Kemur Sjónvarpið þessu á Wickileaks?

Stríð eru skelfileg og bitna verst á óbreyttum borgurum, sem þurfa að þola allar þær hörmungar sem þeim fylgja og oft eru afleiðingar bardaga, sérstaklega í bardögum innan fjölmennra borga, eru iðulega þær, að fjöldi saklausra borgara lætur lífið vegna skothríðar eða sprengjuregns.

Eftir Íraksstríðið hefur geysað hálfgerð borgarastyrjöld milli innlendra trúarhópa og því hafa Bandaríkjamenn ekki getað kallað her sinn heim úr landinu, þar sem hann er nú að aðstoða innlend yfirvöld við að halda uppi lögum og reglum í landinu.  Ekki er sá her saklausari en aðrir af því að drepa almenna borgara og gera ótal mistök þegar þeir telja sig eiga í höggi við hryðjuverkamenn, enda þekkjast þeir illa frá öðrum, nema af vopnunum og reyndar sjást þau sjaldnast, því oftast er um sjálfsmorðssprengjumenn og konur að ræða, sem myrða tugi og hundruð manna, um leið og þeir sprengja sjálfa sig í loft upp.

Nú berast fréttir af því að pakistanski herinn hafi orðið tugum óbreyttra borgara að bana í sprengjuárás á Talibana í afskekktu þorpi í Pakistan.  Alltaf eru þessar fréttir jafn skelfilegar, en ekki er gert mikið úr þeim í fjölmiðlum, nema Bandaríkjamenn eigi hlut að máli, en þá fer heimspressan yfirleitt algerlega á hvolf, enda eðlilegt að gera meiri kröfu til þeirra en annarra.

Sjónvarpið íslenska aðstoðaði við að koma myndbandi á Wickileaks af skotárás Bandaríkjamanna á ætlaða óvini í Bagdad fyrir skömmu og sendi fréttamann á staðinn til að ræða við aðstandendur fórnarlambanna og var það bæði fróðleg frásögn og sorgleg um leið.  Aldrei hefur Sjónvarpinu þó dottið í hug að senda fréttalið, hvorki til Íraks eða annarra landa, þegar aðrir fremja sambærileg voðaverk.

Nú er spurning hvort Sjónvarpið sendir ekki töku- og fréttalið til Pakistan, til þess að sýna okkur hvernig fólkinu þar líður eftir þessa árás og hvernig það mun geta tekist á við lífið í framhaldinu.

Ekki væri verra að fá myndir af árásinni, afleiðingum hennar og ferð sjónvarpsmanna á Wickileaks.


mbl.is Saklausir borgarar sagðir hafa fallið í árásum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankastjórarugl

Eftir Sigurjóni Árnasyni, fyrrum bankastjóra Landsbankans, er eftirfarandi haft í tengslum við húsnæðislán bankanna:  „En hvað áttirðu að gera? Þegar kerfið er hannað þannig að ef þú ferð í viðskipti þá ertu læstur næstu 40 ár. Hvað áttu að gera? Og þú bara ferð út í vitleysuna líka. Og ég var alltaf hissa á að Moody‘s sögðu ekki við mann: Eruð þið klikkaðir? Ég var alltaf að vona að þeir mundu setja eitthvert vit í galskapinn.

Þessi yfirlýsing bankastjórans er með algerum ólíkindum, því hann segist hafa vitað fullvel, að húsnæðislán bankanna væru tóm vitleysa, væntanlega vegna þess að þeir voru að taka nokkurra mánaða lán sjálfir og endurlána þau svo til allt að fjörutíu ára.  Einnig segir hann að hann hafi alltaf verið að vonast til að matsfyrirtækið Moody's hefði vit fyrir bankamönnunum og kæmi einhverju viti í galskapinn.

Þetta er einnig athyglisvert í ljósi þess að hann vissi líka hvað erlendu lánin væru stórhættuleg fólki, eða eins og hann saði sjálfur:   „En samt gerðist það af því að eftirspurnin var orðin svo gríðarleg. Þegar fólk er að kvarta yfir að það hafi fengið erlend lán og að þeim hafi verið otað að þeim, það er haugalygi“.

Fyrst Sigurjón vildi láta Moody's hafa vit fyrir bönkunum vegna húsnæðislánanna, því höfðu bankarnir ekki vit á því að bjóða alls ekki upp á erlend lán til fólks með tekjur í krónum?

