8.2.2010 | 16:02
ESB valtar yfir Dani
Danir eru mikil útflutningsþjóð matvæla, bæði mjólkur- og kjötafurða. Nú er komið fram á sjónarsviðið einhverskonar "kjötlím" sem kallast Þrombín og er notað til að líma saman kjötflísar, til þess að þær líti út eins og ekta kjötbiti.
Danir hafa barist hart gegn því, að farið verði að líma saman kjötafganga og vilja halda sig við framleiðslu á "ekta" kjöti, enda ekki skemmtileg tilhugsun að borða samanlímda steik, sem enginn veit hvar eða hvaðan hráefninu er sópað saman.
Þrátt fyrir hetjulega baráttu Dana fyrir þessu hagsmunamáli sínu, hefur ESB samþykkt þessa "límnotkun" við kjötframleiðslu innan sambandsins og þar með hunsað Dani algerlega og þeirra hagsmuni. Meira að segja þeirra "norrænu vinir", Svíar og Finnar greiddu atkvæði gegn Dönum og er þó alltaf verið að mikla það fyrir Íslendingum, hve mikilvægt sé að njóta "samstöðu" norðurlandanna innan ESB.
Hvernig halda menn, að farið verði með hagsmuni Íslands í sjávarútvegsmálum innan ESB, ef svo ólíklega skyldi vilja til, að þjóðin samþykkti inngöngu í stórríkið.
Ekki verður að minnsta kosti hægt að treysta á "vores nordiske venner" í þeim efnum, frekar en í aðstoðinni við efnahagsáætlun Íslands og AGS.
![]() |
ESB leyfir kjötklístur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
8.2.2010 | 13:30
Allt þarf að gera til að kveða þennan "sið" niður
Svokölluð "heiðursmorð" eru ennþá algeng í múslimskum löndum og þekkjast reyndar einnig í samfélögum múslima í Evrópu og eru aðallega framin á stúlkum og konum, sem stórfjölskyldan telur að hafi vanvirt heiður ættingjanna, oftast með því að gefa karlmönnum hýrt auga.
Þetta er aldagömul "hefð" í þeim löndum, sem feðraveldið er sterkt og þar eru konur látnar ganga með blæjur eða í búrkum og yfirleitt ekki látnar ganga í skóla. Þær eru eign feðranna, þangað til hann velur handa þeim brúðguma og eftir það eru þær réttmæt eign eiginmannsins.
Í mörgum múslimaríkjum eru viðurlög við "heiðursmorðum" ekki ströng, ef til vill nokkurra ára fangelsi, ef einhver viðurlög eru við þeim á annað borð.
Þessu verður ekki breytt, nema með fræðslu og aftur fræðslu, en bestur árangur myndi nást með því að stuðla að menntun kvennanna, þó oft sé menntun karlanna litlu meiri, a.m.k. í fátækum héruðum og löndum múslimaheimsins.
Blæjan, búrkan, umskurður kvenna og heiðursmorð eru atriði, sem berjast verður gegn, með öllum ráðum og byrjunin gæti verið að banna allt þetta í lögum vesturlanda, því stöðugt eykst straumur múslimskra innflytjenda vestur á bóginn.
Slík bönn á vesturlöndum gætu að endingu smitast inn í lagabálka þeirra landa, þar sem þessi ómennska viðgengst ennþá.
![]() |
Eiga lífstíðarfangelsi yfir höfði sér fyrir að grafa stúlku lifandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
8.2.2010 | 11:47
Vill VG nýjan Icesave samning?
Ríkisstjórnin lætur í veðri vaka, að beðið sé tillagna íslenskra sérfræðinga um erlenda sérfræðinga, sem yrðu til aðstoðar við nýja samningagerð um Icesave, ef Bretar og Hollendingar muni fallast á að setjast að samningaborði að nýju og dregur stjórnarandstöðuna á fund eftir fund, til þess að ræða um daginn og veginn, því ekki kemur neitt nýtt fram í því máli, sem menn þykjast vera að ræða um.
Ekki er víst, að málið snúist eingöngu um, hvort Bretar og Hollendingar vilji setjast að samningaborði að nýju, eða ekki. Stærsta spurningin er nefninlega hvort VG vilji yfirleitt, að samningarnir verði teknir upp, því með því væri viðurkennt, að Svavars- og Steingrímssamningurinn væri versti samningur fjármálasögunnar, enda var um hreinan uppgjafarsamning að ræða, sem ríkisstjórnin hefur barist fyrir með kjaft og klóm, fram að þessu.
Hver mun gæta hagsmuna Breta og Hollendinga við nýja samningsgerð, ef Svavar Gestsson kemur þar hvergi nærri og jafnvel ekki einu sinni Indriði H.?
![]() |
Flokksleiðtogar á fundi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.2.2010 | 10:01
Hvert starf er gulls ígildi
Þær fáu fréttir sem berast af fjölgun starfa hjá fyrirtækjum landsins eru mikil gleðitíðindi, því aldrei verður komist upp úr kreppunni, nema með því eina móti, að renna styrkum stoðum undir atvinnulífið og fjölga störfum, þ.e. í framleiðslustörfum en ekki opinberri þjónustu.
Stækkun lyfjaverksmiðju Actavis í Hafnarfirði og framleiðsluaukning um a.m.k. 50% er virkilega ánægjuleg, enda meirihluti framleiðslunnar fluttur út og skapar því gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið.
þessi lífsneisti í atvinnuuppbyggingu verður að veruleika, þrátt fyrir að ríkisstjórnin geri allt sem í hennar valdi stendur til þess að koma í veg fyrir fjölgun starfa í landinu og allar tilraunir til að byggja upp ný atvinnufyrirtæki.
Vonandi fer einhver skilningur að vakna í höfðum stjórnarflokkanna, á því hvað til þarf til að koma þjóðfélaginu af stað upp úr kreppunni. Það er ekki líðandi að ríkisstjórn landsins stuðli að dýpkun og lengingu kreppunnar frá því sem þyrfti að vera.
Atvinnulífið er undirstaða heimilanna í landinu og heimilin undirstaða samfélagsins.
Þessar undirstöður þrífast ekki án hvorrar annarrar.
![]() |
50 ný störf hjá Actavis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.2.2010 | 08:39
Spilavíti er ágæt viðbót við ferðaflóruna
Icelandair vill opna spilavíti í Hótel Nordica og koma þannig fjárhættuspili upp á yfirborðið og undir strangt eftirlit og er sú hugmynd allra góðra gjalda verð. Í öllum helstu borgum eru rekin spilavíti, sem laða að sér fjársterka ferðamenn ásamt innlendum spilurum.
Yfirleitt er aðgangur að spilavítum bannaður fólki innan tuttuguogeins árs og a.m.k. sumstaðar krafist að vegabréfi sé framvísað við innganginn og fólki alls ekki hleypt inn fyrir dyr, án þess.
Aldrei er hægt að koma í veg fyrir, að einhverjir spili frá sér ráð og rænu á slíkum stöðum, en það eru undantekningar og ættu ekki að koma í veg fyrir slíkan rekstur. Skattar eru háir á spilavítum og því drjúg tekjulind fyrir sítóma ríkissjóði.
Opnun spilavítis yrði góð viðbót við ferðaflóruna og til styrktar fyrir afþreyingarferðamennskuna.
![]() |
Vilja reka spilavíti á Hótel Nordica |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
8.2.2010 | 05:16
Allir dauðþreyttir
Samkvæmt heimildum Moggans er Samfylkingin orðin þreytt á því, að VG skuli standa gegn öllum framkvæmdum í landinu og hafi þess vegna reynt að fá Framsókn til að koma inn í ríkisstjórnina til að styrkja hana.
Hvernig Samfylkingarmenn hafa hugsað sér, að það yrði til að styrkja ríkisstjórnina, að bæta viðbótarflokki í samkrullið í andstöðu við VG og hvernig það ætti að verða til þess að efla framkvæmdagleði þeirra, er nokkuð erfitt að skilja.
Ef heimildirnar eru réttar, sem allt bendir til, er ríkisstjórnin komin á sína síðustu daga, því erfitt er að sjá, að VG geti sætt sig við svona baktjaldamakk Samfylkingarinnar og að stjórnarsamstarfið geti haldið áfram, þegar heilindi milli manna eru ekki meiri en þetta.
Eftir aðeins eins árs stjórnarsamstarf, er ríkisstjórnin orðin dauðþreytt á sjálfri sér og ekki er þreyta þjóðarinnar minni með þessa úthalds- og verklausu ríkisstjórn.
![]() |
Biðla til Framsóknarmanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)