23.2.2010 | 20:12
Reynir að lappa upp á "vörumerkið"
Jóhannes í Bónus hefur brugðist fljótt við birtingu skoðanakönnunarinnar, þar sem 80% svaremda lýstu sig andvíga þeim fyrirætlunum Arion banka, að veita honum sjálfum 10% forkaupsrétt að hlutabréfum Haga og öðrum, í kringum hann, 5% forkaupsrétt til viðbótar.
Til mikillar óheppni fyrir Jóhannes birti sjónvarpið í kvöldfréttum sínum útskýringu á því hvernig þeir Bónusfeðgar hafa spilað með annarra manna peninga í Matador spili sínu með Haga, en upphaflega átti eignarhaldsfélag feðganna, Gaumur, Baiug, sem aftur átti Haga, en seldi félagið rétt fyrir hrun til nýs félags Jóns Ásgeirs í Bónusi, 1998 ehf., sem fékk af því tilefni lánaða 30 milljarða króna frá Kaupþingi til að forða feðgunum frá því að taka á sjálfa sig tap vegna Baugs, sem var lýstur gjaldþrota nokkru síðar.
Jafnframt kom fram í sjónvarpsfréttinni að í haust myndi 10 milljarða króna kúlulán falla á Gaum, sem auðvitað er orðinn eignalaus, eins og öll önnur félög feðganna, sem orðið hafa gjaldþrota, enda líklegt að Gaumur verði lýstur gjaldþrota fljótlega.
Jóhannes segir í yfirlýsingu sinni, að hann muni halda áfram að bera hag almennings fyrir brjósti, en sagan sýnir að eigin hagur hefur verið mest borinn fyrir brjósti, enda hefur ekki svo mikið sem ein króna faliið á þá feðga, þrátt fyrir hundruð milljarða króna töp, sem þeir hafa skilið eftir sig í gjaldþrotasögu sinni.
Jóhannes segist fá klapp á bakið og bros frá viðskiptavinum sínum í búðunum. Það eru væntanlega fulltrúar þessara 20% svarenda, sem voru honum hliðholl í skoðanakönnunni og eru sennilega tilbúin til að styðja feðgana áfram á gjaldþrotabrautinni.
![]() |
Segir viðmót viðskiptavina Haga annað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.2.2010 | 14:25
Vörumerkið "Jóhannes í Bónus" er ekki lengur góð auglýsing
Sú var tíðin, að almenningur elskaði Baugsfeðga jafn heitt og heimilisdýrin sín og vörumerkið "Jóhannes í Bónus" var aðall veldis þeirra, enda var Jóhannesi teflt fram hvar og hvenær sem tækifæri gafst til að koma því á framfæri, hvað þeir feðgar fórnuðu sér af mikilli elju í þágu almúgans. Á þeim tíma trúði fólk því, að álagnig væri lág í verslunum þeirra og þrátt fyrir milljarða arðgreiðslur til feðganna gat Jóhannes alltaf talið fólki trú um, að vörurnar væru nánast gefnar í Bónusi.
Nú er sífellt betur að koma í ljós að þeir feðgar, sem voru brautryðjendur útrásarinnar og "nýja hagkerfisins", hafa aldrei lagt fram krónu af eigin fé, eða ábyrgðum, vegna kaupa á einu einasta fyrirtæki, snekkju, þotu, lúxusíbúðum, skíðahöllum, eða nokkru öðru, heldur voru tekin erlend lán fyrir öllum "fjárfestingum" og aldrei hefur þeim svo mikið sem dottið í hug, að endurgreiða eina einustu krónu af sínum hunduðmilljarða lánum.
Þessi lán, ásamt lánum sporgöngumanna þeirra í útrásinni, hafa nú komið þjóðarbúinu algerlega á hliðina og skapað mestu kreppu, sem yfir Ísland hefur gengið frá lýðveldisstofnun, en samt er enn reynt að spila á þetta gamla og snjáða vörumerki keðjunnar í þeirri von, að hægt verði að fá stuðning almennings til að koma fótunum undir feðgana á nýjan leik, eins og ekkert hefði í skorist.
Þegar feðgarnir hófu tilraun sína til að endurheimta Haga, með "tilboði" til Arion banka um að kaupa af honum fyrirtækið aftur, lýsti Jóhannes því yfir í sjónvarpsviðtali, að ekkert yrði afskrifað af skuldum þeirrra vegna þessarar nýju innkomu í fyrirtækið. Í ljós er komið að þetta var alls ekki sannleikanum samkvæmt, því líklega verða afskriftir vegna 1998 ehf. ekki minni en 40-50 milljarðar króna og er þá ekkert minnst á þær hundruðir milljarða króna, sem áður eru tapaðar á viðskiptum þeirra feðga.
Er svo einhver hissa, þó almenningsálitið sé ekki hliðhollt þessum útrásartöpurum lengur?
![]() |
80% vilja ekki Jóhannes í Bónus |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.2.2010 | 10:43
Hortugir Hollendingar
Þegar gengið er til samninga um eitthvað, leggja aðilar fram ítrustu kröfur í upphafi og setjast síðan niður og a.m.k. reyna að ná samningum, sem báðir aðilar geta sætt sig við, eða eru báðir standa upp frá borðum með samning, sem hvorugur er fyllilega sáttur við.
Nú berast þær fréttir frá Hollandi, að þarlend yfirvöld vilji að Íslendingar fallist á þeirra tilboð, a.m.k. í grundvallaratriðum, annars komi ekki til greina af þeirra hálfu, að koma til frekari viðræðna um málið.
Svona hortugheit getur enginn sætt sig við og eina svarið til Hollendinga er, að þar með sé öllum viðræðum slitið af hálfu íslenskra yfirvalda, enda sé málið ekki þeim viðkomandi að einu eða neinu leyti samkvæmt íslenskum lögum og tilskipunum ESB.
Í fullri vinsemd má benda þessum hrokagikkjum á, að eftir að kjósendur hafa hafnað með afgerandi hætti að staðfesta þrælalögin um ríkisábyrgð á fyrri fjárkúgunarkröfur Breta og Hollendinga, geti þeir snúið sér til rétts viðsemjanda, sem er Tryggingasjóður innistæðueigenda og fjárfesta og er sjálfseiganrstofnun með dómþing í Reykjavík.
Verði þeir ekki ánægðir með þau svör, verða þeir annaðhvort að láta málið niður falla, eða leita réttar síns fyrir íslenskum dómstólum.
Til þess að það sé hægt, verða stefnendur að vísa til laga, sem þeir telja að hafi verið brotin, en það mun reynast erfitt í þessu tilfelli.
![]() |
Ísland fallist á forsendurnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.2.2010 | 08:55
Ótrúlegar hörmungar
Miklar hörmungar gegnu yfir íbúa Haití fyrir rúmum mánuði þegar jarðskjálftinn varð þar og lagði höfuðborgina og nágrenni hennar gjörsamlega í rúst og yfir tvöhundruðþúsund manns fórust. Vegna vel þjálfaðra og vel útbúinna björgunarsveita hér á landi, varð íslenska rústabjörgunarsveitin fyrst erlendra hjálparsveita á staðinn og vann að rústabjörgun fyrstu vikuna eftir skjálftann og aðstoðaði við skipulagningu áframhaldandi aðstoðar við íbúana.
Þótt allt sé þetta ljóslifandi í minningunni, snertir það á ný viðkvæma taug, að lesa um störf Friðbjörns Sigurðssonar, læknis, sem starfaði í einn mánuð á Haití við erfiðar aðstæður við að lækna slasaða og sjúka, en allar aðstæður á staðnum eru hræðilegar, enda öll sjúkrahús og heilsugæslustöðvar hrundar og ekki var heilbrigðiskerfið burðugt fyrir.
Fyrir þá, sem standa utan við atburðina, er í raun ekki hægt að gera sér grein fyrir þeim hörmungum, sem þarna ríkja og mörg ár mun taka að byggja upp lágmarksþjónustu við íbúana, svo sem opinberar stofnanir, skóla, heilbrigðiskerfi og samastaði fyrir fólkið til að skapa sér heimili að nýju.
Enn og aftur eru Íslendingar minntir á, hve gott þeir hafa það, þrátt fyrir dýpstu kreppu frá lýðveldisstofnun.
![]() |
Erfitt þegar úrræðin eru engin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)