30.3.2011 | 19:28
OR göspruð í greiðsluerfiðleika?
Samkvæmt yfirlýsingu frá Guðlaugi Gylfa Sverrissyni, fyrrverandi stjórnarformanns OR, var góð samvinna milli OR og helstu lánadrottna allt þangað til nýr meirihluti tók við völdum í Reykjavík á miðju síðasta ári og hringlandaháttur hófst með stjórnun fyrirtækisins og að ekki sé talað um gaspur borgarstjórans og stjórnarmanna OR um fjárhagsstöðu fyrirtækisins og hugsanlegt gjaldþrot.
Í yfirlýsingu sinni varpar Guðlaugur Gylfi fram ýmsum spurningum, t.d. þessum: "Hvað breyttist eftir júní 2010? Núverandi forstjóri hefur staðfest án frekari skýringa að skyndilega um áramótin 2011 hafi viðhorf til félagsins gjörbreyst. Höfðu þá nýir stjórnendur setið að félaginu í hálft ár, skipt um forstjóra, sett bráðabirgðaforstjóra og hækkað gjaldskrá á almenning. Getur verið að yfirlýsingar stjórnenda og eigenda um stöðu og greiðslugetu OR hafi haft áhrif til hins verra við útvegun fjármagns til rekstrar OR? Fullyrðingar nýrra stjórnenda OR um gjaldþrot fyrirtækisins er algjörlega á þeirra ábyrgð."
Upplýsingar Guðlaugs um greiðan aðgang OR að lánsfé og góðu samstarfi við lánadrottna allt þar til nýr meirihluti tók við völdum, eru afar merkilegar og það verður verðugt verkefni fyrir fyrirhugaða rannsóknarnefnd um rekstur OR undanfarin ár, að rekja söguna allt til dagsins í dag.
Böl OR, eins og flestra annarra fyrirtækja og einstaklinga í landinu, er sú furðulega ákvörðun að taka erlend lán, þrátt fyrir að mestur hluti teknanna væru í íslenskum krónum. Sú árátta "fjármálasnillinganna" sem réðu ferðinni síðustu árin fyrir hrun verða seint skilin til fullnustu, svo fáránleg sem hún var.
Burt séð frá því, þá þarf að upplýsa hvað breyttist í afstöðu lánadrottna við meirihlutaskiptin í borginni á síðast liðnu ári.
![]() |
Höfðu yfirlýsingarnar áhrif? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.3.2011 | 12:54
Eitt réttarhneyksli ofan á annað?
Afgreiðsla Alþingis á tillögum um að stefna nokkrum ráðherrum síðustu ríkisstjórnar fyrir Landsdóm endaði með pólitískri valdníðslu gegn einum manni, þ.e. Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra, og er þeim þingmönnum sem að því stóðu til ævarandi skammar og þá ekki síst þeim þingmönnum Samfylkingarinnar sem greiddu atkvæði gegn því að stefna ráðherrum síns flokks fyrir dóminn, en með því að Geir yrði einn ákærður.
Nú hamast Sigríður Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, í því að fá lögum um Landsdóm breitt til að auðvelda saksóknina gegn Geir H. Haarde og nýtur til þess aðstoðar Ögmundar Jónassonar, Innanríkisráðherra, sem var einn þeirra sem samþykkti að ákæra og saman ætla þau að knýja lagabreytingar, sem eru sakborningi í óhag, í gegn um Alþingi.
Andri Árnason hrl., verjandi Geirs mótmælir þessari ótrúlegu málsmeðferð og í fréttinni kemur fram m.a: "Andri segir að sé grafalvarlegt mál hvernig þetta beri að. Landsdómur sjálfur, eða forseti hans, sem fer með dómsvaldið í málinu, leggi til breytingarnar, geri tillögu í samráði að því er virðist við ráðherra, sem var einn af þeim sem samþykktu málshöfðunarályktunina, og fái síðan Alþingi, sem ákærir, til að breyta lögunum."
Slíkar breytingar á lögunum um Landsdóm, eftir að búið er að stefna sakborningi fyrir dóminn, væri hreint réttarhneyksli, sem bættist ofan á upphaflega réttarfarsskandalinn.
Miðað við annað, þarf svo sem enginn að verða undrandi á svona vinnubrögðum, nema þá Steingrímur J., sem alltaf er hissa á öllu.
![]() |
Saksóknari á ekki að reka á eftir lagabreytingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.3.2011 | 09:59
Ríkisstjórnin verði með NÚNA eða fari frá ella
Í marga mánuði hefur verið reynt að draga upplýsingar upp úr ríkisstjórninni um hvaða aðgerðum hún hyggist beita til að koma einhverri hreyfingu á fjárfestingar í landinu og nýrri sókn í atvinnumálin, en skapa þarf a.m.k. 20.000 störf á næstu misserum í stað þeirra sem tapast hafa í kreppunni.
Á morgun er síðasti dagur sem hægt er að leggja fram ný frumvörp á Alþingi, ef þau eiga að fást afgreidd fyrir vorið og af biturri fyrri reynslu er engum loforðum ríkisstjórnarinnar treystandi, nema þau séu komin í frumvarpsform og reyndar varla fyrr en þau hafa verið samþykkt á þinginu, því ríkisstjórnin hefur ekki fyrirfram tryggan þingmeirihluta fyrir einu einasta máli og því eins líklegt að þau dagi uppi í þinginu.
Ríkissjórnin hefur daginn í dag og morgundaginn til að sýna hvort hún sé yfirleitt fær um að fást við þau vandamál sem við er að eiga í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar, en launþegar í landinu geta ekki tekið á sig meiri byrðar án þess að fá einhverjar raunhæfar vonir um að betri tíð sé framundan.
Eru menn eða mýs í ríkisstjórninni? Nú er að duga eða drepast. Aðeins tæpir tveir sólarhringar til stefnu, ef stjórnin ætlar ekki að eyðileggja kjarasamningana.
![]() |
Funda með stjórnvöldum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)