Hjörleifur víki, ef hann ber ábyrgð á skuldastöðunni

Orkuveita Reykjavíkur, sem hefur mest af sínum tekjum í íslenskum krónum, skuldbreytti nánast öllum sínum lánum í erlend lán og mun stór hluti þeirra vera í jenum og svissneskum frönkum.  Við hrun krónunnar margfaldaðist skuldastaðan í krónum talið og það svo, að tekjur fyrirtækisins duga ekki fyrir vöxtum og afborgunum lengur.

Ekki er óeðlilegt, að sá sem ábyrgð ber á svo gjörsamlega glórulausri fjármálastjórn axli ábyrgð á þeim gerðum og þá beinast sjónir fyrst að forstjóra fyrirtækisins og öðrum stjórnendum fjármála og reksturs.  Spurning er um hver ber höfuðábyrgð á þessari stöðu og hvenær þessar skuldbreytingar voru gerðar, en Hjörleifur Kvaran hefur gegnt stöðu forstjóra frá 1. september 2007 og líklegast er að þessar fjármálalegu æfingar hafi verið gerðar fyrir þann tíma, því um sama leyti og hann tók við forstjórastólnum lokuðaðist fyrir allar erlendar lántökur og gengið byrjaði að hrynja í mars 2008.

Í einkafyrirtæki hefði forstjórinn og aðrir sem ábyrgð bera á rekstri félagsins, verið látnir víkja eftir önnur eins fjármálaleg mistök og þetta og jafnvel þó minni hefðu verið.  Hins vegar væri ekki réttlátt. að víkja forstjóra sem hefði verið ráðinn til starfa eftir að mistökin hefðu verið gerð og væntanlega haft þann aðalstarfa að klóra fyrirtækið út úr þeim aftur.

Hvort það er raunin með Hjörleif, skal ósagt látið, en vonandi er ekki verið að víkja honum úr starfi, eingöngu til að koma öðrum að, sem þóknanlegri er nýjum valdhöfum Besta flokksins og dragdrottningunni, sem nú er titluð borgarstjóri, algerlega óverðskuldað.

Allt kemur þetta betur í ljós á næstu dögum.


mbl.is Tillaga um að Hjörleifur víki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn beri ábyrgð - allra síst á sjálfum sér

Þó ótrúlegt sé, lét Ragna, dómsmálaráðherra, starfskonur Stígamóta hræra svo í sér, að hún lét hafa sig út í að heimta nánari skýringar á ummælum Björgins Björgvinssonar, yfirmanns kynferðisafbrotadeildar lögreglunnar, sem hann lét falla, á þá leið að ýmislegt gæti gerst þegar fólk væri hálf rænulaust vegna áfengis- eða dópneyslu og líklega væri tímabært að fólk liti oftar inn á við og tæki ábyrgð á eigin gerðum, því útúrruglað fólk væri útsettara fyrir því að lenda í ýmsum ógöngum við slíkar aðstæður.  Ummælin voru raunar afar skýr og auðskiljanleg og þurftu engra frekari skýringa, sérstaklega ekki fyrir þá sem skilja íslensku sæmilega.

Í framhaldinu var síðan Björgvin neyddur til að segja af sér yfirmannsstarfinu og Ríkislögreglustjóri lagðist svo lágt að biðjast afsökunar á ummælum Björgvins, með þeim orðum að þau endurspegluðu ekki skoðun embættisins og því að engu hafandi.

Þetta er nokkuð lýsandi fyrir þann hugsunarhátt, sem virðist vera að grafa um sig í þjóðfélaginu, þ.e. að enginn þurfi að bera ábyrgð á einu eða neinu, allra síst sjálfum sér og eigin gerðum.  Á þessu hefur ekki síst borðið undanfarna mánuði vegna skuldamála einstaklinga, en sá skuldari er varla til, sem telur sig bera ábyrgð á eigin lántökum, heldur hafi hann verið plataður til þeirra og nánast neyddur af ótýndum glæpalýð í lánastofnunum landsins til að taka alls kyns lán, sem viðkomandi skuldari hefði aldrei tekið sjálfviljugur.

Á ýmsum öðrum sviðum hefur þetta viðhorf komið fram, t.d. að óeirðaseggir eigi ekki að þurfa að standa reikningsskil gerða sinna vegna líkamsmeiðinga og skemmdarverka á húsum og bílum og allra síst ef það eru opinberar byggingar eða bílar og hús útrásargengisins.

Það er alveg óhætt að taka undir orð Björgvins um að tími sé kominn til að fólk líti meira innávið og fari að bera ábyrgð á eigin gerðum. 

Jafnvel bara hugsi aðeins um málið.


mbl.is Björgvin hættir sem yfirmaður kynferðisbrotadeildar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útþynnt dagskrá RÚV - áfram jafnmargir starfsmenn

Páll Magnússon, útvarpsstjóri, hefur gert gríðarmikið úr þeim 9% sparnaði, sem RÚV er gert að skila á næsta rekstrarári og hefur hann tilkynnt að hætt verði við vinsælustu þættina sem hafa verið í sjónvarpinu, t.d. Spaugstofuna, og á Rás 1, t.d. þáttinn Orð skulu standa, sem mikilla vinsælda hefur notið.  RÚV hafði ekki heldur efni á að bjóða í heimsmeistaramótið í handknattleik, sem fram fer í janúar og íslendingar taka þátt í og hafa slíkar útsendingar verið með vinsælasta efni sem RÚV hefur boðið upp á.

Jafnfram þessu er boðaður niðurskurður hér og þar í dagskrá RÚV, jafnt í sjónvarpi sem útvarpi, en áður hafði verið tekin ákvörðun um að hætta nánast að kaupa íslenskt efni af sjálfstæðum framleiðendum, þannig að afar lítið, eða nánast ekkert, verður af leiknu íslensku efni í sjónvarpinu á næstunni.

Þrátt fyrir þennan gríðarlega niðurskurð á íslenskri dagskrá, sem þó ætti að vera aðalhlutverk RÚV, huggar Páll starfsmenn fyrirtækisins með því, að ekki þurfi að fækka um einn einasta starfsmann, heldur verði bara rólegra í vinnunni hjá hverjum og einum, enda lítið annað að gera, a.m.k. hjá sjónvarpinu, en að stinga vídeóspólum í útsendingartækin.

Þetta er dæmigert hjá opinberu fyrirtæki, að skera niður alla framleiðsluna, en halda öllu starfsfólkinu, eins og ekkert hafi í skorist.

Í hvaða einkafyrirtæki myndu svona vinnubrögð vera viðhöfð.


mbl.is Engar uppsagnir á RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ófriðarseggir beita aðferðum útrásargengisins

Enn og aftur þurfti að fresta dómshaldi í Héraðsdómi vegna máls ófriðarseggjanna, sem gerðu innrás í Alþingishúsið og ollu þar meiðslum starfsmanns og nú vegna ásakana verjenda hópsins á hendur dómaranum um hlutdrægni.  Hlutdrægnin á að hafa falist í því, að óska eftir lögregluvernd vegna óróaseggja, sem sátu um dómshúsið þegar taka átti málið fyrir og gerðu síðan tilraun til að ráðast inn í húsið og trufla dóminn við störf sín.

Þetta er haft eftir Ragnari Aðalsteinssyni, verjenda hinna ákærðu, í fréttinni af málinu:  "Niðurstaða dómsins í mati sínu á hlutdrægni dómara má vænta á næstu dögum. Ef dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að dómarinn sé hæfur kveður Ragnar það vilja skjólstæðinga sinna að skjóta því mati til Hæstaréttar."

Þetta eru sömu vinnubrögð og viðhöfð voru í Baugsmálinu fyrsta og vænta má að beitt verði í væntanlegum málaferlum gegn útrásargenginu, þ.e. að draga hæfi allra dómara í efa, vísa öllum smáatriðum til Hæstaréttar og tefja þannig málsmeðferðina í mörg ár.  Þessari aðferð er beitt, þegar sakborningar óttast niðurstöðu í máli sínu, vegna slæmrar samvisku og gera því allt sem mögulegt er, til að tefja og draga á langinn, að niðurstaða fáist í málin.

Saklaust fólk myndi fagna dómsniðurstöðu sem allra fyrst og væri það ekki ánægt með héraðsdóminn, myndi það áfrýja honum sjálfum til Hæstaréttar til endanlegrar afgreiðslu í stað þess að draga allt málið á langinn árum saman, ef samviskan væri alveg hrein og viðkomandi vissi sig saklausan af öllum ákærum.

Útrásargengið hefur greinilega sett nýtt viðmið í rekstri mála fyrir dómstólunum.


mbl.is Efast um óhlutdrægni dómara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dómstólar fái frið fyrir upphlaupslýðnum

Enn hefur hópur ólátaseggja og upphlaupsfólks safnast saman við Héraðsdóm í þeim tilgangi að trufla störf réttarins vegna máls gegn fólki, sem braut sér leið inn í Alþingi og slasaði þar starfsfólk, þegar það reyndi að hindra störf löggjafarsamkundu þjóðarinnar, sem nánast jafngildir valdaráni og telst því mjög alvarlegur verknaður.

Þegar Hæstiréttur kvað upp sinn dóm vegna "gengislánanna" fagnaði allur almenningur og þakkaði sínum sæla fyrir dómstólana, sem vernduðu hann gegn lögleysu bankanna, sem eins og komið hefur fram, var studd af ríkisstjórninni og þá taldi fólk sína einu vörn felast í sjálfstæði dómstóla landsins.

Vegna nauðsynjar þess, að dómstólarnir fái frið til að sinna sínum mikilvægu störfum verður að gera þá kröfu að óaldalýður trufli ekki störf þeirra með hrópum, köllum og öðrum ólátum í réttarsal, eða í eða við hús réttarins.

Lögreglan, sem eins og dómstólarnir, hefur sýnt og sannað að hún veldur verkefni sínu fyllilega, hlýtur að sjá til þess að halda ólátabelgjunum í skefjum og tryggja vinnufrið hjá dómurum landsins.


mbl.is Átök í héraðsdómi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. ágúst 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband