3.6.2010 | 11:54
Hermann áfram - Sigrún Björk ekki
Hermann Jón Tómasson, sem skipaði fyrsta sæti Samfylkingarinnar í bæjarstórnarkosningunum á Akureyri, hefur ákveðið að sitja áfram í bæjarstjórn, sem eini fulltrúi Samfylkingarinnar eftir mikið tap flokksins í kosningunum. Hermann var sitjandi bæjarstjórni, þannig að kosningaúrslitin voru mikið áfall fyrir hann og flokkinn.
Sjálfstæðisflokkurinn tapaði einnig miklu fylgi á Akureyri og fékk aðeins einn bæjarfulltrúa, eins og Samfylkingin, en þessir flokkar störfuðu saman í meirihluta á síðasta kjörtímabili. Sigrún Björk Jakobsdóttir, sem skipaði fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins sagði af sér sem oddviti Sjálfstæðismanna á Akureyri í kjölfar ósigursins og mun ekki taka sæti í næstu bæjarstjórn.
Sigrún Björk varð fyrir miklum og óverðskulduðum árásum í kosningabaráttunni, sem rekin var á ómerkilegum og órökstuddum persónulegum nótum í hennar garð og alið á tortryggni og úlfúð vegna einfalds kaupmála, sem þau hjón gerðu sín í milli, eins og alsiða er, þegar fólk vill halda heimili sínu aðskildu frá viðskiptum og slíka kaupmála ættu allir að gera, sem áhætturekstur stunda, því það dýrmætasta sem fólk á, er heimilið og óþarfi og raunar alger vitleysa að taka áhættu á að tapa því, vegna fyrirtækjareksturs.
Væntanlega munu Akureyrinar uppgötva þau gömlu sannindi, að enginn veit hvað átt hefur, fyrr en misst hefur, þegar Sigrún Björk á í hlut, því hún er afbragðsmanneskja, dugleg, heiðarleg og röggsöm og hefur unnið öll sín störf af stakri prýði.
Sigrún Björk mun eiga greiða endurkomu inn í stjórnmálin, hvar sem hún kann að setja sig niður á landinu, eftir það vanþakklæti sem Akureyringar hafa sýnt störfum hennar. Hún er maður að meiri með afsögn sinni úr forystu bæjarmála á Akureyri og mundi verða happafengur hverju því félagi eða fyrirtæki, sem hún gæfi kost á starfskröftum sínum í framtíðinni.
Vonandi gefur Sigrún Björk Jakobsdóttir kost á sér til framboðs fyrir næstu Alþingiskosningar.
Hermann situr áfram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mér finnst vissulega leitt að sjá á bak Sigrúnu - en þess ber nú samt að geta að hvað varðar pólitíska stöðu hennar eftir kosningar og svo afsögn, þá eru aðstæður heldur aðrar. Hennar persónulegu mál (innan hjónabands - um að koma eignum undan skuldurum, ef ég skildi rétt?) voru dregin inn í kosningabaráttuna og virðast hafa haft sín áhrif. Þess vegna er kannski skiljanlegt að hún segi af sér. Með því er ég alls ekki að setja út á hana sem stjórnmálamann - þó ég sé ekki kjósandi sjálfstæðisflokksins þá merkir það ekki að mér þyki ekkert í hana varið, langt í frá. Hins vegar þá er hjónaband stofnun - hefði orðið gróði af viðskiptum manns hennar þá hefði hún væntanlega notið þess með honum og þess vegna má heita eðlilegt að fólk líti það hornauga að af því það fór á hinn veginn þá reyni fólk að koma eignunum undan með kaupmála.
Hermann er í allt annarri aðstöðu hvað þetta varðar - fjórflokkurinn fær skell, enda Akureyri stór þjónustukjarni sem hrunið hefur bitnað á í ríkara mæli heldur en smærri stöðum. Þar er landslagið þess vegna svipað og í Reykjavík. Auk þess hafði meirihlutinn (reyndar sjálfstæðishlutinn frekar) sett inn mjög umdeild mál á borð við miðbæjarskipulagið, sem svo reynast fara illa í stóran hluta bæjarbúa. Þá virkaði það kannski næsta marklaust þegar menn hugðust draga úr því skipulagi skömmu fyrir kosningar. Kannski spilar það líka inn í að Samfylkingin er í ríkisstjórn og að atvinnuleysi heggur, eins og áður sagði, frekar að stærri stöðum á borð við Akureyri. Ríkisstjórninni gengur kannski ekki nægilega vel að bæta þar úr - í samráði við sveitarfélög. Slæmt gengi Samfylkingarinnar á Akureyri er þannig frá mínum bæjardyrum séð frekar í ljósi almennrar óánægju með stjórnmál og -menn í dag, enda persóna Hermanns ekki dregin í ,,efa" út frá n.k. spillingu (án þess að ég ætli að dæma hvað er spilling) á sama hátt og persóna Sigrúnar er dregin inn út frá kaupmálanum.
Herdís (IP-tala skráð) 3.6.2010 kl. 12:51
Herdís, það er einmitt þetta kaupmálamál, sem mér finnst afar ósanngjarnt þó ég viti svo sem ekki mikið um fjármál þeirra hjóna, því ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að fólk sem fer út í viðskipti eigi að gera með sér kaupmála, til þess að halda heimilum sínum utan við viðskiptaáhættuna. Kaupmálann á fólk auðvitað að gera strax og byrjað er á viðskiptunum en ekki seinna og allra síst ef allt er að sigla í strand og augljóslega er verið að koma eignum undan á síðustu stundu.
Eins og áður sagði þekki ég fjármál þessara hjóna neitt, en hefur skilist af fréttum að viðskipti eiginmannsins séu til skoðunar vegna starfs hans, sem framkvæmdastjórna og veit ekki hvað sú skoðun tengist mikið, ef nokkuð, hans persónulegu fjármálum. Eftir sem áður var mjög klaufalegt af þeim hjónum að tímasetja kaupmálann á þessum tíma, því vitað er að í aðdraganda kosninga er allt dregið fram í dagsljósið og gert tortryggilegt, janvel afar eðlilegir og sjálfsagðir hlutir.
Burtséð frá þessu, þá er Sigrún Björk afbragðsmanneskja, eftir því sem ég þekki til hennar starfa og örugglega mikil eftirsjá fyrir Akureyringa að sjá á bak starfskrafta hennar. Hún mun örugglega fá tækifæri til að njóta sín á nýjum vettvangi, hvar sem hann verður.
Axel Jóhann Axelsson, 3.6.2010 kl. 13:29
Í þessu eilífa tali um "tap fjórflokksins" má alveg geta þess, að skömmu fyrir innkomu Besta Flokksins í baráttuna, þá gátu samkvæmt skoðanakönnunum, Samfylking og VG myndað hreinan meirihluta í Reykjavík. Var sá meirihluti ýmist 8 eða 9 manna, eftir því hvort Samfylkingu væru ætlaðir 6 menn í borgarstjórn eða 5, en VG var ávallt spáð 3 fmönnum. Í þeiim könnunum sem sýndu 9 manna meirihluta, var Sjálfstæðisflokknum ætlaðir 5 menn og Framsókn 1, en í 8 manna meirihlutanum, var Sjálfstæðisflokknum spáð 6 mönnum, en Framsókn 1.
Innkoma Besta flokksins olli því semsagt, sé stuðst við þessar kannanir, þurrkaði út Framsókn, tók 2 af VG, 2-3 af Samfylkingu, en 0-1 af Sjálfstæðisflokknum og vantaði Sjálfstæðisflokkinn aðeins u.þ.b. 1000 atkvæði í kosningunum til að ná inn sjötta manninum.
Þegar Besti flokkurinn mældist sem hæstur í könnunum, þá bitnaði það oftast á Sjálfstæðisfllokknum, en VG og Samfylking voru með svipað fylgi og þeir fengu að lokum í kosningunum. Í átta manna meirihluta, þá var Samfylking með 3 Vg 1 og Sjálfstæðisflokkur 3 svo dæmi sé tekið.
Fólki er svo auðvitað í sjálfsvald sett, hvort það kjósi að kalla útkomu þessara kosninga, sem afhroð "fjórflokksins", en sé litið til þessara kannanna, þá sést að það voru fyrst og fremst vinstri flokkarnir og Framsókn, sem biðu afhroð, en Sjálfstæðisflokkurinn, hélt sjó.
Kristinn Karl Brynjarsson, 3.6.2010 kl. 14:38
Kristinn Karl, auðvitað er þetta rétt hjá þér, en við vitum bara hvernig vinstra liðið er vant að reka sinn áróður og ekki síður þeir sem alltaf tala um "fjórflokkinn", sem er algjör þvæla, því ekki kæri ég mig um að vera sagður í einhverjum flokkatengslum við Vinstri græna, Samfylkingu eða Framsókn. Hvað um Hreyfinguna? Er þá ekki alveg eins hægt að tala um "fimmflokk" á þingi og "fjórflokk" í borgarstjórn, þar sem Besti kemur í staðinn fyrir Framsókn?
Þú ert alveg með staðreyndirnar á hreinu og aðrar útleggingar á kosningunum eru bara einfaldlega ábyrgðarlaust hjal.
Axel Jóhann Axelsson, 3.6.2010 kl. 14:55
Í ljósi þess hversu útkomur skoðanakannanna, eru farnar að höggva nærri kosningaúrslitum, þá eru þær í miklu marktækari mælikvarði, í sjálfu sér, en fjögurra ára gömul kosningaúrslit.
Skoðanakannanir, endurspegla fylgi flokkana, það vel, á þeim sem að þær eru gerðar að þær eru nær marktækar og kosningaúrslitin sjálf.
Þegar lagt er af stað í kosningabaráttu, þá stendur baráttan ekki um að verja eða bæta við fjögur ára gömul kosningaúrslit, heldur að verja eða bæta útkomu síðustu skoðanakönnunar.
Kristinn Karl Brynjarsson, 3.6.2010 kl. 15:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.