10.2.2011 | 19:54
Svandís svífst einskis í hroka sínum
Svandís Svavarsdóttir, sem í dag fékk á sig dóm frá Hæstarétti um lögbrot og að hafa valdið Flóahreppi og Landsvirkjun milljarða tjóni, lætur sér ekki einu sinni detta í hug að segja af sér embætti, en heldur uppteknum hætti og reynir að ljúga sig út úr málinu með því að segja að lög hafi verið óljós og séu það jafnvel ennþá, þrátt fyrir endurskoðun þeirra síðastliðið haust.
Svandís reynir að halda því fram að úr því að í gömlu lögunum hafi ekki staðið skýrt og skorinort að aðrir en hreppurinn mættu greiða fyrir skipulagsvinnu, þá hljóti það að hafa verið bannað og með lagabreytingunni í haust ætlaði hún að lögfesta slíkt bann skilyrðislaust. Alþingi sá þó við því lymskubragði hennar og breytti frumvarpinu þannig að tekinn var sérstaklega skýrt fram, að öðrum en sveitarfélagi væri fullkomlega heimilt að koma að skipulagsvinnu vegna framkvæmda í viðkomandi sveitarfélagi.
Nú til dags er vinsælt að tala um nýtt Ísland með breyttum siðferðisviðhorfum, nýjum vinnubrögðum og opnara og réttlátara stjórnkerfi. Væri einhver alvara á bak við slíkar yfirlýsingar myndi Svandís segja af sér strax í kvöld og biðjast afsökunar á því tjóni sem hún hefur valdið þjóðfélaginu með lögbrotum sínum.
Það mun hún hins vegar ekki gera, heldur sitja sem fastast og ekkert minnka hrokann og yfirganginn gagnvart öllum sem til ráðuneytisins þurfa að leita.
![]() |
Mun staðfesta skipulagið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.2.2011 | 16:50
Leikhús fáránleikans
Til málamynda var haldinn "samningafundur" í dag vegna verkfallsboðunar starfsmanna fiskimjölsverksmiðja í Karphúsinu og væntanlega hafa deiluaðilar fengið kaffibolla hjá sáttasemjaranum og jafnel pönnuköku eða vöfflu. Aldrei stóð til að gera eitt eða neitt annað en að þiggja þeggar veitingar, enda alls ekki í bígerð að semja við þessa verkfallsboðendur um nokkurn hlut.
Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri Afls á Austurlandi, sagði m.a. við mbl.is: "Verkfallið á að hefjast á þriðjudagskvöld og eins og staðan er í dag sé ekki hvað ætti að stoppa það. Yfirlýsingar talsamanna Samtaka atvinnulífsins gera þessa fundi alveg tilgangslausa. Það dynja á okkur yfirlýsingar hægri vinstri um að það eigi ekki að semja við okkur."
Það verður að teljast óskiljanlegt að þessari tilgangslausu vitleysu skuli haldið áfram, því allir vita að aldrei hefur staðið til að hækka laun þessara verkfallsmanna umfram aðra launþega og kauphækkanir munu ekki verða miklar, eins og atvinnuástandið í landinu er um þessar mundir, að ekki sé minnst á stöðu allra fyrirtækja landsins, annarra en útflutningsgreinanna, en þau eru að basla við að halda sér frá gjaldþroti og því ekki í stakk búin til að taka á sig nokkrar launahækkanir, sem heitið geta.
Leikritið um kjarasamningana verður þó sýnt eitthvað áfram og nú hafa flugumferðarstjórar bæst í hóp með bræðslumönnum og eru byrjaðir að undirbúa sitt verkfall, en í dag var tilkynnt að þeir myndu byrja með yfirvinnubann, afleysingabann og þjálfunarbann. Næst munu flugstjórar væntanlega blanda sér í baráttuna og svo læknar og aðrar stéttir, sem eru á viðunandi launum en eru hins vegar í aðstöðu til að skaða efnahagslífið stórkostlega.
Leikritið um kjarasamningana er löngu komið í flokk með öðrum sígildum leikverkum sem flokkuð hafa verið undir leikhús fáránleikans.
![]() |
Samningafundur í 15 mínútur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.2.2011 | 11:14
Leikritið um kjarasamninga í nýrri uppfærslu
Enn á ný er leikritið um kjarasamninga komið á fjalirirnar í Karphúsinu og þar leika fulltrúar verkalýðsins góðu gæjana með sanngjörnu kröfurnar, en fulltrúar atvinnurekenda eru í hlutverki vondu gæjanna, sem ekkert vilja fyrir starfsmenn sína gera og allra síst að hækka við þá launin.
Verkalýðsfélögin hafa nú gripið til þess ráðs að láta fámennan hóp bræðslumanna boða verkfall í miðri loðnuvertíð, rétt áður en hrognavinnsla kemst á fullan skrið, til þess að valda þjóðarbúinu sem mestum skaða á sem skemmstum tíma og á að heita að þetta sé gert til að knýja fram tuga prósenta hækkun kjarasamninga þessa hóps, þó allir viti að verið sé að gera tilraun til að setja viðmið fyrir aðra samninga, sem fylgja munu í kjölfarið.
Sum verkalýðsfélög vilja semja um miklu meiri kauphækkanir frá útflutningsatvinnuvegunum en öðrum, með tilvísun til þess að þessar greinar standi betur nú um stundir vegna gengishrunsins og er þetta nýtt útspil í kjaraviðræðum, þar sem hingað til hefur verið litið á það sem sjálfsagðan hlut að aðalkjarasamningar næðu til allra launamanna, en ekki einungis þeirra sem ynnu hjá "bestu" fyrirtækjunum. Í sjálfu sér má segja að ekki sé alsendis órökrétt að fyrirtæki borgi laun eftir getu hvers og eins þeirra, en verði slíkt ofaná í þessum kjaraviðræðum er það alger bylting í launastefnu verkalýðsfélagnanna frá því sem verið hefur frá því fyrir daga Guðmundar Jaka og hans félaga.
Í viðhangandi frétt kemur fram algerlega nýtt hugtak, sem aldrei hefur heyrst áður, en það kemur frá Gylfa Arnbjörnssyni, forseta ASÍ, en það hljóðar svo: "Það eru lagðar ákveðnar skyldur á herðar atvinnurekenda og stéttarfélaga um að gera kjarasamninga. Það er ekki hægt að neita því að gera kjarasamning á grundvelli pólitískra krafna. Þetta má ekki skv. stjórnarskrá vinnumarkaðarins."
Um þetta er það að segja, að verkalýðsfélögin hafa oft og iðulega beitt sér og styrk sínum í pólitískum tilgangi og jafnvel reynt að koma ríkisstjórnum frá völdum og nægir að nefna atlöguna að ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar í því sambandi. Lokasetning Gylfa um "stjórnarskrá vinnumarkaðarins" vekur upp spurningar um hvort allt annað sem hann lét frá sér fara um kjarasamningana sé líka grín og glens sem látið er falla í tilefni frumsýningar leikritsins um samningana.
Að hæfilegum tíma liðnum mun svo ríkisstjórnin setja lög um kjarasamninga og banna verkföll næstu þrjú ár.
Tjaldið fellur, leiksýningunni lýkur og lífið heldur áfram.
![]() |
Rætt um kjaramál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.2.2011 | 08:31
Íslensk þrælaþjóð
Mest allur gjaldeyrisforði þjóðarinnar er tekinn að láni hjá AGS og norðurlöndunum og samkvæmt frétt mbl.is mun ganga verulega á þann forða á næstu árum, þ.e. hann mun að miklu leyti fara í uppgjör á erlendum skuldum bankakerfisins og vaxtagreiðslur til Breskra og Hollenskra fjárkúgara vegna Icesave.
Í fréttinni segir m.a: "Að öllu óbreyttu mun ganga verulega á gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands á næstu árum. Segja má að gjaldeyrisútflæði vegna vaxtagreiðslna Icesave-samningsins muni gera erfiða stöðu illviðráðanlega." Stjórnmálamenn hafa ekki ennþá útskýrt hvernig þeir telji að samþykkt á Icesave III geti orðið til þess að bæta stöðu þjóðarbúsins og liðka til fyrir nýjum erlendum lánum, því varla mun nokkur óbrjáluð lánastofnun auka lán sín til þjóðar, sem viljandi leikur sér að því að gera erfiða stöðu sína illviðráðanlega.
Eina útgönguleiðin út úr þessu skuldafeni er að hafna algerlega Icesave III og ganga af krafti í að fjölga stóriðjuverum og annarri gjaldeyrisskapandi atvinnustarfsemi, því þjóðin mun að sjálfsögðu ekki losna af skuldaklafanum nema með aukinni vinnu og fyrst og fremst meiri gjaldeyrisöflun.
Með óbreyttri stjórnarstefnu verða Íslendingar skattaþrælar útlendinga næstu áratugina.
![]() |
Gengur verulega á gjaldeyrisforðann á árinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)