Furðulegt þras um lögfræðiálit og minnisblöð

Mjög undarleg umræða hefur verið í gangi í þjóðfélaginu að undanförnu um lögfræðiálit, sem unnið var fyrir Seðlabankann um hvort löglegt væri að lána íslenskum fjárfestum í íslenskum krónum, en lánta þá endurgreiða í erlendum gjaldeyri.  Hugsunin á bak við þá aðgerð var að reyna að ýta íslenskum fjárfestum út í orkufrekan iðnað, sem aflað gæti tekna í gjaldeyri, en stöðugur skortur er á gjaldeyri til að greiða neyslu þjóðarinnar á erlendum vörum og erlendum skuldum almennings og fyrirtækja.

Lögmannsstofan Lex komst að þeirri niðurstöðu, að slíkar lánveitingar myndu vera á skjön við lög og því varð ekkert meira úr því máli.  Minnisblað um þessa niðurstöðu var send í Viðskiptaráðuneytið, sem gerði ekkert sérstakt við það blað, þar sem málið sem unnið hafði verið að, var sjálfdautt eftir álitsgjöfina frá Lex.  Lögfræðiálitið snerist ekkert um bíla- eða húsnæðislán, enda hefði það engu máli skipt, því hvorki Lex, Seðlabankinn eða ráðuneytin eru dómstólar og enginn þessara aðila gat kveðið upp marktækan úrskurð um "gengislánin".  Það gat enginn nema dómstólarnir og það hafa þeir nú gert og þar með ætti sú réttaróvissa að vera út úr heiminum og allir skuldarar ættu að geta unað glaðir við sitt.

Líklega af völdum einskærrar þrasgirni, eru allir fjölmiðlar og blogg uppfull núna af röfli um ársgamla vinnupappíra úr Seðlabankanum og ráðuneytum, sem engu máli skipta um stöðuna eins og hún er í dag og hefðu engu breytt fyrir ári síðan, þó þau hefðu verið opinberuð þá.  Það eina sem hefði gerst hefði verið, að hægt hefði verið að þrasa um þessa pappíra til viðbótar við það þras sem þegar var komið af stað um "gengislánin" og hefði engu bætt við þá umræðu.

Um þetta verður væntanlega röflað fram og aftur, þangað til dómur fellur í Hæstarétti um vextina af "gengislánunum" og þá verður auðvitað allt vitlaust út af honum, a.m.k. ef hann staðfestir Héraðsdóminn. 

Þá mun enginn dásama Hæstarétt eins og gert var, þegar hann dæmdi gengislánin ólögleg.


mbl.is Talið nóg að kynna minnisblaðið ráðuneytinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spaugstofuna áfram og útvarpsgjaldið til RÚV

RÚV hefur tilkynnt Spaugstofumönnum, að ekki sé gert ráð fyrir þætti þeirra á dagskrá Sjónvarpsins í vetur, en býður þeim í staðinn að sjá um einn þátt í vetrardagskránni, þ.e. áramótaskaupið.  Sigrún Stefánsdóttir, dagskrárstjóri, segir að unnið sé að ýmsum hugmyndum um laugardagsþætti, sem eiga að koma í stað Spaugstofunnar, ásamt fleiri íslenskum þáttum aðra daga.

Í fyrsta lagi kemur ekkert í stað Spaugstofunnar, þannig að í raun hleypur enginn í skarðið fyrir þann þátt og ef þarf að draga saman í dagskránni, vegna sparnaðar, var þá ekki hægt að fækka Spaugstofuþáttunum og hafa t.d. einn í mánuði og leggja þá aðeins meira í hann en vikulegu þættina.  Í öðru lagi er frumskylda RÚV að halda úti íslensku skemmti- og menningarefni og nánast ekkert efni sem sjónvarpið hefur sýnt undanfarna tvo áratugi hefur náð öðru eins áhorfi og Spaugstofan og því undarlegt að skera algerlega niður við trog vinsælasta efni stöðvarinnar.

Í þriðja lagi verður að gagnrýna harðlega að ríkissjóður skuli ætla að halda nokkur hundruð milljónum króna af útvarpsgjaldinu til annarra ríkisútgjalda en til RÚV, því hér er ekki um skatttekjur ríkissjóðs að ræða, heldur þjónustugjald og slíkt gjald má ekki taka til annarra nota en þeirra, sem það er ætlað til.  Dómar hafa fallið um álíka meðferð á þjónustugjöldum og í þeim hefur verið dæmt að ólöglegt væri af ríkinu, að hirða hluta af slíkum gjöldum í ríkissjóð.

Lágmarkskrafa þeirra sem skyldaðir eru til greiðslu útvarpsgjaldsins er sú, að því sé skilað óskertu til dagskrárgerðar hjá RÚV, undanbragðalaust.


mbl.is Engin Spaugstofa í vetur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar munu "taka Noreg á þetta"

Ráðamenn ESB í Brussel eru hræddir um að Íslendingar "gætu tekið Noreg á þetta", þ.e. að Íslendingar fylgi fordæmi Norðmanna frá 1972 og 1994 og felli inngöngubeiðnina í ESB, sem hér á landi, eins og í Noregi, var send af örfáum stjórnmálamönnum til ESB í trássi við vilja þjóðanna.

Forystumenn ESB hafa marg sagt, að innganga í stórríkið væntanlega, feli einfaldlega í sér að inngönguríkið taki upp samþykktir og lög ESB og frá þeim verði engar undanþágur veittar, sem sagt inngönguríkið samþykki allt eða ekkert.  Þetta hefur komið fram ítrekað, þótt Össur Skarphéðinsson og fáeinir aðrir reyni að skrökva því að þjóðinni, að ESB muni breyta öllum þeim samþykktum sínum og lögum, sem Íslendingar geti ekki sætt sig við. 

Aftonposten fjallaði um þetta mál í dag og hafði m.a. eftir Lellouche, Evrópumálaráðherra Frakklands:  „Ísland verður að verða meðlimur með sömu skilyrðum og allir aðrir. Það geta ekki orðið neinar styttri leiðir í því sambandi.”

Það eina viturlega, sem gera ætti í þessu máli, er að draga inngöngubeiðni Íslands til baka nú þegar og a.m.k. ekki seinna en í September, þegar þing kemur saman aftur.  

Verði það ekki gert og inntökuskilyrði ESB lögð fyrir Íslendinga í þjóðaratkvæðagreiðslu, er ekki nokkur minnsti vafi á því, að þá verður "tekinn Noregur á þetta". 


mbl.is Gætu „tekið Noreg á þetta"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. ágúst 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband