Þýfi til að fela í skattaparadís

Tölvupóstar sem birst hafa í tengslum við stefnu á hendur Jóni Ásgeiri í Bónus, Pálma í Iceland Express, Lárusi Welding, bankastjóra þeirra o.fl., sýna á afar einfaldan og skýran hátt, hvernig nútímabankarán eru framin og að undanskot fjármuna í eigin vasa vour vandlega undirbúin og skipulögð með staðföstum brotavilja.

Tölvupóstar gengu milli þessara manna vegna fölsunar á 6 milljarða lántöku með veðum í Goldsmith verslunarkeðjunni, sem ekki stóð undir veðinu og að auki fengu Jón Ásgeir og Pálmi sitthvorn milljarðinn í vasann, væntanlega sem þóknun fyrir að taka lánið.  Einar Ólafsson, yfirmaður í Íslandsbanka, sendi Lárusi Welding tölvupóst af því tilefni:  "Mér finnst hinn góði eigandi okkar aðeins setja þig í erfiða stöðu með þessum mail. Goldsmith er t.d. virði 1,5 en ekki 4 osfrv. En ég geri allt sem þú segir mér að gera"

Þegar nær dró afgreiðslu málsins, sendi Einar annan póst til Lárusar: "Verð að viðurkenna að ég skil ekki af hverju við lánum ekki bara Pálma tvo milljarða til að koma fyrir á Cayman áður en hann fer á hausinn. Í stað þess að fara alla þessa Goldsmith æfingu".

Þessi seinni póstur staðfestir það, að bankamennirnir vissu vel að gjörningurinn var allur ólöglegur og að verið væri að hafa tvo milljarða króna út úr bankanum til að fela á einkareikningum Jóns Ásgeirs og Pálma í skattaparadisinni á Cayman eyjum.  Eins vissu bankamennirnir að Fons væri í raun gjaldþrota, en héldu samt áfram að aðstoða þá félaga við að hafa fé af bankanum.

Þessir tölvupóstar nánast jafngilda játningu í málinu og ekkert nema plássleysi getur skýrt það, að þessir kumpánar skuli ekki vera komnir í gæsluvarðhald.


mbl.is Gleðst yfir framtakssemi skilanefndar Glitnis banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Athugaðu að þetta er einkamál skilanefndarinnar gegn þessum mönnum. Yfirvöld koma þar hvergi nærri.

Ég held ekki að plássleysi ráði því að þessir menn eru ekki í gæsluvarðhaldi; það er aðgerðaleysi yfirvalda og seinagangur. 

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 8.4.2010 kl. 11:03

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Mikið rétt, þetta er einkamál og því verður varla um gæsluvarðhald að ræða í þessu tilfelli, en það hlýtur að koma að því að ákært verði vegna þessara viðskipta af hálfu Sérstaks saksóknara, þar sem um augljós lögbrot er að ræða, en Skilanefndin er að reyna að sækja skaðabætur vegna brotanna, sem augljóslega sköðuðu bankann tilfinnanlega.

Sérstakur saksóknari hlýtur að fara að birta sínar fyrstu ákærur, en vegna fyrri reynslu af Baugsmálum mun taka mörg ár að koma þeim í gegn um dómskerfið.

Axel Jóhann Axelsson, 8.4.2010 kl. 11:09

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ekkert hraðar dómsmeðferð eins mikið og gæsluvarðhald vegna rannsóknarhagsmuna.

Hefðu stjórnvöld farið þá leið þegar eftir hrunið hefði miklum fjármunum sem skotið var undan verið bjargað.

Það er engin leið að komast framhjá þeirri hugsun að frá fyrsta degi hafi verið unnið markvisst að því að gefa þjófum færi á að sleppa.

Og nægan tíma fengu þeir.

Er þetta ekki öllum ljóst?

Árni Gunnarsson, 8.4.2010 kl. 11:36

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það þarf að hafa sannanir eða a.m.k. rannsóknargögn til grundvallar gæsluvarðhalds og því var ekki við því að búast, að neinn færi í gæsluvarðhald fyrr en rannsókn mála væri komin vel á veg.  Svona flókin, vel undirbúin og margþætt brot, þar sem reynt er að fela slóðina í gegnum heilt net málamyndafyrirtækja og bankareikninga um allan heim, tekur langan tíma, en að lokum mun þessi vefur allur rakna upp.

Bónusmálið fyrsta hræðir, því þar gátu verjendur þvælt og snúið út úr málinu árum saman og að lokum var búið að rugla dómarana svo í ríminu, að flestum ákæruatriðum  var vísað frá dómi.  Það má ekki endurtaka sig nú.

Axel Jóhann Axelsson, 8.4.2010 kl. 11:53

5 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Nú reynir á dómskerfið. Er ekki ennþá sama liðið undir sömu stjórn hjá saksóknaraembættinu?  Hvað hafa þeir klúðrað mörgum málsóknum undanfarinn áratug, Bónusmálið innifalið? 

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 8.4.2010 kl. 14:14

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það er nú reyndar kominn nýr ríkissaksóknari, en hann er ekkert að rannsaka þessi efnahagsbrot, heldur er það Sérstakur saksóknari og hans lið, þ.m.t. Eva Joly, sem ráðgjafi og eins er embættið í samstarfi við erlenda glæparannsóknarstofnanir, þannig að vonandi er verið að taka málin miklu fastari tökum, en Efnahagsbrotadeild ríkissaksóknara réð við á sínum tíma.

Það sem hægt er að binda vonir við, er einmitt þetta nýja embætti Sérstaks saksóknara, sem virðist vera að vinna gott verk, en svona mál eru afar tímafrek og flókin.

Axel Jóhann Axelsson, 8.4.2010 kl. 14:38

7 identicon

Lögfróðir menn hafa ýjað að því að vandamálið felist að einhverju leyti í Lögum um meðferð opinberra mála frá 1990 eða þar um bil. Þar séu fyrirvarar gagnvart grunuðum allt of víðtækir og miklar hömlur lagðar á yfirvöld.

Líklega þarf að rýmka skilyrði til gæsluvarðhalds, húsleita og haldlagningu gagna.

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 9.4.2010 kl. 14:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband