2.6.2010 | 15:47
Prófkjör eða persónukjör í kosningum?
Prófkjör hafa verið gagnrýnd vegna þess að þau mismuni frambjóðendum eftir efnahag, því þeir sem greiðari aðgang hafi að peningum til að auglýsa sig, hafi alltaf forskot á hina, sem minna hafi úr að spila. Auglýsinga- og fjáraustur í prófkjörum keyrði algerlega úr hófi fram á árunum 2006 og 2007, þegar banka- og útrásargervifyrirtæki voru óspar á styrki til frambjóðenda, hvar í flokki sem þeir stóðu.
Þegar þessi styrkjamál til flokka og frambjóðenda voru gengin fram úr öllu hófi, var lögum breytt á þann veg að enginn einn styrktaraðili má af hendi láta meira en 300 þúsund krónur til flokks eða frambjóðenda, en eftir sem áður geta frambjóðendur átt misgóðan aðgang að styrktaraðilum, eða kæra sig jafnvel ekkert um slíka styrki og þá eru aftur komnar upp þær aðstæður, að frambjóðendur sitja ekki við sama borð og sömu aðstöðu.
Verði prófkjör lögð af og tekið upp persónukjör í kosningum í staðinn, hljóta auglýsinga- og kynningarmál frambjóðenda að færast í kosningabaráttuna sjálfa, sem þá fer að snúast um einstaka frambjóðendur, en ekki stefnumál og framtíðarsýn flokkanna sjálfra og meiri tilviljun fer að ráða því hverjir veljist á þing og í sveitarstjórnir fyrir hvern flokk fyrir sig.
Konur hafa oft kvartað yfir slöku gengi í prófkjörum og því eru áhyggjur þeirra vegna hugmynda um að færa prófkjörin inn í sjálfar kosningarnar skiljanlegar, enda er vandséð hvað á að leysa með þessu svokallaða persónukjöri í kosningum.
Væri ekki bara betri hugmynd, að halda sameiginleg prófkjör þeirra flokka, sem þá aðferð vilja nota á annað borð, með sameiginlegum reglum um auglýsingar og kynningar?
Segir persónukjör stranda á konum í VG og Samfylkingunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Persónukjör í kosningum, er vandmeðfarið og í raun fáranlegt að krefjast þess að það verði þvert á flokka. Hefði slíkt verið í boði í kosningum síðustu helgi hér í RVK, hefði það ekki þótt absúrd að merkja x við D og svo Dag Sóleyju Gnarrinn eða einhvern annan í öðrum flokkum? Eða þá í síðustu þingkosningum að merkja x við D og svo Jóhönnu Össur eða einhvern annan úr öðrum flokki?
Hvað persónukjör innan flokka varðar, má spyrja hvort talningin, taki þá ekki marga daga? Kjörstjórn í RVK hefur ekki 4-5 eftir kosningar, getað áttað sig nóg á útstrikunum, til þess að gefa endanlegt svar varðandi þær.
En skelli hér að neðan, broti úr ummælum úr annari umræðu, sem er um prófkjör og allt sem því fylgir, styrki og allt það.
Kannski væri lausnin fyrir Sjálfstæðisflokkinn í RVK, sú að hverfafélögin tilnefndu öll á sama tíma, t.d. á föstudagskvöldi, fjölda fulltrúa í hlutfalli við íbúatölu hverfisins. Niðurstaðan yrði úr því yrði heilt yfir borgina 30 fulltrúar.Til setu og atkvæðagreiðslu á þessum "valfundi" ættu eingöngu þeir að hafa, sem að hafa verið skráðir í flokkinn og eða hverfisfélagið í hálft ár, hið minnsta. Svo má einnig hafa ákvæði um félagslega virkni, eitthvað ákveðið tímabili fyrir valfundinn.
Þessir 30 einstaklingar, fengju svo strax næsta dag, ( þess vegna nefndi ég föstudagskv. áðan), að kynna sig, stefnu sína, og fyrri störf, fyrir fulltrúaráði flokksins í RVK, eða stjórn þess, sem að endanlega myndi ráða röð frambjóðenda á lista. Sjálfstæðisfélögin, víðs vegar um landið, gætu haft svipaðar aðferðir, við val og röðun frambjóðenda á lista.
Sömu eða svipaðar aðferðir væri svo hægt að nota fyrir Alþingiskosningar.
Kristinn Karl Brynjarsson, 2.6.2010 kl. 16:26
Kristinn, þetta eru athyglisverðar hugmyndir og góðar inn í umræður um breytinar við val á listana. Það er, að mínu mati, skerðing á lýðræði að setja einhver lög um hvernig velja skuli á lista og versta útgáfan væri að fólk merkti í kosningum við ákveðinn lista og færi svo að hræra í frambjóðendum allra hinna flokkanna.
Jafnvel þó fólk ætti eingöngu að raða fólki á þeim lista sem það kýs, þá yrði talningin alveg óhemju seinleg og einhverjir dagar myndu líða, áður en niðurstaða fengist í endanlega útkomu einstakra frambjóðenda. Það er ekki álitleg aðferð.
Eðlilegast væri að flokksbundið fólk raðaði upp framboðslistum í hverjum flokki fyrir sig og eins og þú segir þyrfti það að hafa verið skráð í flokkana í talsverðan tíma fyrir uppröðunina, til að koma í veg fyrir smölun á síðustu stundu.
Hvað sem hver segir, þá er flokkakerfið ekki úrelt sem slíkt, en hins vegar þyrfti að hvetja fólk til meiri þátttöku í flokksstarfi og hafa þannig meiri áhrif á ákvarðanatökur þeirra mála, sem til umfjöllunar eru á hverjum tíma.
Axel Jóhann Axelsson, 2.6.2010 kl. 16:55
Núna fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar, vildu kjósendur annara flokka, Hönnu Birnu frekar sem borgarstjóra, en fólk af þeim lista sem það kaus. Hefði persónukjörið, þvert á flokka, ekki þá getað bætt við við manni inn af D-listanum?
Ég kannast við fólk sem vildi Hönnu Birnu sem borgarstjóra, en kaus samt Besta flokkinn. Hvað hefðu spekingarnir sagt um úrslit kosningana, ef að nýtt framboð, hefði fengið flest atkvæði, en næstflesta fulltrúa?
Kristinn Karl Brynjarsson, 2.6.2010 kl. 17:06
Það er nefninlega málið, þetta verður að vera skiljanlegt fyrir allan almenning, þ.e. einfaldar reglur. Til hvers ætti ég að vera að velja fulltrúa á Alþingi fyrir VG, þegar ég er algerlega á móti þeirra lífsskoðunum og stefnu í stjórnmálum?
Færi slíkt kerfi ekki út í það, að ég myndi merkja X við D, raða þar upp þeim sem ég treysti best, en færi svo að merkja við þá, sem mér fyndist lélegastir af öllum á hinum listunum. Þannig gætu kjósendur stærsta flokksins ráðið algerlega hverning röð frambjóðenda hjá t.d. minnsta flokknum yrði.
Ef í raun ætti að sameina prófkjör og kosningar er ég hræddur um að það yrði að takmarka réttinn til að raða frambjóðendum við þann lista sem maður kýs og láta stuðningsmenn annarra flokka um að sjá um sína lista. Annað gæti orðið tómt klúður.
Axel Jóhann Axelsson, 2.6.2010 kl. 17:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.