Pólitískur rétttrúnaður á háu stigi

Í Þýskalandi liggur forstjóri Deutsche Bank undir harðri gagnrýni fyrir að láta þau almæltu sannindi út úr sér að fjölgun kvenna í stjórn bankans myndi auka fegurð og litadýrð í hópi stjórnendanna.  Þetta liggur svo í augum uppi að í raun ætti að vera óþarfi að nefna það, en kvenfólkið er auðvitað fallegra kyn mannskepnunnar og klæðist að auki mun smekklegri og litaglaðari fötum en karlkynið.

Samkvæmt pólitískum rétttrúnaði má alls ekki benda á svona einfaldar staðreyndir, heldur á alltaf að láta eins og enginn mismunur sé á kynjunum og allra síst má tala um að konur séu fallegar, eingöngu má segja að þær séu gáfaðar, snjallar og standi körlunum snúning á öllum sviðum mannlegrar tilveru.  Hins vegar má alls ekki segja um nokkra konu að hún sé ljót eða heimst, því þá er verið að gera lítið úr kvenkyni veraldarinnar í heild á svívirðilegan hátt, en þó kona segi eitthvað álíka um karlmann, þá er það bæði saklaust og einfaldlega verið að benda á staðreyndir.

Í annarri frétt kemur fram að skoskir vísindamenn hafi komist að því eftir ýtarlegar rannsóknir að konur séu blíðari en karlar og þó þetta hafi verið almælt tíðindi frá örófi alda, þá þykir virtum vísindamönnum samt ástæða til að leggja tíma, fé og fyrirhöfn í að rannsaka þetta til hlítar.

Í anda pólitísks rétttrúnaðar hljóta konur að rísa upp og mótmæla því að þær séu blíðari í sér en karlar.  Viðurkenning á slíku jafngildir því að segja að kynin hugsi ekki nákvæmlega eins og að jafnvel gæti verið mismunur á hegðun þeirra og viðbrögðum við utanaðkomandi áreiti.

Gagnrýni á við þá sem forstjóri Deutsche Bank sætir nú, er auðvitað ekkert annað en hlægileg, en verst er að ekki hafa allir húmor til að sjá bjálfaganginn sem að baki býr.


mbl.is „Fegurð ykist með konum í stjórn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Níðingsskapur í velferðarkerfinu

Svartasti bletturinn á velferðarkerfinu er níðingsskapurinn gagnvart þeim ellilífeyrisþegum sem þurfa að dveljast á hjúkrunarheimilum vegna lélegrar heilsu á ævikvöldinu, en þar er fólk látið greiða allt að 279.000 krónum á mánuði fyrir vistina.

Grundvöllur velferðarkerfisins er sagður vera sá, að allir eigi að vera jafnir gagnvart því og fjársterkir aðilar eigi ekki að geta keypt sér þjónustu umfram þá tekjulægri. Í tilfelli hjúkrunarheimilanna er þessu snúið á hvolf og jöfnuðurinn látinn koma fram í því að allir hafi jafn lága vasapeninga alveg sama hve duglegir þeir hafi verið að spara til elliáranna, til þess að geta leyft sér a.m.k. þann munað að hafa efni á því að gefa börnunum sínum, barnabörnum og barnabarnabörnum svolitlar jólagjafir, ásamt því að geta veitt sjálfum sér örlítinn óþarfa í ellinni.

Kristín H. Tryggvadóttir, 74 ára, sem unnið hefur alla sína starfsævi við þokkalegar tekjur, greitt allan tímann í lífeyrissjóð og jafnvel getað lagt einhverja aura til hliðar, til að njóta í ellinni þarf að búa við eftirfarandi afarkjör á hjúkrunarheimili, vegna rúmlega 400 þúsund króna eftirlauna sinna: "Kristín greiðir 120 þúsund krónur á mánuði í skatta, um 240 þúsund í dvalarkostnað til Hrafnistu og á síðan 65 þúsund krónur afgangs sem þurfa að duga fyrir „öllum óþarfa“ eins og hún orðar það, t.d. síma, sjónvarpi, blöðum, hársnyrtingu, fótsnyrtingu, skóm og fatnaði, sælgæti og gjöfum, svo ekki sé minnst á gleraugu, heyrnartæki og tannlæknakostnað."

Eftir að hafa greitt háa skatta í áratugi og talið sig vera að búa sig vel undir ellina, þarf slíkt fólk að sæta hreinu ráni af hendi hins opinbera, loksins þegar koma á að því að njóta afraksturs erfiðisins.

Þá er ekki einu sinni hægt að leyfa fólki að njóta ánægjunnar af því að geta glatt afkomendur sína. Sá eini sem gleðst yfir þessari ráðdeild er fjármálaráðherra hvers tíma. 


mbl.is Heldur eftir 65.000 krónum af lífeyrinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. febrúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband