Skattsvikararnir voru varaðir við með löngum fyrirvara

Stefán Skjarldarson, skattrannsóknarstjóri, hefur nú, seint og um síðir, fryst eignir tveggja grunaðra skattsvikara af stærri gerðinni, líklega útrásarvíkinga og boðar tuga slíkra aðgerða á næstu vikum og mánuðum.

Aðgerðirnar væru góðar og gildar út af fyrir sig, hefði ekki verið gefin út viðvörun um þessa framkvæmd með margra vikna fyrirvara, en snemma í vetur fór ríkisstjórnin og skattayfirvöld að tala um að bráðum yrði farið að grípa til svona aðgerða, til að forðast undanskot eigna.  Nú er erftirfarandi hinsvegar haft eftir skattrannsóknarstjóranum:  "Að bankareikningar hefðu verið tæmdir „fyrir framan nefið á ríkinu". Menn hefðu ekki áttað sig á því hvað menn hefðu verið flinkir í að skjóta undan eignum."

Héldu yfirvöld virkilega að þau væru að kljást við einhverja viðvaninga?  Datt þeim í hug, að þaulvanir svikahrappar myndu bíða með bankainnistæðurnar sínar og aðrar eignir, eftir því að skatturinn kæmi og kyrrsetti þær?  Þetta lýsir slíkri fákænsku í stjórnsýslu og eftirliti, að með ólíkindum er, nema aðvaranirnar hafi verið gefnar með svona miklum fyrirvara viljandi, einmitt til þess að gefa skattsvikurunum tækifæri til að skjóta öllu undan, sem hægt væri að koma undan.

Ekki minnka undanskotin við það, að tilkynna að tugur slíkra mála sé í uppsiglingu.  Ef einhver á eftir að skjóta undan eignum, mun hann gera það strax og bankar opna á mánudaginn.

Á mánudaginn verður rannsóknarskýrslan birt og þá verður enginn með hugann við að hindra skattaundanskot.


mbl.is Eignir auðmanna frystar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vel gert, ef ekki fylgir leynisamningur um Icesave

Undanfarið hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar lýst því yfir að líklega væri búið að tryggja meirihlutastuðning í stjórn AGS fyrir að önnur endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og AGS verði tekin til afgreiðslu í stjórninni og lýsti Steingrímur J. þeirri von, að endurskoðunin yrði tekin fyrir nú í Aprílmánuði.

Nú virðist vera að koma á daginn, að þetta hafi verið rétt mat hjá Steingrími, sem verður að teljast afar óvenjulegt, því fram að þessu hefur nánast ekkert staðist af því, sem ríkisstjórnin hefur látið í veðri vaka, að hún væri að koma í verk, því venjulega hefur fylgt sú yfirlýsing, að eftir væri að útfæra málin nánar og svo hefur ekki til þeirra spurst aftur.  Má þar til dæmis nefna aðgerðir vegna skuldavanda íbúða- og bílakaupenda, sérstaklega vegna erlendu lánanna.

Sé þessi fyrirtekt í stjórn AGS án allra skilyrða um að Íslendingar gangist undir fjárkúgun Breta og Hollendinga vegna Icesave, má hæla Steingrími J. fyrir að hafa komið endurskoðuninni á dagskrá stjórnar AGS, en um leið fellur þá væntanlega niður hræðsluáróðurinn um að hérlendis fari allt norður og niður, verði ekki látið undan hótunum kúgunarþjóðanna.

Sé hins vegar einhver leynisamningur um Icesave í pokahorninu, þá mun þjóðin aldrei sætta sig við niðurstöðuna og slíkt yrði ríkisstjórninni seint fyrirgefið.


mbl.is Samkomulag um endurskoðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umræðan verði ekki eyðilögð með pólitísku karpi

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, beinir því til flokkssyskina sinna, að eftir að skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis verði birt, reyni þau ekki að hvítþvo sjálf sig allri ábyrgð á aðdraganda og hruns bankakerfisins og reyni að varpa henni alfarið yfir á aðra flokka.

Þetta er ágæt ábending frá Sigríði Ingibjörgu og ástæða til að beina henni einnig til annarra flokka, því aðalatriðið á að vera að reyna að finna hinar réttu skýringar á málinu og forðast pólitískan leðjuslag, sem eingöngu yrði til að beina athyglinni frá aðalatriðum málsins.  Mestu skiptir að ábyrgð hvers og eins einstaklings verði dregin fram í dagsljósið, án tillits til þess hvar í flokki viðkomandi er, eða var, og réttur lærdómur verði dreginn að þessum skelfilegu málum.

Sennilega er alveg sama hve vel stjórnmálamenn og eftirlitsstofnanir hefðu reynt að fylgjast með starfsemi bankanna og eigenda þeirra, því sá sem haldinn er einbeittum brotavilja finnur alltaf leið til að fremja sín lögbrot og hylja slóð sína, a.m.k. um stundarsakir, en yfirleitt komsast svik alltaf upp um síðir.

Reikna má með að fyrsta vika umræðnanna um skýrsluna fari að mestu í að finna allt, sem þar er sagt um Davíð Oddsson og hvað sem það verður, mun verða deilt hart um þá umsögn, síðan mun umræðan flytjast yfir á aðra stjórnmálamenn, ef að líkum lætur, þá Bankaeftirlitið og svo að lokum að raunverulegum hrunameisturum, þ.e. bönkunum sjálfum, eigendum þeirra og öðrum fjárglæframönnum, sem settu hér allt á hliðina með glæfraverkum sínum.  Enginn þeirra hefur þó sýnt nokkur merki iðrunar, eða að hann telji sig bera ábyrgð á þessum málum, enda siðblindan á eigin gjörðir alger.

Spenningurinn eftir birtingu skýrslunnar er mikil og umræðan verður vafalaust fjörug.


mbl.is Hver og einn verður að gangast við ábyrgð sinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ærumeiðingar í garð Jóns Ásgeirs í Bónus

Jón Ásgeir í Bónus hefur ákveðið að stefna skilanefnd Glitnis fyrir dómstóla og krefjast hárra skaðabóta vegna ærumeiðinga í sinn garð, með því að skilanefndin stefndi honum fyrir dómstóla til greiðslu skaðabóta fyrir að hafa fé af bankanum með ólöglegum fjármálgjörningum í samstafi við Pálma í Iceland Express og skósveina þeirra tveggja innan bankans.

Í hnotskurn sýna þessi viðbrögð Jóns í Bónus hversu veruleikafirrtur maðurinn er og gjörsamlega siðblindur á eigin athafnir, en allt sem spyrst út um viðskipti mannsins virðast vera á sömu bókina lærð og sýna ótrúleg vinnubrögð við lántökur og undandrátt eigna í eigin þágu, enda er líklega ekki eitt einasta af þeim fyrirtækjum, sem hann hefur komið nálægt í eðlilegum rekstri í dag og reyndar flest gjaldþrota og hafa skilið lánadrottna eftir með hundruð milljarða króna tap.  Sjálfur gumar hann af því, að hafa haft vit á að flækja sjálfan sig hvergi í persónulegar ábyrgðir og því þurfi þjóðin ekki að hafa áhyggjur af honum, enda sé hann ánægður ef hann eigi fyrir diet Coke.

Sömu sögu er að segja af Pálma í Iceland Express, en því félagi tókst honum að koma út úr Fons, áður en það félag var lýst gjaldþrota, með tuga- eða hundraða milljarða króna tap lánadrottna.  Ásamt Bjöggum, S-hópnum o.fl. hafa þessir félagar eyðilagt orðspor landsins erlendis og lánstraust þess á erlendum lánamörkuðum, enda varla von að erlendir lánadrottnar verði áfjáðir í að lána nokkrum aðila hérlendis í nánustu framtíð, ekki einu sinni opinberum fyrirtækjum eða ríkissjóði.

Er svo nema von að Jóni í Bónus sárni svona ósanngjörn umræða í hans garð, enda að eigin sögn einn mesti velgjörðarmaður þjóðarinnar.

 


mbl.is Glitnismál ekki hjá saksóknara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband