Dæmigert fyrir lánafyrirtækin

Steingrímur J. furðar sig á því, að lánveitingar fjármögnunarfyrirtækja skuli ekki hafa verið byggðar á traustum lagaheimildum, en þau veittu fjöldann allan af lánum í íslenskum krónum, með gegngistryggingu, en það virðist ekki standast lög, samkvæmt nýföllnum héraðsdómi.

Reyndar ætti það ekki að þurfa að koma á óvart, að ýmsar starfsaðferðir íslenskra fjármálastofnana standist ekki lagalega skoðun, því meira og minna af bankastarfsemi í landinu undanfarin ár, virðist hafa verið utan laga og reglna, enda allar gerðir þeirra meira og minna í rannsókn um þessar mundir.

Þær lánsupphæðir, sem falla undir þessi gengistryggðu lán í íslenskum krónum, eru taldar nema á bilinu 200 - 250 milljörðum króna, sem auðvitað er geysihá upphæð, en þó ekki hærri en svo, að meðal útrásarvíking hefði ekki látið sig muna um að tapa slíkri upphæð í gjaldþroti eins af sínum köngulóarverfjarfyrirtækjum.

Þessi umræddu lán eru líklega aðallega vegna bílalána og staðfesti Hæstaréttur síðasta dóm Héraðsdóms, og jafnvel þó venjuleg verðtrygging verði dæmd á lánin, mun það geta komið bílaviðskiptum í gang aftur, því sá markaður hefur verið algerlega frosinn, ekki síst vegna ofurveðsetningar þeirra bíla, sem í umferð eru.


mbl.is „Dæmalaust að svona nokkuð geti gerst“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Það er rétt Axel að margir útrásarþjófana fá afskrifaðar hundruð milljóna á meðan almenningur er tekinn eignarnámi og settur á skuldaklafa vegna bíldruslu sem seld var með ólöglegu láni!

Sigurður Haraldsson, 15.2.2010 kl. 09:37

2 Smámynd: Sigurður Helgason

Myntkörfulán hafa ekki verið dæmd ólögleg.  Dómurinn fjallaði einungis um lán sem veitt voru í íslenskum krónum, með gengisviðmiðun.  Lán, þar sem höfuðstóllinn er tilgreindur í erlendri upphæð, koma þessum dómi ekkert við.

Fólk virðiðst halda, að dómurinn hafi úrskurðað að erlend lán væru ólögleg, en það er mikill misskilningur.  Fólk rýkur til og segir alla þjófa, sem lána peninga, en enginn kallast þjófur, sem tekur lán, en vill ekki borga það til baka.

Sigurður Helgason, 15.2.2010 kl. 10:33

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Sigurður, fólk beinlínis sótti í þessi lán, vegna þess að það ætlaði að græða á þeim, miðað við verðtryggð íslensk lán.  Þegar fólk tapar síðan á veðmálinu, vill enginn standa við gerða samninga og leita allra leiða til að losna út úr þeim.

Hafi samningurinn verið ólöglegur í upphafi, er það auðvitað á ábyrgð lánveitandans, að hafa ekki meira vit á því, sem hann er að gera.  Eftir sem áður er það staðreynd málsins, að lántakandinn sótti sjálfur um að fá svona lán, einmitt með gengisviðmiðun, af því að hann hélt að það væri sér í hag.  Enda kvartaði enginn á meðan krónan var sterk.

Axel Jóhann Axelsson, 15.2.2010 kl. 10:54

4 Smámynd: Sigurður Helgason

ég veðjaði ekki á neitt,gat ekki fengið annað lán en þetta og var samfærður af bankamanninum að það væri í lagi,meira að segja með þeim orðum að hann sjálfur væri með 3 m ég væri bara að biðja um 1 miljón ,

Ág skrifaði undir með þau orð í eyrunum að þetta væri öruggt og allt væri í lagi hjá bönkunum, krónan færi aldrei yfir 180 stiginn það hefði hún aldrei gert,

SVO ÞETTA VÆRI ENGIN 'AHÆTTA

Sigurður Helgason, 15.2.2010 kl. 11:15

5 identicon

Sigurður hittir hér naglann á höfuðið. Það er kanski einfeldningslegt en ég hélt að ef samningur væri ólöglegur þá væri líklegt að báðir samningsaðilar hefðu brotið lög.

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 15.2.2010 kl. 11:18

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ekki veit ég hvar Sigurður hefur fengið sitt lán, en sjálfur keypti ég bíl árið 2006 og fékk lánað fyrir hluta kaupverðsins.  Ég gat valið um ýmsar gerðir af lánum, þ.e. óverðtryggt lán, verðtryggt lán (hvort sem var með jöfnum greiðslum (annuitet), eða föstum afborgunum) eða erlent lán, samsett úr ýmsum myntkörfum.  Þetta lánafyrirtæki heitir Avant og þar sem ég hef ekki skipt við hin bílalánafyrirtækin, get ég ekkert fullyrt um hvort þau buðu einungis upp á erlend lán, eða gengistryggð lán. 