Fyrst enginn hafði vit fyrir Sigurjóni og félögum, og þeir gerðu sér grein fyrir heimsku sinni, áttu þeir að beita því litla viti sem þeir höfðu, til að yfirgefa stóla sína og láta þá eftir til hæfari manna.


mbl.is Húsnæðislánin voru „tómt rugl"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsdómur verður varla kallaður saman

Samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð, sjá hérna skal stefna ráðherrum fyrir Landsdóm hafi ráðherra brotið gegn þeim og þá aðallega vegna þrenns konar brota á lögunum, en þau eru:

  • Ef hann brýtur gegn stjórnskipunarlögum landsins (stjórnarskránni)
  • Ef hann brýtur gegn öðrum lögum
  • Ef hann misbeitir stórlega valdi sínu eða framkvæmir nokkuð eða veldur því að framkvæmt sé nokkuð sem stofnar heill ríkisins í fyrirsjáanlega hættu.
  • Í tilefni af rannsóknarskýrslunni hlýtur helst að koma til álita þriðji liðurinn hér að ofan, en þar er fjallað um atriði þar sem ráherra "stofnar heill ríkisins í fyrirsjáanlega hættu", en það hlýtur að vera meira en lítið vafamál, að hægt verði að heimfæra aðgerðir og aðgerðaleysi ráðherranna vegna þeirra atriða, sem skýrsluhöfundar telja þá hafa brugðist, geti flokkast undir að "stofna heill ríkisins í hættu".

    Lögin eru frá 1963 og á þeim tíma hefur örugglega enginn verið að hugsa um bankahrun, heldur er miklu líklegra að verið sé að vitna til hreinna landráða í þágu annarra ríkja.  Landsdómur hefur aldrei verið kallaður saman frá stofnun hans árið 1904 og hafa þó oft komið upp efnahagskreppur, sem hafa verið meira á ábyrgð stjórnvalda en sú, sem nú er við að glíma.

    Niðurstöðu nefndarinnar verður beðið með óþreyju, en dómstóll götunnar verður örugglega fljótari að kveða upp úr um málið, án þess að taka tillit til varna eða málsbóta.

     


mbl.is Landsdómur kallaður saman?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkefni hlaðast á Sérstakan saksóknara

Rannsóknarnefnd Alþingis sendi fjölda ábendinga til ríkissaksóknara um mál sem upp komu við rannsókn nefndarinnar á aðdraganda bankahrunsins, þar sem nefndin bendir á fjölda atriða, þar sem hún telur lög hafa verið brotin á alvarlegan hátt.

Þetta eru atriði, sem snerta stjórnendur bankanna, eigenda þeirra og helstu skuldunauta bankanna, sem í flestum tilfellum er sami aðilinn, þ.e. eigendur bankanna tóku sér allt það fé í bönkunum, sem þeir komust yfir og til að fela lögbrotin voru notuð hundruð skúffufyrirtækja, skráð innanlands og utan.

Stærstu skúrkarnir eru Jón Ásgeir í Bónus, Pálmi í Iceland Express, Björgólfsfeðgar, Wernerbræður, Ólafur Ólafsson, Bakkabræður o.fl., ásamt stórum hópi stjórnenda í bönkunum.  Jón Ásgeir var langstærsti einstaki fjármunakraflarinn, því Björgólfsfeðgar, sem voru næststórtækastir voru aðeins hálfdrættingar á við hann og nam þó sjálftaka þeirra nærri fimmhundruðmilljörðum króna.

Eftir því sem sjá má af umfjöllun um skýrslu rannsóknarnefndarinnar hefur ekki einu sinni hvarflað að þessum görpum að fara að lögum um fjármálafyrirtæki, heldur hefur allt verið gert til að fara í kringum þau til að raka fé í eigin vasa eigenda og stjórnenda bankanna og greinilegt að þeim þótti lítið til koma, ef ekki rann a.m.k. einn milljarður í vasann í hvert sinn sem einhverjir fjármálagerningar voru settir á svið milli bankanna og fyrirtækja eigendanna.

Eins og oft áður sökkva fjölmiðlar sér í smærri málin og láta þau stærri vera, eins og tilfellið er ennþá a.m.k. með skýrslu rannsóknarnefndarinnar.  Kannski er þetta viljandi gert, til þess að treina sér fréttaefnið fram á sumarið.


mbl.is Grunur um lögbrot í fjölda tilvika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband