar, þá er það atvinnuleysisstéttarinnar.
Ég veit ekki hvort tillögurnar hjá Árna Páli snerust um að byrja á því að ráðast á sjúkraliðana sérstaklega, ég tók hugmyndina þannig að hann væri að tala um alla opinbera starfsmenn, ekki neina eina starfsgrein sérstaklega.
En hitt er rétt hjá þér, að þessi ríkisstjórn er alveg skelfileg og slær jafnvel fyrri vinstri stjórnir út.
Axel Jóhann Axelsson, 10.6.2010 kl. 18:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.