Steingrímur J. skiptir um skoðun, hvort sem því verður trúað eða ekki.

Stór og mikilvægur áfangi náðist í dag í baráttu þeirra Íslendinga, sem barist hafa fyrir viðurkenningu á því, að skattgreiðendur bæru enga ábyrgð á tryggingasjóðum innistæðueigenda, samkvæmt tilskipun ESB um slíka sjóði.

Þessi merku tíðindi felast í því, að Steingrímur J. hefur nú viðurkennt opinberlega, að engin slík ábyrgð sé fyrir hendi, en fram að þessu hefur hann haldið því statt og stöðugt fram, að Icesave innistæðurnar væru á ábyrgð íslenskra skattgreiðenda og var búinn að samþykkja fyrir sill leiti, að selja þá í skattaþrældóm fyrir Breta og Hollendinga næstu áratugi, til þess að greiða það sem hugsanlega innheimtist ekki úr þrotabúi Landsbankans og okurvexti að auki.

Fyrir þessari áþján hafa Steingrímur J. og Jóhanna Sigurðardóttir barist hatramlega í þágu Breta og Hollendinga og því er þessi yfirlýsing Steingríms afar merkileg, eftir allan þennan tíma og þau stóru orð, sem þau skötuhjú hafa haft uppi um ábyrgð skattgreiðenda á gjaldþroti einkabanka.

Fyrst tekist hefur að snúa Steingrími J., sem er einhver þrjóskasti stjórnmálamaður þjóðarinnar og sá ólíklegasti til að viðurkenna mistök, þá ætti eftirleikurinn að verða auðveldur, þ.e. að sýna Bretum og Hollendingum hvað Íslendingum þykir um yfirgang þeirra og hundingja þeirra á norðurlöndunum, ESB og AGS.

Ef baráttan verður jafn snörp áfram, styttist í fullnaðarsigur.

 


mbl.is Steingrímur: Engin ríkisábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretar komnir í sálfræðihernað

Búist hafði verið við því, að formlegur samningafundur yrði í dag með samninganefndum Íslands annarsvegar og Breta og Hollendinga hinsvegar um Icesavemálið, sem í raun ætti ekki að vera neitt samningsatriði við íslensk yfirvöld, frekar en hver önnur viðskipti einkafyrirtækja.  Beðið var eftir því að Bretar tilkynntu hvar og hvenær fundurinn yrði haldinn og þar með viðurkennd forysta Breta um málsmeðferðina.

Nú hafa Bretar gripið til sálfræðihernaðar gegna íslensku sendinefndinni, sem felst í því að láta hana bíða í óvissu, um hvort Bretum yfirleitt muni þóknast að bjóða til fundar og láta leka, að þeir væru tilbúnir til þess að lækka ólögmæta vaxtakröfu sína örlítið. 

Það er alkunn aðferð til að brjóta andstæðinga niður í slíkum viðræðum að láta hann hanga og bíða í óvissu um hvort viðsemjandinn sé nokkuð tilbúinn til samninga og þegar loks kemur að fundarboði, verði biðin orðin svo löng og taugatrekkjandi, að auðvelt verði að fá menn til að samþykkja það, sem að þeim er rétt.  Greinilega á að beita þessari aðferð á nýja sendinefnd Íslendinga og koma henni í skilning um það, hver það sé, sem hafi töglin og hagldirnar í þessum viðræðum og koma inn hjá henni vonleysi og minnimáttarkennd.

Íslenska nefndin á ekki að láta bjóða sér svona framkomu og ætti að halda heim á leið strax í kvöld.

 


mbl.is Engir fundir boðaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta kemur skattgreiðendum nákvæmlega ekkert við

Fréttir berast nú af því að "Íslandsvinurinn" Darling, fjármálaráðherra Breta, þykist ætla að vera rausnalegur við íslenska skattgreiðendur með því að lækka eitthvað kröfu um greiðslu þeirra á vöxtum af skuld, sem þeim kemur ekkert við.

Icesavereikningarnir í Bretlandi og Hollandi voru á ábyrgð Landsbankans, sem aftur hafði, lögum samkvæmt, keypt sér tryggingu gegn því að illa færi, hjá Tryggingasjóði innistæðueigenda og fjárfesta, sem tók að sér að tryggja hvern innistæðureikning fyrir tjóni, sem næmi að hámarki 20.887 evrum.  Samkvæmt tilskipunum ESB og íslenskum lögum er sjóðurinn sjálfseignarstofnun og má ekki vera með ríkisábyrgð.

Lendi tryggingasjóðurinn í þeirri stöðu, að eiga ekki í sjóði næga upphæð til greiðslu þessarar lágmarkstryggingar, á hann forgangskröfu í þrotabú Landsbankans og getur þá greitt út tryggingarupphæðina jafnóðum og krafan innheimtist frá þrotabúinu.

Þetta er ferli, sem er algerlega á milli innistæðueigandans og trygginasjóðsins, en Bretar og Hollendingar ákváðu að greiða sínum þegnum þessa tryggingu strax og reyndar miklu hærri fjárhæð en það, en það er á þeirra ábyrgð, en ekki íslenskra skattgreiðenda.

Það er því ekkert tilboð, af hálfu Darlings, að lækka eitthvað vextina, sem hann ætlast til að íslenskir skattgreiðendur þræli fyrir næstu áratugi og íslenska sendinefndin á ekki einu sinni að taka við tilboðinu, hvað þá að ræða nokkuð við Breta um það.

Málið er ekki flóknara en það, að það kemur íslenskum almenningi akkúrat ekkert við.


mbl.is Bretar fallast á eftirgjöf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland segi sig úr Norðurlandaráði

Á hátíðarstundum skála fulltrúar norðurlandanna hver við annan og halda hástemmdar ræður um frændskap þjóðanna, virðingu og vináttu í garð hverrar annarrar og órjúfanlega samstöðu.  Að því loknu er glasinu lyft aftur og rullan endurtekin, þangað til fagnaðinum lýkur og hinir norrænu vinir fallast í faðma, með tárvot augu og skjögra hver til síns heima.

Þessi vinátta og samvinna hefur ekki náð lengra er svo undanfarið, að eina raunverulega samvinna norrænna þjóða, er sú órofa samstaða, sem aðrar norðurlandaþjóðir hafa sýnt Bretum og Hollendingum í kúgunarherferð þeirra á hendur Íslendingum vegna skuldauppgjörs einkabanka.

Stjórnum hinna norðurlandanna finnst sjálfsagt að íslenskir skattgreiðendur taki á sig þrælabyrðar til næstu áratuga í þágu erlendra ríkja, en dytti ekki í hug sjálfum að ríkistryggja innistæður í útibúum sinna banka erlendis.  Þetta hefur nú verið staðfest af stjórnarformanni norska innistæðutryggingasjóðsins, sem segir að engum detti í hug að norska ríkið þyrfti að koma nálægt slíkum uppgjörum, ef til gjaldþrots norsks banka kæmi, sem væri með erlend útibú.

Þetta er að sjálfsögðu hárrétt hjá stjórnarformanninum og því jafn óskiljanlegt að norðurlöndin beiti sér í raun sérstaklega gegn Íslandi í þeim efnum og taki að sér það hlutverk fyrir kúgarana, að tefja og fresta endurskoðunum á efnahagsáætlun Íslands og AGS, eins og þau hafa nú gert í heilt ár.

Eina svar Íslendinga er að þakka pent fyrir "samstarfið" og segja sig úr Norðulandaráði strax.


mbl.is Bera enga ábyrgð á innistæðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. febrúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband