20.2.2011 | 20:08
Að fæðast er stórhættulegt
Fræðingar af öllum gerðum og tegundum verða aldrei þreyttir á að rannsaka og upplýsa alþýðuna um hvað hættulegt sé að gera hitt og þetta og jafnvel gæti verið stórhættulegt að láta suma hluti ógerða.
Allir hafa heyrt af rannsóknum þar sem mýs voru látnar éta hangikjöt í alla mata mánuðum saman og niðurstaða rannsóknarinnar leiddi svo í ljós, að hangikjötsát gæti valdið krabbameini. Á sama hátt hefur verið sýnt fram á alls kyns heilbrigðishættur af nánast hverju sem er og sýnt hefur verið fram á að lífið er stórhættulegt.
Nýjustu rannsóknir merkra vísindamann hafa nú sýnt að ákveðin tegund kynmaka getur verið krabbameinsvaldandi, en þeirri spurningu er ósvarað hvort þeir sem algerlega sniðganga þannig kynlífsathafnir séu þá í bráðri hættu af því sem þeim dytti í hug að gera í staðinn.
Niðurstöður nákvæmra rannsókna, sem flestar eru kostaðar af opinberu fé, er að allt sem gott er sé stórhættulegt og eins er allt sem er skemmtilegt harðbannað. Það verður reyndar að teljast undarlegt að hræða líftóruna úr fólki með öllum þessum viðvörunum, því aðrir uppástanda að þá fyrst fari fólki að líða vel, þegar það er dáið.
Þessar rannsóknir sýna og sanna að langhættulegast af öllu er að fæðast í þennan heim og líklega væri bara langbest að fæðast steindauður.
![]() |
Valda munnmök krabbameini? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
20.2.2011 | 19:12
Lýðræði fylgir ábyrgð
Ábyrgðin á Icesave liggur nú hjá þjóðinni, segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri atvinnulífsins, og líta verður á það sem raunsærri afstöðu en ríkisstjórnin hefur sýnt, en hennar fyrstu viðbrögð við höfnun forsetans á staðfestingu Icesavelaganna einkenndust af fumi, fáti, hroka, klaufaskap og forundran, alveg eins og þegar forsetinn neitaði hörmungarniðustöðu stjórnarflokkanna staðfestingar í janúarbyrjun 2010.
Sjálfur mælir Vilhjálmur með því að þjóðin samþykki Icesave III, vegna þeirrar óvissu sem hann og aðrir þeir sem eru á sömu skoðun og hann telja að við taki, hafni þjóðin þessari þriðju tilraun til að þröngva málinu upp á þjóðina. Ekki síst er látið að því liggja að ekki fáist erlendir fjárfestar til landsins, eða erlent lánsfé, þrátt fyrir að hið gagnstæða hafi komið í ljós oftar en einu sinni og oftar en tvisvar undanfarna mánuði.
Ríkisstjórnin skelfist ekkert eins mikið og þjóðina og getur því ekki hugsað sér að spyrja hana álits á einu eða neinu og trú þeirri stefnu sinni er hún algerlega miður sín yfir afgreiðslu forsetans og treysta sér engan veginn til að útskýra fyrir kjósendum nauðsyn þess að þeir staðfesti gerðir hennar.
Kjósendur eru alveg fullfærir til að taka skynsamlega ákvörðun í þessu efni, sem öðrum, og nú er skylda stjórnarflokkanna að vinna sinni niðurstöðu fylgis og reyna að fá meirihluta þeirra til fylgis við sinn málstað.
Aðrir munu svo halda áfram að kynna sín sjónarmið í þeirri von að þau verði ofan á í væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þannig á sannkallað lýðræði að virka.
![]() |
Ábyrgðin liggur hjá þjóðinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)