Pólitískt innistæðuleysi

Allir þekkja hugtakið þegar talað er um áhlaup á banka, en slíkt standast bankar ákaflega illa, enda er ekki um áhlaup að ræða, nema innistæðueigendur flykkist á staðinn og hreinsi út innistæður sínar og bankinn stendur berstrípaður eftir og óstarfhæfur.

Í fyrsta sinn, svo vitað sé, líkir Jóhanna Sigurðardóttir sér við banka í slíkri aðstöðu, þegar hún segir að nú sé verið að gera "pólitískt áhlaup" á sig vegna klúðursins með laun seðlabankastjórans og sem hún ber alfarið ábyrgð á, en þykist ekkert vita um.  Í sjónvarpinu í kvöld lét hún eins og hún talaði aldrei við starfsfólk forsætisráðuneytisins, né aðra embættismenn og hefði því ekki hugmynd um hvað það væri að aðhafast, enda kæmi henni það ekkert við.

Munurinn á banka, sem áhlaup er gert á og Jóhönnu Sigurðardóttur er sá, að í bankanum er fyrir hendi innistæða, sem reynt er að taka út, en hjá Jóhönnu er engin pólitísk innistæða, enda konan orðin óstarfhæf og ætti að vera búið að lýsa hana pólitískt gjaldþrota fyrir löngu.

Hins vegar kom í ljós í kvöld að hún er ennþá haldin Davíðsheilkenninu og það á alvarlegu stigi.


mbl.is „Pólitískt áhlaup á mig"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingnefnd Atla Gíslasonar ómarktæk?

Þingnefndin, undir formennsku Atla Gíslasonar, þingmanns VG, sem á að ákveða hvort nokkrum ráðherrum verði stefnt fyrir landsdóm, hefur fengið falleinkunn vegna þess að hún virðist meta menn og málefni á pólitískum grunni, en ekki málefnalegum.

Um miðjan maí sendi nefndin ríkissaksóknara "ábendingu" um að Rannsóknarnefnd Alþingis hefði talið þá Davíð Oddson, Eirík Guðnason og Ingimund Friðriksson, seðlabankastjóra og Jónas Fr. Jónsson forstjóra Fjármálaeftirlitsins hafa gerst seka um mistök eða vanrækslu í starfi vegna tveggja eða þriggja atriða í aðdraganda bankahrunsins.

Rannsóknarnefndinni bar að beina öllum atriðum, sem hún teldi varða við lög, til skattyfirvalda, ríkissaksóknara eða sérstaks saksóknara og það gerði hún vegna tuga atriða, sem hún komst á snoðir um í rannsókn sinni.  Þar sem hún taldi enga ástæðu til að senda "ábendingu" um fjórmenningana, þá er ljóst að hún hefur alls ekki talið mistök þeirra varða við lög, eða vera saknæm.

Það bendir til þess að nefnd Atla Gíslasonar hafi afgreitt þetta mál vegna þeirra ofsókna sem þessir menn hafa orðið að þola frá stjórnarliðinu allt frá því stjórnin var mynduð, enda fyrsta verk ríkisstjórnarinnar að reka seðlabankastjórana úr starfi og alla tíð síðan hefur vinstra liðið í landinu kynnt undir þeim áróðri að bankahrunið og kreppan sem því fylgdi væri nánast einum manni að kenna, þ.e. Davíð Oddsyni.  Þessum óhróðri er haldið á lofti ennþá, þó öllum ætti að vera orðið ljóst hvers vegna bankarnir hrundu, en rannsóknarnefndin sjál hefur sagt að þeir hafi verið rændir innanfrá af eigendum og stjórnendum þeirra.

Í nefnd Atla Gíslasonar eru aðallega nýliðar á þingi, sem ekki hafa þorað að setja sig upp á móti "ábendingunni" til ríkissaksóknara, vegna hræðslu við að verða ásakaðir um "yfirhylmingu" með fjórmenningunum.  Það er vitanlega ekki stórmannleg afstaða, en sú sem nærtækust er, þangað til þeir gera þá betri grein fyrir afstöðu sinni.

Þar með skrifast þetta pólitíska ofsóknarklúður nefndarinnar alfarið á formann nefndarinnar, Atla Gíslason.

Verður nefndinni eitthvað betur treystandi til að meta mistök eða vanræksluávirðingar ráðherranna?


mbl.is Ekki tilefni til rannsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjárlög evruríkja afgreidd í Brussel?

Fram á síðustu misseri var áróðurinn fyrir aðild Íslands, sem hrepps, að ESB aðallega byggður á því, að krónan væri handónýtur gjaldmiðill og því bráðnauðsynlegt að taka upp evru í hennar stað, ekki síst af því að evrunni fylgdi svo mikið hagræði og aðhald að hagstjórninni.

Á síðustu mánuðum hefur æ betur komið í ljós, að evran skapar hvorki hagræði né aðhald í hagstjórn þeirra ríkja sem nota hana sem gjaldmiðil og er nærtækast að benda á Grikkland, Ítalíu, Spán, Portúgal og Írland í því sambandi, en þessi lönd eru mislangt komin fram að hengifluginu og sum þeirra við það að falla fram af. 

Nú síðast birtast fréttir af því, að gríðarlegur niðurskurður verði á fjárlögum móðurríkis ESB, Þýskalands, en sparnaður í rekstri þýska ríkisins fram til ársins 2014 verður sá mesti frá lokum síðari heimstyrjaldarinnar.  Forystumenn ESB eru nú loksins að uppgötva að evran, sem slík, bjargar engu komi ekki til miðstýrð fjárlög allra ríkjanna og það verði yfirvaldið í Brussel sem muni taka að sér að stjórna efnahagsmálunum í öllum ríkjunum.

Jean-Claude Juncker, talsmaður fjármálaráðherra evruríkjanna, lét hafa þetta eftir sér í Wall Street Journal í gær:  "Við höfum ekki lært nóg um sameiginlega stjórn á sameiginlegum gjaldmiðli. Of mörg hinna 16 ríkja [á evrusvæðinu] hegða sér eins og sjálfstæð hagkerfi, en sjálfstæð hagkerfi eru ekki lengur til staðar. Við tilheyrum nú hagkerfi sem er krýnt hinum sameiginlega gjaldmiðli."

Ekki geta ESB sinnar lengur þrætt fyrir að miðstýringaráráttan í Brussel stefni hraðbyri að því kerfi, sem gekk sér rækilega til húðar í Sovétríkjunum, sællar minningar.


mbl.is Sjálfstæð evruhagkerfi ekki til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þaulskipulögð svikaflétta

Samkvæmt úrdrætti úr símtali milli tveggja starfsmanna Kaupþings, þeirra Halldórs Bjarkars Lúðvígssonar á fyrirtækjasviði og Lilju Steinþórsdóttur í innri endurskoðun, kemur fram að starfsmenn bankans stunduðu skipulögð svik, algerlega vísvitandi, vegna "viðskipta" með hlutabréf í bankanum, sem bankinn lánaði sjálfur fyrir, gegn engum öðrum veðum en í bréfunum sjálfum.

Eftirfarandi brot úr símtalinu sýnir þetta glögglega:

LS: Ok, af hverju var Choice stofnað, eða hvers konar félag var það?
HBL: Þetta var enn eitt BVI félagið sko.
LS: Já er þetta bara til að flækja slóðina eða af hverju er þetta gert svona?
HBL: Já þetta er raunverulega til þess að fela það að Óli átti helminginn í þessu sko.
LS: Já ok.

Innri endurskoðun bankans átti að fylgjast með því, að öll útlán og önnur starfsemi bankans uppfyllti ströngustu lög og kröfur um bankastarfsemi, en af þessu samtali sést, að innri endurskoðendur bankans vissu um svikaflétturnar og tóku virkan þátt í að "flækja slóðina".

Vandséð er hvernig Fjármálaeftirlitið hefði haft einhverja raunhæfa möguleika á að koma í veg fyrir þetta meinta "innra bankarán".

 


mbl.is DV: Slóð Ólafs í Al-Tahini fléttunni falin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. júní 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband