26.4.2011 | 18:56
Vinstri grænir og Villtir grænir
Óhætt er að segja að allt sé upp í loft í villta vinstrinu og ekki útséð um hvernig mál þróast á stjórnarheimilinu á næstu vikum og hvað þá hvað gerist innan stjórnarflokkanna og á milli þeirra.
Nú er svo komið að undanvillingarnir úr VG treysta sér ekki til að stofna formlegan þingflokk, vegna þess að "staðan í íslenskum stjórnmálum er óráðin" og trúi hver sem vill þeirri skýringu. Líklegt er að viðræður standi ennþá á milli Villtra grænna og Hreyfingarinnar um samstarf eða samruna og óvíst hvað úr þeim þreifingum verður á endanum.
Hnúturnar ganga á milli flokksbrota VG og ásakar hvor hópurinn hinn um að svíkja "hugsjónir" og stefnu flokksins og ekki einu sinni samkomulag um hvort hópurinn sé raunverulega Vinstri grænir og hvor Villtir grænir.
Það eina sem við blasir er að félagar beggja fylkinga eru algerlega grænir í öllum málum sem gætu orðið þjóðinni til hagsbótar.
Eigin hagur og pólitísk framtíð er hins vegar í algerum forgangi í villta vinstrinu og er þá átt við báða "hreinu og tæru" vinstri flokkana, eins og stjórnarflokkarnir nefna sig svo skemmtilega á hátíðar- og tyllidögum.
![]() |
Ekki tímabært að stofna þingflokk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.4.2011 | 16:04
Það verða engin verkföll boðuð
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, er farinn að tala digurbarkalega vegna stöðunnar í kjaraviðræðunum við SA og gefur í skin að boðun verkfalla sé á næsta leiti.
Samtök atvinnulífsins hanga hins vegar fast á kröfu sinni á hendur ríkisstjórninni um að lausn fáist á framtíðarstjórnun fiskveiða, þannig að sjávarútvegsfyrirtækin viti í hvernig umhverfi þeim verði ætlað að starfa í framtíðinni og verður ekki annað sagt, en að það sé réttmæt krafa enda ríkisstjórnin búin að vera að vandræðast með málið í tvö ár og meira en hálft ár síðan "sáttanefndin" skilaði niðurstöðu, sem engin sátt er um innan stjórnarflokkanna.
SA eru svona stíf á kröfu sinni vegna þess að forsvarsmenn samtakanna vita sem er, að félög innan ASÍ munu ekki boða til neinna verkfalla á næstunni, enda býður atvinnuástandið ekki upp á slíkar aðgerðir því þær myndu ganga af vel flestum fyrirtækjum dauðum, þ.e. öllum þeim sem einhverja möguleika eiga til framhaldslífs, væru aðstæður eðlilegar í efnahagskerfinu.
Líklega mun þrjóska Jóhönnu Sigurðardóttur og Jóns Bjarnasonar leiða til þess að kjaraviðræður verði í lausu lofti í einhverjar vikur ennþá.
![]() |
Vísi deilu til sáttasemjara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
26.4.2011 | 13:56
Neytendur svartsýnir, en eiga að bera uppi hagvöxtinn
Samkvæmt Gallup eykst svartsýni neytenda á að ástand efnahagsmálanna batni nokkuð á næstunni, reyndar hefur trú á slíka þróun verið á stöðuguri niðurleið undanfarna mánuði.
Nánast allar undirvísitölur Væntingavísitölunnar lækkuðu og í fréttinni segir m.a: "Mest var lækkunin á vísitölunni sem mælir mat landans á atvinnuástandinu en hún lækkaði um heil 13,3 stig milli mánaða og mælist nú aðeins 48,7 stig."
Samkvæmt hagspám ríkisstjórnarinnar, seðlabankans og ASÍ er gert ráð fyrir 2,3-2,8% hagvexti á árinu 2011 og á sá vöxtur að vera borinn uppi af aukinni einkaneyslu. Á meðan fólk öðlast enga trú á því að atvinnuástandið batni og atvinnuleysi minnki, eru litlar líkur á því að neytendur auki eyðslu sína að nokkru ráði og reyndar líklegra að þeir dragi úr henni, enda hefur kaupmáttur farið stöðugt minnkandi og ríkisstjórn og seðlabanka mistekist að halda verðbólgunni innan takmarks seðlabankans, sem er að ársverðbólga verði ekki umfram 2,5%.
Stöðug lækkun Væntingavísitölunnar er í raun vantraust neytenda á ríkisstjórninni og til að breyting verði á, þarf ríkisstjórnin annað hvort að segja af sér eða hætta hatrammri baráttu sinni gegn hvers kyns uppbyggingu atvinnufyrirtækja, leysa sjárvarútveginn úr gíslingu og stuðla þannig að minnkun atvinnuleysis.
Þolinmæði almennings gagnvart ríkisstjórninni er þrotin, enda kjör hans orðin slík að ekki verður við unað lengur.
![]() |
Svartsýni neytenda eykst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.4.2011 | 10:59
Ríkisstjórnin skapar ekki störf - heldur þvert á móti
Það er alveg hárrétt hjá Steingrími J., að hvorki hann né ríkisstjórnin hafa skapað nokkurt einasta starf í þjóðfélaginu, enda ekki í verkahring yfirvaldsins að skapa þau.
Það er hinsvegar hlutverk ríkisstjórnar á hverjum tíma að skapa atvinnulífinu lífvænlegan starfsgrundvöll, sem m.a. byggist á því að regluverkið sé ekki andsnúið atvinnuuppbyggingu og að skattabrjálæðinu sé haldið í skefjum, þannig að það verði ekki til þess að drepa niður alla nýja vaxtasprota, ásamt því að drepa niður þau fyrirtæki sem fyrir eru.
Steingrímur J. og ríkisstjórnin hafa barist með kjafti og klóm gegn öllum áformum um virkjanaframkvæmdir, sem eru alger grundvallarforsenda þess að hægt verði að byggja upp frekari stóriðju í landinu og beitt öllum brögðum til þess að eyðileggja uppbyggingaráform álvers í Helguvík, þar sem þó er búið að eyða milljörðum króna í undirbúningsframkvæmdir.
Einnig hefur ríkisstjórnin komið í veg fyrir alla fjárfestingu í sjávarútvegi og fiskvinnslu með gíslatöku sinni á þeim atvinnugreinum undanfarin rúm tvö ár, en engum dettur í hug að leggja út í endurnýjun atvinnutækja eða aðra uppbyggingu á meðan enginn veit hvað ríkisstjórnin ætlar sér með nýskipan fiskveiðistjórnunarinnar.
Ríkisstjórnin hefur ekki skapað neitt nýtt, hvorki á sviði atvinnumála eða á öðrum sviðum, sem til framfara gætu orðið.
Það er alveg rétt hjá Steingrími J., að stjórninni hefur hins vegar gengið vel að framlengja kreppuna langt umfram það sem annars hefði orðið og stuðlað að miklu meira atvinnuleysi en þolanlegt er.
Vonandi fellur ríkisstjórnin fljótlega, svo ný stjórn fái umboð til að taka á þeim málum sem núverandi stjórn ræður ekki við.
Sem reyndar eru nánast öll mál sem undir ríkisstjórn heyra.
![]() |
Ekki hlutverk ríkisins að skapa störf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)