InDefence viðurkennir vaxtakröfu

Fulltrúar InDefence hittu nokkra Hollenska þingmenn, sem sæti eiga í Fjárlaganefnd Hollenska þingsins, og ræddu við þá um Icesave og upplýstu ýmis sjónarmið Íslendinga vegna málsins. 

Samkvæmt fréttinni virðast fulltrúar InDefence hafa tekið undir það, að íslenskum skattgreiðendum beri að borga vexti fyrir tryggingasjóð innistæðuegenda, sem er í reynd tryggingafélag sem bankarnir greiddu iðgjöld til og er sjálfseignarstofnun, sem er ekki á neinn hátt tengd ríkissjóði, eða skattgreiðendum með neinu móti.

Það eina, sem InDefence virðist hafa mótmælt vegna vaxtakröfunnar er, að vextirnir væru of háir, en ekki því, sem mestu máli skiptir, sem er að 98,2% kjósenda, sem afstöðu tóku í þjóðaratkvæðagreiðslunni, gáfu þau skýru skilaboð, að þeir ætla ekki að láta hneppa sig í áratuga skattaþrældóm í þágu Breta og Hollendinga.

Eins þarft framtak og þessi fundur InDefence með þingmönnunum var, til að útskýra sjónarmið þess kúgaða, veldur þessi uppgjöf varðandi vextina gífurlegum vonbrigðum.

Það verður að vera hægt að ætlast til þess, að þeir sem skýri afstöðu almennings á Íslandi, túlki skoðanir hans á réttan hátt.

 


mbl.is Spurðu hvassra spurninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það felst ekki í þessu viðurkenning á vaxtakröfu, aðeins ábending að í samningnum sem felldur var hafi þeir verið að græða á vöxtunum.

Ragnar Ólafsson (IP-tala skráð) 12.3.2010 kl. 22:21

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Hvernig á að skilja eftirfarandi setningu öðruvísi, en að það sé verið að viðurkenna vaxtagreiðslu, bara ef Hollendingar "græði" ekki á þeim?

„Fundurinn var gagnlegur og við gátum komið að okkar helstu punktum Til dæmis um að þeir væru að græða á vöxtunum en þeir tóku strax vel við sér þar og  sögðu að enginn ætti að græða. Sá punktur kom líka fram í umræðum á hollenska þinginu síðar, sem ef til vill má rekja til fundarins með okkur.“

Axel Jóhann Axelsson, 12.3.2010 kl. 22:36

3 identicon

Indefence of what? Hver fjármagnar þennan hóp framsóknarprinsa? Hvernig kynnir þessi hópur sig erlendis? Það hefur verið og er enn megn skítalykt af þessum félagsskap, væri Magnús Árni enn í stjórn SÍ ef ekki hefði komist upp um brask hans? Nei, þessi hópur er ekki sjálfskipaður varnarflokkur Íslands, markmiðið er að skapa sundrungu og fella ríkisstjórnina.

Björn Ólafsson (IP-tala skráð) 12.3.2010 kl. 22:36

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Björn, mikil ósöp er það vesældarlegur málflutningur, að þurfa alltaf að fara út í persónulegt skítkast á alla, sem ekki aðhyllast sama stjórnmálaflokk og maður sjálfur. 

 Yfirleitt segir slíkt meira um þann sem svo talar, en þann sem talað er um.

Axel Jóhann Axelsson, 12.3.2010 kl. 22:44

5 Smámynd: Finnur Bárðarson

Eru Íslendingar búnir að glata öllu raunveruleikaskyni, og var það ekki mikið fyrir ? Þetta Indefnce, maður bara andvarpar ? Hvar er Harry Potter ?

Finnur Bárðarson, 12.3.2010 kl. 22:44

6 Smámynd: Gísli Ingvarsson

"Það eina, sem InDefence virðist hafa mótmælt vegna vaxtakröfunnar er, að vextirnir væru of háir, en ekki því, sem mestu máli skiptir, sem er að 98,2% kjósenda, sem afstöðu tóku í þjóðaratkvæðagreiðslunni, gáfu þau skýru skilaboð, að þeir ætla ekki að láta hneppa sig í áratuga skattaþrældóm í þágu Breta og Hollendinga." - Þetta er beinlínis spuni. Það var kosið um gildi lagasetningar. Það var ekki kosið um neitt annað! Rétt á að vera rétt. Misnotkun á niðurstöðum kosninga er kosningasvindl. Þeir sem hafa hertekið niðustöðurnar einsog þú gerir minn kæri eru réttilega ásakaðir um óheilindi.

Gísli Ingvarsson, 12.3.2010 kl. 22:46

7 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Áfram Ísland!

Sigurður Haraldsson, 13.3.2010 kl. 00:11

8 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Gísli, hvað innihéldu lögin sem voru felld?  Innihéldu þau ekki ríkisábyrgð á skuld Tryggingasjóðs innistæðueigenda og fjárfesta, ásamt viðukenningu á því að skattgreiðendur skyldu taka á sig alla vaxtabyrði vegna hennar?  Var það ekki þetta innihald lagannna, sem 98,2% kjósenda voru að hafna?  Ertu að halda því fram, að kjósendur hafi ekki vitað hvað lögin, sem þeir voru að hafna, innihéldu? 

Varst þú ekki að kjósa um það sama og aðrir?

Axel Jóhann Axelsson, 13.3.2010 kl. 00:43

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Gott hjá þér, Axel, og góð er grein þín.

Hér skal mönnum á það bent, að hvorki InDefence-menn né (ennþá síður) afvegaleiddu sambræðslufylkingar-svikararnir njóta samstöðu meirihluta þjóðarinnar, því að rétt tæplega 60% þjóðarinnar vill EKKERT ICESAVE!

Nu þætti mér fróðlegt að fá að vita, hvort einhver fleiri en eftirfarandi þrenn samtök taki undir með þeim 59,4% aðspurðra í tilvísaðri skoðanakönnun sem hafna öllum greiðslum úr ríkissjóði og vösum almennings vegna Icesave:

Þjóðarheiður – samtök gegn Icesave (sbr.:

ORÐSENDING TIL ÍSLENDINGA),

Samtök fullveldissinna,

Kristin stjórnmálasamtök.

Að minnsta kosti er enginn stjórnmálaflokkur á Alþingi með þessa hreinskiptnu stefnu. Það er virkilega sorglegt og segir mikið um hnignun sjálfstæðrar hugsunar meðal stjornmálastéttarinnar. En landsmenn geta þá hallað sér að öðru ...

Jón Valur Jensson, 13.3.2010 kl. 05:24

10 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Kæri Axel. Það er einmitt það sem er ásteitingarsteinninn varðandi þjóðaratkvæðagreiðsluna að hún var ekki nógu afgerandi sem spurning. Vissulega verðum við að gera ráð fyrir að almenningur "vissi hvað hann var að gera" - Það fólst samt ekki í spurningunni sem var lögð fyrir okkur. Dæmi um þjóðaratkvæðagreiðslu sem inniheldur spurningu sem er ótvíræð er þessi: Samþykkir þú aðlild íslands að ESB? Já eða Nei. Ef spurningin væri: samþykkir þú stórnarfrumvarp um breytingartillögu alþingis númer 1234 frá 25.mars 2011 á lögum evrópska efnahgssvæðið ( sem í raun þýddi já) Já eða Nei. ( nei myndi þýða að EES lögin féllu ekki úr gildi). Ef ég er á móti EES hverning ætti ég þá að svara?

Gísli Ingvarsson, 13.3.2010 kl. 10:21

11 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Spurningin sem þú býrð til snýst ekkert um EES, heldur eingöngu um hvort þú viljir eða viljir ekki algera innlimun í ESB.

Spurningin sem lögð var fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni var alveg skýr, ef lagabreytingin félli í atkvæðagreiðsluni var vitað að eldri lögin væru líka óvirk, enda voru Bretar og Hollendingar búnir að hafna fyrirvörunum við ríkisábyrgðina og þar með tóku þau lög aldrei gildi formlega.  Í samningnum var ákvæði um að hann tæki ekki gildi, nema Alþingi samþykkti ríkisábyrgð og ríkisábyrgðin var samþykkt með því skilyrði að Bretar og Hollendingar féllust á fyrirvarana, sem fylgdu.  Hvorugt gerðist og því eru nú ekki í gildi nein lög um ríkisábyrgð og enginn samningur um Icesave heldur.

Kjósendur gerðu sér fulla grein fyrir þessu, þegar þeir greiddu atkvæði, þannig að ekki er hægt að túlka niðurstöðu kosninganna öðruvísi en sem algera höfnun á þeim hugmyndum, sem lágu að baki samningnum og ríkisábyrgðinni, þ.e. skattgreiðendur hafna því alfarið, að taka á sig skattaþrældóm fyrir erlendar kúgunarþjóðir.

Axel Jóhann Axelsson, 13.3.2010 kl. 11:33

12 Smámynd: Jón Valur Jensson

Spurningin, sem Gísli Ingvarsson býr til, er dæmigerð um það hvernig Evrópubandalags- og Icesave-agitatorar hafa hugsað sér að varpa ryki í augu almennings. Þeir reyndu það fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna, hliðstæðan við þessa spurningu Gísla var þá eitthvað á þessa leið: "Hvað eru menn að segja, með því að segja NEI, eru þeir að segja, að þeir vilji ekki, að það sé inni í lögunum, að Ísland viðurkenni ekki þar með, að það hafi lagaskyldu til að borga? – eða eru menn að segja með neii, að þar með sé Icesave út úr sögunni?" o.s.frv. o.s.frv. – alltaf talað í raun um kjósendur (þjóðina) eins og þeir séu einhverjir asnar sem hafi ekki vitað um hvað málið snerist baráttudaginn mikla 30. desember.

Þetta sýnir bara vel, hve vondur málstaður þessa blekkingarfólks er. En þjóðin lét ekki að sér hæða; 4,7% skiluðu að vísu auðu, en af þeim, sem afstöðu tóku, sögðu 98,1% NEI – einum rómi, Gísli Icesave-maður!

Vitaskuld væri ekki kosið um EES með því að spyrja þessarar [tiltölulega leiðandi*] spurningar: "Samþykkir þú aðild Íslands að ESB?" En þetta er víst næsti leikurinn í blekkingartaflinu hjá Gísla og ugglaust fleiri skoðanabræðrum hans. Svei þessum óþjóðlegu áróðursmönnum.

* Leiðandi er spurningin, af því að hún ætti fremur að vera: "Samþykkir þú innlimun Íslands í Evrópubandalagið og að löggjafarvaldið verði framselt þangað að langmestu leyti, einnig dómsvald að ýmsu leyti og framkvæmdavald að einhverju leyti, m.a. öll yfirstjórn og stýring fiskveiða við Ísland?"

Jón Valur Jensson, 13.3.2010 kl. 11:58

13 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Jón Valur, þetta er einmitt máið, þú setur þetta fram á skýran og skorinorðan hátt, sem varla veruður hægt að snúa út úr.  Þó mun sjálfsagt einhver reyna það.

Axel Jóhann Axelsson, 13.3.2010 kl. 12:06

14 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Gott Axel hjá þér, en mér finnst nokkuð áhyggjuefni að Indefence hópurinn, sem fékk 83.000 manns til að mótmæla "hryðjuverkalögunum" og gerði örugglega sitt, með blysförinni að Bessastöðum, að forsetinn neitaði að skrifa undir 5jan, skuli ekki hafa verið meira afdráttarlausir þarna úti, vita þeir eitthvað sem almenningur hefur ekki fengið að vita ennþá ?

Þ.e. hvort það finnist undirrituð og afdráttarlaus viðurkenning á að Íslenska Ríkið beri ótakmarkaða ábyrgð á tryggingasjóð Icesave ??

Kristján Hilmarsson, 13.3.2010 kl. 12:06

15 identicon

InDefence er InDefence of Framsókn. Þessi félagsskapur er settur saman af lögmönnum auðmanna og spunameisturum framsóknar til að rugla Íslendinga í ríminu svo að auðmennirnir fái frið og reyna að koma framsókn aftur til valda. Ég held að maður þurfi að vera blindur hálfviti til að sjá það ekki.

Sé líka að Axel og Jón Valur eru enn í dásvefni InDefence og forsetans að rökræða það að jörðin sé flöt.  

Bjöggi (IP-tala skráð) 13.3.2010 kl. 13:10

16 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Kristján, InDefence getur ekki lúrt á neinum upplýsingum um að ríkið beri ótakmarkaða ábyrgð á Icesave, því engin lög eru til þar að lútandi, enda viðukenna allir að samningurinn var ekki gerður á lagalegum grundvelli, heldur pólitískum.

Bjöggi, hvorki ég né Jón Valur eum hluti af InDefencehópnum, enda greinilega ekki sammála þeim í öllum atriðum og allra síst því, að skattgreiðendur ættu að taka á sig skattaáþján í þágu fjárkúgara.

Hins vega erum við báðir aðilar að nýstofnunðum samtökum sem heita Þjóðarheiður - samtök gegn Icesave og þau samtök berjast af öllum kröftum gegn hvers konar óréttmætum þvingunarkröfum á hendur íslenskra skattgreiðenda.

Axel Jóhann Axelsson, 13.3.2010 kl. 13:31

17 identicon

Hvaða rugl er þetta... auðvitað er rétt hjá InDefence mönnum að benda Hollendingum á að nýlenduríkin eru að hagnast á þessum lánum.

Þótt við náum ekki að fella niður ríkisábyrgðina, þá skulum við að minnsta kosti ná niður vöxtunum!!! Vonandi náum við svo upp eignum landsbankans á móti svo þetta þurfi ekki að lenda á þjóðinni!

Bjössi (IP-tala skráð) 13.3.2010 kl. 13:41

18 Smámynd: Jón Valur Jensson

Bjöggi þessi er sennilega einhver nafnlausa takkavélin á flokksskrifstofu Samfylkingar og hefur hér engin rök. Aldrei hef ég verið fylgjandi stefnu InDefence-hópsins í málinu, þótt þakka megi þeim að hafa frætt útlendinga um ýmislegt og barizt einnig hér gegn Icese-ólögunum. Fjarri er mér að vilja gefa auðmönnunum frið til að komast aftur til áhrifa; þvert á móti myndi ég vilja, að gengið yrði að Bjöggafeðgunum í Landsbankanum (frændum Bjöggans hér ofar?!) til að láta þá borga allt sem þeir geta borgað af skuldum Landsbankans – en þeir láta sér vel lynda, að svikaríkisstjórn reyni allt hvað hún getur til að skella þeim á þjóðina!

Jón Valur Jensson, 13.3.2010 kl. 13:42

19 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Bjössi, það er alveg sama hvað næst að lækka vaxtaprósentuna, ef samþykkt verður að greiða einhverja vexti, sama hve lágir þeir verða, þá munu þeir allir lenda á íslenskum skattgreiðendum, því vextir eru ekki forgangskrafa í þrotabú Landsbankans, en höfuðstóll skuldarinnar er það hinsvegar.

Vega þess ótrúlega ákvæðis í Icesavesamningnum, að Bretar og Hollendingar skyldu fá jafnréttháa forgangskröfu í búið og íslenski tryggingasjóðurinn, er ekki einu sinni víst að allar útistandandi eignir þrotabúsins dugi til greiðslu á höfuðstólnum, þannig að allir vextir, sem samþykktir kynnu að verða, lenda í öllum tilfellum á aðilum, sem málinu eru algerlega óviðkomandi, þ.e. skattgreiðendum.

Því er áríðandi, að samþykkja alls engar vaxtakröfur frá fjárkúgurunum.

Axel Jóhann Axelsson, 13.3.2010 kl. 18:39

20 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Axel! ég meinti tryggingasjóð innistæðna en ekki sjálfum Icesave, en sem auðvitað kemur út á eitt eins og mál eru búin að þróast, en þú segjir "Vegna þess ótrúlega ákvæðis í Icesavesamningnum, að Bretar og Hollendingar skyldu fá jafnréttháa forgangskröfu í búið og íslenski tryggingasjóðurinn" þetta er þá, jafnóréttlætt sem það þá er, hinn bitri sannleikur Icesave og þá eins og þú bendir á, það eina sem hægt er að reyna fá niður, eru þá sjálfir vextirnir.

Það er greinilega ýmsann fróðleik að sækja hér hjá þér Axel, takk og mun kíkja hingað inn enn oftar en hingað til :)

Kristján Hilmarsson, 13.3.2010 kl. 19:45

21 Smámynd: Jón Valur Jensson

Við eigum hvorki að borga höfuðstól né vexti, það er frumstaðreynd málsins.

Vextir af 0 króna skuld eru 0 krónur.

Þetta er málstaður Þjóðarheiðurs. Um 60% þjóðarinnar átta sig alveg á þessu.

Jón Valur Jensson, 13.3.2010 kl. 23:25

22 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

"Vega þess ótrúlega ákvæðis í Icesavesamningnum, að Bretar og Hollendingar skyldu fá jafnréttháa forgangskröfu í búið og íslenski tryggingasjóðurinn"

 Það er ekkert ótrúlegt, enda í samræmi og línu við EES samninginn og td dírektíf um endurskipulagningu og slit lánastofnana

"16.gr. Kröfur lánardrottna með lögheimili, fasta búsetu eða aðalskrifstofur í aðildarríkjum öðrum en heimaaðildarríkinu skal meðhöndla og forgangsraða á sama hátt og sams konar kröfur sem lýst er af lánardrottnum með lögheimili, fasta búsetu eða aðalskrifstofu í heimaaðildarríkinu." (Dírektíf 2001/24)

Ómar Bjarki Kristjánsson, 14.3.2010 kl. 00:32

23 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ómar, þú er ótrúlegur í þrotlausri vörn þinni fyrir kúgara þjóðarinnar.  Þetta, sem þú vitnar til á ekki við í þessu tilfelli, því tilskipun ESB gerir ekki ráð fyrir "nema" lágmarkstryggingu að upphæð 20.887 evrum á hvern innistæðureikning.  Það er upphæðin, sem íslenski tryggingasjóðurinn mun greiða, eftir innheimtu úr þrotabúinu, en þrátt fyrir þetta ákvæði, greiddu Bretar út 50.000 pund á hvern reikning og Hollendingar 100.000 evrur, þ.e.a.s. allt að þessum upphæðum.

Þessar viðbótargreiðslur koma íslenska tryggingasjóðnum ekkert við og Bretar og Hollendingar eiga engan rétt til jafnstæðrar kröfu í þrotabúið vegn þeirra.

Það er bara hluti af fjárkúguninni og það er alveg sama hvernig þú reynir að réttlæta ofbeldi og yfirgang þessara þjóða, þá muntu aldrei geta fundið nokkurn einasta lagalegan grundvöll til að réttlæta þessa tilraun þeirra til að skattpína Íslendinga í sína þágu.

Þetta er nú að verða fulllangt gengið hjá þér og yfirgengilegt að Bretar og Hollendingar skuli eiga að menn eins og þig, íslenska þegna, sem aldrei þreytast á að berjast gegn hagsmunum þjóðar sinnar.

Axel Jóhann Axelsson, 14.3.2010 kl. 00:52

24 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég er jafn-hneykslaður á Ómari Bjarka og samherji minn Axel Jóhann.

Jón Valur Jensson, 14.3.2010 kl. 02:27

25 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það sem upp úr stendur í þessu moldviðri öllu er #23. Það sem útaf stendur þessari lágmarkstryggingu er ítrustu kröfum óviðkomandi. Ég sagði "ítrustu" vegna þess að auðvitað átti aldrei að ljá máls á hærri greiðslu.

Mín sýn á málið er hinsvegar afdráttarlaus og er sú að þessi skuld einkabankanna sé íslenskum þegnum óviðkomandi. Starfsemi þessara banka var ekki stýrt af íslenskum stjórnvöldum.

Árni Gunnarsson, 14.3.2010 kl. 10:55

26 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Það sem eg sagði hér ofar varðandi forgang í eignir stendur sem stafur á bók.  Það er erfitt að sjá hvernig á að komst hjá þessu atriði og uppleggið í nefndum samningi nákvæmlega í línu við lög og reglugerðir - en jú jú, það má svo sem segja að lög og reglr eigi bara við eftir því sem ísl. nenna í það og það skiptið.  Það má alveg segja sem svo.  Veit samt ekki hvað það er líklegt til árangurs.

Samt eitt sem verður að leiðrétta hér í mótbárunum.

Það að B&H ákváðu að greiða út nefndar upphæðir - hefur ekkert að gera með forgang í eignir !

Þó B&H hefðu aðeins greitt upp að 20.000 evrum - þá hefðu þeir sem áttu umfram það lágmark á reikningi -  átt nákvæmlega sama rétt til jafnstæðrar forgangskröfu með þá umframupphæð í eignir og nú er !

Þessvegna er sá málflutningur að B&H hvafi verið "rosa vondir" að greiða innstæðueigendum út nánast uppúr o.s.frv. - fáránlegur málflutningur.  Best að segja það bara eins og er.

Það sem gerist við útgreiðsluna er að B&H taka yfir kröfurétt einstaklinganna.  Allt og sumt.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 14.3.2010 kl. 11:15

27 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Hvernig á að vera hægt að rökræða við mann eins og Ómar Bjarka, sem er handhafi sannleikans og veit betur en allir helstu lögspekingar landsins (og erlendir), sem skrifað hafa ótal margar greinar í blöð og hrakið allt það, sem Ómar segir vera það eina sanna og rétta í málinu.  Nægir þar að benda á Stefán Má Stefánsson, Lárus Blöndal og Sigurð Líndal, svo einhverjir séu nefndir. 

Ómar er ekki að berjast fyrir neinu öðru en hagsmunum Breta og Hollendinga, eins óskiljanlegt og það nú er, því þessum erlendu húsbændum hans dettur ekki einu sinni í hug sjálfum, að þeir hafi lögvarinn rétt sín megin, enda vilja þeir alls ekki fyrir nokkurn mun að Icesacvemálið fari fyrir dómstóla.

Mönnum verður hreinlega orða vant, þegar þeir standa frammi fyrir íslenskum ríkisborgurum, sem ekki unna landi sínu og þjóð meira en Ómar Bjarki Kristjánsson gerir.

Axel Jóhann Axelsson, 14.3.2010 kl. 11:53

28 Smámynd: Snorri Hansson

Þið leggist lágt að ráðast á Indefens samtökin. Svo lágt að ég hef skömm á ykkur .

Snorri Hansson, 14.3.2010 kl. 16:11

29 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Snorri, maður sem hefur svona mikla skömm á öðrum, hlýtur að rökstyðja þá skoðun sína, því varla er svona yfirlýsingum slegið fram, nema fyrir liggi ríkar ástæður.

Til að byrja með, ættir þú að útskýra betur hverjir það eru, sem leggjast svo lágt að ráðast á InDefence, svo lágt að þú hefur fyllst slíkri skömm á þeim.

Axel Jóhann Axelsson, 14.3.2010 kl. 18:41

30 Smámynd: Snorri Hansson

Já .Indefens menn hafa gert stórvirki í að´kynna og verja málstað íslendinga í Icesave málinu nokkuð sem ríkisstjórnir landsins (allar 3) hafa alltof lítið sinnt. Þeir létu sig hafa það að fara í þessa ljónagryfju með hollenskum þingmönnum og hafa staðið sig vel .

Þeir hafa haldið því fram að það skuli semja um þetta mál en ekki um hvað sem er.Að vera að skammast útí þá fynnst mér fyrir allar hellur.

Snorri Hansson, 14.3.2010 kl. 23:48

31 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Snorri, það sem var fundið að í upphaflegu færslunni var, að InDefence virtist vera að gefa Hollendingum undir fótinn með það, að hægt væri að fallast á að íslenskir skattgreiðendur tækju á sig greiðslu á vöxtum, vegna þessarar skuldar einkafyrirtækis.  Slíkar greiðslur koma íslenskum skattgreiðendum nákvæmlega ekkert við, enda hafa þeir ekki stofnað til nokkurrar einustu skuldar við Breta og Hollendinga.

Ef þér finnst það vera fyrir neðan allar hellur, að benda á þetta, þá verður að hafa það, því baráttan hlýtur að eiga að snúast um að verja lagalegan rétt þjóðarinnar og ekki gefa neitt eftir í því efni. 

Axel Jóhann Axelsson, 15.3.2010 kl. 00:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband