Vörumerkið "Jóhannes í Bónus" er ekki lengur góð auglýsing

Sú var tíðin, að almenningur elskaði Baugsfeðga jafn heitt og heimilisdýrin sín og vörumerkið "Jóhannes í Bónus" var aðall veldis þeirra, enda var Jóhannesi teflt fram hvar og hvenær sem tækifæri gafst til að koma því á framfæri, hvað þeir feðgar fórnuðu sér af mikilli elju í þágu almúgans.  Á þeim tíma trúði fólk því, að álagnig væri lág í verslunum þeirra og þrátt fyrir milljarða arðgreiðslur til feðganna gat Jóhannes alltaf talið fólki trú um, að vörurnar væru nánast gefnar í Bónusi.

Nú er sífellt betur að koma í ljós að þeir feðgar, sem voru brautryðjendur útrásarinnar og "nýja hagkerfisins", hafa aldrei lagt fram krónu af eigin fé, eða ábyrgðum, vegna kaupa á einu einasta fyrirtæki, snekkju, þotu, lúxusíbúðum, skíðahöllum, eða nokkru öðru, heldur voru tekin erlend lán fyrir öllum "fjárfestingum" og aldrei hefur þeim svo mikið sem dottið í hug, að endurgreiða eina einustu krónu af sínum hunduðmilljarða lánum.

Þessi lán, ásamt lánum sporgöngumanna þeirra í útrásinni, hafa nú komið þjóðarbúinu algerlega á hliðina og skapað mestu kreppu, sem yfir Ísland hefur gengið frá lýðveldisstofnun, en samt er enn reynt að spila á þetta gamla og snjáða vörumerki keðjunnar í þeirri von, að hægt verði að fá stuðning almennings til að koma fótunum undir feðgana á nýjan leik, eins og ekkert hefði í skorist.

Þegar feðgarnir hófu tilraun sína til að endurheimta Haga, með "tilboði" til Arion banka um að kaupa af honum fyrirtækið aftur, lýsti Jóhannes því yfir í sjónvarpsviðtali, að ekkert yrði afskrifað af skuldum þeirrra vegna þessarar nýju innkomu í fyrirtækið.  Í ljós er komið að þetta var alls ekki sannleikanum samkvæmt, því líklega verða afskriftir vegna 1998 ehf. ekki minni en 40-50 milljarðar króna og er þá ekkert minnst á þær hundruðir milljarða króna, sem áður eru tapaðar á viðskiptum þeirra feðga.

Er svo einhver hissa, þó almenningsálitið sé ekki hliðhollt þessum útrásartöpurum lengur?


mbl.is 80% vilja ekki Jóhannes í Bónus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

þetta er maðurinn sem haft hefur jólamatinn af margri fjölskyldunni með klækjum frá upphafi - seldi almúgakonunni á "lægra" verði kílóaverðið en upp úr pottinum komu einungis 600 grömm svo rírt að margur fór svangur í rúmið um jólin - og enn kemst hann upp með þetta og verzlanir sem kallaðar eru td Bónus

Jón Snæbjörnsson, 23.2.2010 kl. 14:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband