Skömm stjórnarliða er mikil

Steingrímur J. Sigfússon var manna orðljótastur þegar hann var í stjórnarandstöðu og gagnrýni hans á menn og málefni var ekki öll lesin upp úr kristilegri sálmabók, þvert á móti lét hann hvern, sem fyrir varð hafa það óþvegið, þegar sá gállinn var á honum.

Nú, eftir að hann er orðinn ráðherra, er hann einn sá hörundsárasti, sem í ráðherrastól hefur sest, og þolir enga gagnrýni á sig og sína, eða getu- hugmynda- og framkvæmdaleysi í flestum málum, sem að ríkisstjórninni snúa.

Það allra versta, sem frá þessari ríkisstjórn og skósveinum hennar hefur komið, er Icesave samningurinn, sem selur íslenskan almenning í skattaþrældóm fyrir Breta og Hollendinga til a.m.k. tveggja áratuga.  Það fáráðlegasta við þennan fáráðlega samning er, að kröfur kúgaranna um jafnstöðu umframkrafna sinna, sem eru umfram ábyrgð Tryggingasjóðs innistæðueigenda og fjárfesta, að upphæð 20.887 evrur, skuli hafa verið samþykktar af Svavari Gestssyni og Steingrími J., sem jafnstæðar kröfur á þrotabú Landsbankans og krafa tryggingasjóðsins.

Það hefur í sér þá áhættu, að úr eignum Landsbankans fáist ekki fyrir kröfum sjóðsins og þar við bætast tug- eða hundruð milljarða aukavaxtagreiðslur á íslenska skattgreiðendur.

Skömm ríkisstjórnarinnar og skósveina hennar er mikil og mun lifa með þjóðinni um langa hríð.


mbl.is Sakaði þingmenn um mannaveiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eðvarð Hlynur Sveinbjörnsson

Það er rétt að skömm stórnarliða er mikil en það væri nú gaman að sjá menn innan raða sjálfstæðisflokks og framsóknar sýna einhverja iðrun og þá skömm sem þeir eiga fyrir að hafa komið okkur í þennan skít. En það er nefnilega mikið til í því að þeir reyna eins og þeir lifandi geta að benda á alla aðra svo að þeirra þáttur gleymist hjá minnistæpum Íslendingum.

Eðvarð Hlynur Sveinbjörnsson, 3.2.2010 kl. 15:39

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Sú skoðun hefur nú oft verið látin í ljós á þessu bloggi, að bankahrunið hafi fyrst og fremst verið banka- og útrásarglæpamönnunum að kenna, en ekki stjórnmálamönnum.  Þessi fyrirtæki voru öll í einkaeign en ekki ríkisrekstri, og ráðherrar og þingmenn vasast ekki einu sinni í daglegum störfum ríkisfyrirtækja, hvað þá einkafyrirtækja.

Lagaumgerðin hér var algerlega sniðin eftir ESB reglugerðum og tilskipunum, þannig að lagaumhverfið var nákvæmlega það sama og annarsstaðar innan EES.  Eftirlitsstofnanir hér voru undirmannaðar og sama er að segja um önnur lönd, enda er alls staðar talað um það núna, að eftirlit með fjármálastofnunum hafi brugðist og t.d. er ESB nú að endurskoða þau mál og sama umræða fer fram í Bandaríkjunum.  Í öllum þessum löndum stunduðu bankar svipaða ruglstarfsemi og hérlendis, enda þurftu ríkissjóðir þessara landa að ausa stjarnfræðilegum upphæðum inn í sín bankakerfi og var þó ekki öllum bönkum bjargað.

Komist Rannsóknarnefnd Alþingis að annarri niðurstöðu um ábyrgð stjórnmálamanna, þá verða þeir að sjálfsögðu að svara fyrir sig, en mín skoðun er sú, að stjórnmálamenn eigi að hafa sem minnst afskipti af atvinnulífinu, að öðru leiti en því, að setja því lög til að starfa eftir.

Svo er það þeirra, sem eiga og reka fyrirtækin, að halda sig innan ramma laganna og ef þeir gera það ekki, eru það þeir, sem eiga að svara til saka, en ekki aðrir.

Axel Jóhann Axelsson, 3.2.2010 kl. 16:04

3 Smámynd: Elle_

Góð útskýring, Axel.  Líka má bæta við að ef stjórnmála-flokkum verður kennt um, er það afar hæpið sem stór fjöldi manns gerir: Þeir tala um sektir Framsólknar- og Sjálfstæðisflokk, sem er alveg í lagi að gera, en hlífa með öllu Samfylkingunni, sem var lengi við völd með Sjálfstæðisflokknum og er nú enn við völd að valda óafturtækum skemmdarverkum.

Elle_, 3.2.2010 kl. 17:44

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

ElleE, auðvitað reyna vinstri menn að hlífa Samfylkingunni við þessari umræðu allri, enda er hún í ríkisstjórn ennþá og afar erfitt fyrir þá, sem vilja klína glæpnum á stjórnmálaflokkana, að viðurkenna að sá flokkurinn, sem sá um viðskipta- og bankamálin í rúmt ár fyrir hrun, skuli ennþá sitja í ríkisstjórn. 

Ef stjórnmálaflokkar bera einhverja ábyrgð á þessum glæpaverkum öllum, þá er sök Samfylkingarinnar auðvitað mikil, sérstaklega þar sem hún var við völd í þeim ráðuneytum, sem hefðu átt að hafa bestar upplýsingar um þróunina í bönkunum, ef sú vitneskja var einhversstaðar fyrir hendi hjá opinberum aðilum.

Sennilega væri það eina, sem hægt væri að ásaka ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar um, væri þá að hafa ekki strax og hún fékk aðvaranir um stöðu bankanna, gefið út opinbera yfirlýsingu um að bankarnir væru líklega glæpafyrirtæki og þar með hefðu þeir auðvitað farið beint á hausinn, nokkrum mánuðum fyrr en ella.  Um það mun rannsóknarskýrslan sjálfsagt fjalla, en líklegra er að niðurstaðan verði sú, að ríkisstjórnin hafi ekki, stöðu sinnar vegna, getað gefið út slíkar yfirlýsingar, heldur hafi það verið hennar skylda, að reyna að bjarga málunum, þó það hafi ekki tekist.

Axel Jóhann Axelsson, 3.2.2010 kl. 18:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband