Engin sundrung á landsfundi vegna ESB

Tillagan um að afturkalla umsóknina um innlimunina í ESB og að staða Íslands í framtíðinni skyldi vera utan stórríkis Evrópu, skapaði enga sundrung á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, eins og Baugsmiðlarnir Stöð2 og Fréttablaðið hafa verið að reyna að kynda undir síðustu daga, ásamt nokkrum leigupennum Baugsmanna á bloggsíðum.

Þvert á móti þjappaði hún flokksmönnum saman um þessa eindregnu afstöðu og þó 30-40 landsfundarfulltrúa hafi greitt atkvæði gegn tillögunni, þá er það ekki stórt hlutfall á 1000 manna fundi.  Jafnvel þó reynt sé að gera mikið úr því að einhverjir þeirra hafi gengið af fundi eftir samþykktina, þá eru þetta svo fáir aðilar, að ekki er ástæða til að kippa sér upp við það.

Fari svo að einhverjir einstaklingar segi sig úr flokknum vegna þessa, er öruggt að margfalt fleiri munu ganga til liðs við hann, eftir að svo afgerandi hefur verið skerpt á stefnu hans í utanríkismálunum.

Sjálfstæðisflokkurinn mun áfram standa undir nafni, sem traustasta vígi lýðræðislegrar umræðu og sjálfstæðis lands og þjóðar.


mbl.is Óþarfi að sundra flokksmönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afgerandi forysta í utanríkismálum

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins var enn á ný áréttuð sú eindregna afstaða Sjálfstæðismanna, að Ísland skuli áfram vera utan ESB og hnykkt á því alveg sérstaklega, með því að samþykkja að umsókn Samfylkingarinnar um innlimun landsins í stórríkið verði tafarlaust dregin til baka.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur allan lýðveldistímann haft forystu um mótun utanríkisstefnu þjóðarinnar og samskipti hennar við aðrar þjóðir, þjóðasamtök og alþjóðastofnanir og með þessari afgerandi samþykkt landsfundarins, er þeirri forystu um mótun framtíðarsamskipta við aðrar þjóðir haldið og þeirri stefnu Samfylkingarinnar, að einangra landið innan ESB og þar með takmarka samskiptin við þjóðir utan þess algerlega hafnað.

Íslendingar vilja og þurfa að eiga samskipti og viðskipti við þjóðir í austri og vestri og þjóðinni hagstæðast að ráða sjálf samskiptum sínum og samningum við þjóðir heimsins, án afskipta og stjórnunar frá Brussel.  Ekki síður er hagsmunum þjóðarinnar best borgið með skýlausum og takmarkalausum yfirráðum hennar sjálfrar á auðlindum sínum og eigin stjórn á aðgangi að norðuslóðum.

Samfylkingin reynir að koma því inn hjá þjóðinni, að það sé einangrunarstefna að vilja standa utan ESB, en það eru alger öfugmæli, því með innlimum í stórríkið einangrast þjóðin frá beinum samskiptum við þjóðir utan þess, þar sem öllum milliríkjaviðskiptum yrði stjórnað frá Brussel.

Samþykkt landsfundarins styrkir hina endalausu baráttu fyrir algeru sjálfstæði og fullveldi landsins.


mbl.is Vilja draga umsókn til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stuðningsmenn Jóns (G)narr horfnir?

Frá því að "Besti" flokkurinn komst til valda í borgarstjórn með sex borgarfulltrúa úr eigin röðum og fjóra að láni frá Samfylkingunni, hefur varla heyrst frá kjósendum flokksins og lítur einna helst út fyrir að þeir séu strax farnir að sjá eftir þátttöku sinni í gríninu.

Fyrir kosningar mátti ekki láta eitt einasta gagnrýnisorð falla um Jón (G)narr eða stjórnleysingjaflokk hans, án þess að tugir athugasemda kæmu frá "stuðningsmönnum" framboðsins og ekki síður svívirðingar og skítkast um þann sem dirfðist að gagnrýna þetta leikhús fáránleikans, sem bauð fram eftir fyrirframskrifuðu handriti, enda gat t.d. Jón sjálfur aldrei svarað einni einustu spurningu um borgarmál, sem til hans var beint óundirbúnum.

Eftir að hann varð borgarstjóri hefur enn betur komið í ljós hversu gjörsamlega hann er laus við minnsta skilningi á þeim málefnum sem borgarstjórnarmálin snúast um, að ekki sé talað um það sem að fyrirtækjum og stofnunum borgarinnar snýr.

Steininn tók þó úr þegar stjórnandi vörslusviptinga og eignasölu hjá einu alræmdasta lánafyrirtæki landsins, Lýsingu, var ráðinn í fullt starf, með milljón á mánuði, í stöðu stjórnarformanns OR.  Hvernig gríðarleg harka við innheimtu ólöglegra gengislána mun nýtast í starfi stjórnarformanns OR er hulin ráðgáta, enda hefur ekki verið reynt að útskýra það mál fyrir Reykvíkingum.

Nú bregður svo við, að þegar bloggað er um þetta ótrúlega, spillingarlyktandi útspil Jóns (G)narrs, þá virðast kjósendur hans vera gufaðir upp og enginn þeirra gerir minnstu tilraun til að réttlæta meistara sinn og átrúnaðargoð.

Þetta sanna t.d. þær bloggfærslur, sem má sjá hérna

Ekkert nýtt stjórnmálaafl, sem fram hefur komið á Íslandi, hefur tekist að rýja sjálft sig öllu trausti á jafn skömmum tíma og "Besti" flokkurinn.


mbl.is The New York Times skrifar um Jón Gnarr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gagslaust Fjármálaeftirlit

Upplýst hefur verið að Fjármálaeftirlitið kannaði aldrei útlán fjármálastofnana vegna gengistryggðra lána, frá því að lögin sem bannaði gengistrygginguna voru sett og þangað til dómur Hæstaréttar féll, níu árum eftir setningu laganna.  Skýringin á þessu eftirlitsleysi er orðuð svo í tengdri frétt:

"Ónógar fjárveitingar, viðhorf þess tíma til afskipta stjórnvalda af viðskiptalífinu og skortur á forgangsröðun og áræði urðu til þess að eftirlitið náði ekki markmiði sínu. Óskýr mörk milli verksviða eftirlitsstofnana bættu heldur ekki úr skák.

Í raun treysti Fjármálaeftirlitið lögfræðingum bankanna, á sínum tíma, til þess að meta lögmæti gengistryggingarinnar án nokkurrar sjálfstæðrar skoðunar."

Getur það verið skýringin á öllu því rugli og lögbrotum, sem viðgengust í bankakerfinu árum saman, að Fjármálaeftirlitið treysti lögfræðingum bankanna, án sokkurrar sjálfstæðrar skoðunar á verkum þeirra og annarra bankamanna?  Ef skortur á áræði Fjármálaeftirlitsins varð til þess, að eftirlitsskyldu var ekki sinnt, er þá nema von að lögbrotin hafi gengið eins lengi og raun varð á?

Það er stórmerkilegt að lesa þá skýringu á aðgerðarleysi eftirlitsstofnana, að þær hafi skort áræði og traustið á þeim, sem hafa átti eftirlit með, hafi verið svo mikið, að ástæðulaust hafi verið talið að líta á verk þeirra.

Skyldu vera fleiri eftirlitsstofnanir sem skortir áræði til að sinna skyldum sínum?  Vonandi hrjáir það ekki löggæsluyfirvöld landsins og glæparannsóknardeildir.  Dómstólarnir hafa sannað að þá skortir ekki áræði til að dæma eftir lögum landsins, þó það komi illa við eftirlitslausu fjármálastofnanirnar.

Hins vegar sjá allir afleiðingarnar af skorti núverandi ríkisstjórnar á áræði við stjórnun landsins. 


mbl.is FME skoðaði aldrei gengislánin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. júní 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband