Hvaða bylting felst í nýjum flokkum?

Einar Mar, stjórnmálafræðingur, segir að stóru flokkarnir verði að fara í alvarlega naflaskoðun vegna stöðu sinnar og framtíðar, því annars sé hætta á "byltingu" í íslenskum stjórnmálum og meinar þá, að annars gætu nýir stjórnmálaflokkar jafnvel náð fótfestu í þjóðfélaginu.

Svona stjórnmálafræðikenningar kalla á svar við þeirri spurningu, hvaða stórkostlega breyting myndi felast í því, að við bættust einn til tveir nýjir flokkar inn á Alþingi, að óbreyttu kerfi að öðru leyti.  Oft hafa komið fram nýjir flokkar, en enginn þeirra hefur orðið langlífur, aðeins lifað frá einu og upp í þrjú kjörtímabil og safnast síðan á haug sögunnar.

Það eina sem breytist við fjölgun flokka er, að inn á Alþingi kemur nýtt fólk með gamlar skoðanir í nýjum búningi, enda venjulega um klofningsframboð að ræða úr einhverjum "gömlu" flokkanna.  Ræddar hafa verið hugmyndir um persónukjör, þ.e. að geta merkt við frambjóðendur af fleiri en einum lista, en líklega yrði slíkt kerfi allt of flókið og erfitt í framkvæmd, til þess að það geti gengið upp.

Ef virkilega ætti að stokka upp í þessu flokkakerfi er spurning hvort ekki væri best að taka upp einmenningskjördæmi, þar sem allir gætu boðið sig fram án þess að gera það í nafni ákveðins stjórnmálaflokks, en auðvitað yrði galli á því kerfi einnig, þ.e. myndun ríkisstjórnar gæti reynst erfitt verk, ef þingmannahópurinn væri mjög ósamstæður og kæmi úr ýmsum áttum.

Ef slíkt kerfi yrði tekið upp, þyrfti líklega að skilja algerlega á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdavaldsins, þ.e. að Alþingi yrði alfarið löggjafarsamkunda og sinnti því hlutverki og engu örðu, en forsætisráðherra yrði kjörinn sérstaklega og hann myndaði síðan ríkisstjórn á svipaðan hátt og gert er í Bandaríkjunum, Frakklandi og víðar.  Með þannig fyrirkomulagi yrði forsetaembættið óþarft þar sem öll lagasetning yrði eingöngu á ábyrgð þingsins og ríkisstjórnin yrði algerlega að starfa eftir þeim lögum sem þaðan kæmu.

Hvernig sem þessu yrði fyrirkomið, yrði að minnsta kosti engin bylting í stjórnmálunum, jafnvel þó allir gömlu flokkarnir hyrfu af vettvangi og nýjir samskonar flokkar kæmu í staðinn. 

Lausnin er að minnsta kosti ekki að kjósa gerfiflokk brandarakalla, sem eru eingöngu að spila með kerfið og kjósendur.


mbl.is Gæti stefnt í byltingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tómas Waagfjörð

Persónukjör er bara alls ekki flókið og erfitt mál, þetta er bara undansláttur hjá fyrrverandi og núverandi valdhöfum vegna þess að þeir vita að ef af þessu yrði þá kæmist enginn innvígðra í valdastöður.

Hægt er að notast við Netbankana til þess að kjósa, hraðbankana og svo notast við tölvur á kjörstað ef fólk vill frekar notast við gömlu aðferðina. Þá getur hver og einn athugað hvort sitt atkvæði hafi verið talið á sinn mann.

Kosningarkerfið í dag er fyrir löngu úrelt, við vitum ekki hvort okkar atkvæði sé talið rétt eða ekki, allt leyndó vekur upp svona spurningar. Og já, kosningarsvik eru mjög algeng í heiminum og Íslendingar eru ekki svo heilagir eins og sést hefur að þeir séu yfir svindl hafnir. Opnar kosningar þar sem hægt er að sjá hvað hver og einn kaus, ef einhver þorir ekki að leyfa öðrum að sjá hvað var kosið þá á hinn sami ekkert með að kjósa til að byrja með.

Tómas Waagfjörð, 26.5.2010 kl. 00:02

2 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Ég reyndar veit ekki hvernig raðað er upp á lista í t.d. nágrannalöndum okkar, en líklega eru ekkert ósvipaðar aðferðir og hér. Flokkakerfið hér er ekkert til húðar gengi, frekar en annars staðar, en eflaust mætti breyta víðast hvar um mannskap á listum.

 Eina mögulega útfærslan á persónukjöri sem virkað gæti með góðu móti, væri þannig uppbyggt að flokkarnir myndu bjóða fram t.d. 30 einstaklinga í hverju kjördæmi án tölusettrar raðar á listanum. Folk myndi svo merkja við t.d. 10  einstaklinga á þeim lista sem það kýs.

 Það er stærra vandamál, eins og reyndar kemur fram í skýrslunni, að Alþingi er orðið að stimpilstofnun fyrir framkvæmdavaldið, en ekki sá löggjafi, fyrir framkvæmdavaldið, sem því er ætlað samkvæmt Stjórnarskrá.

 Nefndarsvið Alþingis þarf að styrkja á þann hátt að nefndir þingsins, verði betur í stakk búnar til þess að semja lög í þeim málaflokkum sem hverja nefnd varðar.   Frumvarp eins og Fjárlagafrumvarpið á t.d. að vera samið í þinginu, en ekki í Fjármálaráðuneytinu.  Ráðherrum, sem fulltrúum framkvæmdavaldsins, ber að framkvæma þau lög sem Alþingi setur, en ekki að bera ábyrgð á vinnu við lagasetninguna, það er bara ekki í þeirra verklýsingu.  Það er Alþingis að semja og setja lög og hafa eftirlit með því að framkvæmdavaldið (ráðherrarnir) fari að þeim lögum og framkvæmi þau.

 Þessa yfirtöku framkvæmdavaldsins á löggjafarvaldinu, mætti líkja við, ef að dómskerfið (dómsvaldið) myndi senda Alþingi ný hegningarlög til samþykktar í þinginu. 

Kristinn Karl Brynjarsson, 26.5.2010 kl. 00:32

3 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Við verðum að fá breytingu það er lágmarks krafa vegna þess að fjórflokkurinn óx frá lýðræðinu og með honum varð tröllvaxið fjórflokksræði spillingar og valdagræðgi sem stefndi okkur beina leið í glötun!

Sigurður Haraldsson, 26.5.2010 kl. 00:43

4 identicon

Hvaða flokk áttu eiginlega við???

Í mínum huga er það brandari;

að vera með 7 borgarstjórar á 6 árum.

að byggja hraðbraut í miðbænum

að kaupa verðlausa timburkofa fyrir hálfan milljarð

að hygla vinum og velunnurum - hvort sem það eru lóðamál, einkavæðing eða mannaráðningar

að taka við tugum milljóna í styrki til að bjóða sig fram, til að gegna starfi sem gefur tæplega 5 milljónir í laun á ári.

Ég gæti haldið áfram en ég held að þetta sé nóg af lélegum bröndurum.

Svo minni ég þig á að það stendur fólk á bak við Besta listann, fólk úr öllum áttum með stefnuskrá sem hljómar ekki eins og samsuða fókushóps einhvers almannatengsla fyrirtækis.

Svo ég tali nú ekki um slagorðin (Vinnum saman = sjálfstæðisflokkurinn, Vekjum Reykjavík = Samfylkingin, Þú meinar Einar = Framsókn, Vegur til framtíðar = VG) allir flokkarnir henda svo inn orðum eins og velferð, jöfnuður, heiðarleiki, traust, náttúruvernd ofl ofl.

Það sem er djók í þessu öllu saman er að núna höfum við alvöru val til mótmæla, í stað þess að skila auðu, og það vonandi á eftir að koma í ljós að ansi margir ætla sér að mótmæla.

X-Æ, fyrir börnin

valgeir J. Guðmundsson (IP-tala skráð) 26.5.2010 kl. 00:53

5 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Húrra fyrir þeim sem gefa fjórflokknum puttann!

Sigurður Haraldsson, 26.5.2010 kl. 01:05

6 identicon

Engin bylting í nýjum flokkum. Ég væri til í stjórnvaldsleysis og umhverfis-byltingu.

svartsokka.org (IP-tala skráð) 26.5.2010 kl. 02:24

7 identicon

Almenningur hefur séð að fólk í FLokkum setur hagsmuni FLokksins hærri en almennaheilli. Það er mjög óheilbrigðt. Slík dómgreind er bara ein útgáfa af mafíu: að hygla sínum eigin framyfir hagsmuni heildarinnar.

Ég ætla bara að vona að Æ-ið skili skemmtilegri og góðri skynsemi til borgarbúa Reykjavíkur. A.m.k. virðast þeir ekki vera þrælar gömlu flokkspólitíkunnar.

nicejerk (IP-tala skráð) 26.5.2010 kl. 09:42

8 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Fyrst þetta er að snúast upp í brandaraumfjöllun og í ljós kemur að menn halda að "Besti"brandarinn standi ekki fyrir neinar pólitískar skoðanir, leyfi ég mér að birta aftur bút úr viðtali við stjórnanda leikhúss fáránleikans, þar sem hann útskýrir pólitíska stefnu framboðsins og sjálfs sín, því það er lágmark að fólk viti hvað það er að kjósa:

"Ég hef sagt að Besti flokkurinn sé stjórnleysingja- og súrrealistaflokkur, og sameini það besta úr anarkismanum og súrrealismanum. Og þetta hefur alltaf verið mín pólitíska sannfæring, stjórnleysissúrrealismi. En ef ég færi nú og segði það á Stöð 2, að við værum anarkistaflokkur, þá myndi fólk líta öðruvísi á okkur. "Þetta er ekki Jón Gnarr, þetta er einhver brjálaður anarkistaflokkur," myndi fólk segja. Kannski stendur flokkurinn bara fyrir Gnarrisma?"

Axel Jóhann Axelsson, 26.5.2010 kl. 09:57

9 Smámynd: Tómas Waagfjörð

Fólk er margt ekki að fara kjósa hann Gnarr vegna þess að því líkar sem hann er að gera, heldur er margt fólk að kjósa hina flokkana burt. Ekki misskilja vilja þjóðarinnar.

Tómas Waagfjörð, 26.5.2010 kl. 17:45

10 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Tómas hárrétt hjá þér! Eins og ég hef bent á þá er þetta ein leið okkar til að gera fjórflokknum og stefnuleysi hans puttann!

Sigurður Haraldsson, 27.5.2010 kl. 00:40

11 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það eru átta listar í boði og þið látið ykkur bara dreyma um hlutverk í leikhúsi fáránleikans.  Þið gerið ansi lítið úr öllu því fólki sem er tilbúið til að vinna fyrir ykkur í borgarstjórninni.

Axel Jóhann Axelsson, 27.5.2010 kl. 01:43

12 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Axel þar hittir þú naglann á höfðið kjósum fólk en ekki flokka! Sú aðferð hugnast mörgum en til þess að það sé gerlegt þarf fjórflokkurinn að samþykkja það með breytingum á stjórnarskrá frá alþingi og fyrst svo er þá tel ég það litlar líkur að verið að veruleika vegna fjórflokksræðisins sem er við lýði

Sigurður Haraldsson, 27.5.2010 kl. 08:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband