9.6.2010 | 16:47
Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?
Spurningunni í fyrirsögninni er stolið frá Halldóri Laxness, en svona svaraði Jón Hreggviðsson spurningunni um það, hvort hann hefði drepið böðulinn, sem hýddi hann í sögunni um Íslandsklukkuna. Á svipaðan hátt svarar Ólafur Ólafsson, þegar hann er spurður hvort hann hafi tekið þátt í svindlinu í kringum "kaup" Al-Thanis á hlutabréfum í Kaupþingi, sáluga.
Í yfirlýsingu frá Ólafi í nokkrum liður segir svo í fyrstu málsgrein:
"Aðkoma mín að kaupum Sheik Al-Thani í Kaupþingi hefur áður komið fram. Mitt hlutverk var að hjálpa til við að koma viðskiptunum á og að vera milliliður í lánveitingum til Sheik Al-Thani. Ég átti ekki hlut að hlutabréfakaupunum sjálfum og aldrei stóð til að ég hefði fjárhagslegan ávinning af viðskiptunum."
Snúast ávirðingarnar á hendur Ólafi ekki einmitt um það, að hafa hjálpað til við að koma svikamyllunni í gang og reyna að fela slóð lánsins, sem Kaupþing lánaði til kaupa í sjálfu sér?
Þegar Ólafur er búinn að neita allri vitneskju um tölvupósta, sem fóru á milli fjármálasviðs og innri endurskoðunar bankans, þar sem kom fram, að verið væri að fela slóð Ólafs vegna viðskiptanna, segir hann að lokum:
"Ég þess fullviss að ég braut engin lög með aðkomu minni að þessu máli og á ekki von á öðru en að vönduð rannsókn leiði hið rétta í ljós í þeim efnum."
Án þess að hafa nokkra vissu fyrir löghlýðni Ólafs og annarra sem tóku þátt í að "ræna bankana innanfrá", eins og Rannsóknarnefnd Alþingis kallaði verknaðinn, þá skal heilshugar tekið undir með Ólafi, að vönduð rannsókn muni leiða hið rétta í ljós.
Ennfremur skal þeirri ósk bætt við, að þeir fái allir makleg málagjöld að þeirri rannsókn lokinni.
Braut engin lög | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Svona fréttir vekja upp spurningar um hvort ekki sé eðlilegt að hafa "líkar þetta EKKI" og fingurinn niður, sem möguleika á mbl.is.
Eins og stendur er bara hægt að gefa í skyn að manni líki þetta.
Og mér líkar þetta ekki.
Eiginlega alls ekki!
Eilíkur Ekki (IP-tala skráð) 9.6.2010 kl. 16:53
Ég held að það sé rétt að bíða niðurstöðu rannsóknar á þessu máli. Þetta er fyrsta málið sem var tekið fyrir af sérstökum saksóknara (eftir kæru frá Davíð Oddssyni). Þrátt fyrir þann tíma sem málið hefur verið á borði SS hefur ekkert gerst í langan tíma sem bendir til þess að engin lögbrot hafi verið framin, ekki satt?
Eilíkur, hvað er að því að maðurinn komi með yfirlýsingu vegna ásakana á hendur honum? Mega menn ekki útskýra mál sitt eða er það bannað nú til dags eins og allt annað?
kv,
Ólafur S (IP-tala skráð) 9.6.2010 kl. 17:00
Ólafur, auðvitað er sjálfsagt og eðlilegt að sakborningar verji sig og vanalega þræta þeir fyrir alla aðkomu að þeim málum, sem þeir eru sakaðir um.
Þú segir að ekkert hafi gerst í málinu í langan tíma, en voru ekki menn í gæsluvarðhaldi og stífum yfirheyrslum vegna þessa máls fyrir stuttu?
Ef engin lög hafa verið brotin vegna þessa máls, þá kemur það vonandi í ljós fljótlega og þá verður málið látið niður falla. Annars verður væntanlega gefin út ákæra og þá reynir einmitt á vörnina í málinu.
Axel Jóhann Axelsson, 9.6.2010 kl. 17:13
Ólafur: " bendir til að engin lögbrot hafi verið framin " ??
Er ekki búið að reyna að fá þessa drullusokka eins og Sigurð Einarsson í yfirheyrslu, en hann hefur sem kunnugt er flúið land og getur ekki búið hér lengur ?? Hafa Kaupþingsmenn ekki setið í gæzluvarðhaldi einmitt út af þessum málum ? Hvers vegna heldurðu að Óli í Samskip sé fluttur líka ?
Eins og Eva Joly sagði: "Ekki spyrja þá sem rændu bankana, þeir munu að sjálfsögðu alltaf segjast vera saklausir"
Ólafur í Samskip hefur reynt að fela eignarhald sitt í fjölda fyrirtækja á Íslandi. Tindátarnir hans eru með þetta á sínum kennitölum, en hann er höfuðpaurinn. Hægt er að nefna fjölda fyrirtækja sem nú eru gjaldþrota eftir mesta góðæri Íslandssögunnar, sem notuð voru við að hreinsa út peninga úr bönkunum. Og svo kemur þessi maður fram og segist ekki hafa gert neitt.
Hann mun kannski einn góðan veðurdag reyna að telja samföngum sínum trú um þetta bull !!
Sigurður Sigurðsson, 9.6.2010 kl. 18:15
Axel, ég frétti að í þessa 12 daga sem Hreiðar var í varðhaldi var hann yfirheyrður í samtals 7 klst. Góð nýting á fangaklefa það ekki satt? Það hefur komið fyrir að menn með stöðu grunaðs manns hafi hana mörg ár eftir að rannsókn er hætt.
Ólafur S (IP-tala skráð) 9.6.2010 kl. 18:38
Ég treysti ekki sérstökum saksóknara fyrr en menn verða fangelsaðir á Litla-Hrauni en ekki í einhverju hvítflibba fangelsi!
Sigurður Haraldsson, 10.6.2010 kl. 00:35
Það eru ekki Sérstakur saksóknari, eða ríkissaksóknari sem ákveða hvar menn afplána dóma sína, það gerir Fangelsismálastofnun. Saksóknararnir ákæra og sækja menn til saka fyrir dómi, dómarinn kveður upp dóm um sekt eða sakleysi og ef menn eru dæmdir sekir, ákvarðar dómarinn lengd fangelsisdómsins og síðan er það í verkahring Fangelsismálastofnunar að sjá um afganginn.
Axel Jóhann Axelsson, 10.6.2010 kl. 07:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.