29.1.2010 | 11:31
Samræma málflutninginn
Ólafur Ragnar Grímsson, notar aðstöðu sína til hins ýtrasta til að ræða stöðu Íslands og Icesave málið í erlendum fjölmiðlum, t.d. í útsendingum ýmissa sjónvarpsstöðva, sem sérhæfa sig í fréttaflutningi um allan heim. Fáir, ef nokkrir, af framámönnum þjóðarinnar, hafa rætt við jafn marga og útbreidda fjölmiðla og hann, þannig að málflutningur hans fer miklu víðar, en annarra.
Það er vægast sagt óheppilegt, að forsetinn og ráðherrarnir skuli ekki tala máli, þegar þeir eru að ræða Icesavemálið við erlenda fjölmiðla, því ráðherrarnir tala ekki um annað en að Íslendingar "muni standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar", án þess að útskýra nokkurn tíma í hverju þær ættu að vera fólgnar.
Lágmarkskrafa ætti að vera, að þessir aðilar samræmdu málflutning sinn, þannig að allir aðilar töluðu sömu röddu um málið, en rugluðu það ekki, með misvísandi yfirlýsingum, eftir því hver er að tala hverju sinni.
Einu "alþjóðlegu skuldbindingarnar" af Íslands hálfu var að stofna Tryggingasjóð innistæðueigenda og fjárfesta og ef sá sjóður þarf að taka lán, til að standa við sínar skuldbindingar, þá er það hans mál, en ekki íslenskra skattgreiðenda.
Bretar og Hollendingar greiddu Icesave innistæðueigendum meira en sjóðnum bar skylda til að tryggja og verður það að vera á þeirra ábyrgð. Einnig lánuðu þeir tryggingasjóðnum fyrir hans hluta og eiga því forgangskröfu í þrotabú Landsbankans, að upphæð 20.807 Evrur á hvern innistæðueiganda, en ekki fyrir umframgreiðslum sínum.
Svavarssamningurinn gefur þeim þó jafnstæða kröfu á tryggingasjóðinn fyrir umframgreiðslunum og því er óvíst að eignir Landsbankans dugi fyrir kröfum beggja og Svavari og Steingrími J., fannst þá bara sjálfsagt að láta íslenska skattgreiðendur þræla fyrir þessum aukakröfum og það með háum vöxtum.
Íslendingar hafa staðið við allar "alþjóðlegar skuldbindingar" varðandi Icesave og um það eiga ráðamenn þjóðarinnar að sameinast í málflutningi sínum.
Ólafur Ragnar ræðir stöðu Íslands við fjölda fjölmiðla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er einmitt það sem málið snýst um. Menn eru sífellt að rugla fólk með allskonar málflutningi og orðavali sem stenst ekki. Það er grundvallarmunur á Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta annars vegar og Ríkissjóði Íslands hins vegar. Þegar menn segja að "við" eigum að greiða og "við munum standa við skuldbindingar okkar" þá verða menn að gera á þessu skýran greinarmun.
Að sjálfsögðu ber Tryggingasjóðnum að bæta sem nemur 20.887 Evrum pr. innstæðueiganda og eðlilegt og sjálfsagt að endurgreiða Bretum og Hollendingum þá fjárhæð. Það sem upp á vantar að sjóðurinn geti borgað kemur að sjálfsögðu sem forgangskrafa í þrotabú Landsbankans og ætla má að það takist að ná upp í þá kröfu eða allavega því sem næst. Það á í það minnsta ekki að vera "vandamál" ríkissjóðs og þar með okkar sem þjóðar og þegna þessa lands. Lánveiting Breta og Hollendinga til Tryggingasjóðsins er "tæknilegt" atriði og ekki eitthvað sem ríkið á að bera ábyrgð á.
Þegar menn greiða meira en þeim ber, þá verða þeir að bera ábyrgð á þeim gjörðum og taka áhættu af því að fá ekki það fé til baka. Þannig er með umframgreiðslur bæði Breta og Hollendinga, en um slíkt var enginn samningur gerður "fyrirfram" og því ekki hægt að ætlast til að Íslenska ríkið og þar með Íslenskir skattgreiðendur borgi þær fjárhæðir.
Það er löngu kominn tími til að menn tali skýrt í þessu máli. Hingað til hef ég talið að íslenskan væri nógu rík af orðum til að útskýra hluti, en í framhaldi af bankahruninu þá hefur komið í ljós að okkur skortir orð sem hafa mismundandi skilgreiningar og því eru menn sí og æ að blanda saman hugtökum og rugla saman eplum og appelsínum í þessu máli. Að "borga ekki" er ekki endilega það sama og að "borga ekki".
Auk þess hefur skort upp á það að ríkisstjórn annars vegar tali einum rómi um þetta mál, sem og að Forseti Íslands og forsvarsmenn hafi ekki fullt samræmi í málflutningi. Svona hefur komið upp áður í öðrum málum og þetta er afleitt og eitthvað sem þarf að laga til lengri framtíðar. En í þessu máli þá hefur Forseti Íslands talað af meiri yfirvegum og meiri skynsemi um málið en ríkisstjórnin eins og hún leggur sig.
Jón Óskarsson, 29.1.2010 kl. 13:30
Þetta er hárrétt með hugtaka- og orðaruglinginn, mismunandi notkun á orðum og hugtökum hefur einmitt ruglað þessa umræðu mikið.
Stjórnarliðar minnast aldrei á, að í samningnum séu Bretum og Hollendingum veitt jafnstæð réttindi og íslenska tryggingasjóðnum vegna krafnanna í þrotabú Landsbankans. Það verður til þess að af hverri milljón sem tekst að innheimta af eignum Landsbankans, rennur helmingur (ekki alveg nákvæmt) til tryggingasjóðsins og afgangurinn til Breta og Hollendinga upp í umframgreiðslur þeirra til innistæðueigenda í Icesave.
Það verður til þess að tryggingasjóðurinn verður helmingi lengur að borga sína skuld (20.887 Evrur), en hann yrði, ef hann fengi algeran forgang í þrotabúið og Bretar og Hollendingar kæmu svo þar á eftir með sínar kröfur og upp í þær færi ekki að greiðast, fyrr en tryggingasjóðurinn væri búinn að fá sitt. Með þessum skelfilega og jafnstæða samningi verða vaxtagreiðslurnar, sem ríkið ætlar að taka á sig, helmingi hærri, en þær ættu að vera.
Það er alveg af og frá, að það sé "alþjóðleg skuldbinding" Íslendinga að taka á sig vexti vegna umframgreiðsnanna.
Nóg er nú samt, ef skattgreiðendur eiga að borga vextina fyrir íslenska tryggingasjóðinn.
Axel Jóhann Axelsson, 29.1.2010 kl. 13:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.