30.5.2010 | 21:06
Er Jón Gnarr að semja sig inn í "gamla" kerfið?
Jón Gnarr lýsti því yfir í sjónvarpsviðtali á kosninganóttina og endurtók í Silfri Egils, að honum fyndist það hluti af "gamla" kerfinu að skipta borgarfulltrúum í meiri- og minnihluta, þvert á móti ætti að fara nýjar leiðir og allir borgarfulltrúar ættu að vinna saman í þágu borgarinnar.
Einnig sagði hann í Silfri Egils í dag, að honum þætti stjórnmálamenn oft flýta sér að afgreiða ýmis stór og afdrifarík mál og hann og félagar ætluðu ekki að rasa að einu eða neinu og gefa sér góðan tíma til að meta stöðuna eftir kosningarnar.
Rúmum hálfum sólarhring eftir að kjörstöðum var lokað birtast fréttir af því, að flokkur Jóns Gnarr sé kominn í formlegar meirihlutaviðræður við Samfylkinguna, viðræður gangi vel og þeim verði haldið áfram á morgun.
Þetta eru skemmtilegar fréttir og virðast sýna að Besti flokkurinn sé orðinn alvöru stjórnmálaflokkur og ætli að verða fljótur að læra á og vinna innan þess kerfis, sem flokkurinn var stofnaður gegn.
"Welcome to the revulution" sagði Jón Gnarr hróðugur við félaga sína á kosninganóttina.
Skyldi þeim takast að bylta Samfylkingunni?
![]() |
Viðræður halda áfram á morgun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
30.5.2010 | 14:14
Hanna Birna er sigurvegari
Þrátt fyrir mikinn og oftast óverðskuldaðan áróður gegn Sjálfstæðisflokknum á undan förnum misserum, sérstaklega eftir hrunið, sem orsakaðist vegna meintra glæpaverka banka- og útrásarrugludalla, en ekki vegna þeirra laga sem stjórnmálamenn eru ábyrgir fyrir, þá kom Sjálfstæðisflokkurinn nánast ótrúlega vel út úr kosningunum til sveitarstjórna víðast hvar um landið.
Flokkurinn fékk þó skell sumstaðar, t.d. á Akureyri, en vann góða sigra annarsstaðar. Í Reykjavík fékk flokkurinn um 10% minna fylgi en í síðustu sveitarstjórnarkosningum, eða um 34%, sem þó var mikil aukning frá kosningunum til Alþingis í fyrra, þegar flokkurinn fékk aðeins um 22% atkvæða í borginni.
Samfylkingin í Reykjavík tapaði tæpum 30% atkvæða sinna frá borgarstjórnarkosningunum 2006 VG beið mikið afhroð í borginni og Framsóknarflokkurinn þurrkaðist út og Ólafur F. og önnur minni framboð komust varla á blað. Öll óánægjan sem í gangi hefur verið í Reykjavík og er aðallega tilkomin vegna svika ríkisstjórnarinnar í málefnum heimilanna og atvinnulífsins, fór til "Besta" brandarans, sem marg sýndi í kosningabaráttunni, að hann hafði ekki minnstu hugmynd um, um hvað sveitarstjórnarmál snerust og hvað þá að örlað hafi á nýjum hugmyndum til stjórnar borgarmálanna.
Fyrir kosningar sýndi Hanna Birna, borgarstjóri, að hún bar höfuð og herðar yfir keppinauta sína um forystuhlutvert í borginni og ekki síður hefur það sýnt sig í umræðuþáttum eftir kosningaúrslitin, hver hátt hún skarar yfir aðra forystumenn þeirra framboða, sem fulltrúa fengu í borgarstjórnina.
Hanna Birna er framtíðarleiðtogi þjóðarinnar og myndi verða landi og þjóð til sóma, gefi hún kost á sér sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins, sem haldinn verður í lok júní.
Ekki er minnsti vafi á að hún myndi hljóta glæsilega kosningu og reyndar vafasamt að nokkur myndi bjóða sig fram gegn henni.
![]() |
Hanna Birna ekki á leið í formannsframboð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
30.5.2010 | 02:35
Samfylkingin að gefast upp á stjórnmálunum
Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, lýsir því yfir að afhroð flokksins í Reykjavík og víðar í sveitastrjórnum, væri fyrirboði þess að hefðbundnu stjórnmálaflokkarnir myndu líða undir lok. Ekki sagði formaðurinn neitt um það, hvað hún sæi koma í staðinn við val á þingmönnum og sveitarstjórnarmönnum, ef ekki verður boðið fram í nafni flokka, því ef breyting á að verða á því, þarf að gjörbylta allri kosningalöggjöf landsins.
Jóhanna hefur auðvitað ekki umboð til að tala fyrir aðra flokka en Samfylkinguna og því verður að taka ummæli hennar sem algera uppgjöf hennar í stjórnmálaþátttöku og væntanlega er hún þar að tala fyrir sjálfa sig og Samfylkinguna, sem stjórnmálafokk.
Ekki er líklegt að aðrir flokkar muni líta á hin stóreinkennilegu úrslit borgarstjórnarkosninganna sem dauðadóm yfir flokkum sínum, því engar líkur eru á að leikhús fáránleikans geti haldið sýningu sinni gangandi fyrir fullu húsi í heilt kjörtímabil, hvað þá lengur. Því mun það framboð og sigur þess í Reykjavík ekki valda neinum sérstökum tímamótum í íslenskri pólitík til langrar framtíðar.
Aðrir flokkar en Samfylkingin, a.m.k. Sjálfstæðisflokkurinn, munu skýra stefnu sína, gera þá endurnýjun í mannvali sem þörf er á og blása síðan til nýrrar og öflugrar sóknar, með skýr markmið og framtíðarsýn fyrir fólkið í landinu og gefa því nýja von um bjartari tíma.
En tími Jóhönnu er kominn og farinn og eins og hún segir sjálf, er líklegast að Samfylkingin hverfi með henni af sögusviðinu, því ástæðulaust er að reikna ekki með að hún verði sannspá um afdrif eigin flokks.
![]() |
Endalok fjórflokkakerfisins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)