Styður nýjan skatt, en ekki ríkisstjórnina

Enn einn stjórnarþingmaðurinn er að gefast upp á stuðningi við ríkisstjórnina, núna síðast lýsti Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, því yfir að honum væri skapi næst að hætta stuðningi við stjórnina vegna skattahækkanabrjálæðis hennar.

Magnús lýsti því yfir að hann vildi að stjórnin einbeitti sér að útgjaldahlið fjárlaganna og skæri niður í ríkisrekstrinum, enda væri búið að hækka alla skatta langt upp fyrir öll þolanleg mörk og ekki yrði gengið lengra í þeim efnum.  Loksins lætur stjórnarþingmaður frá sér heyra um skattabrjálæðið, sem farið er að þjaka almenning og atvinnurekstur og það svo, að allt þjóðfélagið er að kikna undan ósköpunum.

Nýjustu skattauppfinningunni er Magnús þó hrifinn af, en það er svokallaður bankaskattur og það réttlætir hann með því, að ríkið ábyrgist bankainnistæður og sjálfsagt sé að bankarnir borgi fyrir það.  Bankarnir borga auðvitað tekjuskatt eins og önnur fyrirtæki og um þessar mundir er litlum, sem engum hagnaði fyrir að fara í bankakerfinu, svo varla er á þá sköttum bætandi, eins og ástandið er.

Ekki datt þingmanninum í hug að stinga bara upp á því að hinni tímabundnu ríkisábyrgð á bankainnistæðum yrði aflétt og þar með hyrfi grundvöllurinn undan þessari skattahugmynd á ríkisábyrgðina.  Skattkerfi eiga að vera einföld, réttlát, gagnsæ og helst réttlát, þannig að allir séu jafnir fyrir þeim lögum, eins og öðrum.  Því eiga svona sérskattar sér lítinn tilverurétt.

Sé hugmynd þingmannsins að festa ríkisábyrgð á bankainnistæðum í sessi til allrar framtíðar, þá er sanngjarnt að bankarnir borgi ábyrgðargjald fyrir það, en fjármálaráðherra hefur lýst því yfir, að ríkisábyrgðin sé aðeins tímabundin, á meðan verið sé að koma nýju bönkunum á koppinn og svo falli hún niður.  Hvernig ætlar þingmaðurinn þá að réttlæta sérstakan bankaskatt?

Magnús sagði í sjónvarpinu, að það liti út eins og lýðskrum, að hóta að hætta að styðja ríkisstjórnina.

Réttlæting hans á bankaskatti er ekki minna lýðskrum, enda veit hann hug almennings til bankanna um þessar mundir og reiknar því með að svona málflutningur falli í frjóan jarðveg.


mbl.is Líst vel á bankaskatt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósannsögli eða vanræksla í ráðherrastörfum, jafnvel bæði.

Steingrímur J. segir að það hefði verið æskilegt að lögfræðiálit um ólögmæti gengislánanna hefðu komið fyrir augu sín og Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir einu ári síðan, þegar umræðan um málið var á miklu skriði í þjóðfélaginu og fyrstu málin komin fyrir dómstóla og biðu úrskurðar.

Á sama tíma var ríkisstjórnin, undir forystu Steingríms J. og Gylfa, í samningaviðræðum við skilanefndir gömlu bankanna um yfirfærslu lána til nýju bankanna og á hvaða grundvelli þau skyldu reiknast.  Sá útreikningur skipti sköpum um þær upphæðir sem ríkið þyrfti að leggja nýju bönkunum til, í formi eigin fjár.  Gylfi hefur reyndar sagt opinberlega, að þá hafi verið reiknað með því að lánin yrðu færð á milli sem óverðtryggð lán í íslenskum krónum, með þeim vöxtum Seðlabankans sem um slík lán giltu.  Enginn hefur gengið á ráðherrann til að fá nánari skýringar á þeim ummælum og má það furðu gegna í því fári, sem gengið hefur yfir vegna margsögli Gylfa í málinu.

Sé það rétt, sem Steingrímur J. segir, að ríkisstjórnin hafi ekki aflað sér neinna gagna, hvorki lögfræðiálita eða annarra skýrslna um þau lán, sem nýju bankarnir áttu að yfirtaka, sýnir það ekkert annað en vanrækslu í starfi ráðherranna og allra þeirra annarra, sem að stofnun nýju bankanna komu.

Vandséð er hvort ósannsögli um málið, eða hrein vanræksla ráðherra er verri.  Hvort tveggja er gild ástæða til afsagnar og í þessu tilfelli virðist það eiga við um alla helstu ráðherra ríkisstjórnarinnar.


mbl.is Æskilegt að álitin hefðu borist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að ljúga með þögninni

Mörður Árnason reynir að réttlæta svör Gylfa Magnússonar vegna fyrirspurnar Ragnheiðar Ríkharðsdóttur á Alþingi um myntkörfulánin, sem hún sagði að væru með íslenskan höfuðstól, en gengisviðmiðun og spurði ráðherrann hvort hann teldi slík lán lögleg.

Gylfi sagði að það væri samdóma álit lögfræðinga innan ráðuneytis og utan að lán í erlendri mynt væru lögleg, en svaraði ekki spurningu Ragnheiðar sem slíkri.  Þetta heitir víst ekki að ljúga, en er a.m.k. hálfsannleikur, sem nú heitir að afvegaleiða Alþingi.  Gylfi segist ekki hafa séð önnur lögfræðiálit um "gengislánin" en álit lögfræðings ráðuneytisins, en hann virðist ekki einu sinni hafa lesið það álit, því þar kemur skýrt fram, að lögmæti gengislánanna orki tvímælis, en dómstóla þurfi til að skera úr um þau.  Þetta álit má sjá á vef Viðskiptaráðuneytisins.

Lokaniðurstaða lögfræðiálits Viðskiptaráðuneytisins er þessi:

4. Niðurstaða

4.1. Heimild til lánveitinga í erlendri mynt, tengdum gengi erlendra gjaldmiðla

Hvorki lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 né lög um neytendalán nr. 121/1994 banna lánveitingar í erlendri mynt, tengdar gengi erlendra gjaldmiðla. Ekki fæst séð að önnur löggjöf komi til álita í þessu samhengi og er það því niðurstaða undirritaðrar að lánveitingar í erlendum gjaldmiðlum, tengdar gengi erlendra gjaldmiðla, séu ekki ólögmætar.

Lög nr. 38/2001 taka af skarið um það að verðtrygging á lánum í íslenskum krónum er aðeins heimil ef grundvöllur verðtryggingarinnar er vísitala neysluverðs. SRP Page 6

Hins vegar kann það að vera álitaefni hvort lánssamningur er raunverulega í íslenskum krónum eða í erlendum gjaldmiðli. Niðurstaða veltur á atvikum hverju sinni, efni samnings og atvikum við samningsgerð og eiga dómstólar lokaorðið um hana.

4.2. Ógilding staðlaðra samningsákvæða um mynt lánsfjár og tengingu við erlent gengi

Um ógildingu staðlaðra samningsskilmála gilda ákvæði 36. gr. a.-d. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Samkvæmt þeim skulu stöðluð samningsákvæði m.a. vera á skýru og skiljanlegu máli og allan vafa varðandi túlkun slíkra samningsákvæða skal skýra neytanda í hag.

Tekið er sérstaklega fram í 2. mgr. 36. gr. c. að ef skilmála sem telst ósanngjarn er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skuli samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans. Ef dómstóll kemst að þeirri niðurstöðu að ógilda beri ákvæði lánssamnings í íslenskum krónum (eða lánssamnings sem túlka má þannig að sé í raun og veru í íslenskum krónum) er ljóst að samningurinn verður efndur án þess (lægri afborganir en ella) – og væntanlega myndu a.m.k. margir neytendur gera kröfu til þess (í stað uppgreiðslu). Af hefðbundnum kröfuréttarreglum leiðir að sannanleg skuld lántaka við lánveitanda hverfur ekki, hins vegar kunna samningskjör endurgreiðslu að koma til endurskoðunar.

Ef á reyndi myndi dómstóll væntanlega kveða á um það við hvað sanngjarnt væri að miða í staðinn fyrir ógilda gengistryggingu láns í íslenskum krónum (t.d. verðtryggingu, þ.e. þróun vísitölu neysluverðs á lánstímanum). Fordæmisgildi slíkrar dómsniðurstöðu takmarkast við sambærilega staðlaða lánssamningsskilmála (og atvik við samningsgerð)."

Hafi Gylfi lesið álit síns eigin lögfræðings, þá var hann að minnsta kosti ekki að segja allan sannleikann um málið og það hefur hann í raun viðurkennt núna, eftir fjaðrafokið sem orðið hefur um svar hans í þinginu.

Það er nefninlega líka hægt að ljúga með þögninni.


mbl.is Fráleitt að Gylfi hafi logið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. ágúst 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband