Bestu rekstrarmenn landsins

Enn birtast fréttir af félagi í eigu Jóns Ásgeirs í Bónusi, sem skilur eftir sig tug milljarða skuldir, eftir gjaldþrot, í þetta sinn huldufélagið Sólin skín ehf.  Starfsemi félagsins virðist alls ekki hafa þolað sólarljósið, því bústjóri þrotabúsins segist lítið vita um starfsemi félagsins.

Jón Ásgeir í Bónus, hefur haldið því fram opinberlega, að hann og félagar hans séu bestu rekstrarmenn landsins og því sé alger nauðsyn, að gefa einkahlutafélagi Bónusfeðga, 1998 ehf., nokkra tugi milljarða króna, svo "bestu rekstrarmenn landsins" geti keypt Haga hf. enn á ný af Arion banka og þá væntanlega í gegn um enn eitt félag, sem stofnað yrði til kaupanna.

Það sem þessir "bestu rekstrarmenn landsins" hafa helst afrekað umfram aðra, er að reka fyrirtæki sín í gjaldþrot og hafa skilið eftir sig hundruð milljarða tap lánadrottna sinna, sem um tíma trúðu því einmitt, að þeir væru "bestu rekstrarmenn landsins" og þó víðar væri leitað.  Einnig hafa þeir átt sinn þátt í að reka þjóðarbúið í það strand, sem það nú er í, og ætlast til þess, að fá fyrstir og helst einir, að komast í björgunarbátana.  Þar eiga konur og börn ekki að hafa neinn forgang.

Sólin skín ekki lengur á þessa "bestu rekstrarmenn landsins", þeir eru komnir í dimmasta skuggann, en ætlast til að þjóðfélagið og bankarnir fái þeim aftur ókeypis forgang að sólbekkjunum.


mbl.is Gríðarlegar skuldir í huldufélagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Talandi um siðblindu - 

Axel. Þetta er alveg stórfurðulegt, eins og þessi atriði sem þú tíundar.
Hvernig getur þetta viðgengist?
Mun þetta viðgangast?
Ef almenningi verður boðið upp á það að blöskra málalyktir þá mun sami almenningur segja stopp og grípa til sinna ráða. Hverra þá?

Þeirra sem nærtækust eru og felast í því að hætta að eiga viðskipti við viðkomandi fyrirtæki.
Hinn blöskrandi almenningur
-  hættir að gera dagvöruinnkaup sín í verslunum Haga (Bónus, Hagkaupum og öðrum búðum þeirra),
- hættir áskrift á 365 miðlum
- o.s.frv.
- og beinir viðskiptum sínum annað.

- Ennfremur mun sami almenningur væntanlega hætta viðskiptum sínum við þær fjármálastofnanir sem ganga þannig frá hnútunum að almenningi blöskri.

Um síðir mun það gera þessi fyrirtæki endanlega gjaldþrota.

Þessari aðferð beittu Akureyringar þegar Bónusfeðgar opnuðu fyrstu búð sína þar (það var e.t.v. gert á öðrum forsendum en hér um ræðir), en afleiðingin var sú að þeir urðu að loka búðinni. Þeir biðu átekta og þar til aðstæður breyttust að þessu leyti er rekstur kaupfélagsbúðanna á staðnum koðnaði niður. Þá voru allir aðilar tilbúnir fyrir Bónus. Það var reyndar eðlilegt vegna þess að óhagkvæmur rekstur fær ekki þrifist ef aðrir betri kostir eru í boði.
Nú er hins vegar búið að sverta orðspor Bónusbúðanna það alvarlega, þ.e. fyrrverandi eigenda þeirra, að almenningi er nóg boðið. Ef almenningur er samkvæmur sjálfur sér og hagar sér í samræmi við hneykslan sína sem hann lætur í ljósi nú um stundir þá hættir hann að versla í Bónus og öðrum Hagabúðum ef honum hugnast ekki nýir forráðamenn og eigendur/"eigendur"  búðanna sem lánardrottnar þeirra (aðallega Arion banki) setja á.

Þetta á ekki bara við um Haga-búðirnar og tengda aðila, heldur öll fyrirtæki sem bankar landsins taka ákvörðun um hverjir fái.
Ekki er búið að súpa úr ausunni varðandi eignarhaldið á Samskipum sem er nánast stórfurðulegt í ljósi aðstæðna og væntanlegra aðstæðna þegar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis verður loksins birt.
Hver mun vilja eiga viðskipti við þá aðila sem þar munu fá á baukinn?

Í Morgunblaðinu í dag er smágrein um siðblindu og greiningu á siðblindum stjórnendum fyrirtækja. Ætli þessi súpa öll sé ekki vitnisburður um slíka siðblindu, bæði það sem dregið hefur verið fram í dagsljósið og það sem ekki hefur komið fram fyrir almenningssjónir ennþá.

Kristinn Snævar Jónsson, 3.2.2010 kl. 11:23

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Kristinn, allt er þetta rétt, sem þú segir, eða ætti að vera rétt.  Ekkert bólar þó á því, að viðskipti séu að minnka í verslunum Haga, svo sem Bónus, Hagkaup, Debenhams o.fl., o.fl.  Bónusfeðgar virðast ennþá vera virtir og dáðir kaupmenn, sem hafi gert svo margt gott fyrir almenna neytendur í landinu.

Vöruverðið í Bónus þyrfti að vera stjarnfræðilega hátt, til að greiða niður tap þjóðarinnar af hátterni þeirra í viðskiptum, en þótt ótrúlegt sé, virðist fjöldi manna berja höfðinu við steininn, að þessu leiti.

Kannski opnast augu almennings, áður en yfir lýkur.

Axel Jóhann Axelsson, 3.2.2010 kl. 13:02

3 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Almenningur hefur vonandi kjark og þol til að fara eftir sannfæringu sinni og hafna meðvirkni í siðblindu.

En, hann bíður átekta með sperrt augu og eyru varðandi stefnu bankanna sem sitja uppi með stórskuldug gjaldþrota fyrirtæki eins og hér eru til umræðu.

Ef bankarnir ráðstafa eignum og eignarhaldi á þessum fyrirtækjum til aðila sem ekki hafa gert hreint fyrir sínum dyrum taka þeir óskaplega mikla áhættu, sem sé þá að almenningur afneiti gjörningunum með því að hætta viðskiptum við viðkomandi. Bankarnir fá þá fyrirtækin aftur í hausinn enn meira gjaldþrota og verðminni en þau eru nú.
Eða, er það kannske ætlan nýrra erlendra eigenda nýju bankanna að fella fyrirtækin sem mest í verði?!

Kristinn Snævar Jónsson, 3.2.2010 kl. 14:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband