Dómurinn stendur - skattgreiðendur borga

Á meðan fjármálafyrirtækin og reyndar skuldarar líka, töldu að gengislánin væru lögleg, gengu þau hart eftir því að staðið væri í skilum með lánin og eftir tveggja mánaða vanskil var samningum oft rift og vörslusviptingum beitt af fullri hörku og skuldurunum síðan sendir háir bakreikningar vegna ýmiss kostnaðar, sem sagður var vegna skoðana og viðhalds.  Á þeim tíma var óspart vitnað til samningstextans um gengistrygginguna og jafnvel á síðustu dögum, vikum og mánuðum á meðan málið var til meðferðar hjá Hæstarétti, var fullri hörku beitt við innheimtur og ekki tekið í mál, að bíða niðurstöðu Hæstaréttar.

Núna, þegar dómur Hæstaréttar er fallinn á þann veg, að gengistryggingin sé ólögleg og þar með standa lánasamningarnir eftir með sinn upphaflega höfuðstól í íslenskum krónum og 2-4% vexti, þá dettur hvorki lánafyrirtækjunum, ráðherrunum eða seðlabankastjóranum í hug, að fara skuli eftir úrskurði Hæstaréttar og innheimta lánin samkvæmt homum.  Því er borið við að óvissa ríki um málið, en það er alveg kristalskýrt, að þangað til og ef annar dómur gengur vegna þessara lána, þá á að innheimta í samræmi við dóminn.  Nú þýðir ekkert fyrir lánastofnanir að segja að þær ætli að bíða í marga mánuði eftir einhverjum nýjum dómum, áður en nokkuð verði gert í málinu.

Það er ekki hægt að neita stundum að bíða eftir Hæstaréttardómi og bera svo við daginn eftir að nú þurfi að bíða eftir einhverjum nýjum dómum um eitthvað, sem ekki er einu sinni búið að stefna út af ennþá, enda dómstólar komnir í réttarhlé.

Hvað sem hverjm finnst um vaxtakjör þessara lána, ber að innheimta þau í samræmi við niðurstöðu dómsins.  Allt annað hlýtur hreinlega að vera níðingslegur átroðningur á rétti skuldaranna.

Tapið af dóminum lendir svo á skattgreiðendum, en hverjum er ekki sama um það.

Skuldarar þessara lána skipta sér ekkert af því hver borgar brúsann, bara ef það eru ekki þeir sjálfir, nema þá sem hluti skattgreiðenda í landinu, en allavega dreifast skuldir þeirra á fleiri herðar.


mbl.is Almenningur fengi reikninginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rústaði Hæstiréttur hagkerfinu?

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, dregur upp dökka mynd af framtíð íslenska hagkerfisins verði farið bókstaflega eftir dómi Hæstaréttar um gengislánin, þ.e. ef þau stæðu eftir dóminn sem óverðtryggð lán á þeim vöxtum sem um var samið, umfram gengistrygginguna.

Már sagði m.a. þetta um fjármálakerfið og bankana, á fundi með fréttamönnum í morgun:  "Það muni ekki vera í stakk búið til að byggja áfram upp, hagvöxtur hverfi og hætt við að Íslendingar sætu uppi með japanskt bankakerfi líkt og það var  eftir bankakreppuna þar í landi. Hann segir mikilvægara að vera með öflugt hagkerfi heldur en lága vexti. Hagkerfi Íslands komist ekki í gang nema landið fái lánsfé, hvort heldur sem um innlent eða erlent lánsfé sé að ræða."

Það sem Már reiknar ekki með, er að hver einstakur lántakandi hugsar um sinn hag, en ekki heildarinnar, þegar hann metur áhrif dóms Hæstaréttar og hvað hann muni sjálfur "græða" á niðurfellingu gengistryggingarinnar og því mun engin sátt nást um breytingar á lánskjörunum, ekki einu sinni með dómi frá Hæstarétti þar um, því verði slíkur dómur kveðinn upp, mun ánægjan sem nú ríkir með Hæstarétt gufa upp, eins og dögg fyrir sólu.  Dómurinn gekk hins vegar ekki út á neitt annað en það, að gengistrygging væri ólögleg verðtrygging, enda voru ekki hafðar uppi kröfur um annarskonar verðtryggingu fyrir dómi og því var engin afstaða tekin til þess.

Mjög líklegt er því, að þessum málum sé langt frá því lokið og margir mánuðir, eða jafnvel heilt ár, eða meira, muni líða áður en endanlegur botn náist um þetta deiluefni.  Um það sagði Már:  "Þar til þessari óvissu verður létt er ansi hætt við því að sú sigling sem við höfum verið á að undanförnu við að koma okkur úr eftirleik fjármálakreppunnar verði töluvert hægari en nú er."

Þessi spá Más, seðlabankastjóra, virðist vera algerlega öndverð við skoðun Gylfa Magnússonar, viðskiptaráðherra, a.m.k. þá skoðun sem hann hafði daginn sem dómurinn var kveðinn upp, en þá sagði hann að þetta væru ákaflega jákvæðar fréttir fyrir hagkerfið, því nú gæti fólk farið að eyða peningum í aðra hluti en afborganir lánanna.  Gylfi, er reyndar búinn að skipta um skoðun síðan og telur nú, að óverðtryggðir vextir Seðlabankans ættu að gilda um "gengislánin".

Það er alla vega ekki óhætt fyrir fólk að byrja að eyða um of af þeim "gróða", sem verið er að telja því trú um, að myndist við Hæstaréttardóminn. 

Fleiri dómar eru væntanlegir og þeir gætu breytt mikilli gleði í mikil vonbrigði.


mbl.is Hefðu lækkað vexti meira
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við Íslendingar erum lánaglöð þjóð

Íslendingar hafa lengi verið lánaglöð þjóð og flestir tekið öll þau lán, sem mögulegt hefur verið að komast yfir, með þeirri gömlu góðu röksemd, að þetta "reddist einhvern veginn".  Þessi lánagleði virðist vera orðinn hluti af þjóðarsálinni, eins og Prince Polo og vera arfur frá fyrri hluta síðustu aldar, en þá var það hverjum manni mikið lán, að komast yfir lánsfé, enda brann það fljótt upp í þeirri óðaverðbólgu, sem einnig er orðin hluti af tilverunni eins og pólska súkkulaðikexið.

Það hefur löngum verið sagt, að nágrannaþjóðir okkar kaupi sér allt það, sem þær geta sparað fyrir, en við Íslendingar kaupum allt, sem mögulegt er að fá lánað fyrir, enda íslensk heimili þau skuldugustu í heimi.  Á þeim tiltölulega fáu árum, sem erlendu lánsfé var ausið takmarkalaust inn í landið, var enginn maður með mönnum, sem ekki keypti sér dýran bíl, húsvagn o.fl. "nauðsynjar" með gengistryggðum lánum og var hugsunin sú, að "græða" á lágu vöxtunum, þrátt fyrir að allir vissu að stór gengisfelling væri í farvatninu og hefði ekki þurft neitt "hrun" til þess.

Nú eru þeir allra óvarkárustu í fjármálum með pálmann í höndunum, eftir að Hæstiréttur felldi þann dóm, að ekki einn einasti lögfræðingur landsins skildi lög um fjármálagerninga, en allir lánaskilmálar eru samdir af lögfræðingum og blessaðir af öðrum lögfræðingum hjá sýslumannsembættum og Fjármálaeftirliti.  Eftir dóminn þarf enginn að greiða nema hluta af verðmæti upphaflegs höfuðstóls með mjög lágum vöxtum.  Annan eins happdrættisvinning hafa skuldarar þessa lands ekki fengið, síðan land byggðist og una nú allir glaðir við sitt, aðrir en þeir sem lánuðu peningana og tapa á því gríðarlegum upphæðum.

Í þessu tilviki sannast hið fornkveðna, að það er mikil blessun og mikið lán, að hafa tekið gengistryggt lán.


mbl.is Bruðlurum bjargað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. júní 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband