Dómstólar skera úr - ekki lagadeild Háskólans

Borgarahreyfingin hefur oft komið á óvart með skringilegu háttarlagi, en það sem hún hefur nú tekið upp á, slær líklega flestu öðru út í fáráðleika.

Borgarahreyfingin hefur sem sagt farið þess á leit við lagadeild Háskólans, að sérfræðingar hennar dæmi um, hvort ákæra á hendur ribböldum og ofbeldisseggjum vegna árásar á Alþingi, eigi rétt á sér.

Það verður að teljast með ólíkindum, að fólk sem sem býður lista fram í Alþingiskosningum, viti ekki hvernig ákærur ganga fyrir sig í kerfinu.  Þeim er vísað til dómstóla til yfirferðar og úrlausnar, en ekki til kennara og annarra starfsmanna Háskóla Íslands.  Þetta veit nánast hvert einasta barn á Íslandi og því vekur þetta uppátæki ekki aðeins furðu, heldur kátínu.

Borgarahreyfingin segir nánast, að um óvita börn hafi verið að ræða, sem hafi einungis verið að leika sér, án þess að gera sér nokkra grein fyrir því, hvað þau voru að gera og hafi með leik sínum alls ekki einu sinni ætlað að trufla störf Alþingis.

Nokkrir starfsmenn þingsins slösuðust í átökunum, sem þessum barnaleik fylgdi, og a.m.k. tveir lögregluþjónar voru bitnir, sem sýnir að vísu þroskastig óeirðaseggjanna nokkuð vel.

Jafnvel börn þurfa stundum að standa reikningsskil gerða sinna.

 


mbl.is Vill álit HÍ á ákærunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Djöfulsins bull og útúrsnúningar. Þú leggur fólki orð í munn og beitir svo fuglahræðslurökum þar sem þú býrð til falsmynd sem er svo mjög auðvelt að fella.

Það kemur hvergi fram að Borgarahreyfingin viti ekki hvernig ákærur ganga fyrir sig heldur einungis hugmynd um uppstokkun á kerfinu. Í raun finnst mér fátt verra heldur en ríkjandi samfélagsskipulag sem stendur hefðarinnar vegna og er hafið yfir gagnrýni. Hérna er Borgarahreyfingin að gagnrýna það hvernig ákæruvaldið gegnur fyrir sig, notar dæmi um hvers vegna það má betur fara og kemur að lokum með hugmynd um hvernig mætti gera þetta betur. Viljyrðu uppbyggilegar rökræður um þetta þá skaltu segja hvers vegna þessi hugmynd og þessi gagnrýni sé ekki góð, öðru vísi en að vísa í hefðir og búa til falsmyndir af þeim sem ber hana fram

Rúnar Berg Baugsson (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 12:35

2 identicon

Þar að auki skaltu fara varlega í að lýsa yfir þroskastigi mótmælendanna þar sem að þú veist voða lítið um þær aðstæður og þá atburðarás sem varð til þess að mótmælendurnir beittu þessu ofbeldi. Kannski var brotið á þeim til að byrja með t.d.

Rúnar Berg Baugsson (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 12:39

3 identicon

Ég er ekki löglærður en, ef fólkið er sakað um að hafa ráðist á Alþingi og truflað störf þess, sem samkvæmt einhverri lagagrein er að sjálfssögðu mjög alvarlegt mál, þarf þá ekki Alþingi sjálft að kæra fólkið, ekki einhver skrifstofustjóri eða aðrir einstaklingar á vettvangi.  Er það árás á Alþingi þegar lögregluþjónn er bitinn í húsinu? Er það ekki bara árás á lögregluþjónun og hans mál, eða hans embættis gegn viðkomandi - en ekki Alþingis.

Gísli Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 12:42

4 identicon

hehe Rúnar hann kom með öll rökin fram í pistli sínum. Þessi uppástunga Borgarahreyfingarinnar um hægt sé að treysta betur einhverjum skóla en réttarkerfinu á landinu er alveg út í Hött.
En vissulega eiga eftir að koma sterkur meðbyr frá anarkistum á borð við hann sem hefur skrifað á undan mér, en látum réttarkerfið ekki snúast um einhverja vinsældarkosningu heldur hafa sinn vanagang "If you can´t do the time, don´t do the crime

Stefán Jónsson (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 13:25

5 identicon

Það voru einhverjir starfsmenn Alþingishússins sem slösuðust líka, held ég hafi lesið. Ef sumir þeirra sem stóðu fyrir líkamsárásunum eru góðkunningjar lögreglunar þá held ég að sé alveg ástæða til að allavega rannsaka þetta mál til hlítar. Það sama gilti víst um flest ef ekki öll atvikin að sögn lögreglunnar sjálfar.

Brynjar Björnsson (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 13:28

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Rúnar, er það þá hugmynd Borgarahreyfingarinnar að færa ákæruvaldið frá saksóknurum til Háskólans.  Hvaða breytingar á þrískiptingu valdsins er hún þá að leggja til með því?  Á lagadeildin að gefa út álit í hvert sinn, sem kærur eru lagðar fram vegna ofbeldis og skrílsláta?  Á hún kannski að taka að sér almennt ákæruvald?  Hvað um rannsóknir glæpa?

Gísli, brot á lögum er alltaf alvarlegt mál.  Alþingi hefur starfsfólk á sínum snærum, sem á að sjá um að störf þingsins geti gengið eðlilega fyrir sig og þar af leiðandi tekur það líka ákvarðanir um ákærur vegna truflana á störfum þingsins, að ekki sé talað um beinar árásir á það.  Ef lögregluþjónar eru bitnir, eða slasaðir á annan hátt, þegar þeir eru að verja störf Alþingis, þá er það auðvitað hluti af árás á þingið sjálft.

Axel Jóhann Axelsson, 24.1.2010 kl. 13:32

7 Smámynd: Árni Þór Björnsson

Réttarkerfið á Íslandi er óvirkt hvað varðar hagsmuni almennings gegn ríki og bæ. Öllu er áfrýjað til hæstaréttar sem dæmir eftir óskalista viðkomandi stofnunar/ráðuneytis.Allt tal um að lögum sé fylgt , réttlæti og óhlutdrægni er........bull og vitleysa .

Árni Þór Björnsson, 24.1.2010 kl. 14:05

8 Smámynd: Sigurður Hrellir

Þið getið varla hafa lesið fyrirspurn Borgarahreyfingarinnar eða meðtekið innihald hennar. Spurningin snýst ekki um sekt eða sakleysi heldur það hvort að lagagrein sú sem ákæran byggir á sé viðeigandi. Ef dæma á vopnlausa mótmælendur á grundvelli lagagreinar þar sem lágmarks viðurlög eru 1 árs fangelsi og hámarks viðurlög ævilangt fangelsi, þá hlýtur fólk að velta því fyrir sér hvernig útrásarvíkingar, bankastjórnendur og ábyrgir ráðamenn verði dæmdir fyrir hlut þeirra í hruninu.

Sigurður Hrellir, 24.1.2010 kl. 14:27

9 identicon

Þakka þér Axel Jóhann fyrir þetta innlegg. Þetta er reyndar ekki í fyrsta sinn sem kjörnir fulltrúar þessa undarlega stjórnmálaafls sem varð til í þeirri von að heiðarleiki, drenglyndi og ný vinnubrögð litu dagsins ljós í þinginu koma upp um sig.  Þeir hafa áður ljóstrað því upp að þeir vita ekki hvaða lög og reglur gilda í landinu og telja greinilega að það sé skylda fólksins í landinu að beita saklaust fólk sem er við vinnu sína, ofbeldi, ef marka má yfirlýsingar þess. 

Ég hef séð ákæruna og þar kemur m.a. fram að lögregluþjónn slasaðist svo hann hlaut varanlega örorku af, auk þess sem hann og annar lögregluþjónn voru bitnir eins og þú bendir á. Þá var ráðist á þingverði, bæði konur og karla, sem leita þurftu læknis og hlutu mar, tognun og aðra áverka og voru frá vinnu. Óánægja með ríkisstjórn eða aðra valdhafa réttlæta ekki slíka framgöngu, enda teljum við okkur búa í réttarríki.  

Aukinheldur er það ríkissaksóknari sem ákærir þar sem um er að ræða opinbert mál, ekki einkaréttarlegt. Það er einnig skv. lögum um meðferð sakamála og almennum hegningarlögum. Honum ber skv. lögum að ákæra vegna brota gegn valdstjórninni og skrifstofustjóri Alþingis hefur ekkert um það að segja, hvorki af eða á. En það er auðvitað ekki við því að búast að kjörnir fulltrúar kannist við lögin sem gilda í landinu.

Helga Sigrún (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 14:30

10 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Árni Þór, allt sem þú segir í þessari stuttu athugasemd þinni, er........bull og vitleysa.

Sigurður Hrellir, þú hefur varla lesið færsluna og svörin vel, því þar er einmitt talað um, að það sé dómstólanna að skera úr, um hvort þessi lagagrein á við um það ofbeldi og skrílslæti, sem þarna fór fram.  Lagadeild Háskólans er ekki hluti af dómskerfinu, en lagadeildin útskrifar auðvitað þá, sem síðar dæma í málum, jafnt í undirrétti, sem Hæstarétti.

Axel Jóhann Axelsson, 24.1.2010 kl. 14:37

11 identicon

Sko, hvergi get ég lesið það úr þessari frétt að Borgarahreyfingin ætli að færa ákæruvaldið eitt né neitt. Heldur aðeins að þeir vilja að Háskólin gefi álit um hvort að ákæran sé viðeigandi eða ekki. Í vísindum er aldrei tekið mark á stökum ályktunum eða greinum einfaldlega vegna þess að mönnum er fært að gera mistök. Þess vegna er rannsóknir endurteknar frá mörgum mismunandi sjónarhornum. Afhverju má réttarkerfið ekki hemja sér þessi vinnubrögð. Ég meina, kannski kemur ályktun frá HÍ sem segir að ákæra eftir 100. gr. sé ekki viðeigandi, önnur frá Bifröst sem segir að hún sé viðeigandi og enn önnur frá SUS um að hún sé viðeigandi. Þá er hægt að bera saman þessar ályktanir, meta rökin sem koma þar fram og fá réttari mynd um hversu viðeigandi þessar ákærur eru.

Það sem þú, Axel, ert í raun að segja er að menn ættu að treysta blint á valdastofnanir einfaldlega vegna þess að það stendur einhverstaðar á einhverju blaði að svona sé þetta bara.

Það sem þú segir svo í restina varðandi hvort að lagadeild HÍ ætti ekki bara taka að sér ákæruvaldið og rannsóknir glæpa er enn eitt dæmið um útúrsnúninga sem þú kemur svo mikið með í þessum rökræðum. Ég meina, það er enginn að tala um það, aðeins að fleiri en ein stofnun komi með álit svo það sé hægt að koma með nýja nálgun og betri mynd af þessu.

Rúnar Berg Baugsson (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 15:48

12 identicon

Stefán Jónsson: Ég sé hvergi nein alminnileg rök varðandi hvort uppástunga Borgarahreyfingarinnar um hvort hægt sé að treysta betur einhverjum skóla en réttarkerfinu á landinu sé bull eða ekki. Auk þess sé ég heldur ekki að Borgarahreyfingin hafi komið með þessa fullyrðingu yfir höfuð. Heldur einungis að Borgarahreyfingin sé að gefa það í skyn að ákæruvaldinu sé ekki treystandi einu og sér. Og ég meina, það er alveg rökrétt. Maður á aldrei að treysta neinu í blindni án þess að vega það og meta. Og það sem Borgarahreyfingin er að biðja um er að þetta verði vegið og metið

Rúnar Berg Baugsson (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 15:54

13 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Rúnar, taka mál ekki nógu langan tíma í réttarkerfinu, þó ekki sé verið að leita álits hinna ýmsu aðila úti í bæ, um hvort ætti að ákæra í þessu málinu, eða hinu og þá eftir hvaða lagagreinum.

Það væri ástæða til að einfalda kerfið, en ekki flækja það með svona óraunsæjum hugmyndum.  Dómstólarnir eru skipaðir þeim, sem mest og best eiga að þekkja lögin og eru að sjálfsögðu best hæfir til að meta ákærur, hvort þær falli undir ákveðnar lagagreinar, eða einhverjar aðrar og kveða svo upp dóma í framhaldi af því, eða vísa málum frá.

Engum öðrum en dómstólunum er treystandi til þess.

Axel Jóhann Axelsson, 24.1.2010 kl. 16:16

14 identicon

Sé það tilgangur réttarkerfisins að staðla samfélagið og refsa öllum þeim einstaklingum á færibandi sem fara ekki eftir þessum stöðlum þá er jú ástæða til að einfalda, minnka eða eyða utanaðkomandi áhrifum og ekki undir neinum kringumstæðum hleypa neinni hugmynd að sem gæti umrótað eða uppstakað kerfinu hvorki til hins betra né til hins verra.

Ég er á þeirri skoðun að lög séu órafjarri því að vera heilög og ættu þess vegna að vera undir stöðugri endurskoðun og vera skipt út reglulega. Það skiptir máli hverjir það eru sem ákvarða hverju á að skipta út og á hverja er hlustað á þegar þau eru endurskoðuð. Mér finnst það ekki góð hugmynd að fólk sem er skorið af sama steininum skuli vera þeir sem bæði hafa mestu röddina varðandi endurskoðun, þeir sem skipta þeim út og þeir sem dæma eftir þeim. Þeir sem vita hvað mest um lögin eru ekki endilega þeir sömu og eru hæfastir til að vita hvaða lög eru úrelt, og hver ekki. Álitið þeirra getur verið skekkt, annaðhvort af persónulegum skoðunum eða vegna þess að þeir eru einfaldlega búnir að vera að vinna of lengi fyrir réttarkerfið og hugmyndirnar þeirra því fastmótaðar eftir því þegar réttasta ákvörðunin þarfnast kannski hugsun út fyrir ramman.

Með öðrum orðum: Utanaðkomandi álit getur aldrei skaðað, en það getur hins vegar  hjálpað töluvert.

Rúnar Berg Baugsson (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 16:58

15 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Rúnar, þetta er að verða ótrúlegt stagl.  Það er ekki og verður aldrei hlutverk Háskólans eða annarra, að ákveða hvaða lög eiga að gilda í landinu, eða hvaða lög eru úrelt.

Það er hlutverk löggjafans, sem er Alþingi.  Það er eini aðilinn, sem getur sett landinu lög og eini alilinn, sem getur fellt lög úr gildi.  Undantekngin er einungis, ef forseti neitar lögum staðfestingar og vísar þeim í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Þá hefu þjóðin sjálf síðasta orðið.

Dómstólarnir dæma síðan nákvæmlega eftir laganna bókstaf og persónulegar skoðanir dómaranna blandast ekkert þar inn í.  Þrískipting valdsins er og verður besti kosturinn.

Axel Jóhann Axelsson, 24.1.2010 kl. 17:59

16 identicon

Og vegna þess að þú trúir því að þrískipting valdsins sé „hin eina rétta leið“, svo rétt að ekki ber að skoða þá gagnrýni sem fellur á hana heldur hunsa með tilliti til þess að þessi leið er „sú eina rétta“, að þá meiga aðrir ekki koma með álit sem geti haft áhrif á það hvernig „hið eina rétta vald“ hagar sér.

Þú trúir því að valdkerfið eigi að vera fastmótað á sem fæstum hendum, en ég trúi því að völdin ættu að dreifast jafnt, þarna greinir okkur á. En það sem að Borgarahreyfingin er að fara fram á er enganvegin bylting í tilhögun valdsins, heldur einungis að nokkrir aðillar utan valdkerfisins komi með álit sem menn innan „hins eina rétta valdkerfis“ ráða hvort þeir taki til greina eða ekki. Við hvað ertu hræddur?

Rúnar Berg Baugsson (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 18:12

17 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Hræddur?   Við hvað ætti ég að vera hræddur í þessu sambandi, annað en ruglingslegar tillögur um að tefja öll mál, með því að leita álits hinna og þessara úti í þjóðfélaginu á því, hvort ákæra skuli fyrir glæpi, eða ekki og ef þessir álitsgjafar kæmust að þeirri niðurstöðu, að ákæra skyldi, þá eftir hvaða lagagreinum og hverjum ekki.  Þetta er ekki valddreifing, heldur einhvers konar tillaga um að gera kerfið gjörsamlega óstarfhæft og ruglað.

Þegar lög eru samin á Alþingi, koma alls kyns aðilar fyrir þingnefndir til að gefa álit og tillögur varðandi þau frumvörp, sem verið er að fjalla um.

Að ætla svo að senda lagaframkvæmdina sjálfa út og suður til hinna ýmsu "álitsgjafa" er einfaldlega ótrúlega grunnhyggin hugmynd og óframkvæmanleg.  Ekki bara óframkvæmanleg, heldur gjörsamlega óþörf.

Axel Jóhann Axelsson, 24.1.2010 kl. 18:28

18 identicon

Nei, það er satt. Þetta er ekki valdreifing, heldur tillaga um að fara aðra leið en hefð er fyrir. Völdin er enn hjá sama gamla ríkissaksóknaranum og eru ekkert á leiðinni að fara þaðan jafnvel þó þessi tillaga nái fram að ganga. Það sem er hins vegar hægt að græða á þessari tillögu er að ef að það kemur einhverntíman til umræðu um hæfni ríkissaksóknara þá er hægt að vísa í þetta álit ef af því verður. Sama á hvorn veginn það fer. Kostnaðurinn er bara tími og hugsanlega fordæmi fyrir önnur umdeild mál, en þá verða einfaldlega bara fleiri álit um fleiri mál sem er hægt að vísa í í framtíðinni um hæfni komandi ákæruvaldshafa. Þannig að eini raunverulegi kostnaðurinn við þetta er vinna fræðimanna og tími ákærunnar. Nú ég held að hinir ákærðu séu ekkert að fara að deyja á næstunni og fræðimenn eru hvort eð er á launum við að gera hinar og þessar ályktannir þannig að ég myndi segja að gróðinn af þessu áliti (þ.e. tilvísanir) sé mun meiri en tapið (tími og vinna).

Þú segir að þessi vinna sé óframkvæmaleg. Hvernig nákvæmlega færðu það út. Nokkrir fræðimenn koma sér saman, ræða um þetta, skoða heimildir og skrifa að lokum sameiginlegt álit. Grunnhyggin: Jahh, það er eiginlega bara persónlegt álit því mér finnst það að gera þetta ekki einmitt grunnhyggið. Ég meina, ef af þessu áliti verður þá er búið að stækka út fræðagrunnin á móti þess að gera það ekki að þá helst fræðagrunnurinn jafnstór. Óþörf: Eins og ég segi, hvernig er hægt að tapa á því að skoða hlutina frá mismunandi sjónarhorni? Og svo segirðu að ef af þessu verður að þá verður kerfið ruglingslegt og óstarfhæft: En hvernig þá, að valdhafar fái aðhald þegar þeir vinna í umdeildum málum. Er það þín hugmynd um starfhæfi að valdhafar fái að vinna frjálst án þess að verða trufaðir af hinum valdlausu? Að valdhafar fái að fara með völdin sín eins og þeim sýnist? Jahh ég, allavega persónulega, er til í að fórna einfaldleika kerfis og starfhæfi valdhafa fyrir gegnsæi og aðhald valdhafanna (að minnsta kosti þegar þeir hafa völd yfir mér).

Lög ættu ekki að vera orðin stikk frí þegar þau eru komin úr alþingishúsinu, heldur eiga þau að vera undir stöðugri gagnrýni frá öllum hliðum þjóðfélagsins (einnig í framkvæmd þeirra og þeim dómum sem þau geta). Annað er ekki sanngjarnt.

Rúnar Berg Baugsson (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 22:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband