Kvóti eða ekki kvóti

Þorskstofninn er á hægri uppleið, samkvæmt upplýsingum Hafrannsóknarstofnunar, sem leggur til að þorskafli verði aukinn úr 150 þúsundum tonna í 160 þúsund.  Þetta segir Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafró, að sé skólabókardæmi um árangur í fiskveiðistjórnun, en um það hlýtur að mega deila eftir nærri þrjátíu ára friðun, sem litlu hefur skilað í stækkun stofnsins, þar til nú.

Ef þetta er skólabókardæmi um friðunaraðgerðir, þá væri fróðlegt að fá skýringu á því hvers vegna stofnunin leggur til 18 þúsund tonna minni ýsuafla á næsta fiskveiðiári, eða að þá verði veidd 45 þúsund tonn af ýsu í stað 63 þúsund tonna, sem heimilt er að veiða á þessu fiskveiðiári.  Hvaða skólabókarlærdóm er hægt að draga af því?

Margir eru ekki sáttir við rannsóknir og veiðiráðgjöf Hafró, en skoðanir á því hve mikið væri óhætt að veiða og hvernig ætti að stjórna veiðunum, eru margar og ólíkar, allt frá því að viðhalda óbreyttu kvótakerfi og til þess að gefa allar veiðar frjálsar.  Algerlega frjálsar veiðar koma líklega alls ekki til greina, því flestir eru á því að einhverjar takmarkanir verði að viðhafa og þá er einhverskonar kvótakerfi komið til að vera.

Fyrningarleið ríkisstjórnarflokkanna er algerlega óhugsuð aðgerð, því engar tillögur hafa komið fram um hvað ætti svo að taka við.  Stundum er sagt að kvótanum verði bara úthlutað aftur til sömu aðila og hafa hann núna og þá vaknar spurning til hvers leikurinn væri gerður.   Aðrir vilja setja allar aflaheimildir á uppboð og selja þær hæstbjóðanda, en það væri kerfi sem gengi ekki upp heldur, þar sem þá myndu örfáir fjársterkir aðilar ná til sín öllum kvótanum á örfáum árum.

Eina leiðin er að ná "þjóðarsátt" um hvernig á að stjórna veiðum við landið og endursmíða reglurnar þar um á eftir. 


mbl.is Þorskstofninn stækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Vísindalegt öryggi þessarar ráðgjafar má m.a. skoða í ljósi þess að margir staðbundnir þorskstofnar hrygna við Ísland og er talið að þeir séu í það minnsta sjö.

Eitt stærðarmat á allan þorskstofninn og engar svæðisbundnar hindranir eftir metinni stærð hvers hluta fyrir sig segir líklega einhverja sögu um nákvæmni þessara rannsókna á stofnstærð.

Og eins og þú bentir á þá er nú þrjátíu ára árangur ekki til að vekja traust á þessari einna mikilvægustu vísindastofnun og jafnframt hagstjórnartæki þjóðarinnar.

Flestir reyndir skipstjórnarmenn hafa lengi talað um afrán þorskstofnsins, þ.e. að vegna átusvelti sé algengt að fiskurinn éti sín eigin afkvæmi til að halda lífi.

Þetta gerist að sjálfsögðu ekki árlega en fer mjög vaxandi.

Enginn heylaus bóndi fjölgar fénu með því að setja á vetur allar gimbrarnar.

Árni Gunnarsson, 4.6.2010 kl. 15:51

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það er auðvitað rétt, Árni, að ekkert vit er í að setja allar gimbrarnar á vetur, ef ekkert er ætið fyrir þær.

Svo er líka spurning, hvort aflamagnið skipti öllu máli, því markaðirnir hljóta að ráða hve mikið er sett inn á þá, án þess að verðin falli.  Það er lítill ávinningur að tvöfalda veiðina, ef gjaldeyristekjurnar yrðu ekkert meiri fyrir vikið. 

Aðalatriðið hlýtur að vera að nýta stofninn með hámarksarði að markmiði, þ.e. veiða nákvæmlega það magn sem mest gefa af sér í útflutningsverðmæti.  Íslenski fiskurinn hefur haft nokkra sérstöðu á mörkuðum og selst á hærra verði en fiskur annarsstaðar frá og þeim verðmun má ekki fórna með offramboði héðan á þessa markaði.

Það þarf sem sagt að reikna þetta allt saman út, þ.e. hvað borgar sig að veiða mikið án þess að verulegt verðfall verði og svo verður að ná einhverri sátt um það, hvernig því aflamagni verði skipt á milli veiðiskipa.  Þar koma mörg sjónarmið við sögu, svo sem skipting milli togara og báta, tegunda veiðarfæra o.fl. o.fl.

Lágmarkið er að komast upp úr pólitíska glamrinu um þessi mál og fara að ræða þau eingöngu á faglegum nótum, með hámarkshagkvæmni að leiðarljósi.

Axel Jóhann Axelsson, 4.6.2010 kl. 16:07

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég dreg svolítið í efa þessi aðvörunarorð útgerðarmanna varðandi meinta hættu á offramboði. Það hefur þeim hinsvegar tekist að gera trúverðugt. En það hlýtur að vekja spurninguna; hvers vegna hrundu ekki markaðir fyrir þorskinn úr Barentshafinu sem fjórfaldaðist og vel það eftir þriggja ára ofveiði?

Það má eiginlega orða það svo að þyngra sé en tárum taki að geta ekki trúað einu orði sem Hafró og LÍÚ senda frá sér.

Árni Gunnarsson, 4.6.2010 kl. 17:33

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Árni, það á ekki að þurfa að trúa neinu sem útgerðarmenn segja.  Markaðsmálin yrði að rannsaka af óháðri nefnd, sem gæfi álit á því hvað núverandi markaðir þyldu mikið framboð, án þess að verð hryndu og myndi líka kanna hvar væri mögulegt að vinna nýja, sem borguðu ásættanlegt verð.

Þetta er svolítið snúnara með Hafró, þar sem þeir virðast hafa alþjóðlega sérfræðinga á sínu bandi varðandi skoðanir á friðun og uppbyggingu fiskstofna.  Stjórnmálamenn þora aldrei að setja sig upp á móti svoleiðis sérfræðingaher. 

Spurning væri hvort hægt væri að koma á einhverskonar ráðstefnu færustu manna, sem færi yfir það sem gerðist í Barentshafinu og við Labrador og hvaða lærdóma væri hægt að draga af því.  Einhvern veginn verður að ná einhverskonar "þjóðarsátt" um aflamagnið, sem óhætt ætti að vera að veiða hverju sinni.

Þetta endalausa þras, sem byggir eiginlega ekki á neinu nema tilfinningum og pólitík verður að hætta, ekki getur þetta gengið svona áfram, jafnvel í marga áratugi í viðbót.

Axel Jóhann Axelsson, 4.6.2010 kl. 23:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband