24.8.2010 | 20:18
Auðvitað á að reka þá alla
Ungir jafnaðarmenn krefjast þess að Jón Bjarnason verði rekinn úr embætti fyrir að segja það sem hann meinar um svik Samfylkingarinnar varðandi innlimunarferlið að stórríki ESB og ekki síður vegna þess að hann segir umbúðalaust, að hann sé algerlega andvígur þessari innlimun.
Sóknarpresturinn í Laugarnessókn fékk góðar undirtektir víða við þeirri kröfu sinni að Geir Waage yrði rekinn frá Skálholti vegna þess að hann hafði sínar eigin skoðanir á túlkun þagnareiðs presta og dirfðist að tala um þær opinberlega.
Björgvin Björgvinsson, rannsóknarlögreglumaður, var rekinn úr starfi yfirmanns kynferðisafbrotadeildar vegna þess að hann sagði skoðanir sínar á því að fólk ætti einstaka sinnum að líta í eigin barm og taka ábyrgð á drykkju- og dópvenjum sínum.
Nú eru uppi háværar raddir um að Karl Sigurbjörnsson, biskup, eigi að segja sig frá embætti, eða vera rekinn ella, fyrir það sem hann hefur sagt og ekki sagt um þau skelfilegu afbrot sem Ólafur sálugi Skúlason, fyrrverandi biskup, er sakaður um að hafa framið fyrir fjörutíu árum.
Svona mætti áfram telja kröfurnar um brottrekstra manna úr störfum vegna þess að viðkomandi leyfði sér að hafa skoðanir á einhverju og segja frá því opinberlega, eða jafnvel fyrir að hafa engar skoðanir og hafa ekki vit á að þegja um það.
Er ekki alveg sjálfsagt að reka alla sem hafa skoðanir, sérstaklega ef þær skoðanir eru andstæðar eigin skoðunum?
![]() |
Krefjast afsagnar Jóns Bjarnasonar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.8.2010 | 16:44
Lífeyrissjóðirnir að bjarga Landsbankanum?
Kaup Framtakssjóðs Íslands á eignarhaldsfélaginu Vestia af Landsbankanum kom öllum á óvart, enda söluferlið allt hulið þoku og engar upplýsingar hvernig verðið var fundið út, en það nam um tuttugu milljörðum króna. Í kaupunum á Vestia fylgdu átta stórfyrirtæki, sem öll höfðu nánast orðið gjaldþrota, en Landsbankinn yfirtekið og sett inn í eignarhaldsfélagið, sem séð hefur um að halda þeim í rekstri í fullri samkeppni við önnur fyrirtæki á markaðinum, sem ennþá hafa náð að halda sér á floti, þrátt fyrir mikla erfiðleika.
Eitt af þessum átta fyrirtækjum er t.d. Húsasmiðjan, sem Bónusgengið var búið að keyra í þrot, þannig að Landsbankinn sá sér ekki annað fært en yfirtaka fyrirtækið, væntanlega fella niður af því einhverjar skuldir og síðan hefur fyrirtækið verið rekið í grimmri samkeppni við Byko og Múrbúðina, sem ekki hafa notið sambærilegrar skuldaniðurfærslu og Húsasmiðjan. Ekki þarf að fjölyrða um það, að eins og markaðurinn er núna, er enginn rekstrargrundvöllur fyrir Húsasmiðjunni og ekki mun ástandið batna, ef og þegar Bauhaus kemur inn á byggingavörumarkaðinn.
Óskiljanlegt er með öllu, hvers vegna Vestia auglýsti fyrirtækin ekki til sölu í opnu og gagnsæju ferli, þannig að öllum sem bolmagn hefðu til, gætu boðið í þau, jafnt innlendir sem erlendir aðilar. Fulltrúar lífeyrissjóðanna segja að Vestia verði rekið áfram í óbreyttu formi og þegar tímar líða og fyrirtækin verði söluhæf, verði þau seld á opnum markaði, þannig að hlutverk Vestia sé óbreytt, þrátt fyrir sölu félagsins frá Landsbankanum til lífeyrissjóðanna.
Ekki er hægt að draga aðra ályktun af þessu einkennilega máli en þá, að þessi kaup lífeyrissjóðanna á Vestia hafi verið í þeim eina tilgangi að bjarga Landsbankanum frá nýju hruni, því tuttugumilljarða innspýting í bankann hlýtur að vera mikil vítamínsprauta, eftir dóm Hæstaréttar um gengislánin.
Allt flokkast þetta undir stefnu ríkisstjórnarinnar um opna og gagnsæja stjórnsýslu, þar sem allt er "uppi á borðum".
![]() |
Viðskiptanefnd fundi um kaupin á Vestia |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.8.2010 | 14:23
Jóhanna misskilur málið vitlaust
Jóhanna Sigurðardóttir skammar Jón Bjarnason fyrir að misskilja innlimunarferlið í ESB, þó í raun sé það hann sem skildi málið rétt, en Jóhanna misskildi allt saman vitlaust með því að halda að skilningur Jóns væri misskilningur. Steingrímur J. skilur svo ekki upp eða niður í öllum þessum misskilningi og segist halda að ef Jón sé ekkert að misskilja, þá sé þörf á því að rannsaka málið nánar og komast að sameiginlegum skilningi ríkisstjórnarinnar í heild.
Til að auðvelda ríkisstjórninni að komast til botns í málinu, má benda henni á heimasíðu ESB, en þar er í raun öllum misskilningi eytt um það, hvað ríki þurfi að uppfylla áður en þau fá inngöngu í stórríkið. Þá síðu má sjá Hérna
Meðal annars segir um inngöngu nýrra ríkja á síðunni: "In 1995 the Madrid European Council further clarified that a candidate country must also be able to put the EU rules and procedures into effect. Accession also requires the candidate country to have created the conditions for its integration by adapting its administrative structures. While it is important for EU legislation to be transposed into national legislation, it is even more important for the legislation to be implemented and enforced effectively through the appropriate administrative and judicial structures. This is a prerequisite of the mutual trust needed for EU membership."
Þar sem vitað er að Jóhanna er ekkert sérstaklega sleip í ensku, væri ráð fyrir hana að láta einhvern þeirra tuga þýðenda, sem tekið hafa til starfa í ráðuneytunum renna yfir þetta og útskýra fyrir sér.
Þó þýðendurnir sitji sveittir við að þýða tug- eða hundruðþúsundir skjala frá ESB, hljóta þeir að geta rennt yfir þetta í kaffitímanum sínum.
![]() |
Telur að um misskilning sé að ræða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.8.2010 | 08:33
Stopp á innlimunina í ESB, strax.
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir að ráðuneyti hans muni ekki taka upp lög og reglugerðir ESB fyrr en eftir að innlimun Íslands í stórríkið hafi verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu, en Samfylkingin er farin að vinna að því öllum árum að lauma laga- og regluverki stórríkisins upp á Íslendinga, án þess að láta sér detta í hug að bera slíkt undir þjóðina.
Beiðni Samfylkingarinnar til ESB um að innlima Ísland í stórríkið var aðeins þessi eina setning:
"Tillaga til þingsályktunar
um aðildarumsókn að Evrópusambandinu.
(Lögð fyrir Alþingi á 137. löggjafarþingi 2009.)
Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning."
Þetta er það, sem Samfylkingunni tókst að ljúga VG til að styðja, en þarna er hvergi minnst á að Íslendingar skuli taka upp laga- og reglugerðarfargan ESB áður en hugsanlegur samningur um innlimunina lægi fyrir. Þvert á móti var látið líta svo út, að þjóðin ætti að hafa síðasta orðið um væntanlegan samning, þegar fólk sæi hvað "væri í pakkanum".
VG og sjálfsagt fleiri, sem héldu að þeir fengju að kíkja í einhvern "pakka" áður en þeir gerðu upp hug sinn, eru nú að vakna upp við vondan draum og uppgötva óheiðarleika Samfylkingarinnar í öllu þessu ferli og eru að byrja að tjá sig um svikin, sem þeir hafa verið beittir í þessu máli.
Það verður að taka undir með Jóni Bjarnasyni, að þessa svikamyllu verður að stoppa strax.
![]() |
Kominn tími til að segja stopp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)