Varla þarf að taka fram að ekki hvarflaði að mér að taka erlent lán, til þess var gengisáhættan allt of mikil.

Svo hlýtur það að vera rétt hjá Þorgeiri, að bæði lánveitandi og lántakandi hljóta að vera samsekir um að brjóta lög, með undirritun á lánapappíra, sem ef til vill eru ólöglegir.

Axel Jóhann Axelsson, 15.2.2010 kl. 11:36

7 Smámynd: Sigurður Helgason

þetta var fjórum mánuðum fyrir hrun hjá Avant ,,,,,,,,,,,,,,,,,,

Fyrir bíl frá Heklu þeir mæltu með þeim, ætli þeir hafi ekki átt hver annan og verið að safna peningum út í eyju,

Sigurður Helgason, 15.2.2010 kl. 11:44

8 identicon

Sigurður: Það er gömul speki að það sé ekki skynsamlegt að skuldsetja sig upp í rjáfur. Fólk á heldur ekki að láta aðra segja sér fyrir verkum í þessu. Þú hlýtur að gera þér grein fyrir að bankamaðurinn hvatti þig til að taka lánið vegna þess að hann hagnaðist á því, ekki þú.

Ef þú gast ekki fengið annað lán en þetta, þá hafðir þú annan valkost; að taka ekki lán.

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 15.2.2010 kl. 11:46

9 Smámynd: Sigurður Helgason

Þorgeir ef þetta er upp í rjáfur,þá veit ég ekki hvað þú talar um,þegar þú talar um hina,

Þetta  er eina lánið sem ég er með

Mjög varfærinn og hef aldrei tekið lán þetta var það fyrsta á ævinni,fyrir utan húsnæðistjórnarlán30 ára gömul,

En það verður dÝrt og atvinna ekki trygg,,,,,,

Sigurður Helgason, 15.2.2010 kl. 11:55

10 identicon

Afsakaðu, þetta átti að hafa almennari skírskotun.

Meginatriðið er að fá líka ráðgjöf hjá einhverjum öðrum en þeim sem maður hyggst taka lánið hjá. Þegar einhver "tilboð" hljóma of vel til þess að geta verið sönn þá er það venjulega tilfellið.

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 15.2.2010 kl. 12:01

11 Smámynd: Sigurður Hrellir

Axel, þú segir í athugasemd hér: "Fólk beinlínis sótti í þessi lán, vegna þess að það ætlaði að græða á þeim, miðað við verðtryggð íslensk lán". Þú ert með öðrum orðum að gera fórnarlömbin að sökudólgum. Það er freistandi að yfirfæra þetta á kynferðisafbrotamenn og fórnarlömb þeirra en ég ætla að sleppa því. Hins vegar ætti þér að vera það ljóst að afbrot "fjársvikafyrirtækjanna" hafa sett margar fjölskyldur í þrot og úthýst þeim úr samfélaginu. Það er grafalvarlegt mál og verður að meðhöndla sem slíkt.

Sigurður Hrellir, 15.2.2010 kl. 12:02

12 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

Sigurður Hrellir -

ekki skil ég Axel á sama hátt og þú -   Það er staðreynd að fólk tók þessi lá vegna þess að það taldi sig græða - málið og meinið er - ÞEGAR EITTHVAÐ LÍTUR ÚT FYRIR AÐ VERA OF GOTT TIL AÐ ÞAÐ GETI VERIÐ SATT - ÞÁ ER ÞAÐ VENJULEGA ÞANNIG.

"Ráðgjafar" bankanna eru núna ( margir) að störfum hjá ríkinu við "ráðgjöf" - er það í lagi? er þetta fólk betur í stakk búið í dag til þess að veita ráðgjöf?

Ólafur Ingi Hrólfsson, 15.2.2010 kl. 12:32

13 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Sigurður Hrellir, það var eins gott, að þú líktir ekki lántakendum við fórnarlömb kynferðisafbrotamanna, því slík samlíking væri hrein móðgun við seinni hópinn, því þá værir þú að gefa í skyn að sá hópur sækti í nauðganir og annað kynferðisofbeldi.  Auðvitað er staðreyndin sú, að fólk sótti í erlendu lánin vegna þess að það trúði því að þau væru hagstæðari en verðtryggð íslensk lán.  Lánveitendur "nauðguðu" ekki þessum lánum upp á fólk.  Í kringum mig eru nokkrir einstaklingar, sem tóku þessi lán, þvert ofan í ráðleggingu um að gera það ekki, því þeirra eigin trú sagði þeim að taka erlent lán, í stað innlends.  Í þeim tilfellum voru það ekki lánveitendur, sem otuðu þeim lánum fram.

Sjálfsagt tóku margir þessi lán í góðri trú, án þess að hugsa út í áhættuna, en það þýðir ekki, að þeir séu sérstök fórnarlömb lánafyrirtækjanna, heldur gengisfallsins, en það var nú einmitt áhættan við þessi lán.

Alveg er ég sammála því, að þessi erlendu lán hafa komið mörgum ílla, jafnvel á kaldan klaka og er öll mín samúð með þessu fólki.  Það gefur manni samt ekki rétt til að kalla þá sem veittu lánin glæpamenn og fjársvikara.  Flestir starfsmenn fjármálafyrirtækjann trúðu því sjálfir, að þetta væru hagstæð lán og margir þeirra tóku há erlend lán, til kaupa á íbúðum og bílum og sitja nú í sömu súpunni og hin "fórnarlömbin".

Axel Jóhann Axelsson, 15.2.2010 kl. 13:22

14 Smámynd: corvus corax

Mest vorkenni ég Steingrími Joð að þurfa að horfa upp á vini sína og skjólstæðinga, peningaöflin, verða fyrir hnjaski vegna græðgi og lögbrota.

corvus corax, 15.2.2010 kl. 13:48

15 Smámynd: Sigurður Hrellir

Axel,

Lánastofnanir útbjuggu samningsskilmálana einhliða og voru með menntað starfsfólk til þeirra verka. Þeim bar einnig skylda til að uppvísa lántakendur um þær áhættur sem lánunum fylgdu en í mörgum tilfellum vanræktu þær þá skyldu sína. Til að bæta gráu ofan í svart stunduðu sömu stofnanir stöðutökur gegn krónunni til þess að hámarka gróða sinn þvert á hagsmuni lántakenda og ég þori að fullyrða að enginn lántakandi hafi fengið greinargóðar upplýsingar um það. Þessi atriði sem ég nefni snúa öll að neytendavernd sem er tryggð samkvæmt lögum og styðja enn við umræddan dóm um ólögmæti hinna gengistryggðu lána.

Lántakendur vildu að sjálfsögðu taka lán á sem hagstæðustum kjörum og það var enginn skortur á því að lánastofnanir töldu þessi tilteknu lán vera álitlegan kost. Hægt er að benda á fjölmargar blaðaauglýsingar því til staðfestingar. Það er ósanngjarnt að segja að fólk hafi almennt ætlað sér að græða á lántökum. Vandamálið var (og er enn) að verðtryggðu íslensku lánin voru á glæpsamlegum vöxtum og ekki í neinu samræmi við það sem býðst í þeim löndum sem við helst berum okkur saman við.

Sigurður Hrellir, 15.2.2010 kl. 15:30

16 Smámynd: Sigurður Hrellir

"..að upplýsa lántakendur.." vildi ég sagt hafa.

Sigurður Hrellir, 15.2.2010 kl. 15:32

17 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Sigurður Hrellir, ég sagði að fólk hefði ætlað sér að græða á að taka erlend lán miðað við að taka verðtryggð innlend lán.

Þetta staðfestir þú, með eftirfarandi:  "Vandamálið var (og er enn) að verðtryggðu íslensku lánin voru á glæpsamlegum vöxtum og ekki í neinu samræmi við það sem býðst í þeim löndum sem við helst berum okkur saman við."

Við erum þá sammála um, að fólk ætlaði að "græða" á þessum mun.  Til þess tók það mikla áhættu, sem það er ekki tilbúið til, né hefur getu til, að taka á sig. 

Það, sem virðist ætla að skera þetta fólk úr snörunni, er að allt lögfræðingastóðið í lánafyrirtækjunum gerði afdrífarík mistök við samningu lánapappíranna. 

Axel Jóhann Axelsson, 15.2.2010 kl. 15:52

18 identicon

Má ég benda á eitt.

Engin lántakandi ætlaði að GRÆÐA á þessum lánum, þeir ætluðu að spara nokkrar krónur. Að spara er ekki sama og græða.

Þeir einu sem græða á lánum eru lánadrottnar.

Þetta er leiðinda málvilla að segja að einhver ætlar að græða, þegar hann ætlar að spara.

Jón (IP-tala skráð) 15.2.2010 kl. 17:45

19 identicon

Ég tók svona lán 2005 fyrir hluta bílverðs, en er reyndar löngu búinn að selja hann.

Ég talaði aldrei við neinn hjá lánafyrirtækinu lýsingu, ég fór í Heklu sagðist ætla að fá einn bíl, borga þetta mikið út.Bílasalinn bað um kennitölu, skrapp inn á annan kontór, kom eftir nokkrar mínútur með pappíra og sagði mér að skrifa undir.

Ég hélt í upphafi að ég fengi verðtryggt lán og vildi það helst, þegar bílasalinn kom með pappírana með gengistryggða láninu spurði ég hann hvað þetta væri, hann svaraði þetta skiptir engu máli gengið þarf að hreyfast svo mikið. til að þetta verði dýrara en verðtryggðu lánin, og svo er ekki annað í boði.Ég skrifaði undir og fór á bílnum, líkaði vel við bílinn, en seldi hann sem betur fer 1 ári seinna vegna þess að mig vantaði peninga í annað.Sem betur fer.

Jón (IP-tala skráð) 15.2.2010 kl. 17:55

20 identicon

Ég þekki bæði fólk sem tók bílalán hjá SP og Lýsingu 2008 og í báðum tilfellum voru einungis myntkörfulán í boði.

Guðný (IP-tala skráð) 15.2.2010 kl. 23:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband